Safarík og gómsæt vegan eplakaka með kardimommum og vanilluís

Í dag deili ég með ykkur uppskrift að dásamlega góðri vegan eplaköku með kardimommum, bourbon viskí og vanilluís. Dúnmjúk og gómsæt kaka sem gleður bragðlaukana. Eplakakan er einstaklega falleg og hentar fullkomlega í kaffiboð eða matarboð.

Uppskrift dagsins er í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi og í kökuna notaði ég epla og kanilsultuna frá þeim sem gaf kökunni extra mýkt. Í kökunni finnur maður eplabita frá sultunni sem mér finnst alveg ótrúlega gott. Ég bókstaflega elska þessa sultu, bæði með vöfflum og pönnukökum en líka ofan á brauð og kex með vegan ostum. Hún er algjört uppáhald. Sulturnar frá St. Dalfour hafa í mörg ár verið mikið borðaðar á mínu heimili og slá alltaf í gegn.

Ég hef alltaf verið mikið fyrir eplaköku. Það var ein af mínum uppáhalds kökum sem barn og ég baka hana oft þegar ég á von á gestum í mat eða kaffi. Það er bæði ótrúlega einfalt og fljótlegt að baka hana og síðan er hún auðvitað virkilega góð.

Ég vildi gera eitthvað aðeins nýtt og öðruvísi en ég er vön svo ég ákvað að setja í kökuna kardemommur og bourbon viskí. Fjölskyldan mín gerir mikið grín að mér fyrir að vilja nota áfengi í allar uppskriftir þessa dagana. Ég drekk sjálf voðalega sjaldan áfengi svo mér hefur þótt spennandi að nota það sem ég á í mat og bakstur í staðinn. Að sjálfsögðu má sleppa viskíinu í kökunni og hún verður alveg jafn góð, en ég mæli mikið með því að prófa.

Ég bar kökuna fram með vanilluís. Það er eitthvað við eplaköku og vanilluís saman, fullkomin blanda að mínu mati. Ég toppaði kökuna með möndluflögum og kanilsykri sem gaf henni gott “krisp”.

Ég vona innilega að þið prófið að baka þessa köku og að ykkur líki vel. Ekki gleyma að tagga okkur á Instagram ef þið prófið þessa uppskrift eða einhverja aðra frá okkur, okkur þykir svo vænt um það.

Eplakaka

  • 2 og 1/2 dl hveiti

  • 1 dl sykur

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 1/2 tsk salt

  • 1 tsk malaðar kardimommur

  • 1 tsk vanilludropar

    1 dl olía

  • 1 msk eplaedik

  • 2 og 1/2 - 3 dl hrein vegan jógúrt

  • 1/2 dl bourbon viskí (má að sjálfsögðu sleppa eða setja minna)

  • 1/2 krukka epla- og kanilsulta frá St. Dalfour (ca 150 gr)

  • 1-2 epli

  • Kanilsykur

  • Möndluflögur að toppa með

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c

  2. Byrjið á því að hræra saman þurrefnum í stóra skál.

  3. Bætið restinni af hráefnunum saman við (fyrir utan sultuna, kanelsykurinn og möndlurnar) og hærið saman í deig án kekkja. Hrærið samt ekki of mikið svo kakan verði ekki þurr.

  4. Smyrjið 20 cm form með smjörlíki eða leggið smjörpappír í það. Ég bakaði kökuna í steypujárnspönnu og notaði smjörpappír með.

  5. Hellið deiginu í formið og toppið með sultunni. Ég setti klumpa af sultu yfir deigið og deifði svo úr henni.

  6. Skerið eplið í þunnar sneiðar og raðið yfir sultuna. Stráið svo kanilsykri og möndluflögum yfir.

  7. Bakið í 25-30 minútur eða þar til pinni kemur hreinn úr kökunni þegar stungið er í hana. Athugið að það getur þó komið sulta með prjóninum til baka. Ef þið skoðið fyrstu mynd og ykkur finnst kakan líta óbökuð út er það alls ekki raunin heldur er það sultan sem hefur blandast í kökuna. Ótrúlega safaríkt og gott!

  8. Berið fram með vegan vanilluís og njótið. Ég læt kökuna kólna en finnst þó gott að bera hana fram örlítið volga.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur uppskriftin!

-Helga María

-Þessi uppskrift er í samstarfi við St. Dalfour á íslandi-