Vegan osta og brokkolí ofnréttur með hrísgrjónum
/Við systur ætlum að vera duglegri þetta árið að deila með ykkur auðveldum og sniðugum hversdagsmat þar sem við fáum alltaf margar fyrirspurnir um það þegar við skoðum hvað þið vilja sjá meira af. Það er svo ótrúlega auðvelt að festast í því að elda alltaf það sama og svo er oft mjög yfirþyrmandi að ákveða hvað á að vera í matinn á hverjum degi. Mér kvöldmaturinn oft hanga yfir mér allan daginn þegar ég veit ekki búin að ákveða fyrirfram hvað ég eigi að hafa í matinn. Ég mæli því alveg 100% með því að gefa sér nokkrar mínútur á sunnudögum í að gera matseðil fyrir vikuna en það hjálpar mér ekkert smá mikið. Þá finnst mér oft mjög þægilegt að geta kíkt á netið og fundið hugmyndir af réttum.
Síðustu vikur hef ég verið að prófa mig mjög mikið áfram með rétti sem ekki þarf að standa yfir eða svokallað “one-pot” rétti. Ég er alveg að dýrka þessa eldunar aðferð en þetta eru sem sagt réttir þar sem öllu er skellt í eldfast mót eða pott og síðan látið eldast án þess að það þurfi að hræra í eða gera nokkuð. Það er svo mikil snilld fyrir þá daga sem ég nenni ekki að elda, að geta skellt öllu í eldfast mót og inní ofn og síðan bara gert hvað sem er í klukkutíma á meðan rétturinn eldast. Rétturinn sem ég deili með ykkur í dag er ótrúlega góður og það þarf ekkert að hafa fyrir honum, en ég mun klárlega deila fullt af svona uppskriftum með ykkur í framtíðinni!
Ofnrétturinn samanstendur af hrísgrjónum í botninum, brokkolí og vegan soyjakjöti yfir og er hann síðan ofnbakaður upp úr vegan cheddar rjómaostasósu. Þetta er hinn fullkomni heimilismatur, tekur enga stund og dugar fyrir 4 til 5 fullorðna ef það er meðlæti með. Hann er ótrúlega bragðgóður og hægt er að bera hann fram einan og sér eða með góðu meðlæti. Ég ber réttinn oftast fram með góðu fersku salati en þá er algjört lykilatriði að hafa nýja vegan fetaostinn frá Sheese með en það er nýr ostur sem kemur í teningum. Fetaostur var uppáhalds osturinn minn þegar ég var yngri og hef ég verið með þennan vegan ost með öllu sem ég borða síðan ég keypti hann fyrst. Mér finnst einnig passa mjög vel að hafa vegan hvítlauksbrauð með en það er hægt að gera sjálfur eða kaupa brauðið frá Hatting sem er tilbúið vegan hvítlauksbrauð og má að sjálfsögðu finna í Krónunni.
Mér finnst ótrúlega gott að búa til kryddlög fyrir fetaostinn líkt og venjan er hérna heima en það er ótrúlega einfalt og smakkast hann alveg eins og venjulegi fetaosturinn sem hægt er að kaupa í krukku út í búð. Í kryddlögin set ég eftirfarandi:
Vel af góðri ólífuolíu, ég hef verið að nota D.O.P olíuna frá Olifa
Timían
Rósmarín
Ítölsk hvítlauksblanda frá pottagöldrum
Grófmalaður pipar
Örlítið salt
Ég set mjög lítið af hveju kryddi fyrir sig og hræri þessu síðan aðeins saman.
Hráefni (réttur fyrir 4):
2 dl hrísgrjón
3 dl vatn + 2 grænmetisteningar
1 cheddar rjómaostur frá Sheese
250 ml vegan hafrarjómi
2 msk ítalskt pastakrydd frá pottagöldrum
3 hvítlauksgeirar
1-2 tsk salt
1 haus brokkolí
4 litlir vorlaukar
1 pakki vegan kjúklingur (t.d. oumph)
sirka 1/2 poki rifin epic mature cheddar frá Violife (eða það magn sem passar yfir réttinn)
Aðferð:
Hitið ofninn í 200°C
Hellið hrísgrjónum í stórt eldfast mót
Leysið tvo grænmetisteninga upp í heitu vatni og hellið yfir hrísgrjónin
Hrærið saman í skál rjómaostinum, vegan hafrarjóma, hvítlauksgeirum og kryddunum
Hellið yfir hrísgrjónin og blandið aðeins saman við hrísgrjónin og vatnið.
Skerið niður vorlauk og brokkolí og dreyfið yfir ásamt soyja kjötinu. Ýtið aðeins ofan í vökvan.
Stráið rifna ostinum yfir réttinn
Setjið álpappír yfir eldfasta mótið og eldið í ofninum í 50 mínútur. Takið þá álpappírinn af og leyfið réttinum að vera í 15 mínútur í viðbót í ofninum.
-Njótið vel
- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefni í réttinn þar -