Vegan brauðréttur með vegan beikoni og osti

Ef það er eitthvað sem mér finnst nauðsynlegt í allar veislur og um hátíðir þá er það svo sannarlega heitur brauðréttur! Það er hægt að gera svo ótrúlega margar og skemmtilegar útfærslur af þessum æðislega rétti en við höfum til dæmis deilt með ykkur hefðbundnum heitum brauðrétti sem og heitu rúllubrauði hérna á blogginu áður.

Uppskriftin sem við deilum með ykkur í dag er síðan þriðja útfærslan á heitum brauðrétti en það er fyllt “baguette” brauð. Það má að sjálfsögðu gera hinar uppskriftirnar líka í þessari útfærslu eða öfugt.

Þessi uppskrift er ólík öðrum heitum brauðréttum sem við höfum deilt með ykkur áður en í þetta skipti erum við með fyllingu sem er stútfull af gómsætum vegan osti, reyktum vegan “beikon” bitum og vorlauk. Hann er því fullkomin til að breyta aðeins út af vananum og lofum við ykkur að þið sláið í gegn í boðum ef þið komið með þetta brauð.

Uppskriftin er mjög einföld og tekur enga stund að í undirbúningi. Brauðið er fullkomið til að taka með sér þar sem það er mjög auðvelt að pakka því inn í álpappír eða annað slíkt og helst það þá vel heitt í góðan tíma.

Það er einnig fullkomið að gera þennan gómsæta rétt til dæmis á milli jóla og nýárs en við áttum alls ekki í vandræðum með að klára eitt stykki með kaffinu þó við værum ekki nema þrjú saman.

Hráefni:

  • 1 súrdeigsbaguette

  • 2 msk góð steikingarolía

  • 1 tsk salt

  • 2 dl smokey bites

  • 2 vorlaukar

  • 1/2 Smokey mature ostur úr Violife hátíðarostabakkanum

  • 1/2 Chilli and garlic ostur úr Violife hátíðarostabakkanum

  • 220 gr vegan rjómaostur

  • 1 dl hafrarjómi

  • Ofan á brauðið fer:

    • Restin af ostunum tveimur, eða eins mikið magn og hver og einn vill

    • 1/2 tsk hvítlauksduft

    • 1/2 tsk paprikuduft

    • 1 msk þurrkuð steinselja

Aðferð:

  1. Byrjið á því að steikja reyktu bitana (smokey bites) ásamt niðurskornum vorlauk upp úr olíu og salti í nokkrar mínútur.

  2. Rífið niður ostinn og hrærið saman í skál rifnum ostinum, rjómaosti, hafrarjóma, reyktu bitana og vorlaukinn.

  3. Skerið ofan í brauðið tvær langar rifur (athugið að skera alls ekki alveg í gegnum brauðið) og takið ofan af og aðeins innan úr brauðinu eins og sést á myndunum.

  4. Fyllið brauðið með rjómaostafyllingunni.

  5. Rífið vel af báðunum ostunum yfir fyllinguna og stráið hvítlauksdufti, paprikudufti og steinselju yfir.

  6. Bakið við 210°C í 12-15 mínútur eða þar til osturinn verður fallega gylltur að ofan.

-Njótið vel

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Violife á Íslandi -