Vegan Mexíkósúpa
/Mér finnst alveg ótrúlega gaman að halda veislur og bara yfir höfum að bjóða fólki í mat. Súpur eru alltaf fullkomin kostur þegar halda á matarboð, maður einfaldlega hendir einhverju í pott og lætur það malla þar til gestina ber að garði. Gæti ekki verið einfaldara.
Mexíkóskar súpur með maísflögum og öllu tilheyrandi hafa lengi verið mjög vinsælar í veislum hér á landi. En það finnst mér ekki skrítið miðað við hversu góðar þær eru og hversu skemmtilegt er að bera þess háttar súpu fram. Ég fékk tengdaaforeldra mína í mat í vetur og ákvað þá loksins að láta verða að því að gera mína eigin vegan mexíkósúpu.
Ég ákvað að nota í hana Oumph! þar sem það virðist alltaf slá í gegn, ásamt því að mynda áhugaverðar umræður við matarborðið þegar einhver kveikir allt í einu á perunni að þetta sé ekki kjúklingur. Einnig hafði ég svartar baunir og maís í súpunni þar sem mér finnst hvoru tveggja algjör nauðsyn í alla mexíkóska rétti. Súpan sló algjörlega í gegn og síðan þá er ég oft búin að bera hana fram við alls konar tilefni, en hún er tilvalin í allt frá litlum matarboðum til fermingarveisla.
Hráefni (fyrir 5-6 manns)
1 poki pure Oumph!
3 msk kókosolía
3 hvítlauksgeirar
1 rautt chilli (takið fræin úr fyrir mildari súpu)
cumin, paprikuduft, oregano, 1 msk af hverju
1/2 tsk cayenne pipar
salt og pipar eftir smekk
1-1 1/2 paprika (ég nota gula, græna og rauða í bland)
u.þ.b. 10 cm af blaðlauk
2-3 gulrætur
2 dósir gestus niðursoðnir tómatar
1 krukka af salsasósu (230 gr)
2 1/2 Kallo grænmetisteningar
1600 ml vatn
1 dós gestus svartar baunir
100-150 gr af maísbaunum
150 gr Sheese hreinn rjómaostur
Aðferð:
Hitið kókosolíuna í stórum potti. Setjið Oumph!, hvítlauk, chilli og kryddin út í og steikið í góða stund.
Skerið grænmetið í litla bita og bætið út í. Steikið í góðan tíma upp úr kryddunum eða þar til grænmetið er orðið vel mjúkt.
Setjið út í tómatana, salsasósuna, grænmetiskraftinn og vatnið og leyfið suðunni að koma upp. Sjóðið súpuna við meðalhita í góðan tíma, eða minnst 30 mínútur. Mér finnst best að leyfa súpunni að malla í allavega klukkutíma við lágan hita. Smakkið súpuna til og bætið út í kryddum eða krafti eftir smekk.
Skolið baunirnar og bætið þeim út í þegar súpan hefur fengið að sjóða vel ásamt maísnum og rjómaostinum. Hrærið rjómaostinn við svo hann bráðni alveg og leyfið suðunni að koma aftur upp.
Ég ber súpuna fram ýmist með maísflögum, Oatly sýrðum rjóma, rifnum osti (ég mæli með Follow your heart), avocado og súrdeigsbrauði. En mér finnst einnig alveg nauðsynlegt að saxa smá ferskt kóríander og strá yfir.
Njótið vel
Júlía Sif
Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar