Mexíkóskt lasagna

IMG_1608.jpg

Hæ!

Ég hef hlakkað lengi til að deila með ykkur uppskriftinni af þessu gómsæta mexíkóska lasagna. Þetta er einn af þessum réttum sem er virkilega einfalt að útbúa en smakkast á sama tíma svakalega vel. Það er eitt það besta sem ég veit, að elda einfaldan mat sem samt smakkast ótrúlega vel.

Færslan er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í þessa uppskrift. Við höfum unnið svolítið með Hagkaup síðustu mánuði og við erum alveg ótrúlega ánægðar með það. Úrvalið hjá þeim af vegan mat er gríðarlega flott og alltaf jafn gaman að sjá eitthvað nýtt og spennandi hjá þeim að prófa.

IMG_1568.jpg

Nú er mánudagur og ný vika að hefjast en eins og hjá mörgum öðrum hafa dagarnir svolítið runnið í eitt síðasta mánuðinn. Það hefur því ekki verið jafn auðvelt að skilja helgina frá skólavikunni. Við Siggi höfum þó reynt að halda okkur við okkar rútínu yfir vikuna og gera eitthvað svolítið öðruvísi um helgar. Við pössum okkur t.d. á því að gera okkur helgarbröns eins og við erum vön og kaupum vel inn fyrir vikuna af mat svo auðvelt sé að gera góðan matseðil. Ég viðurkenni að þetta ástand hefur haft áhrif á mig og ég hef stundum orðið kvíðin yfir þessu öllu saman. Mér hefur því þótt mikilvægt að hafa matarræðið og svefninn í góðu lagi og hef fundið að það gerir gæfumun.

IMG_1580.jpg

Eitt af því sem hefur haldið geðheilsunni minni í lagi síðustu vikur er nýi áhugi minn á súrdeigi. Mér líður hálf kjánalega að segja frá því, það virðast allir annaðhvort vera byrjaðir á fullu í súrdeiginu eða orðnir dauðþreyttir á því að sjá þetta á öllum miðlum. Mig hefur langað að gera súrdegi lengi og um áramótin strengdi ég ein heit. Að læra að gera súrdeigsbrauð. Ég hef svo haldið áfram að fresta því þar til fyrir rúmri viku þegar ég ákvað loksins að slá til og byrja að búa til súr.

Akkúrat viku seinna bakaði ég mitt fyrsta súrdeigsbrauð sem var svo dásamlega gott og fallegt. Í þessum töluðu orðum liggur brauðdeig í hefunarkörfum inni í ísskáp og ég skelli þeim í ofninn á eftir. Ég skil það loksins hvernig fólk getur fengið þetta á heilann. Þegar ég byrjaði að lesa mér til um þetta og skoða allskonar myndbönd fannst mér þetta líta nánast ógerlegt út. Endalaust vesen, súr, levain, “stretch and fold”, formótun, mótun, hefunarkörfur, steypujárnspottur.. Mér fannst nánast eins og allt þetta stúss gæti ekki verið þess virði. EN nú þegar ég hef bakað mitt fyrsta brauð og borðað það fatta ég þetta. Þetta var í fyrsta lagi ekki jafn mikið vesen og ég hélt. Það þarf vissulega að gera ýmislegt en það tekur alltaf lítinn tíma í einu og svo fær þetta að bíða. Í öðru lagi er þetta miklu betra (að mínu mati) en allt annað brauð. Ég get nefnilega ekki keypt nýbakað súrdeigsbrauð þar sem ég bý. Ég get því sagt að ég er mjög spennt fyrir þessu nýja áhugamáli mínu.

IMG_1593.jpg

En færsla dagsins snýst ekki um súrdeigsbrauð heldur þetta gómsæta mexíkóska lasagna. Í stað pasta nota ég tortilla pönnukökur og ofan á lasagnað ákvað ég að setja tortillaflögur sem gaf réttinum þetta góða “crunch”. Þegar það var komið úr ofninum toppaði ég það með lárperu, fljótlegu fersku tómatsalsa, fersku kóríander og vegan sýrðum rjóma. Þetta gaf réttinum dásamlegan ferskleika. Þetta er hinn fullkomni réttur til að bjóða uppá í matarboði en er líka frábær sem góður kvöldmatur!

IMG_1601.jpg

Mexíkóskt lasagna

Hráefni:

  • Olía til að steikja uppúr

  • 5-6 meðalstórar tortillapönnukökur

  • 1 pakki (ca 300 gr) vegan hakk (þarf ekki að vera nákvæmlega 300 en þeir eru yfirleitt í kringum það. Ég mæli mikið með hakkinu frá Anamma)

  • 1/2 rauðlaukur

  • 1-1 1/2 paprika

  • 1-2 hvítlauksgeirar

  • 1 tsk cuminduft

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk laukduft

  • 2 krukkur salsasósa (ég nota þær frá Santa Maria)

  • 2 dl tómatpassata

  • 100 gr svartar baunir úr dós

  • 100 gr maísbaunir (ég mæli með frosnum maísbaununum frekar en þeim í dós)

  • 1 pakki vegan rjómaostur (ég setti helminginn í fyllinguna og restina ofan á áður en ég bakaði lasagnað). Mæli með Oatly

  • salt og pipar

  • Rifinn vegan ostur eftir smekk

  • Tortillaflögur

Hugmyndir af hlutum til að toppa með eftir á:

  • Lárpera

  • Vegan sýrður rjómi. Mæli með Oatly

  • Ferskt tómatsalsa (ég gerði mjög einfalda útgáfu þar sem ég blandaði saman ferskum tómötum, rauðlauk, lime safa, kóríander og salti)

  • Ferskt kóríander

  • Lime safi

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Hitið olíu á pönnu eða í potti.

  3. Bætið hakkinu út í. Vegan hakk má elda beint úr frystinum og þarf því ekki að láta þiðna. Steikið hakkið í nokkrar mínútur.

  4. Saxið rauðlaukinn og pressið hvítlaukinn og bætið út í. Steikið þar til laukurinn hefur mýskt svolítið.

  5. Bætið paprikunni út í og steikið í nokkrar mínútur.

  6. Bætið kryddum út í og hrærið saman við.

  7. Hellið salsaósu og tómatpassata út í og leyfið þessu að malla í sirka 10 mínútur.

  8. Skolið svörtu baunirnar í sigti undir vatni til að ná af þeim safanum úr dósinni. Bætið þeim út í fyllinguna ásamt maís og helmingnum af rjómaostinum. Það má vissulega setja hann allan út í en mér fannst mjög gott að spara helminginn og setja ofan á áður en ég setti réttinn í ofninn. Leyfið að malla í sirka 5 mínútur eða þar til rjómaosturinn hefur bráðnað vel í fyllingunni.

  9. Saltið og piprið eftir smekk

  10. Skerið niður tortillapönnukökurnar í ræmur eða eftir því sem passar best í ykkar eldfasta mót.

  11. Setjið fyllingu í botninn á forminu, raðið svo pönnukökum yfir og endurtakið þar til fyllingin er búin.

  12. Stráið örlítið af vegan osti yfir, raðið tortillaflögum yfir ostinn, því næst restinni af rjómaostinum (ég hitaði minn örlítið í litlum potti svo auðvelt væri að setja hann yfir), og á endanum aðeins meira af vegan osti.

  13. Setjið inní ofn og bakið í sirka 25 mínútur eða þar til osturinn ofan á er orðinn gylltur og fínn.

  14. Toppið með því sem ykkur lystir. Þið sjáið mínar hugmyndir hér að ofan, en mér finnst gera mikið fyrir réttinn að bæta þessu ferska yfir.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur líki uppskriftin vel!

Helga María

 
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
 

Ofnbakað vegan nachos

IMG_5518-2.jpg

Nýlega komu á markaðinn ótrúlega gómsætir sojabitar frá Hälsans kök sem við höfum notað mikið í allskonar uppskriftir. Við erum því heldur betur spenntar að deila með ykkur uppskriftinni af þessu fáránlega bragðgóða súpernachosi, í samstarfi við Hälsans kök á Íslandi. Bitarnir eru algjör snilld og koma meðal annars í staðinn fyrir kjúkling í ýmsa rétti. Mér finnst þeir fullkomnir í vefjur, samlokur, matarmiklar súpur og ofnbakaða rétti svo eitthvað sé nefnt. Það er svo æðislegt að sjá hvernig úrvalið af vegan mat verður flottara og fjölbreyttara með tímanum og þar af leiðandi hversu auðvelt það er að vera vegan og halda samt áfram að borða réttina sem við erum vön að borða og okkur þykja góðir.

IMG_5399 (1)-2.jpg

Þegar ég var í menntaskóla var í mikilli tísku að fara með vinunum annað hvort á Hressingarskálann eða Kaffi París og deila matarmiklu súpernachosi. Síðan þá hefur okkur þótt gaman að prufa okkur áfram með eigin uppskriftir af svipuðum rétti, og ég get stollt sagt að þessi uppskrift er mun betri en þeir sem ég fékk á veitingastöðunum. Þetta er einn af mínum uppáhalds föstudagsréttum og bitarnir eru fullkomnir í nachosið.

Það er að sjálfsögðu hægt að leika sér endalaust með svona nachos uppskrift og búa til þær sósur sem manni þykja góðar. Þessi uppskrift er samansett af því sem okkur þykir fullkomið saman á svona nachos:

Guacomole
Sýrðum rjóma
Heimagerðri “ostasósu”
Salsasósu
Fersku mangósalasa
Filébitunum frá Hälsans kök krydduðum með taco kryddblöndu
Fersku kóríander.

IMG_5524.jpg

Nachosið lítur vanalega ekki svona vel út hjá okkur, þetta var gert sérstaklega fallegt fyrir myndatökuna. Vanalega setjum við eitt lag af hverju í eldfast mót og pössum að það sé vel af sósu á hverju lagi. Það lítur því yfirleitt frekar subbulega út, en það er partur af stemningunni að okkar mati.

IMG_5573.jpg

Vegan súpernachos:

  • 1 pakki saltaðar tortillaflögur

  • Hälsans Kök bitar í mexíkóskri kryddblöndu

  • 2-3 dl heimagerð ostasósa

  • 1 dós salsasósa

  • 2-3 dl guacamole

  • ferskt mangósalsa

  • vegan sýrður rjómi

Aðferð:

  1. Setjið í eldfast mót tortilla flögur, bitana, salsasósu og ostasósu í skiptis í þrjú lög.

  2. Hitið í 200°C heitum ofni í 15 til 20 mínútur.

  3. Setjið sýrðan rjóma, mangósalsa og guacamole yfir þegar nachosið er tekið úr ofninum.

  4. Berið fram með restinni af sósunum ef einhverjar verða eftir.




Steiktir Hälsans Kök bitar:

  • 1 pakki hälsans Kök filé bitar

  • 2 msk olía

  • mexíkósk kryddblanda (keypt í bréfi eða heimagerð):

    • 1 msk tómatpúrra

    • 1-2 hvítlauksrif

    • 1 tsk cumin

    • 1 tsk paprika

    • 1 tsk þurrkað oregano

    • 1/2 tsk kóríander

    • 1/2 tsk laukduft

    • 1/2 cayenne pipar

    • 1 tsk grænmetiskraftur eða 1/2 teningur

    • 1 msk limesafi

    • 1/2 dl vatn

Aðferð:

  1. Steikið bitana upp úr olíu þar til þeir hafa hitnað örlítið

  2. Blandið kryddunum saman í skál og hellið yfir. Leyfið þessu að malla saman í 10-15 mínútur.




Heimagerð ostasósa:

  • 3/4 bolli grasker (eða 1/2 bolli kartöflur og 1/4 bolli gulrætur. við höfum búið til úr hvoru tveggja og það smakkast alltaf jafn vel)

  • 1/2 bolli kasjúhnetur

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 2 sneiðar niðursoðið jalapeno + örlítið af safanum úr krukkunni

  • 3-4 msk næringarger

  • 1/2 til 3/4 haframjólk

  • salt

Aðferð:

  1. Afhýðið graskerið (eða kartöflurnar og gulræturnar) og skerið niður. Gufusjóðið eða sjóðið í vatni í 10 mínútur.

  2. Sigtið grænmetið frá vatninu og hellið í blandara ásamt restinni af hráefnunum og blandið þar til sósan er silkimjúk (Ef ekki er notaður mjög kraftmikill blandari er gott að leggja kasjúhneturnar í bleyti í soðið vatn í sirka klukkustund áður en sósan er blönduð.)




Mangósalsa:

  • 1 dl smátt skorið mangó

  • 1 dl smátt skornir tómatar

  • saxað ferskt kóríander eftir smekk

  • örlítið ferskt lime kreist yfir

Aðferð:

  1. Blandið öllu saman í skál og berið fram með nachosinu.




Við vonum að þið njótið!

Veganistur

Logo_HK CMYK board.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hälsans Kök á Íslandi-

Svartbauna- & sætkartöfluenchilada

IMG_4085-2.jpg

Mexíkóskur matur hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi mér. Það er eitthvað svo skemmtilegt við að dúlla sér í alls konar litlum sósum og salötum sem síðan koma saman í fallegar bragðsamsetningu og litadýrð. Ef ég mætti ráða myndi ég örugglega borða tortillaflögur og guacamole í hvert mál, mögulega með smá ostasósu.

IMG_3940.jpg

Þessi réttur er einn af þeim fyrstu sem ég fullkomnaði alveg frá grunni þegar ég varð vegan. Ég hef boðið upp á hann ótrúlega oft undanfarin ár og hefur hann alltaf slegið í gegn. Baunir voru eitt af því sem ég þurfti að venjast svolítið að borða þegar ég varð vegan og fannst ekki mjög spennandi. En á smá tíma lærði ég að meta þær og finnst ekkert skemmtilegra í dag en að leika mér með alls kynns baunir. Svartar baunir eru í miklu uppáhaldi, og þá sérstaklega í mexíkóska rétti en ekki skemmir hvað þær eru fallegar í réttinum með tómötunum og sætu kartöflunum. Þær eru einnig alveg ótrúelga næringaríkar og tikka í mjög mörg box í einu hvað varðar næringarefni.

IMG_4000.jpg

Rétturinn er toppaður með tveimur virkilega góðum sósum sem eru alveg svart og hvítt en passa alveg fullkomlega saman. Þessar sósur eru heimagerð enchilada sósa og heimagerð ostasósa. Ostasósan er ein af okkar uppáhalds sósum og finnst mér hún miklu betri ofan á mexíkóska rétti en rifin ostur. Einnig er hún alveg ótrúlega holl og stutt full af næringarefnum. Sósuna má líka borða eina og sér með tortilla flögum en ég geri alltaf rúmlega af henni svo ég eigi afgang til að narta í með afgangsflögunum.

IMG_4026-2.jpg
IMG_3934.jpg

Heimagerð ostasósa

  • 1/2 bolli niðursneiddar kartöflur (afhýddar)

  • 1/4 bolli niðursneiddar gulrætur

  • 1/2 bolli kasjúhnetur

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 2 sneiðar niðursoðið jalapeno + örlítið af safanum úr krukkunni

  • 3-4 msk næringarger

  • 1/2 til 3/4 haframjólk

  • salt

Aðferð:

  1. Afhýðið kartöflurnar og skerið niður ásamt gulrótunum. Gufusjóðið eða sjóðið í vatni í 10 mínútur.

  2. Setjið restina í blandara og blandið þar til sósan er silkimjúk (Ef ekki er notaður mjög kraftmikill blandari er gott að leggja kasjúhneturnar í bleyti í soðið vatn í sirka klukkustund áður en sósan er blönduð.)

Vegan Enchilada sósa:

  • 3 msk olía

  • 2 msk hveiti

  • 5 msk tómatpúrra

  • 2 msk chilliduft

  • 1 tsk broddcúmen

  • 1 tsk laukduft

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 msk grænmetiskraftur

  • 3 1/2 dl vatn

Aðferð:

  1. Hrærið saman í litlum potti á miðlungshita olíu og hveiti.

  2. Bætið tómatpúrru ásamt kryddi útí og blandið vel

  3. Bætið að lokum hálfum desilíter af vatni út í, í einu, þar til öllu vatninu hefur verið hrært saman við. Sósan þarf ekkert að sjóða, aðeins að hitna vel.

IMG_4047.jpg

Sætkartöflu & svartbauna enchilada:

  • 1 sæt kartafla

  • 2 dósir svartar baunir

  • 1 laukur

  • 1 paprika

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 2 msk saxaður ferskur kóríander

  • 2 tsk broddcúmen

  • 2 tsk malaður kóríander

  • 2 tsk paprikuduft

  • 1 tsk chilliduft

  • salt og pipar eftir smekk

  • 1/2 dós niðursoðnir tómatar

  • 1/2 lítil krukka salsasósa

  • 2 msk vegan rjómaostur (oatly passar mjög vel)

  • Helmingur af enchilada sósunni

  • 8 maís tortillur

Aðferð:

  1. Skerið sætu kartöfluna í litla bita. Setjið kartöflubitana með vatni svo það fljóti yfir í pönnu og látið malla á meðan þið saxið niður papriku, lauk, hvítlauk og kóríander.

  2. Þegar kartöflurnar hafa fengið að sjóða í 15 mínútur hellið þeim í sigti og látið vatnið renna vel af.

  3. Steikið á pönnunni upp úr örlitlu vatni, lauk, hvítlauk og papríku. Þegar grænmetið hefur fengið að mýkjast aðeins bætiði við sætu kartöflunum og svörtu baununum ásamt niðursoðnum tómötum, salsasósunni, rjómaostinum og kryddinu. Látið malla í 10 mínútur áður en þið setjið enchilada sósuna saman við.

  4. Setjið fyllingu í miðja maíspönnukökuna, rúllið upp og komið fyrir í heldföstu móti. Endurtakið þetta með allar 8 pönnukökurnar. Smyrjið enchilada sósunni yfir og hellið síðan heimagerðu ostasósunni þar yfir. Bakið í 190°C heitum ofni í u.þ.b. 20 mínútur.

Vegan Mexíkósúpa

Mér finnst alveg ótrúlega gaman að halda veislur og bara yfir höfum að bjóða fólki í mat. Súpur eru alltaf fullkomin kostur þegar halda á matarboð, maður einfaldlega hendir einhverju í pott og lætur það malla þar til gestina ber að garði. Gæti ekki verið einfaldara.

Mexíkóskar súpur með maísflögum og öllu tilheyrandi hafa lengi verið mjög vinsælar í veislum hér á landi. En það finnst mér ekki skrítið miðað við hversu góðar þær eru og hversu skemmtilegt er að bera þess háttar súpu fram. Ég fékk tengdaaforeldra mína í mat í vetur og ákvað þá loksins að láta verða að því að gera mína eigin vegan mexíkósúpu.

Ég ákvað að nota í hana Oumph! þar sem það virðist alltaf slá í gegn, ásamt því að mynda áhugaverðar umræður við matarborðið þegar einhver kveikir allt í einu á perunni að þetta sé ekki kjúklingur. Einnig hafði ég svartar baunir og maís í súpunni þar sem mér finnst hvoru tveggja algjör nauðsyn í alla mexíkóska rétti. Súpan sló algjörlega í gegn og síðan þá er ég oft búin að bera hana fram við alls konar tilefni, en hún er tilvalin í allt frá litlum matarboðum til fermingarveisla.

Hráefni (fyrir 5-6 manns)

  • 1 poki pure Oumph!

  • 3 msk kókosolía

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 1 rautt chilli (takið fræin úr fyrir mildari súpu)

  • cumin, paprikuduft, oregano, 1 msk af hverju

  • 1/2 tsk cayenne pipar

  • salt og pipar eftir smekk

  • 1-1 1/2 paprika (ég nota gula, græna og rauða í bland)

  • u.þ.b. 10 cm af blaðlauk

  • 2-3 gulrætur

  • 2 dósir gestus niðursoðnir tómatar

  • 1 krukka af salsasósu (230 gr)

  • 2 1/2 Kallo grænmetisteningar

  • 1600 ml vatn

  • 1 dós gestus svartar baunir

  • 100-150 gr af maísbaunum

  • 150 gr Sheese hreinn rjómaostur

Aðferð:

  1. Hitið kókosolíuna í stórum potti. Setjið Oumph!, hvítlauk, chilli og kryddin út í og steikið í góða stund.

  2. Skerið grænmetið í litla bita og bætið út í. Steikið í góðan tíma upp úr kryddunum eða þar til grænmetið er orðið vel mjúkt.

  3. Setjið út í tómatana, salsasósuna, grænmetiskraftinn og vatnið og leyfið suðunni að koma upp. Sjóðið súpuna við meðalhita í góðan tíma, eða minnst 30 mínútur. Mér finnst best að leyfa súpunni að malla í allavega klukkutíma við lágan hita. Smakkið súpuna til og bætið út í kryddum eða krafti eftir smekk.

  4. Skolið baunirnar og bætið þeim út í þegar súpan hefur fengið að sjóða vel ásamt maísnum og rjómaostinum. Hrærið rjómaostinn við svo hann bráðni alveg og leyfið suðunni að koma aftur upp.

  5. Ég ber súpuna fram ýmist með maísflögum, Oatly sýrðum rjóma, rifnum osti (ég mæli með Follow your heart), avocado og súrdeigsbrauði. En mér finnst einnig alveg nauðsynlegt að saxa smá ferskt kóríander og strá yfir.

Njótið vel
Júlía Sif

 

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar