Rjómapasta með grænu pestói og hvítlauksbrauði

IMG_8090 copy.jpg

Þeir sem hafa fylgt okkur systur í einhvern tíma ættu að vita að rjómapasta er einn af okkar uppáhalds réttum. Það er eitthvað við pasta og góða rjómasósu sem gerir þennan rétt ómótstæðilegan. Að okkar mati er nauðsynlegt að bera hann fram með góðu hvítlauksbrauði. Ég hef verið að prófa mig áfram með nýjar uppskriftir síðustu vikur og ákvað að prófa að nota æðislega græna pestóið sem kemur í nýju vegan vörulínunni frá Sacla Italia og tók það venjulega rjómapastað á nýjar hæðir.

Ég ákvað að nota fá og góð hráefni þar sem að sósan er ótrúlega bragðmikil og góð og vildi ég ekki eitthvað bragðmikið grænmeti á móti. Að mínu mati er nauðsynlegt að hafa mikið af hvítlauk í sósunni. Annað hráefni má alveg leika sér með og nota það sem til er í ísskápnum hverju sinni. Ég ákvað að setja lauk, soyjakjöt og spínat.

Ég geri þetta pasta við öll tækifæri, hvort sem það er bara kósýkvöld heima eða þegar ég er fá vini eða fjölskyldu í mat og ég get lofað ykkur að þessi réttur slær í gegn hjá öllum. Fólk biður yfirleitt um uppskriftina eftir að hafa borðað þennan rétt og því fannst mér tilvalið að deila henni með ykkur hérna.

Það sem er þó best við þennan rétt er hvað hann er auðveldur og tekur stuttan tíma að útbúa, öll hráefnin fara saman á pönnu og svo soðið pasta sett út í. Það geta því allir eldað þennan rétt og er mjög auðvelt að elda mikið magn af honum í einu.

IMG_8078.jpg

Hráefni (fyrir fjóra):

  • Tagliatelle fyrir 4 ( sirka 400 gr) (passa að kaupa eggjalaust)

  • 2-3 hvítlauksrif

  • 1 lítill laukur eða 1/2 stór

  • lúkka af spínati

  • 200 gr soyjakjöt

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk laukduft

  • salt og pipar

  • 2-3 msk næringarger

  • 1/2 teningur eða 1 msk grænmetiskraftur

  • 250-350 ml vegan rjómi ( ég notaði Aito en hann er svolítið þykkur svo ég set um 1 dl af vatni með) ( má alveg setja meiri rjóma ef fólk við meirra creamy pasta)

  • 1 dl Sacla vegan grænt pestó

  • Fersk basilíka ef vill (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja vatn í stóran pott ásamt smá olíu og salti og leyfa suðunni að koma upp.

  2. Þegar suðan er komin upp sjóðið það tagliatelle eftir leiðbeiningum á pakkanum (passa að kaupa eggjalaust tagliatelle)

  3. Skerið hvítlaukinn, laukinn og soyjakjötið niður og steikið upp úr olíu í nokkrar mínútur eða þar til það fer að mýkjast og verða fallega gyllt.

  4. Kryddið grænemtið og soyjakjötið með paprikuduftinu, laukduftinu og salti og pipar eftir smekk.

  5. Bætið rjómanum, pestóinu, næringargerinu og kraftinum út í ásamt spínatinu og hrærið vel saman við kjötið og grænmetið.

  6. Leyfið þessu að sjóða í nokkrar mínútur og bætið síðan soðnu pastanu út í og berið fram ásamt ferskum basil og hvítlauksbrauði.

Njótið vel og takk fyrir að lesa <3

IMG_8090.jpg

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia

 
logo Sacla.jpg
 

Mexíkóskt lasagna

IMG_1608.jpg

Hæ!

Ég hef hlakkað lengi til að deila með ykkur uppskriftinni af þessu gómsæta mexíkóska lasagna. Þetta er einn af þessum réttum sem er virkilega einfalt að útbúa en smakkast á sama tíma svakalega vel. Það er eitt það besta sem ég veit, að elda einfaldan mat sem samt smakkast ótrúlega vel.

Færslan er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í þessa uppskrift. Við höfum unnið svolítið með Hagkaup síðustu mánuði og við erum alveg ótrúlega ánægðar með það. Úrvalið hjá þeim af vegan mat er gríðarlega flott og alltaf jafn gaman að sjá eitthvað nýtt og spennandi hjá þeim að prófa.

IMG_1568.jpg

Nú er mánudagur og ný vika að hefjast en eins og hjá mörgum öðrum hafa dagarnir svolítið runnið í eitt síðasta mánuðinn. Það hefur því ekki verið jafn auðvelt að skilja helgina frá skólavikunni. Við Siggi höfum þó reynt að halda okkur við okkar rútínu yfir vikuna og gera eitthvað svolítið öðruvísi um helgar. Við pössum okkur t.d. á því að gera okkur helgarbröns eins og við erum vön og kaupum vel inn fyrir vikuna af mat svo auðvelt sé að gera góðan matseðil. Ég viðurkenni að þetta ástand hefur haft áhrif á mig og ég hef stundum orðið kvíðin yfir þessu öllu saman. Mér hefur því þótt mikilvægt að hafa matarræðið og svefninn í góðu lagi og hef fundið að það gerir gæfumun.

IMG_1580.jpg

Eitt af því sem hefur haldið geðheilsunni minni í lagi síðustu vikur er nýi áhugi minn á súrdeigi. Mér líður hálf kjánalega að segja frá því, það virðast allir annaðhvort vera byrjaðir á fullu í súrdeiginu eða orðnir dauðþreyttir á því að sjá þetta á öllum miðlum. Mig hefur langað að gera súrdegi lengi og um áramótin strengdi ég ein heit. Að læra að gera súrdeigsbrauð. Ég hef svo haldið áfram að fresta því þar til fyrir rúmri viku þegar ég ákvað loksins að slá til og byrja að búa til súr.

Akkúrat viku seinna bakaði ég mitt fyrsta súrdeigsbrauð sem var svo dásamlega gott og fallegt. Í þessum töluðu orðum liggur brauðdeig í hefunarkörfum inni í ísskáp og ég skelli þeim í ofninn á eftir. Ég skil það loksins hvernig fólk getur fengið þetta á heilann. Þegar ég byrjaði að lesa mér til um þetta og skoða allskonar myndbönd fannst mér þetta líta nánast ógerlegt út. Endalaust vesen, súr, levain, “stretch and fold”, formótun, mótun, hefunarkörfur, steypujárnspottur.. Mér fannst nánast eins og allt þetta stúss gæti ekki verið þess virði. EN nú þegar ég hef bakað mitt fyrsta brauð og borðað það fatta ég þetta. Þetta var í fyrsta lagi ekki jafn mikið vesen og ég hélt. Það þarf vissulega að gera ýmislegt en það tekur alltaf lítinn tíma í einu og svo fær þetta að bíða. Í öðru lagi er þetta miklu betra (að mínu mati) en allt annað brauð. Ég get nefnilega ekki keypt nýbakað súrdeigsbrauð þar sem ég bý. Ég get því sagt að ég er mjög spennt fyrir þessu nýja áhugamáli mínu.

IMG_1593.jpg

En færsla dagsins snýst ekki um súrdeigsbrauð heldur þetta gómsæta mexíkóska lasagna. Í stað pasta nota ég tortilla pönnukökur og ofan á lasagnað ákvað ég að setja tortillaflögur sem gaf réttinum þetta góða “crunch”. Þegar það var komið úr ofninum toppaði ég það með lárperu, fljótlegu fersku tómatsalsa, fersku kóríander og vegan sýrðum rjóma. Þetta gaf réttinum dásamlegan ferskleika. Þetta er hinn fullkomni réttur til að bjóða uppá í matarboði en er líka frábær sem góður kvöldmatur!

IMG_1601.jpg

Mexíkóskt lasagna

Hráefni:

  • Olía til að steikja uppúr

  • 5-6 meðalstórar tortillapönnukökur

  • 1 pakki (ca 300 gr) vegan hakk (þarf ekki að vera nákvæmlega 300 en þeir eru yfirleitt í kringum það. Ég mæli mikið með hakkinu frá Anamma)

  • 1/2 rauðlaukur

  • 1-1 1/2 paprika

  • 1-2 hvítlauksgeirar

  • 1 tsk cuminduft

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk laukduft

  • 2 krukkur salsasósa (ég nota þær frá Santa Maria)

  • 2 dl tómatpassata

  • 100 gr svartar baunir úr dós

  • 100 gr maísbaunir (ég mæli með frosnum maísbaununum frekar en þeim í dós)

  • 1 pakki vegan rjómaostur (ég setti helminginn í fyllinguna og restina ofan á áður en ég bakaði lasagnað). Mæli með Oatly

  • salt og pipar

  • Rifinn vegan ostur eftir smekk

  • Tortillaflögur

Hugmyndir af hlutum til að toppa með eftir á:

  • Lárpera

  • Vegan sýrður rjómi. Mæli með Oatly

  • Ferskt tómatsalsa (ég gerði mjög einfalda útgáfu þar sem ég blandaði saman ferskum tómötum, rauðlauk, lime safa, kóríander og salti)

  • Ferskt kóríander

  • Lime safi

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Hitið olíu á pönnu eða í potti.

  3. Bætið hakkinu út í. Vegan hakk má elda beint úr frystinum og þarf því ekki að láta þiðna. Steikið hakkið í nokkrar mínútur.

  4. Saxið rauðlaukinn og pressið hvítlaukinn og bætið út í. Steikið þar til laukurinn hefur mýskt svolítið.

  5. Bætið paprikunni út í og steikið í nokkrar mínútur.

  6. Bætið kryddum út í og hrærið saman við.

  7. Hellið salsaósu og tómatpassata út í og leyfið þessu að malla í sirka 10 mínútur.

  8. Skolið svörtu baunirnar í sigti undir vatni til að ná af þeim safanum úr dósinni. Bætið þeim út í fyllinguna ásamt maís og helmingnum af rjómaostinum. Það má vissulega setja hann allan út í en mér fannst mjög gott að spara helminginn og setja ofan á áður en ég setti réttinn í ofninn. Leyfið að malla í sirka 5 mínútur eða þar til rjómaosturinn hefur bráðnað vel í fyllingunni.

  9. Saltið og piprið eftir smekk

  10. Skerið niður tortillapönnukökurnar í ræmur eða eftir því sem passar best í ykkar eldfasta mót.

  11. Setjið fyllingu í botninn á forminu, raðið svo pönnukökum yfir og endurtakið þar til fyllingin er búin.

  12. Stráið örlítið af vegan osti yfir, raðið tortillaflögum yfir ostinn, því næst restinni af rjómaostinum (ég hitaði minn örlítið í litlum potti svo auðvelt væri að setja hann yfir), og á endanum aðeins meira af vegan osti.

  13. Setjið inní ofn og bakið í sirka 25 mínútur eða þar til osturinn ofan á er orðinn gylltur og fínn.

  14. Toppið með því sem ykkur lystir. Þið sjáið mínar hugmyndir hér að ofan, en mér finnst gera mikið fyrir réttinn að bæta þessu ferska yfir.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur líki uppskriftin vel!

Helga María

 
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
 

Mac and cheese ofnréttur.

Í þessum rétti blöndum við saman Mac and cheese uppskriftinni okkar og hakksósu úr lasagna. Þessi blanda kom okkur heldur betur á óvart og erum við ótrúlega ánægðar með útkomuna. Rétturinn er einfaldur og og þetta er hinn fullkomni heimilsmatur.

1/2 uppskrift Mac and cheese

Hakksósa:

  • 2 pakkar anamma hakk

  • 1 laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 lítill haus brokkolí (eða annað grænmeti sem hentar hverjum og einum)

  • 2 dósir niðursoðnir tómatar

  • 2-3 msk tómatpúrra

  • 2 msk eða 1 teningur grænmetiskraftur

  • 1 msk oregano

  • 1 msk basilíka

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Steikið hvítlauk og lauk upp úr smá olíu.

  2. Bætið brokkolíinu og hakkinu út á pönnuna og steikið í 5 til 10 mínútur.

  3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og leyfið suðunni að koma upp.

  4. Smakkið til með kryddum og salti og pipar.

Aðferð og eldun:

  1. Útbúið Mac and cheese og hellið í botnin á eldföstu móti.

  2. Útbúið hakksósuna og setjið yfir pastað.

  3. Stráið vegan osti yfir.

  4. Bakið við 200°C í 20-25 mínútur eða þar til osturinn er orðin fallega gylltur að ofan.

Við bárum réttinn fram með hvítlauksbrauðinu okkar en það er alveg ómissandi að okkar mati.

IMG_2219-3.jpg
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
10159%2B%25281%2529.jpg

-Þessi færsla er í samstarfi við Hagkaup og þar fást öll hráefnin sem í hana þarf.-

-Færslan er einnig í samstarfi við Bitz á Íslandi.-

Vegan hamborgari með bjórsteiktum lauk og hamborgarasósu

IMG_6520-5.jpg

Þá er komið að seinni færslunni í samstarfi okkar við Anamma í júní. Eins og við nefndum síðast þá erum við að vinna með nýja hakkið frá þeim sem mótast sérstaklega vel og hentar fullkomlega til að útbúa góða borgara eins og þennan. Í síðustu færslu deildum við með ykkur uppskrift af geggjuðum vegan bollum með ritz kexi og döðlum og við höfum fengið virkilega góð viðbrögð við þeim. Í dag er komið að þessum djúsí borgara sem er geggjaður á grillið eða pönnuna. Þetta nýja hakk er alger “game changer” og við erum ekkert smá ánægðar með að fá að vinna með svona góðar vandaðar vörur. Vörurnar frá Anamma fást í Hagkaup og Bónus og svo í ýmsum minni verslunum eins og Melabúðinni og Fjarðarkaup.

IMG_6494-5.jpg

Það er æðislegt að sjá úrvalið af vegan vörum aukast svona gríðarlega eins og gerst hefur síðustu ár. Það er ekkert svo langt síðan vegan borgarar voru alltaf gerðir úr hefðbundnu grænmetisbuffi með tómatsósu. Í dag er hinsvegar hægt að velja á milli allskonar borgara, en þar til fyrir stuttu var svolítið vesen að útbúa heimagerða borgara úr sojahakki. Það breyttist þó algerlega þegar Anamma byrjaði að framleiða nýja hakkið sitt og í dag er ekkert mál að útbúa djúsí heimagerða borgara.

IMG_6497-6.jpg

Við ákváðum að byrja á því að gera svolítið klassíska uppskrift. Uppskrift sem er geggggjuð eins og hún er en býður uppá það að setja hana í eigin búning ef maður vill. Þessa borgara er ekkert mál að grilla og við getum eiginlega lofað ykkur að jafnvel hörðustu kjötætur eiga eftir að elska þá.

IMG_6500-5.jpg

Í þetta skipti útbjuggum við gómsæta hamborgarasósu með borgurum og toppuðum þá einnig með bjórsteiktum lauk sem er ekkert smá góður. Hamborgarasósuna gerum við í hvert skipti sem við gerum okkur borgara. Það tekur enga stund að útbúa hana og hún er dásamleg. Við settum svo hvítlauksmæjónes á borgarann líka, en það var mest til að fá fallega mynd hehe.

IMG_6518-4.jpg

Eins og ég skrifaði að ofan er þessi uppskrift alveg svakalega góð, en það er auðvelt að prufa sig áfram og gera eitthvað aðeins öðruvísi úr henni. Ég hef t.d. stundum sett smá estragon út í og það gefur mjög skemmtilegt bragð. Eins er rosalega gott að blanda út í borgarann vegan fetaosti. Við erum mjög spenntar að heyra hvað ykkur finnst um borgarann og eins hvað ykkur þykir skemmtilegast að útbúa úr þessu frábæra nýja hakki frá Anamma.

IMG_6523-7.jpg

Hamborgarar 4 stykki

  • 440 gr formbar hakkið frá Anamma

  • 1 msk laukduft

  • 1 msk hvítlauksduft

  • 1-2 tsk sojasósa

  • 1 tsk gróft sinnep eða dijon sinnep

  • 2 tsk kjöt og grillkrydd

  • salt og pipar

  • BBQ sósa til að pennsla yfir (má sleppa)

Aðferð:

  1. Takið hakkið úr frysti um það bil klukkutíma áður en matreiða á borgarana.

  2. Setjið öll kryddin út í þegar hakkið hefur aðeins fengið að þiðna.

  3. Mótið 4 buff út hakkinu (sirka 110 gr hvert buff) og steikið eða grillið í nokkrar mínútur á hvorri hlið.

  4. Pennslið með BBQ sósu áður en borgararnir eru matreiddir ef þið kjósið. Það er alls engin nauðsyn en okkur þykir það svakalega gott.

Hamborgarasósa

  • 1-1 1/2 dl vegan majónes (keypt eða eftir uppskrift hérna af blogginu)

  • 1/2 dl tómatsósa

  • 1/2 dl mjög smátt saxaðar súrar gúrkur

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 tsk laukduft

  • salt

Aðferð:

  1. Saxið súru gúrkurnar mjög smátt.

  2. Hrærið öllum hráefnunum saman í skál

Bjórsteiktur laukur

  • 2 stórir laukar

  • 1 msk sykur

  • 1 msk soyasósa

  • salt og pipar

  • 2-3 msk bjór

Aðferð:

  1. Skerið laukana í frekar þunnar sneiðar.

  2. steikið laukinn upp úr smá olíu þar til hann fer að brúnast vel.

  3. Bætið salt og pipar, sykri og soyasósu og steikið í nokkrar mínútur í viðbót.

  4. Bætið bjórnum útí og steikið í góðar 5 til 10 mínútur.




anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-