Ofnbakað nachos með CHORIZO pylsum og CH**SE sósunni

IMG_8278.jpg

Þá er komið að enn einni uppskriftinni með mexíkósku þema. Það er ekkert leyndarmál að við systur elskum mexíkóskan mat, hvort sem það er burrito, taco, nachos eða súpur þá klikkar það bara einhvern veginn aldrei! Þessi uppskrift er að sjálfsögðu ótrúlega einföld svo að hver og einn getur útbúið þennan rétt og hann tekur enga stund að verða klár.

Þegar ég fékk í hendurnar þessa ostasósu frá Sacla þá vissi ég strax að ég þyrfti að gera einhvers konar nachos með sósunni þar sem hún er með þessu ostasósu bragði sem er af hefðbundnum ostasósum sem hægt er að kaupa út í búð. Ég vildi gera eitthvað aðeins öðruvísi en venjulega og því ákvað ég að nota þessar æðislegu Chorizo pylsur frá Anamma. Þær eru svo ótrúlega góðar og bragðmiklar að það þarf ekki að gera mikið við þær til að fá bragðmikinn og góðan rétt.

Ég ákvað að stappa pylsurnar niður og gera úr þeim einskonar hakk sem kom ekkert smá vel út! Þessar pyslur eru svo bragðgóðar að það þarf nánast ekkert að krydda réttinn. Þær henta því í alls konar rétti og ég mæli með fólk prófi sig áfram með þær í alls konar mat. Ég notað þær til dæmis ótrúlega mikið í pasta og á pizzur.

ezgif.com-gif-maker.gif

Eins og með nánast alla okkar rétti má að sjálfsögðu leika sér eins og hver og einn vill með þennan rétt og við mælum með að fólk prófi seig áfram sérstaklega með það sem eru sett ofan á réttinn. Það er algjörlega smekkur hvers og eins hvort þið viljið hafa réttinn sterkan eða ekki t.d. og við mælum með að sleppa jalapenoinu ef þið viljið ekki sterkan rétt.

Hráefni

  • 1 poki saltaðar tortillaflögur

  • 1 pakki anamma chorizo pylsur

  • 1 dós tómatpúrra

  • 2 dl vatn

  • 1/2-1 krukka Vegan CH**SE sósan frá Sacla Italia

  • 1/2 rauðlaukur

  • 1-2 msk jalapeno

  • 1/2 til 1 dl svartar ólífur

  • kirskuberjatómatar

  • 1 Avocadó

  • Kirskuberjatómatar

  • Ferskur kóríander

  • Salsasósa

Aðferð:

  1. Gott er að taka pylsurnar úr frysti nokkrum klukkutímum fyrir svo þær fái tíma til að þiðna

  2. Hitið ofninn við 220°C

  3. Ef pyslurnar eru ekki afþíddar má afþíða þær í örbygljuofni. Setjið pylsurnar í djúpan disk eða skál og stappið þær niður svo þær verði að einskonar mauki.

  4. Steikið pylsurnar í nokkrar mínútur upp úr olíu. Pylsurnar þarf ekkert að krydda þar sem þær eru mjög góðar og bragðmiklar fyrir. Ég setti þó smá salt út á pönnuna þegar ég var að steikja þær

  5. Þegar pylsurnar eru vel steiktar og orðan að eins konar hakki, er tómatpúrran og vatnið sett út á pönnunna og hrærið það vel saman við pylsu”hakkið”. Leyfið þessu að malla í u.þ.b. 10 mínútur eða þar til sósan er aðeins farin að þykkna.

  6. Hellið tortilla flögunum í eldfast mót.

  7. Hellið síðan hakkinu yfir flögurnar, dreifið rauðlauknum yfir og hellið Vegan CH**SE sósunni yfir allt.

  8. Dreifið ólífunum og jalapeno’nu yfir eða því sem hver og einn kýs að nota.

  9. Bakið í ofninum í 10 til 15 mínútur eða þar ostasósan og snakkið fer að verða fallega gyllt að ofan.

  10. Stráið niðurskornu avókadói, kirsuberjatómötum og kóríander yfir og berið fram með salsasósu eða þeirri sósu sem hver og einn kýs að nota.

Það má leika sér með alls konar hráefni og sósur í þessari uppskrift en þetta er mín uppáhalds útfærsla.

-Njótið vel

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi og Sacla Italia á Íslandi

 
anamma_logo.png
logo Sacla.jpg
 

Ofnbakað vegan nachos

IMG_5518-2.jpg

Nýlega komu á markaðinn ótrúlega gómsætir sojabitar frá Hälsans kök sem við höfum notað mikið í allskonar uppskriftir. Við erum því heldur betur spenntar að deila með ykkur uppskriftinni af þessu fáránlega bragðgóða súpernachosi, í samstarfi við Hälsans kök á Íslandi. Bitarnir eru algjör snilld og koma meðal annars í staðinn fyrir kjúkling í ýmsa rétti. Mér finnst þeir fullkomnir í vefjur, samlokur, matarmiklar súpur og ofnbakaða rétti svo eitthvað sé nefnt. Það er svo æðislegt að sjá hvernig úrvalið af vegan mat verður flottara og fjölbreyttara með tímanum og þar af leiðandi hversu auðvelt það er að vera vegan og halda samt áfram að borða réttina sem við erum vön að borða og okkur þykja góðir.

IMG_5399 (1)-2.jpg

Þegar ég var í menntaskóla var í mikilli tísku að fara með vinunum annað hvort á Hressingarskálann eða Kaffi París og deila matarmiklu súpernachosi. Síðan þá hefur okkur þótt gaman að prufa okkur áfram með eigin uppskriftir af svipuðum rétti, og ég get stollt sagt að þessi uppskrift er mun betri en þeir sem ég fékk á veitingastöðunum. Þetta er einn af mínum uppáhalds föstudagsréttum og bitarnir eru fullkomnir í nachosið.

Það er að sjálfsögðu hægt að leika sér endalaust með svona nachos uppskrift og búa til þær sósur sem manni þykja góðar. Þessi uppskrift er samansett af því sem okkur þykir fullkomið saman á svona nachos:

Guacomole
Sýrðum rjóma
Heimagerðri “ostasósu”
Salsasósu
Fersku mangósalasa
Filébitunum frá Hälsans kök krydduðum með taco kryddblöndu
Fersku kóríander.

IMG_5524.jpg

Nachosið lítur vanalega ekki svona vel út hjá okkur, þetta var gert sérstaklega fallegt fyrir myndatökuna. Vanalega setjum við eitt lag af hverju í eldfast mót og pössum að það sé vel af sósu á hverju lagi. Það lítur því yfirleitt frekar subbulega út, en það er partur af stemningunni að okkar mati.

IMG_5573.jpg

Vegan súpernachos:

  • 1 pakki saltaðar tortillaflögur

  • Hälsans Kök bitar í mexíkóskri kryddblöndu

  • 2-3 dl heimagerð ostasósa

  • 1 dós salsasósa

  • 2-3 dl guacamole

  • ferskt mangósalsa

  • vegan sýrður rjómi

Aðferð:

  1. Setjið í eldfast mót tortilla flögur, bitana, salsasósu og ostasósu í skiptis í þrjú lög.

  2. Hitið í 200°C heitum ofni í 15 til 20 mínútur.

  3. Setjið sýrðan rjóma, mangósalsa og guacamole yfir þegar nachosið er tekið úr ofninum.

  4. Berið fram með restinni af sósunum ef einhverjar verða eftir.




Steiktir Hälsans Kök bitar:

  • 1 pakki hälsans Kök filé bitar

  • 2 msk olía

  • mexíkósk kryddblanda (keypt í bréfi eða heimagerð):

    • 1 msk tómatpúrra

    • 1-2 hvítlauksrif

    • 1 tsk cumin

    • 1 tsk paprika

    • 1 tsk þurrkað oregano

    • 1/2 tsk kóríander

    • 1/2 tsk laukduft

    • 1/2 cayenne pipar

    • 1 tsk grænmetiskraftur eða 1/2 teningur

    • 1 msk limesafi

    • 1/2 dl vatn

Aðferð:

  1. Steikið bitana upp úr olíu þar til þeir hafa hitnað örlítið

  2. Blandið kryddunum saman í skál og hellið yfir. Leyfið þessu að malla saman í 10-15 mínútur.




Heimagerð ostasósa:

  • 3/4 bolli grasker (eða 1/2 bolli kartöflur og 1/4 bolli gulrætur. við höfum búið til úr hvoru tveggja og það smakkast alltaf jafn vel)

  • 1/2 bolli kasjúhnetur

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 2 sneiðar niðursoðið jalapeno + örlítið af safanum úr krukkunni

  • 3-4 msk næringarger

  • 1/2 til 3/4 haframjólk

  • salt

Aðferð:

  1. Afhýðið graskerið (eða kartöflurnar og gulræturnar) og skerið niður. Gufusjóðið eða sjóðið í vatni í 10 mínútur.

  2. Sigtið grænmetið frá vatninu og hellið í blandara ásamt restinni af hráefnunum og blandið þar til sósan er silkimjúk (Ef ekki er notaður mjög kraftmikill blandari er gott að leggja kasjúhneturnar í bleyti í soðið vatn í sirka klukkustund áður en sósan er blönduð.)




Mangósalsa:

  • 1 dl smátt skorið mangó

  • 1 dl smátt skornir tómatar

  • saxað ferskt kóríander eftir smekk

  • örlítið ferskt lime kreist yfir

Aðferð:

  1. Blandið öllu saman í skál og berið fram með nachosinu.




Við vonum að þið njótið!

Veganistur

Logo_HK CMYK board.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hälsans Kök á Íslandi-