Svartbauna- & sætkartöfluenchilada

IMG_4085-2.jpg

Mexíkóskur matur hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi mér. Það er eitthvað svo skemmtilegt við að dúlla sér í alls konar litlum sósum og salötum sem síðan koma saman í fallegar bragðsamsetningu og litadýrð. Ef ég mætti ráða myndi ég örugglega borða tortillaflögur og guacamole í hvert mál, mögulega með smá ostasósu.

IMG_3940.jpg

Þessi réttur er einn af þeim fyrstu sem ég fullkomnaði alveg frá grunni þegar ég varð vegan. Ég hef boðið upp á hann ótrúlega oft undanfarin ár og hefur hann alltaf slegið í gegn. Baunir voru eitt af því sem ég þurfti að venjast svolítið að borða þegar ég varð vegan og fannst ekki mjög spennandi. En á smá tíma lærði ég að meta þær og finnst ekkert skemmtilegra í dag en að leika mér með alls kynns baunir. Svartar baunir eru í miklu uppáhaldi, og þá sérstaklega í mexíkóska rétti en ekki skemmir hvað þær eru fallegar í réttinum með tómötunum og sætu kartöflunum. Þær eru einnig alveg ótrúelga næringaríkar og tikka í mjög mörg box í einu hvað varðar næringarefni.

IMG_4000.jpg

Rétturinn er toppaður með tveimur virkilega góðum sósum sem eru alveg svart og hvítt en passa alveg fullkomlega saman. Þessar sósur eru heimagerð enchilada sósa og heimagerð ostasósa. Ostasósan er ein af okkar uppáhalds sósum og finnst mér hún miklu betri ofan á mexíkóska rétti en rifin ostur. Einnig er hún alveg ótrúlega holl og stutt full af næringarefnum. Sósuna má líka borða eina og sér með tortilla flögum en ég geri alltaf rúmlega af henni svo ég eigi afgang til að narta í með afgangsflögunum.

IMG_4026-2.jpg
IMG_3934.jpg

Heimagerð ostasósa

  • 1/2 bolli niðursneiddar kartöflur (afhýddar)

  • 1/4 bolli niðursneiddar gulrætur

  • 1/2 bolli kasjúhnetur

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 2 sneiðar niðursoðið jalapeno + örlítið af safanum úr krukkunni

  • 3-4 msk næringarger

  • 1/2 til 3/4 haframjólk

  • salt

Aðferð:

  1. Afhýðið kartöflurnar og skerið niður ásamt gulrótunum. Gufusjóðið eða sjóðið í vatni í 10 mínútur.

  2. Setjið restina í blandara og blandið þar til sósan er silkimjúk (Ef ekki er notaður mjög kraftmikill blandari er gott að leggja kasjúhneturnar í bleyti í soðið vatn í sirka klukkustund áður en sósan er blönduð.)

Vegan Enchilada sósa:

  • 3 msk olía

  • 2 msk hveiti

  • 5 msk tómatpúrra

  • 2 msk chilliduft

  • 1 tsk broddcúmen

  • 1 tsk laukduft

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 msk grænmetiskraftur

  • 3 1/2 dl vatn

Aðferð:

  1. Hrærið saman í litlum potti á miðlungshita olíu og hveiti.

  2. Bætið tómatpúrru ásamt kryddi útí og blandið vel

  3. Bætið að lokum hálfum desilíter af vatni út í, í einu, þar til öllu vatninu hefur verið hrært saman við. Sósan þarf ekkert að sjóða, aðeins að hitna vel.

IMG_4047.jpg

Sætkartöflu & svartbauna enchilada:

  • 1 sæt kartafla

  • 2 dósir svartar baunir

  • 1 laukur

  • 1 paprika

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 2 msk saxaður ferskur kóríander

  • 2 tsk broddcúmen

  • 2 tsk malaður kóríander

  • 2 tsk paprikuduft

  • 1 tsk chilliduft

  • salt og pipar eftir smekk

  • 1/2 dós niðursoðnir tómatar

  • 1/2 lítil krukka salsasósa

  • 2 msk vegan rjómaostur (oatly passar mjög vel)

  • Helmingur af enchilada sósunni

  • 8 maís tortillur

Aðferð:

  1. Skerið sætu kartöfluna í litla bita. Setjið kartöflubitana með vatni svo það fljóti yfir í pönnu og látið malla á meðan þið saxið niður papriku, lauk, hvítlauk og kóríander.

  2. Þegar kartöflurnar hafa fengið að sjóða í 15 mínútur hellið þeim í sigti og látið vatnið renna vel af.

  3. Steikið á pönnunni upp úr örlitlu vatni, lauk, hvítlauk og papríku. Þegar grænmetið hefur fengið að mýkjast aðeins bætiði við sætu kartöflunum og svörtu baununum ásamt niðursoðnum tómötum, salsasósunni, rjómaostinum og kryddinu. Látið malla í 10 mínútur áður en þið setjið enchilada sósuna saman við.

  4. Setjið fyllingu í miðja maíspönnukökuna, rúllið upp og komið fyrir í heldföstu móti. Endurtakið þetta með allar 8 pönnukökurnar. Smyrjið enchilada sósunni yfir og hellið síðan heimagerðu ostasósunni þar yfir. Bakið í 190°C heitum ofni í u.þ.b. 20 mínútur.