Tómatsúpa og grillaðar samlokur

IMG_2636-2.jpg

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af gómsætri tómatsúpu og grilluðum samlokum. Ég er ein af þeim sem get borðað súpu allan ársins hring. Það skiptir ekki máli hvort það er snjóstormur eða sumarblíða, súpa er alltaf uppáhalds.

IMG_2594-3.jpg

Í súpuna notaði ég meðal annars ferska tómata, tómata í dós, fullt af hvítlauk, lauk og ferskar jurtir. Það sem gerir súpuna síðan rjómakennda er vegan matreiðslurjómi og rjómaosturinn frá Violife. Uppskriftin er í samstarfi við Violife og ég notaði rjómaostinn frá þeim í bæði súpuna og samlokurnar, en í þær notaði ég svo líka hefðbundna ostinn frá þeim.

Íslendingar búa svo vel við að geta valið á milli ýmissa bragðtegunda af Violife vörunum. Þar sem ég bý erlendis hef ég ekki sama úrval og þessvegna nota ég “original” af bæði ostinum og rjómaostinum. Ég mæli þó með því fyrir ykkur að prófa eitthvað af hinum bragðtegundunum ef þið komist í þær. Í súpuna hefði jafnvel verið gott að nota hvítlauks- og jurtarjómaostinn í súpuna og kannski hot peppers í grilluðu samlokurnar. Ég elska allar vörurnar frá Violife en síðast þegar ég var á Íslandi smakkaði ég þann besta ost sem ég hef smakkað frá þeim og hann heitir Epic mature cheddar flavor. Ef þið hafið ekki smakkað hann mæli ég með því að þið gerið það strax í dag. Ég vildi óska að ég fengi hann hérna í norður Svíþjóð!

IMG_2629-3.jpg

Ég vona að þið smakkið, þó það sé sumar og sól. Gómsæt súpa er einhvernveginn alltaf jafn góð!

IMG_2637.jpg

Tómatsúpa

Hráefni:

  • 500 gr ferskir tómatar

  • 5-6 hvítlauksgeirar

  • 1 laukur

  • Ferskt timían ca 2-3 msk

  • 6 blöð fersk salvía

  • 3 msk ólífuolía

  • 2 dósir niðursoðnir tómatar

  • 1 grænmetisteningur

  • 2 dl vegan matreiðslurjómi

  • 1 pakki rjómaostur frá Violife

  • 1 msk balsamikedik

  • 1 tsk sykur (bætið við meiru ef ykkur finnst vanta. Má líka sleppa sykrinum ef ykkur finnst hann óþarfur)

  • salt og pipiar

  • chiliflögur eftir smekk

  • fersk basilika til að toppa með

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 210°c

  2. Setjið ferska tómata, hvítlauk, lauk, jurtir, ólífuolíu, salt og pipar í pott eða eldfastmót og inní ofninn og bakið í 30 mínútur. Ég á steypujárnspott svo ég gerði allt saman bara í honum.

  3. Bætið tómötum í dós samanvið og mixið aðeins með töfrasprota eða í blandara þar til þið fáið þá áferð sem þið kjósið. Ég mæli með að setja smá vatn í botninn á dósinni til að ná með restinni af tómötunum og það sakar ekki að fá smá vatn með í súpuna. Mér finnst gott að hafa smá “chunks” í súpunni minni svo ég passaði mig að blanda hana ekki of mikið.

  4. Færið pottinn á hellu og bætið saman við grænmetiskraftinum, matreiðslurjómanum, rjómaostinum, balsamikediki, sykri og kryddum. Leyfið súpunni að malla í nokkrar mínútur og smakkið til. Saltið meira ef ykkur finnst þurfa.

Grillaðar samlokur

Hráefni

  • Gott brauð

  • vegan smjör eða olía til að smyrja brauðið að utanverðu

  • Rjómaostur frá Violife, mæli með original, garlic & herbs eða Hot peppers

  • Ostur frá Violife

Aðferð:

  1. Smyrjið brauðsneiðarnar að utanverðu með smá vegan smjöri eða ólífuolíu.

  2. Smyrjið svo rjómaostinum á og bætið við eins miklum osti og ykkur lystir.

  3. Grillið í samlokugrilli eða steikið á pönnu þar til osturinn bráðnar og brauðið fær á sig gylltan lit.

  4. Berið fram með súpunni. Mér finnst geggjað að dýfa samlokunum í súpuna.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel!

-Færslan er í samstarfi við Violife á Íslandi-

 
violife-logo-1.png