Tælensk núðlusúpa með rauðu karrý

IMG_9725.jpg

Eftir að hafa eytt þremur mánuðum í asíu fyrir nokkrum árum hefur asískur matur og þá sérstaklega tælenskur matur verið í mjög miklu uppáhaldi hjá mér. Ég hugsa að ég gæti borðað núðlur, hrísgrjón og karrý á hverjum einasta degi án þess að fá leið á því. Í ferðinni áttaði ég mig á því hversu miklu betri asískar þjóðir eru í að nota krydd og grænmeti heldur en við og fann ég hvergi fyrir því að erfitt væri að vera vegan eða að borða ekki kjöt. Allir réttir eru stútfullir af góðu grænmeti, hrísgrjónum, núðlum og geggjuðum kryddum.

Ég gerði þau mistök að kaupa mér ekki krydd og kryddblöndur til að taka með heim, en ég fór hins vegar mikið að prófa alls konar kryddmauk í matargerð eftir að ferðinni lauk. Það er til fjöldin allur af góðum karrý og kryddmaukum hérna heima sem gera tælensku og asísku matargerðina einfalaldari en hægt er að hugsa sér. Það þarf þó að passa sig á því að oft má finna innihaldsefni í slíkum maukum sem ekki eru vegan eins og t.d. fiskisósur og fiskikraft.

IMG_9712.jpg

Í krónunni er einstaklega gott úrval af svona kryddmaukum og finnst mér ég finna eitthvað nýtt í nánast hverri einustu búðarferð. Ég get eitt góðum tíma í þessari deild búðarinnar að skoða allar þessar spennandi vörur. Maukinn og vörurnar frá Taste of Asia gripu strax athygli mína þegar ég sá þau fyrst snemma á þessu ári en tók ég eftir að flest maukin frá þeim innihalda 100% vegan innihaldsefni og henta mér því einstaklega vel.

Ég hef prófað mikið af þessum vörum en hefur rauða karrýmaukið alltaf verið til í skápunum hjá mér síðan ég smakkaði það fyrst. Það er ótrúlega bragðgott, og hentar fullkomlega í súpur, kássur eða bara á tófú og núðlur. Ég elska einnig hvað er gott úrval af góðum núðlum frá þessu merki, en lengi vel var nánast einungis hægt að fá “skyndinúðlur” og hrísgrjónanúðlur í felstum matvöruverslunum.

Í þessari færslu ætla ég að deila með ykkur einum af mínum uppáhalds réttum. Það er kókoskarrýsúpa með tófúi og Somen núðlum.

IMG_9743.jpg

Hráefni

  • 4 msk ólífuolía

  • 1 stór gulrót

  • 4-5 cm af blaðlauk

  • 1 rauð papríka

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 cm ferskt engifer

  • 1 pakki tófú

  • Tófú marinering

    • 1/2 dl soyasósa

    • 4 msk ólífuolía

    • 1 tsk hlynsíróp

    • 1 tsk chilli mauk (sambal oelek frá Taste of Asia)

    • 1/2 tsk pressaður hvítlaukur

  • 1 krukka rautt karrýmauk frá Taste of Asia

  • 1 tsk chillimauk (sambal oelek frá Taste of Asia) má sleppa

  • 2 msk hlynsíróp

  • salt og pipar eftir smekk

  • 2 dósir kókosmjólk

  • 2 lítrar vatn

  • 2 grænmetisteningar

  • 1/2 pakki somen núðlur frá Taste of Asia

  • Límóna og ferskur kóríander til að bera fram með súpunni

Aðferð:

  1. Byrjið á því að þerra og skera niður tófúið. Blandið öllum hráefnum fyrir marineringuna saman í skál og setjið teningana út í. Veltið vel upp úr marineringunni og setjið til hliðar

  2. Skerið niður allt grænmeti, rífið engifer og pressið hvítlaukinn.

  3. Steikið grænmetið upp úr ólífuolíunni í stórum potti þar til það mýkist vel.

  4. Bætið rauða karrýmaukinu út í pottinn ásamt 1/2 dl af vatni og steikið áfram í nokkrar mínútur.

  5. Bætið kókosmjólkinni út í pottinn ásamt vatninu, grænmetiskraftinum, hlynsírópi og chillimaukinu.

  6. Leyfið suðunni að koma upp við vægan meðalhita og hrærið í af og til á meðan.

  7. Á meðan súpan sýður er gott að nota tíman til að steikja tófúið. Hitið pönnu, hellið tófúinu ásamt mareneringunni út á pönnuna og steikið á háum hita þar til það verður fallega gyllt á öllum hliðum.

  8. Þegar suðan er komin upp á súpunni er gott að smakka hana til og bæta við salti, pipar og grænmetiskraft ef ykkur finnst þurfa. Leyfið súpunni að sjóða í 15 mínútur.

  9. Bætið núðlunum út í og leyfið súpunni að sjóða í 3 mínútur í viðbót. Slökkvið undir og bætið tófúinu út í pottinn.

  10. Berið fram með límónusneið og ferskum kóríander fyrir þá sem vilja. Einnig er gott að hafa með baunaspírur og muldar salthnetur en það þarf ekki.

-Njótið vel!

- Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna -

 
KRONAN-merki.png
 

Ofnbakað pasta með rauðu pestói

IMG_9604.jpg

Nú þegar fer að hausta er ég í algjöru stuði til að gera góða ofn og pottrétti. Það er svo ótrúlega þægilegt að geta sett öll hráefnin í eitt mót eða stóran pott og eldað það saman. Mér finnst einnig mjög mikilvægt að kunna að gera góða rétti sem þarfnast lítillar fyrirhafnar og elda sig sjálfir, sérstaklega þegar mikið er að gera og lítill tími gefst í eldamennsku.

Svokallað “Í einn pott” pasta eða” One pot pasta” líkt og það er kallað á ensku er tilvaldin svoleiðis réttur. Þessir réttir hafa notið mikilla vinsælda síðustu ár þar sem þeir eru svo einfaldir og elda sig alveg sjálfir. Þá er hrátt pasta, vatn og fleiri hráefni sett saman í eldfast mót eða pott og því leyft að malla þar til pastað er soðið og rétturinn tilbúin.

Í þessari viku ætla ég akkúrat að deila með ykkur slíkri uppskrift en það má segja að þetta sé hinn fullkomni hversdagsréttur. Ég ákvað að elda réttin í eldföstu móti í ofni í stað þess að gera það í potti á hellu, einfaldlega vegna þess að mér finnst það þægilegra og uppvaskið eftir það auðveldara heldur en hitt. Það eina sem þarf að gera er að hræra öllu saman í form og skella í ofninn. Þá þarf ekki að hafa neinar áhyggjur að það sjóði uppúr eða að eitthvað brenni við botninn á pottinum.

Ég ákvað að setja smá vegan ost yfir réttinn í lokin til að gera hann extra djúsí en það má alveg sleppa því. Ég notaði rauða pestóið frá Sacla Italia þar sem það er lang uppáhalds pestóið mitt. Það er þó alveg hægt að leika sér með réttinn eins og hver og einn vill, nota til dæmis grænt pestó og það grænmeti sem til er. Þetta getur verið alveg fullkomin réttur til að nota restar úr ísskápnum í.

IMG_9626.jpg

Hráefni

  • 350 gr pasta

  • 3 hvítlauksrif

  • 1/2-1 rauð paprika

  • 1/2 krukka svartar ólífur

  • 1/2 meðalstór haus brokkolí

  • 1/2 dl næringarger

  • 1 krukka rautt pestó úr vegan línunni hjá Sacla Italia

  • 750 ml grænmetissoð

    • 750 ml vatn + 2 grænmetisteningar hitað saman

  • 2-3 lúkur af vegan rifnum osti (má sleppa)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C.

  2. Byrjið á því að setja vatn og grænmetisteninga í pott og hita þar til suðan kemur upp. Hrærið aðeins í og slökkvið undir um leið og fer að sjóða.

  3. Skerið allt grænmeti og ólífur niður og saxið hvítlaukinn.

  4. Setjið allt hráefni, nema ostinn, í eldfast mót og blandið því vel saman.

  5. Setjið álpappír yfir mótið og eldið í ofninum í 30 mínútur, takið síðan álpappírinn af og setjið ostinn yfir og bakið í 15 mínútur í viðbót.

  6. Þegar ég tek réttinn úr ofninum finnst mér best að hræra öllu vel saman og blanda ostinum við réttinn sjálfan en það þarf ekki að gera það.

- Færslan er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi. -

 
logo Sacla.jpg
 

Vegan tikka masala og einfalt pönnubrauð

IMG_1224-2.jpg

Ég er ekkert smá spennt að deila með ykkur þessari uppskrift, en þetta er einn sá besti réttur sem ég hef eldað lengi. Ég áttaði mig á því í dag að þetta er önnur uppskriftin í röð sem ég nota Oumph!, en ég elska vörurnar þeirra og nota mikið í minni daglegu matargerð. Uppskrift dagsins er af dásamlega góðu tikka masala og fljótlegu pönnubrauði. Ég vona innilega að ykkur muni þykja rétturinn jafn góður og mér. Ég er búin að elda hann nokkrum sinnum uppá síðkastið til að mastera uppskriftina og við Siggi erum sammála að hann sé nýtt uppáhald.

IMG_1161.jpg

Ég hef eytt gríðarlega miklum tíma í eldhúsinu síðustu vikur og prufað mig áfram með uppskriftir af bæði mat og bakstri. Það er fátt sem veitir mér jafn mikla gleði, sérstaklega nú þegar skólinn hefur færst yfir á netið og ég hitti vini mína ekki jafn oft. Ég hef því notið þess að elda, baka og taka langa góða göngutúra í vorsólinni.

Þetta þýðir að hausinn á mér er fullur af hugmyndum fyrir bloggið og tilfinningin um að ég hafi gert allar uppskriftir sem ég mun nokkurn tímann kunna að elda hefur loksins horfið. Eftir að við skrifuðum bókina okkar leið mér lengi eins og ég væri alveg tóm en nú líður mér eins og ég sé tilbúin að byrja á næstu bók hehe.. Við látum það þó bíða aðeins og reynum að vera duglegar að deila með ykkur uppskriftum hérna á blogginu þangað til.

IMG_1183-2.jpg

þessi uppskrift er ein af þeim sem henta bæði sem hversdagsmatur en líka í matarboðið (eftir samkomubannið að sjáfsögðu). Rétturinn krefst smá undirbúnings þar sem að Oumphið þarf að fá að marinerast aðeins en annars er hann virkilega einfaldur. Hann er bragðgóður og passar einstaklega vel með grjónum og pönnubrauði.

Færsla dagsins er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í uppskriftina. Í Hagkaup er mikið og skemmtilegt úrval af góðum vegan mat. Ég nota Oumph í réttinn, en það er hægt að skipta því út fyrir aðra tegund af vegan kjötlíki, tófú eða kjúklingabaunir. Í Hagkaup er úr ýmsu að velja svo það ættu allir að finna það sem hentar þeim.

IMG_1229.jpg

Ef þið eigið afgang af réttinum er virkilega gott að útbúa fljótlega tikka masala pizzu. Hana geri ég einfaldlega með því að setja tikka masala á pönnubrauð (uppskriftir hér að neðan) sem búið er að steikja og toppa með rauðlauk sem ég hef skorið þunnt. Þetta set ég í ofninn á 200°c í nokkrar mínútur eða þar til þetta hefur eldast í gegn og kantarnir á brauðinu orðnir örlítið krispí. Það þarf ekki að baka lengi þar sem þetta er allt eldað fyrir og því í rauninni nóg að hita. Mér finnst þó best ef botninn nær að verða svolítið “krispí". Svo toppa ég þetta með vegan sýrðum rjóma, grófu salti, kóríander, chili flögum og ólífuolíu.

IMG_1233-3.jpg

Vegan tikka masala (fyrir tvo til þrjá)

Hér að neðan er uppskrift af tikka masala og pönnubrauði. Með réttinum sauð ég svo hrísgrjón og toppaði matinn með fersku kóríander og vegan sýrðum rjóma.

Oumph í mareneringu:

  • Olía til steikingar

  • 1 poki Oumph the chunk (eða annað ókryddað vegan sojakjöt, t.d. Filébitarnir frá Hälsans kök)

  • 2 dl ósæt vegan jógúrt

  • 2 pressaðir hvítlauksgeirar

  • 2 tsk rifið engifer

  • 1 tsk chiliduft

  • 1 tsk cumin

  • 1 tsk turmerik

  • 2 tsk garam masala

  • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Leyfið Oumphinu að þiðna og setjið svo í stóra skál.

  2. Bætið jógúrtinni út í skálina ásamt hvítlauk, engifer og kryddum.

  3. Hrærið saman svo að jógúrtin og kryddin þekji alla Oumphbitana. Setjið plastfilmu yfir skálina eða færið matinn yfir í box og setjið í ísskáp í helst minnst tvo tíma. Ég mæli virkilega með því að leyfa bitunum að liggja í marineringu yfir nótt eða jafnvel gera þetta snemma jafndægurs ef þið ætlið að matreiða réttinn um kvöldið.

  4. Hitið olíu á pönnu og steikið bitana þar til þeir fá lit. Takið þá af pönnunni og leggið til hliðar. Ekki þvo pönnuna því sósan fer beint á hana.


Sósan:

  • Olía til steikingar

  • 1 meðalstór laukur

  • 2 pressaðir hvítlauksgeirar (1 ef þeir eru mjög stórir)

  • 2 tsk rifið engifer

  • 1.5 tsk garam masala

  • 1.5 tsk cumin

  • 1 tsk malað kóríander

  • 1 tsk túrmerík

  • 1 tsk chiliduft

  • 400 ml niðursoðnir tómatar (helst passata, s.s. alveg maukaðir)

  • 2.5 dl vegan matreiðslurjómi (mæli með iMat frá Oatly)

  • 1 tsk púðursykur

  • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Hellið aðeins meiri olíu á pönnuna.

  2. Saxið niður laukinn og setjið út á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur eða þar til hann hefur mýskt aðeins.

  3. Bætið hvítlauk og engifer út á pönnuna og steikið í smá stund.

  4. Bætið kryddunum út á og hrærið þannig þau blandist vel við laukinn og steikið í sirka mínútu. (Ef þið ætlið að bera réttinn fram með hrísgrjónum er tilvalið að byrja að sjóða þau á þessum tímapunkti eftir leiðbeiningum á pakkanum.)

  5. Hellið tómötunum út á. Setjið örlítið vatn í botninn á krukkunni/dósinni til að ná restinni af tómötunum með á pönnuna. Leyfið þessu að malla í sirka 10 mínútur og hrærið reglulega í á meðan. Sósan á að þykkna svolítið og dekkjast.

  6. Hellið rjómanum og púðursykrinum út á pönnuna og blandið vel saman.

  7. Bætið bitunum út á og leyfið þessu að malla í sirka 10 mínútur. (Mér finnst gott að steikja pönnubrauðið á meðan)

  8. Toppið með fersku kóríander og vegan sýrðum rjóma (má sleppa). Berið fram með grjónum og pönnubrauði.


Einfaldasta pönnubrauð í heimi (4 stykki):

  • 2 dl hveiti plús smá til að setja á borðið þegar þið fletjið út

  • 1/2 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 3 msk ólífuolía

  • 1-2 dl vatn. Byrjið á því að setja 1 og sjáið hversu mikið þarf að bæta við

Aðferð:

  1. Hitið pönnu á frekar háum hita

  2. Blandið saman þurrefnunum.

  3. Hellið vatninu og olíunni saman við og blandið saman þar til þið fáið flott deig.

  4. Skiptið deiginu í fjóra hluta.

  5. Stráið smá hveiti á borðið og fletjið deigið úr.

  6. Steikið brauðið í nokkrar mínútur á hvorri hlið á þurri pönnu.


Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur muni líka uppskriftin!

Helga María

 
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
 

-Þessi færsla er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í uppskriftina-


Gómsætt vegan Chili

IMG_2655-2.jpg

Eins og ég hef oft talað um hérna á blogginu finnast mér pottréttir og súpur ótrúlega góður matur. Ég elska að geta skellt allskonar hráefnum í pott, leyft þeim að malla og geta svo bara borið fram án frekari fyrirhafnar. Oft er líka bara svo gott að leyfa mat að malla og taka í sig allskonar brögð. Uppskrift dagsins er einmitt af svoleiðis rétti, en ég hef gert þennan chili rétt oft síðastliðin ár og það er löngu orðið tímabært að ég birti hann hérna á blogginu.

IMG_2633-2.jpg

Árið 2016 vann ég um stund á veitingastað í Gautaborg þar sem reglulega var eldað chili. Það var á þessum veitingastað sem ég lærði að setja kakó í chili. Mér fannst tilhugsunin fyrst rosalega skrítin, en í dag finnst mér það ómissandi. Kokkurinn skellti reyndar líka alltaf vænri skvettu af Kóki í pottinn, en ég er ekki alveg komin þangað.

IMG_2639.jpg

Ég nota mjög oft vegan hakk í þennan rétt, en þar sem ég notaði það í síðustu uppskrift þá ákvað ég að nota sveppi í dag. Það er alveg jafn gott, ef ekki betra. Auk þess er rétturinn stútfullur af gómsætum baunum sem gerir chili-ið rosalega mettandi en á sama tíma alls ekki þungt í magann.

IMG_2644-2.jpg

Rétturinn er passlegur fyrir 3-4 og ég elda eiginlega aldrei minna fyrir okkur Sigga þó við séum bara tvö því það er svo gott að eiga afganga. Það er mismunand hvernig ég ber chili fram, en mér finnst eiginlega möst að toppa það með hreinni sojajógúrt eða Oatly sýrðum rjóma. Svo finnst mér alltaf jafn gott að útbúa djúsí hvítlauksbrauð með. Ef þið eruð í svakalegu stuði er geggjað að búa til “chili cheese fries” og toppa franskar með chiliréttinum og fullt af vegan osti.

IMG_2650.jpg

Eitt af því sem einkennir pottrétti oft er að það er hægt að leika sér mikið með réttina. Það er ekkert heilagt hvaða grænmeti er notað, en ég hef oft bara nýtt það sem ég á heima. Mér finnst gott að setja smá papriku í chili eða jafnvel sætar kartöflur ef ég er í svoleiðis stuði. Ég ákvað að hafa uppskriftina í dag eins og mér þykir hún allra best, og mæli mikið með því að prufa hana.

IMG_2651-2.jpg

Vegan Chili (fyrir 3-4)

  • Olía til steikingar

  • 350g sveppir

  • 2 gulir laukar

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 1 sellerístöngull

  • 2 msk tómatpúrra

  • 3 tsk sojasósa

  • 2 tsk balsamik edik

  • 2 msk kakóduft

  • 1/2 tsk kanill

  • 1 tsk chiliduft

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk cumin

  • 1 tsk oregano

  • 1 lárviðarlauf

  • salt og pipar eftir smekk

  • 2 x 400g dósir niðursoðnir tómatar

  • 2 x 400 g dósir baunir (ég notaði 1 dós af svörtum baunum og 1 dós af blönduðum baunum, en ég mæli t.d mikið með að nota nýrnabaunir)

  • 1/2 - 1 tsk sykur

Aðferð:

  1. Skerið sveppina mjög smátt niður, eins smátt og þið getið.

  2. Saxið lauk og hvítlauk niður smátt.

  3. Hellið olíu í heitan pott og bætið lauk og hvítlauk ofan í og leyfið honum að mýkjast í nokkrar mínútur.

  4. Hellið sveppunum út í ásamt smá salti sem hjálpar þeim að svitna smá í pottinum.

  5. Saxið sellerí niður og bætið út í pottinn þegar sveppirnir hafa byrjað að eldast svolítið (eftir 5-10 mínútur).

  6. Bætið kryddunum út í ásamt sojasósunni, balsamik edikinu og tómatpúrrunni og hrærið vel saman í nokkrar mínútur.

  7. Hellið niðursoðnu tómötunum út í ásamt baunum og lárviðarlaufi og leyfið að malla í sirka 20 mínútur, því lengur, því betra. Ég mæli með að bæta smá vatni út í með því að hella aðeins í dósirnar af tómötunum ( sirka 250 ml samtals) og nýta þannig allan tómatsafann sem verður eftir í botninum.

  8. Smakkið til og bætið við kryddum, salti og pipar eftir þörf.

  9. Takið lárviðarlaufið úr áður en borið er fram.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel <3

Veganistur