Gómsætt vegan Chili
/Eins og ég hef oft talað um hérna á blogginu finnast mér pottréttir og súpur ótrúlega góður matur. Ég elska að geta skellt allskonar hráefnum í pott, leyft þeim að malla og geta svo bara borið fram án frekari fyrirhafnar. Oft er líka bara svo gott að leyfa mat að malla og taka í sig allskonar brögð. Uppskrift dagsins er einmitt af svoleiðis rétti, en ég hef gert þennan chili rétt oft síðastliðin ár og það er löngu orðið tímabært að ég birti hann hérna á blogginu.
Árið 2016 vann ég um stund á veitingastað í Gautaborg þar sem reglulega var eldað chili. Það var á þessum veitingastað sem ég lærði að setja kakó í chili. Mér fannst tilhugsunin fyrst rosalega skrítin, en í dag finnst mér það ómissandi. Kokkurinn skellti reyndar líka alltaf vænri skvettu af Kóki í pottinn, en ég er ekki alveg komin þangað.
Ég nota mjög oft vegan hakk í þennan rétt, en þar sem ég notaði það í síðustu uppskrift þá ákvað ég að nota sveppi í dag. Það er alveg jafn gott, ef ekki betra. Auk þess er rétturinn stútfullur af gómsætum baunum sem gerir chili-ið rosalega mettandi en á sama tíma alls ekki þungt í magann.
Rétturinn er passlegur fyrir 3-4 og ég elda eiginlega aldrei minna fyrir okkur Sigga þó við séum bara tvö því það er svo gott að eiga afganga. Það er mismunand hvernig ég ber chili fram, en mér finnst eiginlega möst að toppa það með hreinni sojajógúrt eða Oatly sýrðum rjóma. Svo finnst mér alltaf jafn gott að útbúa djúsí hvítlauksbrauð með. Ef þið eruð í svakalegu stuði er geggjað að búa til “chili cheese fries” og toppa franskar með chiliréttinum og fullt af vegan osti.
Eitt af því sem einkennir pottrétti oft er að það er hægt að leika sér mikið með réttina. Það er ekkert heilagt hvaða grænmeti er notað, en ég hef oft bara nýtt það sem ég á heima. Mér finnst gott að setja smá papriku í chili eða jafnvel sætar kartöflur ef ég er í svoleiðis stuði. Ég ákvað að hafa uppskriftina í dag eins og mér þykir hún allra best, og mæli mikið með því að prufa hana.
Vegan Chili (fyrir 3-4)
Olía til steikingar
350g sveppir
2 gulir laukar
3 hvítlauksgeirar
1 sellerístöngull
2 msk tómatpúrra
3 tsk sojasósa
2 tsk balsamik edik
2 msk kakóduft
1/2 tsk kanill
1 tsk chiliduft
1 tsk paprikuduft
1 tsk cumin
1 tsk oregano
1 lárviðarlauf
salt og pipar eftir smekk
2 x 400g dósir niðursoðnir tómatar
2 x 400 g dósir baunir (ég notaði 1 dós af svörtum baunum og 1 dós af blönduðum baunum, en ég mæli t.d mikið með að nota nýrnabaunir)
1/2 - 1 tsk sykur
Aðferð:
Skerið sveppina mjög smátt niður, eins smátt og þið getið.
Saxið lauk og hvítlauk niður smátt.
Hellið olíu í heitan pott og bætið lauk og hvítlauk ofan í og leyfið honum að mýkjast í nokkrar mínútur.
Hellið sveppunum út í ásamt smá salti sem hjálpar þeim að svitna smá í pottinum.
Saxið sellerí niður og bætið út í pottinn þegar sveppirnir hafa byrjað að eldast svolítið (eftir 5-10 mínútur).
Bætið kryddunum út í ásamt sojasósunni, balsamik edikinu og tómatpúrrunni og hrærið vel saman í nokkrar mínútur.
Hellið niðursoðnu tómötunum út í ásamt baunum og lárviðarlaufi og leyfið að malla í sirka 20 mínútur, því lengur, því betra. Ég mæli með að bæta smá vatni út í með því að hella aðeins í dósirnar af tómötunum ( sirka 250 ml samtals) og nýta þannig allan tómatsafann sem verður eftir í botninum.
Smakkið til og bætið við kryddum, salti og pipar eftir þörf.
Takið lárviðarlaufið úr áður en borið er fram.
Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel <3
Veganistur