Dásamleg vegan lasagnasúpa
/Í dag deilum við með ykkur uppskrift að vegan lasagnasúpu. Súpan inniheldur allt sem gott lasagna inniheldur, svo sem tómata, vegan hakk, lasagnaplötur, grænmeti, gómsæt ítölsk krydd og mikið af hvítlauk. Þetta er hin fullkomna súpa að elda á köldum vetrardegi. Hún vermir svo sannarlega líkama og sál.
Uppskrift dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi og ég notaði vegan hakkið frá þeim. Við höfum lengi unnið með Anamma og erum gríðarlega stoltar af því. Vörurnar frá þeim eru svo góðar og hakkið frá þeim, bæði þetta “hefðbundna” og formbar hakkið nota ég svakalega mikið í mína matargerð. Ég hef eldað marga rétti með Anamma hakkinu fyrir vegan vini og vini sem borða kjöt og þeir hafa alltaf slegið í gegn. Þessi súpa er akkúrat dæmi um slíkan rétt.
Við erum með uppskrift af lasagnasúpu í bókinni okkar en þessi sem ég deili í dag er að mörgu leyti ólík. Mig langaði að gera hana aðeins meira eins og alvöru lasagna og ég er mjög stolt af útkomunni. Hún er virkilega bragðgóð og mettandi og ég er viss um að hún verður elduð oft í kvöldmatinn á mínu heimili á næstunni. Ég mæli með að gera hvítlauksbrauð með súpunni en uppskrift að svoleiðis brauði er að finna HÉR!
Eins og ég sagði hér að ofan inniheldur súpan gómsæt ítölsk krydd og ég notaði:
Oregano
Basiliku
Timían
Rósmarín
Majoram
Kryddin passa fullkomlega við tómatana og rjómann og gera súpuna svo dásamlega góða!
Vegan lasagna súpa
Hráefni:
Olía og/eða smjörlíki að steikja uppúr
1 meðalstór laukur
6 hvítlauksgeirar
2 meðalstórar gulrætur
2 sellerístiklar
1 msk oregano
1 msk þurrkuð basilika
1 tsk rósmarín
1 tsk timían
1 tsk majoram
pínu chiliflakes
2 msk sojasóa
325 gr hakk frá Anamma (1 lítill poki)
2 dósir niðursoðnir tómatar (hver dós 400g)
1 líter vatn
2 grænmetisteningar
1 msk balsamikedik
3 lárviðarlauf
6 lasagnaplötur
250 ml vegan matreiðslurjómi
Salt og pipar
Rifinn vegan ostur að setja í að lokum (má sleppa)
Aðferð:
Hitið olíu/smjörlíki í potti.
Saxið laukinn og bætið út í og steikið þar til hann mýkist.
Skerið niður gulrætur og sellerí og bætið út í ásamt pressuðum eða rifnum hvítlauksgeirum og steikið í nokkrar mínútur eða þar til grænmetið mýkist.
Bætið út í pottinn kryddunum, hakkinu og sojasósunni og steikið í nokkrar mínútur.
Hellið tómötunum og vatninu út í og setjið balsamikedik, lárviðarlaufin og grænmetiskraftinn út í líka og leyfið þessu að ná suðu.
Brjótið þá lasagnaplötur út í og leyfið súpunni að malla í 15-20 mínútur og verið viss um að lasagnaplöturnar séu orðnar mjúkar.
Hellið rjómanum út í og smakkið til með salti og pipar. Leyfið súpunni að hitna þar til hún nær næstum því suðu, takið þá af hellunni, stráið vegan osti yfir og hrærið honum saman við svo hann bráðni. Það má að sjálfsögðu sleppa ostinum ef þið viljið en mér finnst það gott.
Berið fram með góðu brauði og toppið með t.d. ferskri basíliku og vegan parmesanosti.
Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur uppskriftin vel!
-Helga María
-Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-