Sítrónuostakaka

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af ótrúlega gómsætri og sumarlegri sítrónuostaköku sem slær svo sannarlega í gegn. Kakan hefur virkilega gott sítrónubragð en er á sama tíma mátulega sæt og ekkert smá loftkennd og mjúk. Þessa ostaköku er hinn fullkomni eftirréttur, til dæmis eftir grillmat en hún hentar einnig fullkomlega á veisluborðið eða bara með kaffinu.

Það sem er best við þessa uppskrift er að það þarf ekki að frysta kökuna og best er að útbúa hana í fati eða öðru fallegu móti sem hægt er að bera hana fram í. Það er virkilega einfalt að útbúa kökuna og hana má bera fram samdægurs.

Kakan er svo fallega gul og því er auðvelt að skreyta hana smá til að hún verði mjög falleg á borði og gerir liturinn hana ekkert smá sumarlega. Ég notaði einungis sítrónu sneiðar og smá mynntu til að skreyta mína og kom það mjög fallega út.

Sumarleg sítrónuostakaka

Sumarleg sítrónuostakaka
Höfundur: Veganistur
Sumarleg sítrónuostakaka sem er virkilega gómsæt. Þessi kaka er fullkomin eftirréttur eftir grillmatinn eða bara með kaffinu hvenær sem er. Kökuna er hægt að útbúa sama dag og á að bera hana fram

Hráefni:

Kexbotn
  • 200 gr digestive hafrakex
  • 70 gr bráðið vegan smjör eða smjörlíki
Ostakökufylling
  • 250 ml (1 ferna) oatly þeytirjómi
  • 2 öskjur oatly rjómaostur
  • 1 dl flórsykur
  • börkur af 1 sítrónu
  • safi úr 1/2 sítrónu
Sítrónugljái
  • 1 dl mjólk
  • safi úr 3 sítrónum
  • börkur af 1 sítrónu
  • 1 dl flórsykur
  • 2 msk hveiti

Aðferð:

Kexbotn
  1. Setjið kexið í matvinnsluvél eða blandara og myljið niður
  2. Bræðið smjörið og hellið út í og blandið aðeins saman
  3. Setjið í botnin á fati eða kökuformi og þrýstið niður í botninn
  4. Geymið í kæli á meðan þið útbúið fyllinguna
Ostakökufylling
  1. Þeytið rjóman í hrærivél eða með handþeytara þar til hann verður stífþeyttur
  2. Bætið rjómaostinum, flórsykrinum, sítrónusafanum og sítrónuberkinum út í og þeytið aðeins lengur
  3. Hellið yfir kexbotnin of dreifið jafnt yfir formið
  4. Setjið í kæli á meðan þið útbúið sítrónugljáan
  1. Hristið saman mjólkina og hveitið þannig það verði ekki kekkjótt.
  2. Setjið öll hráefnin saman í pott og hitið að suðu
  3. Sjóðið í nokkrar mínútur eða þar til það þykknar örlítið
  4. Setjið í breiða, grunna skál og leyfið gljáanum að kólna í 30 mínútur áður en þið hellið honum varlega yfir kökuna.
  5. Kælið kökuna í að minnsta kosti 2 klst áður en þið berið hana fram
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Hagkaup -

 
 

Klassísk súkkulaðiterta

Súkkulaðikökur eru í miklu uppáhaldi hjá flestum. Þegar við gerðumst vegan urðu vinir og ættingar oftar en ekki stressaðir að fá okkur í afmælis- og matarboð. Þeim fannst tilhugsunin um að baka vegan köku yfirþyrmandi og ómöguleg. ,,Getið þið ekki bakað sjálfar bara, ég kann ekkert að baka svona vegan kökur" heyrðum við í hvert einasta skipti. Ástæðan fyrir því að fólk hræðist bakstur á vegan kökum er yfirleitt sá algengi misskilningur að vegan kökur innihaldi þrjátíu hráefni og að það taki marga klukkutíma að búa þær til. Það gæti hreinlega ekki verið meira fjarri sanni.

Kakan okkar er gríðarlega einföld og virkar bæði sem hefðbundin súkkulaðikaka og einnig sem dýrindis bollakökur. Þeir sem hafa smakkað hjá okkur kökuna eru yfirleitt steinhissa á því hvað hún er bragðgóð. ,,Vá þetta bragðast nú bara nákvæmlega eins og súkkulaðikakan sem ég er vön að gera."
Ástæðan er einmitt sá algengi misskilningur að vegan matur og kökur séu alltaf öðruvísi og verri á bragðið en annar matur. Aftur gæti það ekki verið meira fjarri sanni. 

Þessi uppskrift er ein af fyrstu vegan kökuuppskriftum sem við systur þróuðum og birti Helga hana fyrst fyrir mörgum árum á gömu bloggi sem hún var með. Hún varð strax lang vinsælasta uppskriftin á síðunni og var birt meðal annars á vefsíðu Kvennablaðsins. Fljótlega fór það að spyrjast út að til væri uppskrift af vegan súkkulaðiköku sem innihéldi færri en tíu hráefni og ekki bara það, að hún innihéldi einungis hráefni sem allir þekkja og flestir eiga til inni í skáp. Skyndilega hætti fólkið í kringum okkur að vera hrætt við að fá okkur í afmælisveislur. Í dag nota flestir okkar vina og fjölskyldumeðlima þessa uppskrift þegar þeir baka súkkulaðikökur þar sem þeim finnst ótrúlega þægilegt að geta boðið upp á köku sem hentar vegan fólki og er laus við flesta ofnæmisvalda.

Það er ekki einungis kakan sem slær í gegn heldur skiptir smjörkremið miklu máli líka. Það er nefnilega ekkert mál að útbúa vegan smjörkrem og það myndi enginn þekkja það í sundur frá öðru kremi. Það fæst gríðarlega gott vegan smjör í flestum búðum í dag og einnig er smjörlíki nánast alltaf vegan. Við notumst þó mest við smjörlíki í kremið þar sem það heldur vel stífleika og gerir smjörkremið fallegt og þægilegt að vinna með.

Þriðji algengi misskilningurinn hvað varðar vegan bakstur er sá að vegan kökur séu hollustukökur. Fólk setur oft upp svip þegar við segjumst ætla að baka köku því það sér fyrir sér harða hráfæðiköku úr hnetum og döðlum.  Flestir verða yfirleitt hissa yfir því hvað kökurnar eru mjúkar, sætar og gómsætar en verður þó yfirleitt mög hissa þegar það fær þau svör að kakan sé ekki endilega holl. Það er nefnilega ennþá mjög margir sem setja enn samansem merki á milli vegan og hollustu.

Svo ef þið eruð að leita ykkur að uppskrift af hollri köku er þessi uppskrift ekki fyrir ykkur. Hér er á ferð klassísk súkkulaðikaka úr hveiti og sykri og uppistaða kremsins er smjörlíki og flórsykur. 

Júlía nýtur þess mikið að útbúa fallegar kökur og hefur frá því að hún var lítil haft mjög gaman af því að skreyta kökur fallega og fylgja nýjustu “trendunum” í kökuskreytingum. Þeir sem hafa fylgst með blogginu í einhvern tíma muna líklegast vel eftir rósaköku myndunum sem voru áður við þessa uppskrift en var það mikið “trend” í kökuskreytingum þegar við útbjuggum hana fyrst. Nú hefur þó margt breyst og er mikið í tísku núna að gera háar fallegar kökur með súkkulaði sem lekur niður með hliðunum. Okkur fannst því nauðsynlegt að nýta tækifærið og uppfæra þessa vinsælu uppskrift með nýjum fallegum myndum.

Við bættum við súkkulaði ganache sem við notuðum sem fyllingu á milli kökubotnanna og til að láta leka fallega niður með hliðum kökunnar. Það þarf þó alls ekki að hafa það með og er kakan virkilega góð með smjörkreminu einu og sér. Við mælum þó með að allir prófi að setja ganache á milli með kreminu því það tekur kökuna alveg á næsta stig. Uppskriftin af því er að sjálfsögðu hér að neðan.

IMG_0212.jpg

Súkkulaðikökubotnar með smjörkremi og ganache

Súkkulaðikökubotnar með smjörkremi og ganache
Höfundur: Veganistur
( 0 reviews )
Undirbúningstími: 20 MinEldunartími: 30 Min: 50 Min
Klassísku súkkulaðikökubotnarnir hafa verið ein vinsælasta uppskriftin okkar frá upphafi. Þessi uppskrift er fullkomin í afmæliskökuna, sem skúffukaka eða í muffinsform.

Hráefni:

Súkkulaðikökubotnar
  • 3 bollar hveiti
  • 2 bollar Dan sukker sykur
  • 1/2 bolli kakó
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 2 bollar vatn (eða 2 bollar kallt kaffi)
  • 2/3 bolli bragðlaus olía - við notuðum sólblómaolíu
  • 2 tsk vanilludropar
  • 1 msk eplaedik
Einfalt súkkulaðismjörkrem
  • 400g smjörlíki eða vegan smjör við stofuhita
  • 500g Dan sukker flórsykur
  • 1/2 dl kælt, sterkt uppáhelt kaffi
  • 1 msk kakó
  • 1 tsk vanilludropar
  • 50g suðusúkkulaðisúkkulaði
Súkkulaði ganache
  • 50 gr suðusúkkulaði eða það súkkulaði sem hver og einn kýs að nota.
  • 50 gr vegan þeytirjómi

Aðferð:

Súkkulaðikökubotnar
  1. Hitið ofninn í 175°c með blæstri
  2. Blandið þurrefnum saman í skál
  3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og hrærið þar til engir kekkir eru í deiginu
  4. Smyrjið tvö kökuform og skiptið deiginu jafnt í þau. Þessi uppskrift passar akkurat í tvö 20-24 cm hringlaga kökuform eða þrjú 15 cm kökuform. Það er þó einnig hægt að baka kökuna í eldföstu móti, lítilli skúffu eða sem bollakökur.
  5. Bakið í 20-30 mínútur eða þar til tannstöngull eða grillpinni kemur hreinn út þegar honum er stungið í botnana.
Einfalt súkkulaðismjörkrem
  1. Þeytið smjörið í hrærivél eða með rafmagnsþeytara þar til það er vel mjúkt og loftkennt.
  2. Bætið öllum hráefnum nema súkkulaðinu útí og hrærið vel saman.
  3. Bræðið súkkulaðið og hellið því útí og hrærið á meðan á litlum hraða.
  4. Leyfið kökubotnunum að kólna alveg áður en kreminu er smurt á.
  5. Ath. Ef gera á þriggja hæða köku og skreyta hana þarf að gera eina og hálfa uppskrift af kreminu. Okkur þykir gott að gera tvöfalda uppskrift og ef það er afgangur þá frystum við það og notum seinna.
Súkkulaði ganache
  1. Brjótið súkkulaðið niður og skerið það í litla bita og setjið í skál sem má fara í örbylgjuofn.
  2. Vigtið rjómann og hellið honum út í skálina. Það er ekki sniðugt að slumpa þessa uppskrift þar sem við viljum fá ákveðna áferð á súkkulaðið svo hægt sé að vinna með það.
  3. Setjið súkkulaðið og rjóman í örbylgjuofn og hitið í 20 sekúndur. Takið út og hrærið til í skálinni. Setjið súkkulaði blönduna aftur í örbylgjuofn í 10 sekúndur í einu þar til súkkulaðið er alveg bráðnað. Það er best að hræra mjög vel í skálinni á milli þess sem blandan er hituð, helst með litlum sósupísk eða gaffli.
  4. Ef nota á ganache a milli botnanna er best að setja fyrst vel af smjörkremi á neðri botninn, dreifa vel úr því og búa síðan til holu í kremið í miðjunni. Ganache’ið þarf að fá að kólna aðeins og er honum síðan hellt í holuna og næsti botn settur yfir.
  5. Til að láta það lekur niður með hliðum kökunnar er mikilvægt að kæla kökuna tilbúna í allavega 30 mínútur áður. Leyfið einnig ganache’inum að kólna aðeins og prófið að láta það leka niður hliðina á glasi t.d. áður en þið byrjið á kökunni. Súkkulaði ganache’ið á að leka hægt og rólega niður glasið þegar það er tilbúið. Ef það lekur hratt í mjög mjórri bunu er það enn of heitt.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin við Nathan og Olsen -

download.png

Sítrónukaka með birkifræjum og rjómaostakremi

IMG_0099.jpg

LOKSINS er aðeins farið að birta til og vorið að koma, þó svo að það sé skítakuldi og smá snjór af og til. En þessi tími árs er í MIKLU uppáhaldi hjá mér, með meiri birtu og sól og sumarið einhvern vegin rétt handan við hornið.

Mér fannst því tilvalið að skella í eina sumarlega köku sem er að mínu mati fullkomin fyrir páskana líka. Hún er fallega gul og ótrúleqa fersk og góð á bragðið.

Ég hef mikið séð svona kökur á netinu og erlendis en ekki eins oft hérna á Íslandi og er því búin að vera að fullkomna vegan útgáfu af þessari köku. Það var þó smá bras að komast yfir birkifræ hér á andi en ég fann þau loksins í Krónunni. Það má þó alveg sleppa þeim í þessari uppskrift ef þau eru ekki til út í búð eða á heimilu fyrir. Ég mæli þó með að prófa að kaupa birkifræin og nota þau í kökuna en þau koma með skemmtilegt “twist” á áferðina og síðan eru þau fullkomin ofan á heimabakað brauð, þó svo að það sé annað mál.

kakan er í grunnin hin fullkomna vanillukaka og ef sleppt er sítrónunni og fræjunum er hægt að nota þessa uppskrift sem grunn í alls konar kökur. Í þessari útgáfu gefur sítrónusafinn og börkurinn ótrúlega ferkst og gott bragð og er kakan alveg ótrúlega sumarleg og góð. Hún passar að mínu mati líka fullkomlega með íslatte, ef við viljum missa okkur alveg í sumarfýlingnum.

IMG_0079.jpg

Sítrónubotnar með birki

  • 7,5 dl hveiti

  • 3 dl sykur

  • 3 tsk lyftiduft

  • 2 tsk matarsódi

  • 1 tsk salt

  • 5 1/2 dl plöntumjólk

  • 2 dl matarolía eða önnur bragðlaus olía

  • safi og börkur af 1 sítrónu

  • 2 msk eplaedik

  • 2-3 msk birkifræ

Aðferð:

  1. Hitið ofnin í 180 gráður.

  2. Byrjið á því að balnda saman í skál plöntu mjólkinni, sítrónusafanum og berkinum ásamt edikinu og leggið til hliðar.

  3. Hrærið þurrefnin saman í aðra skál, bætið síðan út í mjólkurblöndunni og olíunni og hrærið vel saman.

  4. Bætið birkifræunum saman við og hrærið aðeins.

  5. Skiptið í tvö 24 cm form eða þrjú 18 cm form og bakið í ofninum í 30 mínútur, eða þar til tannstöngull eða grillpinni kemur hreinn út þegar honum er stungið í einn botninn.

Rjómaostakrem með sítrónu (miðað við þriggja hæða köku)

  • 250 gr hreinn vegan rjómaostur (t.d. oatly)

  • 400 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 2 pakkar flórsykur. (ég vil hafa kremið mjög stíft til að skreyta með því en þá minnka sykurinn ef hver og einn vill)

  • safi úr 1/2 sítrónu

Aðferð:

  1. Byrjið á því að þeyta smjörlíkið vel eitt og sér í hrærivél eða með handþeytara.

  2. Bætið rjómaostinum út í og þeytið vel saman við smjörlíkið.

  3. Bætið flórsykri út í ásamt sítrónusafanum og þeytið vel.

  4. Skreytið kökuna eins og hver og einn vill.

-Njótið vel og takk fyrir að lesa <3

Sjónvarpskaka og klassísk rjómaterta │ Veganistur TV │ 6.þáttur

Sjónvarpskaka:

  • 7,5 dl hveiti

  • 3 dl sykur

  • 3 tsk lyftiduft

  • 2 tsk matarsódi

  • 1 tsk salt

  • 7,5 dl vegan mjólk (ég notaði haframjólk)

  • 2 dl rapsolía eða önnur bragðlaus olía

  • 1,5 tsk vanilludropar

  • 2 msk eplaedik

Kókosmjölskaramella

  • 150 gr smjör

  • 300 gr púðursykur

  • 200 gr kókosmjöl

  • 1 dl oatly mjólk

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c

  2. Blandið saman þurrefnunum í stóra skál

  3. Bætið restinni af hráefnunum útí og hrærið saman þar til engir kekkir eru.

  4. Klæðið formið með bökunarpappír. Mér finnst gott að smyrja smá smjörlíki í botninn og hliðarnar og þá festist bökunarpappírinn vel við formið. Eins og ég tók fram hér að ofan nota ég form sem er 42x29x4 cm.

  5. Hellið deiginu út í formið og bakið í miðjum ofni í 30 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn út þegar þið stingið í hana. Ég myndi kíkja á hana eftir 25 mínútur.

  6. Útbúið kókosmjölskaramelluna á meðan að kakan er í ofninum

  7. Bæriði saman í potti smjörlíkið og púðuryskurinn við meðalháan hita.

  8. Bætið kókosmjölinu og mjólkinni út í þegar sykurinn hefur bráðnað alveg og hrærið saman og leyfið að hitna vel í svona 5 mínútur í viðbót.

  9. Takið kökuna úr ofninum þegar hún er bökuð í gegn.

  10. Spyrjið kókoskaramellunni yfir kökuna og setjið hana aftur í ofnin í 10 til 15 mínútur.

Rjómaterta eins og amma gerði hana

  • Hvítir rjómatertu botnar

  • Oatly vanillurjómi

    • 1 dl vegan þeytirjómi

    • 1 dl oatly vanillusósa

  • Niðursoðnir ávextir

  • Hvítt smörkrem

    • 200 gr smjörlíki

    • 1/2 dl Oatly vanillusósa

    • 400 gr flórsykur

    • 1 tsk vanilludropar

Aðferð:

  1. Útbúið sama deig og hér að ofan en skiptið því í tvö kringlótt form og bakið eftir leiðbeiningum hér að ofan.

  2. Þeytið saman vegan rjóman og Oatly vanillusósuna og setjið til hliðar.

  3. Útbúið smjörkremið en þá byrjið þið á því að þeyta mjúkt smjörlíki í hrærivél, bætið síðan út í Oatly vanillusósunni og þeytið aðeins lengur. Bætið þá restinni af hráefnunum út í og þeytið saman.

  4. Þegar kakan er sett saman byrja ég á því að bleyta upp í öðrum botninum með smá vökva úr niðursoðnum ávöxtum.

  5. Næst sprauta ég hring á brúnina af botninum með smörkremi, fylli inn í hringin með vanillurjómanum og dreyfi síðan niðursoðnum ávöxtum yfir.

  6. Það er best að leyfa kökunni að kólna vel inn í ísskáp áður en spurt er restinni af smjörkreminu yfir hana til að hún klessist ekki saman.

  7. Dreyfið úr smjörkreminu yfir alla kökuna og skreytið að vild.

Þessi færsla er unninn í samstarfi við Oatly á Íslandi og Krónuna

Oatly_logo_svart.png
 
KRONAN-merki.png

Crunchy rabbabarakaka

IMG_7957.jpg

Haustið og veturinn er líklegast minn uppáhalds tími hvað varðar mat. Það er ekkert betra en góðar súpur, kássur og haustlegar kökur og tengi ég haustið alltaf við slíkan mat. Nú þegar haustið er handan við hornið er þessi gómæsta rabbabarakaka hin fullkomna kaka fyrir kósý helgarbakstur eða sem eftirréttur í gott matarboð.

IMG_7887.jpg

Mér finnst rabbabari ótrúlega góður og fannst því fullkomið að gera mjúka rabbabara köku með “crunchy” toppi þessa vikuna. Það kom mér þó á óvart hversu erfitt er að finna rabbabara út í búð þar sem ég átti alls ekki í vandræðum með að þefa hann uppi hvar sem er þegar ég var barn.

IMG_7897.jpg
IMG_7901.jpg

Ég kíkti í Hagkaup en ég fékk skilaboð um að einhverjir hefðu séð hann þar fyrr í sumar en þau áttu hann ekki til ennþá. Ég fékk einhver skilaboð um að hann fengist í frú Laugu en ég kíkti ekki þangað þar sem mamma vinkonu minnar var svo góð að gefa mér einn poka sem hún átti í frysti.

Það er þó allt í góðu ef þú finnur ekki rabbabara eða jafnvel finnst hann ekki góður þar sem það má alveg nota aðra ávexti í staðinn. Epli passa til dæmis ótrúlega vel með þessari uppskrift og ég gæti trúað því að hindber eða bláber gætu gætu gert það líka en ég ætla klárlega að prófa það á næstunni.

Þessi kaka er því fullkomin grunnur til að leika sér með en ég elska slíkar uppskriftir. Kakan er bökuð í lítilli skúffu sem er 30x20 cm en það má líka baka hana í venjulega hringformi en þá þarf að helminga uppskriftina.

IMG_7952.jpg

Hráefni:

  • 150 gr niðurskorinn rabbabari

  • 1 dl sykur

  • 150 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 2 dl sykur

  • 5 dl hveiti

  • 2 tsk matarsódi

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1 tsk salt

  • 1 tsk vanilludropar

  • 2 msk eplaedik

  • 5 dl mjólk

Aðferð:

  1. Hitið ofnin á 175° C

  2. Skerið rabbabaran í sneiðar og blandið einum dl af sykri saman við bitana. Setjið til hliðar á meðan deigið er undirbúið.

  3. Þeytið saman sykur og smjör með rafmagnsþeytara eða í hrærivél þar til létt og ljóst.

  4. Blandið þurrefnunum saman í annari skál og hellið út í smjörblönduna ásamt mjólkinni, edikinu og vanilludropunum.

  5. Hrærið saman þar til deigið er slétt og laust við kjekki. Ekki hræra deigið of lengi.

  6. Smyrjið form með smjörlíki, olíu eða setjið smjörpappír í botninn. Dreifið úr rabbabaranum í formið og hellið deiginu yfir. Útbúið haframjöls”crumble” og stráið yfir. Bakið í 40 mínútur þar til kakan er fallega gyllt að ofan og tannstöngull kemur hreinn út þegar honum er stungið í kökuna.

Haframjöls”crumble”

  • 2 dl haframjöl

  • 1 dl hveiti

  • 1 & 1/2 dl púðursykur

  • 100 gr mjúkt vegan smjör eða smjörlíki

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin saman í skál.

  2. Skerið smjörið í bita og hrærið saman við þurrefnin. Best er að nota bara hendurnar til að ná öllu saman í stóran “klump”. Deigið á að vera frekar þurrt og molna auðveldlega.

  3. Stráið yfir kökuna og bakið í 40 mínútur, þar til kakan er fallega gyllt að ofan og tannstöngull kemur hreinn út þegar honum er stungið í kökuna.

Kökuna má bera fram heita, beint úr ofninum, með vegan ís eða rjóma eða kalda eina og sér eða með rjóma.

Njótið vel

Stór vegan súkkulaðibitakaka með karamellusósu

IMG_1367-2.jpg

Í dag færi ég ykkur uppskrift af stórri vegan súkkulaðibitaköku með karamellusósu og ís. Kakan er hinn fullkomni desert og mun svo sannarlega stela senunni við ýmis tilefni.

IMG_1285.jpg

Þessi kaka er virkilega skemmtilegur eftirréttur að bjóða uppá t.d. í matarboðum eða veislum. Hún smakkast eins og venjulegar súkkulaðibitakökur en það er mun auðveldara að útbúa hana og borin fram volg með vanilluís er hún betri en nánast allt annað í heiminum! Já stór orð, en ég stend við þau!

Færslan er í samstarfi við Hagkaup og þar fást allar þær vörur sem þarf í uppskriftina. Eins og við höfum nefnt áður er mikið úrval af góðum vegan vörum í Hagkaup og við elskum að versla þar. Ég notaði í þetta sinn suðusúkkulaði í kökuna, en get ímyndað mér að það sé ótrúlega gott að leika sér með uppskrifitina og nota eitthvað af gómsætum vegan súkkulaðistykkjunum sem fást í Hagkaup. Mín uppáhalds eru Jokerz sem er eins og vegan útgáfa af snickers, Twilight sem er eins og Mars og Buccaneer sem er eins og Milky way. Í Hagkaup fást einnig allskonar tegundir af vegan ís sem er góður með kökunni. Við mælum mikið með ísnum frá Oatly og Yosa.

IMG_1311.jpg

Karamellusósan er sú sama og í uppskriftinni af Döðlukökunni (mæli með að prófa döðlukökuna ef þið hafið ekki gert það). Ég leyfði sósunni þó að þykkna aðeins meira fyrir þessa uppskrift og hún passaði fullkomlega með kökunni og ísnum.

Þegar kakan er borin fram heit er hún svolítið klesst að innan sem mér finnst alveg ótrúlega gott. Það er mikilvægt að baka hana ekki of lengi þvi þá verður hún bara eins og hörð smákaka. Við viljum hafa hana svolítið “gooey!”

IMG_1356.jpg

Ég vona innilega að þið bakið kökuna og látið okkur vita hvað ykkur finnst. Þið hafið verið dugleg að tagga okkur á Instragram uppá síðkastið og okkur þykir enn og aftur ótrúlega vænt um það.

IMG_1349.jpg

Takk innilega fyrir að lesa! <3

-Helga María

Æðisleg stór vegan súkkulaðibitakaka

Æðisleg stór vegan súkkulaðibitakaka
Höfundur: Helga María
Eldunartími: 30 MinHeildartími: 30 Min

Hráefni:

  • 200 gr. smjörlíki
  • 2 dl púðursykur
  • 1,5 dl sykur
  • 1 hörfræsegg (1 msk möluð hörfræ + 3 msk vatn)
  • 1 tsk vanilludropar
  • 5 dl hveiti (Ath að til að fá rétt magn af hveiti mæli ég með að nota skeið til að setja hveitið í dl málið í stað þess að moka upp hveiti með málinu því með því að moka beint upp með dl málinu er hætta á að pakka inn alltof miklu hveiti)
  • 1 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 200 gr. saxað suðusúkkulaði (eða annað vegan súkkulaði)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°c
  2. Byrjið á því að gera hörfræseggið með því að blanda 1 msk möluðum hörfræjum saman við 3 msk vatn og láta standa í nokkrar mínútur þar til það hefur þykknað svolítið.
  3. Bræðið smjörlíkið og hrærið saman við púðursykur og sykur með písk.
  4. Bætið hörfræsegginu og vanilludropunum út í og hrærið saman.
  5. Hrærið hveiti, lyftidufti, salti og matarsóda saman í aðra skál og bætið út í smjörblönduna í skömmtum og hrærið saman með sleikju eða sleif. Ég bæti hveitinu í skömmtum svo deigið verði ekki of þurrt.
  6. Saxið súkkulaðið og setjið út í skálina og blandið saman við með sleikju eða sleif. Geymið smá af súkkulaðinu til hliðar sem þið setjið ofan á deigið þegar það er komið í formið.
  7. Smyrjið steypujárnspönnu eða kökuform með smjörlíki.
  8. Setjið deigið ofan í og toppið með reistinni af súkkulaðinu.
  9. Bakið í 20-25 mínútur eða þar til kakan er orðin svolítið gyllt að ofan. Eins og ég sagði hér að ofan er kakan svolítið klesst að innan ef hún er borðuð heit en það er alveg eins og það á að vera.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur
 
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
 

-Færslan er unnin í samstarfi við Hagkaup og þar fást allar vörurnar í uppskriftina-

Hvít lagterta með sultu

IMG_9934.jpg

Þá er komið að annarri uppskriftinni okkar í samstarfi við Naturli. Í þetta sinn deilum við með ykkur dásamlegri uppskrift af hvítri lagtertu. Lagtertan hefur ýmis nöfn, randalína, vínarterta, lagkaka og örugglega fleiri, en ég ákvað að hér skuli hún heita hvít lagterta.

Eins og við nefndum í síðustu færslu ætlum við að útbúa fjórar dásamlegar uppskriftir af jólabakstri þar sem við notum vegan smjörlíkið frá Naturli. Smjörlíkið er að sjálfsögðu vegan en það er líka lífrænt og útbúið úr Sea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Það hentar fullkomlega í bakstur og til steikingar. Mikilvægt er þó að ruglast ekki á hinu smjörinu þeirra (smörbar), en það er til að smyrja á brauð. Bæði smjörin og hinar vörurnar þeirra notum við gríðarlega mikið og erum við því ekkert smá ánægðar að vera í samstarfi við Naturli fram að jólum. Smjörlíkið fæst í Bónus, Krónunni, Melabúðinni og Fjarðarkaup.

Þegar ég byrjaði að vinna að uppskriftinni uppgvötaði ég að lagtertan hefur ekki bara ýmis nöfn, heldur er mjög mismunandi hvernig hún er gerð. Sumir vilja hana hrærða á meðan aðrir hafa hana hnoðaða og svo er hún ýmist smurð með rabbabarasultu, sveskjusultu, jarðarberjasultu, smjörkremi, smjörkremi og sultu, súkkulaðikremi… listinn heldur áfram.
Síðan ég flutti erlendis hef ég saknað rabbabarasultunnar mikið. Ég veit vel að ég gæti gert mína eigin en hef ekki enn komið mér í það. Ég var fremur ómöguleg yfir því að geta ekki notað hana í lagtertuna, en mamma huggaði mig með því að segja mér frá því að í okkar fjölskyldu hafi lengi verið hefð að nota jarðarberjasultu því hér áður fyrr var hún talin fínni og var því notuð til hátíðarbrigða. Ég jafnaði mig svo almennilega þegar ég smakkaði lagtertuna mína með jarðarberjasultunni því hún er ekkert smá góð.

IMG_9888.jpg

Mamma gerir alltaf hrærða lagtertu en tengdamamma hnoðaða svo ég prufaði að gera bæði og fannst hún koma betur út hjá mér hnoðuð. Þær voru báðar ótrúlega góðar en fannst hnoðaða aðeins meira skothelld. Ég nota aquafaba (kjúklingabaunavökva) í staðinn fyrir egg og það virkar mjög vel í þessa uppskrift. Aquafaba er vökvinn sem fylgir kjúklingabaunum í dós. Hann er sigtaður frá baununum og er próteinríkur og virkar því eins og eggjahvítur í margar uppskriftir.

IMG_9895.jpg

Ég vona að ykkur þyki þessi lagterta jafn góð og mér. Það eru mörg ár síðan ég smakkaði svona hvíta lagtertu síðast og ég saknaði hennar ekkert svakalega. Eins varð Siggi ekkert rosalega spenntur þegar ég sagði honum að ég ætlaði að baka svoleiðis fyrir bloggið. En við urðum bæði svo hissa þegar við smökkuðum kökuna því hún er svooo góð. Mér finnst hún alveg jafn góð og þessi brúna og mun héðan í frá baka báðar fyrir jólin.

IMG_9928-2.jpg

Þegar ég sit og skrifa þetta er Júlía stödd á bókamessunni í Hörpu að kynna bókina okkar sem kemur í búðir eftir tæpar tvær vikur. Ég viðurkenni að á svona stundum er erfitt að vera stödd í öðru landi og geta ekki tekið fyllilega þátt en ég er samt gríðarlega hamingjusöm og þakklát. Stundum vildi ég bara að ég gæti verið á mörgum stöðum í einu. Ég hlakka þó gríðarlega til að koma í janúar og halda útgáfuhóf og taka þátt í veganúar á Íslandi.

Hvít lagterta

  • 500 gr hveiti

  • 250 gr sykur

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 1/2 tsk salt

  • 250 gr Naturli smjörlíki við stofuhita

  • 1 tsk vanilludropar

  • 6 msk aquafaba (kjúklingabaunasafi. Sjá útskýringu á því hvað það er hér að ofan)

  • 2 msk vegan mjólk

  • Sulta eftir smekk til að smyrja. Ég notaði jarðarberjasultu og það fóru sirka 400 gr alls á kökuna.

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c

  2. Blandið þurrefnunum saman.

  3. Bætið mjólk, aquafaba og vanilludropum út í og myljið smjörlíkið út í.

  4. Hnoðið saman. Sjálf á ég ekki hrærivél svo ég notaði hnoðarana á rafmagnsþeytaranum til að koma deiginu aðeins saman og tók svo við með höndunum. Það er þó líklega þægilegast að nota hrærivél.

  5. Skiptið deiginu í akkúrat tvo hluta og fletjið þá út á tvær ofnplötur. Mínir botnar urðu sirka 28x32 cm hvor.

  6. Bakið botnanna í 20 mínútur. Ég fylgdist vel með þeim og þar sem ofninn minn er stundum svolítið lélegur og er ekki með blástur þá tók ég efri botninn út aðeins á undan hinum sem ég færði svo aðeins ofar í nokkrar mínútur.

  7. Leyfið botnunum að kólna og skerið þá svo í tvennt langsum (sjá mynd að ofan). Smyrjið botnanna og leggið þá saman.

  8. Ég gerði þau mistök þegar ég gerði kökuna fyrst að reyna að skera hana niður í sneiðar um leið og ég setti hana saman. Botnarnir voru þó svo harðir að sultan kreistist út til hliðanna og allt fór svolítið í klessu. Ég hringdi því í mömmu og tengdamömmu og fékk ráð. Kakan mýkist þegar hún fær að standa í svolitla stund og botnarnir draga í sig sultuna og þá er ekkert mál að skera hana. En til að fá sem fallegastar sneiðar bentu þær mér á að gott sé að skera kökuna hálf frosna. Það gerði ég í þetta sinn. Ég tók hana út frystinum um klukkustund áður en ég vildi skera hana niður. Þegar hún var hálf þiðnuð lagði ég hana upp á hlið og skar sneiðarnar svoleiðis. Þannig náði ég mjög fínum sneiðum.

Takk fyrir að lesa og njótið!
Veganistur

 
naturlilogo.png
 

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli á Íslandi-

Vegan galette með eplum og karamellusósu

IMG_9683.jpg

Jæjaaaa….

Þá erum við loksins mættar aftur eftir nokkra mánaða pásu sem fór að mestu í að útbúa matreiðslubókina okkar sem kemur út í loks ársins. Ég (Helga) er komin aftur til Piteå og byrjuð í skólanum og er hægt og rólega að komast aftur í góða rútínu.

Það hefur sjaldan verið jafn erfitt að byrja að blogga aftur eftir pásu eins og núna. Mér hefur liðið svolítið eins og ég sé uppiskroppa með hugmyndir. Eins og allt það sem ég kunni sé nú þegar á blogginu eða í bókinni okkar. Ég hef því aðeins verið að leika mér í eldhúsinu til að finna aftur sköpunargleðina í matargerðinni. Það hefur verið ljúft að fá smá tíma til að koma mér aftur af stað og á síðustu vikum hafa allskonar hugmyndir kviknað.

IMG_9665.jpg

Ég hef tekið eftir því uppá síðkastið að galette bökur eru í mikilli tísku á Instagram. Það virðist vera eitthvað við ófullkomið og “rustic” útlitið á þeim sem heillar marga matarljósmyndara. Ég var ekki alveg sannfærð þegar ég sá myndir af þessum bökum fyrst. Mér fannst þær líta mjög vel út en skildi ekki alveg æðið. Mig fór þó með tímanum að langa að prófa og ákvað að lesa mér smá til. Galette er franskt orð yfir flata kringlóta köku. Algengt er að galette bökur séu gerðar með því að útbúa bökudeig, fletja það út og leggja yfir það fyllingu sem annað hvort er sæt eða sölt. Endarnir á deiginu eru svo brotnir yfir fyllinguna og bakan bökuð í ofninum.

IMG_9668.jpg

Ég prófaði fyrst að útbúa míní útgáfur fylltar með bláberjum og þær smökkuðust mjög vel, en ég var svolítið óþolinmóð og kældi deigið alltof stutt og notaði smjörlíki við stofuhita í stað þess að hafa það kalt eins og mælt er með að gera. Deigið var því svolítið erfitt að meðhöndla og rifnaði auðveldlega. Ég las mér svo til og fékk nokkur ráð á Instagram og komst að því að mikilvægt er að nota ískalt smjör, ískalt vatn og kæla deigið vel. Ég fór eftir þeim ráðum í dag og bakan varð dásamlega góð og allt annað að meðhöndla deigið.

IMG_9671.jpg

Um daginn kom á markað nýtt smjörlíki frá merkinu Naturli. Vegan “smörbar” smjörið þeirra hefur fengist í svolítinn tíma og hefur bókstaflega slegið í gegn því það er bæði laust við pálmaolíu og bragðast ótrúlega vel. Ég var því svakalega spennt þegar ég frétti að þau framleiddu einnig smjörlíki sem hentar til baksturs og steikingar. Smjörlíkið þeirra er eins og smörbar smjörið laust við pálmaolíu og er búið til úr shea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Ég er nú búin að prófa að baka aðeins úr því og það er dásamlega gott. Smörbar smjörið fæst nú þegar í öllum helstu verslunum landsins en smjörlíkið er einnig væntanlegt í verslanir á næstunni.

IMG_9673.jpg

Ég er svakalega spennt að prófa fleiri útgáfur af svona galette bökum. Margir útbúa þær með tómötum og góðum jurtum. Ég sé fyrir mér að það gæti verið dásamlega gott að útbúa fyllingu úr möndlu ricotta osti, ferskum tómötum og toppa svo með ferskum jurtum, sítrónusafa og berki, sjávarsalti og ólífuolíu. Ég myndi þá sleppa sykrinum í botninum og bæta við kannski einhverjum kryddum. Eða hafa hann bara klassískan.

IMG_9684.jpg

Mér þætti gaman að heyra hvort þið hafið einhverjar óskir um uppskriftir núna í vetur. Það fer til dæmis að líða að jólunum, minni uppáhalds árstíð (já jólin eru í mínum bókum heil árstíð), og ég vil að sjálfsögðu útbúa fyrir ykkur eins mikið af gómsætum hátíðaruppskriftum og ég mögulega get! Eins og ég segi hefur pásan verið ansi löng og því þætti mér mjög vænt um ef fólk kæmi með skemmtilegar uppástungur eða áskoranir.

IMG_9689.jpg

Galette með eplum

Botninn

  • 3 og 1/2 dl hveiti

  • 1 dl sykur

  • 1/2 tsk salt

  • 120 g kalt smjörlíki

  • ca 40 ml ískalt vatn (ég byrja á því að setja 2 msk í einu og bæti svo við eftir þörfum)

  • Möndluflögur til að strá á skorpuna (má sleppa)

  • Aquafaba (kjúklingabaunasafi) til að smyrja skorpuna. Það er líka hægt að nota vegan mjólk.

Fyllingin

  • 3-4 epli (ég notaði 3 og 1/2)

  • 1 dl púðursykur

  • 2 msk sítrónusafi plús smá börkur

  • 1 msk kanill

  • 1/2 tsk malað engifer

  • 1/4 tsk múskat

  • 1 og 1/2 msk hveiti

Karamellusósa

Uppskrift HÉR

Aðferð:

  1. Blandaðu í skál hveiti, sykri og salti.

  2. Skerðu kalt smjörlíki í kubba og notaðu puttana til að brjóta það niður og blanda gróflega við hveitið. Á ensku er þetta útskýrt þannig að smjörið eigi að vera á stærð við “pea” eða græna baun. (Veit ekki aaalveg með þá myndlíkindu á íslensku hehe.)

  3. Bættu ísköldu vatni útí í skömmtum og hrærðu saman með sleif. Ég set nokkrar matskeiðar í einu og bæti svo við eftir þörf.

  4. Stráðu hveiti á borð og færðu deigið yfir á það. Ekki hnoða það mikið en mótaðu úr því kúlu. Pakkaðu henni inní plastfilmu og settu í ísskáp í klukkustund.

  5. Afhýddu eplin og skerðu niður í sneiðar.

  6. Settu þau í stóra skál og hrærðu saman við þau restinni af hráefninum. Legðu til hliðar.

  7. Stráðu hveiti á borð og flettu út deigið í hring. Leggðu fyllinguna á miðja bökuna og hafðu smá spássíu til hliðana svo hægt sé að brjóta deigið aðeins yfir. Það þarf þó ekki að vera mikið pláss, en samt þannig að það nái að pakka fyllingunni aðeins inn.

  8. Brjóttu deigið yfir. Mundu að þetta á ekki að vera fullkomið. Galette bökur eru gerðar til þess að vera svolítið rustic og heimagerðar.

  9. Pennslaðu smá aquafaba eða mjólk yfir skorpuna og stráðu yfir möndluflögum og sykri.

  10. Bakaðu við 190°c í 30-40 mínútur eða þar til bakan er orðin gyllt og fín.

  11. Útbúðu karamellusósuna á meðan.

  12. Leyfið bökunni að kólna í 10 mín áður en hún er skorin. Vanilluís eða vanillusósa er að mínu mati nauðsyn með bökunni.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur líki vel.

Helga María

Vegan döðlukaka með karamellusósu

IMG_2588.jpg

Uppskrift dagsins er af döðluköku með heitri karamellusósu. Þessi kaka kallast á ensku “Sticky toffee pudding” og er alveg dásamlega góð og með karamellusósunni og ísnum er þetta held ég bara besti desert sem ég hef smakkað lengi. Ég hlakka mikið til að bjóða upp á þessa köku næst þegar ég held matarboð.

IMG_2552.jpg

Þegar maður sér orðið “döðlukaka” hugsa margir eflaust fyrst að um sé að ræða holla hráköku. Ég hef allavega lengi tengt döðlur við sykurlausan bakstur og hráfæðinammi, en þessi kaka er langt frá því að vera sykurlaus eða hrá. Upprunalega ætlaði ég mér að gera eitthvað allt annað fyrir bloggið þessa viku, en svo var okkur send fyrirspurn á Instagram í síðustu viku um hvort við gætum gert uppskrift af vegan döðluköku. Ég tók þessari áskorun fagnandi og er ekkert smá ánægð með það. Ég er eiginlega hissa á að mér hafi ekki dottið þetta í hug fyrr. Eins og ég hef sagt áður þykir mér gríðarlega vænt um að fá hugmyndir frá ykkur að uppskriftum til að baka eða elda og verð alltaf mjög spennt þegar ég fæ áskorun um að útbúa eitthvað nýtt.

IMG_2555.jpg

Ég held ég hafi aldrei bakað jafn mikið á jafn stuttum tíma og ég hef gert síðustu vikur. Ég er búin að baka möndluköku þrisvar og bakaði marmarakökuna tvisvar áður en ég birti hana á blogginu. Ég hélt svo afmælisveislu síðustu helgi og bakaði fyrir hana súkkulaðiköku, gulrótarköku og tvo skammta af súkkulaðibitamöffins. Svo á sunnudagskvöld ákvað ég að baka marmarakökuna aftur og sýna á Instastory. Ég er svo búin að baka þessa döðluköku bæði í gær og í dag og á núna fullan frysti af kökum. Ég þarf að vera duglegri að gefa frá mér það sem ég baka svo ég endi ekki á því að borða það allt sjálf. Allar kökurnar sem ég nefni eru að sjálfsögðu hérna á blogginu.

Eins og ég sagði bakaði ég döðlukökuna líka í gær. Ég hafði verið með hugmynd í hausnum um hvernig ég ætlaði að baka hana og var svo bjartsýn að ég ákvað að baka hana í fyrsta sinn og taka myndir fyrir bloggið á sama tíma. Það endaði þannig að ég var mjög óörugg í bakstrinum og myndirnar urðu alls ekki góðar heldur. Í dag er ég mjög fegin að hafa þurft að endurtaka leikinn því þetta gekk miklu betur í dag og bæði kakan og myndirnar komu mun betur út.

IMG_2572.jpg

Þegar ég bakaði kökuna í gær hélt ég fyrst að hún hefði misheppnast, en áttaði mig á því aðeins seinna að svo var ekki. Þegar ég skar hana var hún enn svolítið heit og leit út fyrir að vera svolítið óbökuð í miðjunni. Þó hafði ég stungið í hana og gaffallinn kom hreinn út svo ég skildi ekki alveg af hverju hún var svona klístruð að innan. Ég varð í smá stund alveg hundfúl yfir þessu en þegar kakan hafði kólnað sá ég hvernig hún var nú bara alveg bökuð í gegn. Það var þá sem ég áttaði mig á því að döðlurnar í kökunni gera hana klístraða, og að hún var fullkomlega vel bökuð. Ég hló í svolitla stund að sjálfri mér, bæði því ég hefði átt að fatta þetta, en líka því ég er svo fljót stundum að verða dramatísk. Ég bakaði svo kökuna í dag meðvituð um þetta og hún varð fullkomin.

IMG_2574.jpg

Eitt sem ég breytti þó í dag, sem fór aðeins úrskeiðis í gær er karamellusósan. Í gær varð hún nefnilega rosalega þykk hjá mér svo ég passaði að það gerðist ekki í dag. Málið er að það tekur svolítinn tíma fyrir hana að þykkna og mér fannst ég standa og hræra í henni mjög lengi án þess að nokkuð gerðist, en svo skyndilega byrjaði hún að þykkna og varð rosalega þykk á stuttum tíma. Ekki misskilja mig, sósan var svo góð að ég hefði getað borðað hana með skeið, en það gekk ekkert rosalega vel að hella henni yfir kökuna. Í dag gerði ég uppskriftina alveg eins, en passaði mig að láta hana ekki þykkna svona svakalega. Ég stóð því og hrærði í henni og tók vel eftir því þegar hún fór að þykkna og tók hana af hellunni um leið og hún var komin með þá áferð sem ég vildi.

Ég er mjög ánægð með þessa útkomu og vona svo innilega að ykkur líki vel. Ég hlakka líka til að deila með ykkur uppskriftunum sem eru væntanlegar á næstunni, ég hef ekki verið í svona miklu bloggstuði lengi og vona að það haldist hjá mér. Ég er líka að reyna að vera dugleg á Instagram og þætti mjög vænt um að þið mynduð fylgja okkur þar! <3

IMG_2583.jpg

Hráefni:

  • 250 gr þurrkaðar döðlur

  • 3 dl vatn

  • 1 tsk matarsódi

  • 100 gr smjörlíki við stofuhita

  • 130 gr púðursykur

  • 1 tsk lyftiduft

  • Örlítið salt

  • 2 og 1/2 dl hveiti

  • 1 msk eplaedik

  • 1 dl jurtamjólk


Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C.

  2. Saxið döðlurnar gróft niður og setjið í pott ásamt vatni og sjóðið á lágum hita í 5 mínútur eða þar til þær hafa mýkst svolítið.

  3. Takið þær af hellunni og stappið vel með gaffli, eða kartöflustappara. Það er líka hægt að mauka þær með töfrasprota eða matvinnsluvél, en mér finnst nóg að stappa bara með svona kartöflustappara.

  4. Stráið matarsóda yfir döðlumaukið og blandið honum vel saman við og leyfið að standa í smá stund. Ég geri þetta bara í pottinum sem ég sauð þær í. Maukið mun freyða svolítið þegar matarsódinn er kominn í.

  5. Þeytið smjörlíki og púðursykur þar til blandan er orðin létt og svolítið ljós. Bætið svo restinni af hráefnunum út í og hrærið vel saman.

  6. Smyrjið kökuform. Ég nota eiginlega alltaf kringlótt smelluform sem er 20 cm að stærð og eru uppskriftirnar mínar oftast akkúrat passlegar í það. Ef þið eruð að nota miklu stærra form myndi ég tvöfalda uppskriftina. Ég á t.d eitt 26 cm form sem ég nota voða sjaldan og ég myndi held ég gera þessa uppskrift tvöfalda í það. Ég klippi líka út smá smjörpappír og set í botninn, bara því mér finnst það svo þægilegt.

  7. Bakið kökuna í 40-50 mínútur. Minn ofn er ekki með blæstri og ég bakaði mína köku í 50 mínútur. Ég byrjaði þó að fylgjast með henni eftir 35 mínútur til að vera viss.

Karamellusósa:

  • 1 og 1/2 dl Alpro sojarjómi

  • 120 gr smjörlíki

  • 120 gr púðursykur

  • Örlítið salt

Aðferð:

  1. Setjið allt í pott og hrærið vel saman.

  2. Látið suðuna koma upp og hrærið reglulega í pottinum þar til þið fáið þá áferð sem þið viljið. Ég vildi ekki hafa mína of þykka og passaði því í þetta skiptið að hræra ekki alltof lengi. Ég þurfti samt að sýna svolitla þolinmæði því það tók nokkrar mínútur fyrir sósuna að byrja að þykkna, en þegar það gerðist þá þykknaði hún mjög hratt.

Tips: Kakan er ótrúlega góð ein og sér með karamellusósunni, en Guð minn góður hvað vegan vanilluísinn fullkomnaði hana. Mæli því mikið með að kaupa einhvern góðan vegan ís og bera fram með henni.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að þið njótið. Við höfum verið að fá margar myndir á Instagram uppá síðkastið frá fólki sem hefur verið að elda og baka uppskriftir frá okkur, og okkur þykir ekkert smá vænt um það.

Veganistur <3

Vegan marmarakaka

IMG_2419-3.jpg

Við fengum fyrirspurn fyrir nokkrum dögum um hvort við ættum uppskrift af vegan marmaraköku. Við áttum enga slíka uppskrift svo ég ákvað að slá til og prufa mig áfram með svoleiðis köku og í dag er ég komin með dásamlega góða uppskrift. Kakan er svo ótrúlega góð og er alveg dúnmjúk eins og mér þykir best. Okkur finnst svo skemmtilegt þegar þið sendið okkur hugmyndir af uppskriftum til að prufa. Mér finnst ég oft svo hugmyndasnauð og því er gott að fá smá extra hjálp við að koma sér af stað og reyna eitthvað nýtt.

IMG_2384.jpg

Mér finnst ótrúlega gaman að vera farin að prufa mig áfram með fleiri köku uppskriftir. Ég hef verið svolítið föst í því að baka alltaf það sama fyrir hvert tilefni, og það er þá yfirleitt súkkulaðikakan okkar eða gulrótarkakan. Báðar eru alveg dásamlega góðar, en mér finnst mjög skemmtilegt að hafa úr fleiru að velja. Í síðustu viku birti ég uppskrift af þessari dásamlegu vegan möndluköku og í dag er það þessi æðislega og einfalda marmarakaka. Nú held ég að ég þurfi að fara að skella í eitt risastórt kökuboð.

IMG_2392.jpg

Mér finnst marmarakaka vera hin fullkomna sunnudagskaka og hentar einnig vel að eiga í ísskápnum og fá sér yfir kaffibolla sem síðdegishressingu. Þetta er einmitt svona týpísk kaka sem amma okkar bar á borð með sídegiskaffinu þegar við vorum yngri.

IMG_2394-2.jpg

Eins og ég hef talað um áður er ég enginn bakarameistari og mér finnst mjög erfitt að gera fallega skreyttar kökur á mörgum hæðum (Júlía sér alfarið um svoleiðis meistaraverk). Þegar ég baka fyrir afmælisboð eða önnur tilefni enda ég yfirleitt á að baka kökur í einhverskonar eldföstu móti eða minni útgáfu af ofnskúffu, smyrja yfir þær kremi og skera í kassa. Því finnst mér alltaf svo gott að geta gert einfaldar uppskriftir sem þarf bara að skella í form og hafa litlar áhyggjur af. Þessi uppskrift er dæmi um slíka köku. Það er hægt að pensla yfir hana bræddu súkkulaði ef maður vill eftir að hún hefur kólnað, og leyfa því að harðna, en mér finnst best að hafa hana bara svona.

IMG_2397.jpg

Ég mun klárlega baka þessa köku reglulega. Hún er ekki bara þægileg til að eiga heima heldur líka til að taka með á kaffistofuna í vinnunni eða eitthvað því líkt. Það er auðvelt að skera hana og það þarf ekki diska eða gaffla til að borða hana. Það er líka svo gaman að bjóða fólki upp á bakkelsi sem sýnir að dýraafurðir eru engin nauðsyn þegar kemur að því að baka góðar kökur.

Mér þætti ótrúlega gaman að fá fleiri hugmyndir frá ykkur af uppskriftum til að prufa, hvort sem það er bakstur eða einhver annar matur. Við tökum öllum hugmyndum fagnandi. Munið líka að tagga okkur á Instagram ef þið gerið uppskriftirnar okkar, það er eitt það skemmtilegasta sem við vitum og gefur okkur enn meiri innblástur til að vera duglegar að blogga.

IMG_2402-2.jpg

Marmarakaka

  • 150 gr smjörlíki við stofuhita

  • 1,5 dl sykur

  • 4,5 dl hveiti

  • 1/4 tsk salt

  • 1,5 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 4,5 dl jurtamjólk (ég notaði Oatly ikaffe - ef þið notið þynnri mjólk myndi ég byrja á 4 dl og sjá svo hvort þarf meira. Áferðin ætti að vera eins og á myndunum hér að ofan)

  • 1 tsk vanilludropar (það passar líka fullkomlega að hafa kardimommudropa í staðinn fyrir vanillu)

  • 1,5 msk eplaedik

Það sem fer út í brúna deigið:

  • 4,5 tsk kakó

  • 1,5 tsk sykur

  • 1,5 msk kalt vatn

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c - minn ofn er ekki með blæstri svo ég baka á undir- og yfirhita.

  2. Þeytið smjör og sykur þar til það er ljóst og létt.

  3. Sigtið saman við hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt og hellið út í mjólk, vanilludropum og eplaediki og þeytið þar til engir kekkir eru. Reynið þó að þeyta eins stutt og mögulegt er.

  4. Takið 1/3 deigsins frá og setjið í aðra skál. Bætið við það kakói, sykri og vatni og hrærið saman.

  5. Smyrjið formið (mitt form er 26 cm á lengd og þessi uppskrift passar fullkomlega í það)

  6. Hellið helmingnum af ljósa deiginu í formið. Bætið svo næstum öllu brúna deiginu ofan á og reistinni af ljósa deiginu ofan á það. Ég setti svo restina af brúna deiginu (sem var alls ekki mikið) ofan á í litlum klípum. Næst tók ég hníf og stakk ofan í kökudeigið og dró hann um til að mynda svona mynstur. Ég er alls enginn snillingur í þessu, en ég var nokkuð ánægð með útkomuna.

  7. Bakið í 40-60 mínútur. Það fer örugglega mikið eftir því hvernig ofn notaður er og hvort fólk hefur blástur á eða ekki. Ég er búin að baka kökuna tvisvar og í bæði skiptin tók það akkúrat klukkutíma fyrir hana að verða tilbúna.

  8. Leyfið kökunni að kólna áður en hún er tekin úr forminu og skorin. Hún má auðvitað vera volg, en leyfið henni allavega að standa í nokkrar mínútur.

Takk innilega fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel

Veganistur

Vegan möndlukaka

IMG_2362.jpg

Uppskrift dagsins er af þessari dásamlegu möndluköku. Mamma sendi mér pakka í kringum jólin fullan af allskonar glaðningi frá Íslandi og það fylgdu möndludropar með. Mér fannst því tilvalið að útbúa vegan útgáfu af möndluköku þar sem mér þótti hún svo góð þegar ég var yngri. Eins og flestar af okkar köku uppskriftum er þessi virkilega einföld og inniheldur einungis hráefni sem flestir eiga eða geta auðveldlega nálgast. Það er eitthvað svo dásamleg tilfinning sem fylgir því að baka kökur sem maður vandist því að borða sem barn. Við systur fengum stundum möndluköku hjá ömmu þegar við vorum litlar og okkur þótti hún ótrúlega góð og ekki skemmdi fyrir hvað kremið var fallega bleikt.

IMG_2344.jpg

Ég er nýbúin í prófum og hef því lítið geta bloggað síðan um áramótin, en mér fannst þessi kaka fullkomin sem fyrsta uppskriftin á nýju ári. Það er mikið frost í Piteå þessa dagana og því fylgir dásamlega fallegt veður sem er virkilega frískandi ef maður klæðir sig rétt. Ég kemst í svo rómantískt skap þegar veðrið er svona fallegt og finnst því svo gott að taka mér góðan göngutúr með Sigga og gæða okkur svo á kaffibolla og einhverju góðu bakkelsi þegar við komum heim. Þessi kaka er bókstaflega fullkomin til þess þar sem það tekur enga stund að skella í hana. Svo er upplagt að leyfa henni að kólna á meðan maður fer í göngutúrinn og skella svo saman glassúrnum þegar heim er komið.

IMG_2348.jpg

Ég hef alltaf verið rosalega óörugg þegar ég baka því mér finnst svo óþægilegt þegar hlutir mistakast og ég veit ekki af hverju. Nú eru liðin nokkur ár síðan ég byrjaði að blogga og fór að baka meira en það lifir þó alltaf í mér þetta óöryggi frá því ég var unglingur. Meira að segja þegar ég var að prufa mig áfram með þessa köku sendi ég mömmu og Júlíu endalausar spurningar þó þær hafi ekkert útbúið þessa uppskrift (mamma hefur auðvitað oft bakað hefðbundna möndluköku). Þær reyndu þó sitt besta við að hjálpa mér og þegar ég loksins dreif mig í að prófa þá heppnaðist hún fullkomlega og allar þessar áhyggjur mínar til einskis eins og vanalega.

Vegna þess að ég hef sjálf oft verið óörugg við að baka þykir mér svo mikilvægt að hafa uppskriftir á blogginu sem allir geta bakað, bæði þeir sem hafa mikla reynslu af því að baka og þeir sem eru að stíga sín fyrstu skref og hræddir við að klúðra einhverju. Við erum komnar með þónokkuð margar uppskriftir af dásamlega góðum kökum sem allir geta auðveldlega gert, súkkulaðiköku, eplaköku, möffins, gulrótarköku og fl. Ég hef boðið upp á margar af þessum kökum við allskyns tilefni og þær slá alltaf í gegn. Ég held að þessi muni því ekki valda ykkur vonbrigðum.

IMG_2363.jpg

Ég vil svo enda á að þakka ykkur fyrir allan stuðninginn á líðandi ári. Það er svo gaman að útbúa uppskriftir fyrir ykkur og við fáum svo mikið af fallegum skilaboðum og myndum frá fólki sem er að elda uppskriftir af blogginu. Við erum ekkert smá spenntar fyrir komandi ári og hlökkum til að deila með ykkur fleiri skemmtilegum vegan uppskriftum. Við viljum líka minna á að okkur þykir ótrúlega gaman að fá hugmyndir af uppskriftum sem þið viljið sjá á blogginu, svo ekki hika við að heyra í okkur ef það er eitthvað.

IMG_2381-2.jpg

Möndlukaka

  • 1 dl sykur

  • 75 g smjörlíki við stofuhita

  • 2 og 1/2 dl hveiti

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 1/2 tsk salt

  • 1/2 tsk vanilludropar

  • 1 tsk möndludropar

  • 1 msk eplaedik

  • 2 og 1/2 dl vegan mjólk (ég notaði Oatly ikaffe mjólkina)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn á 175°c.

  2. Þeytið sykurinn og smjörlíkið saman með rafmagnsþeytara þar til það er létt og ljóst.

  3. Sigtið ofan í skálina hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt og hellið restinni af hráefnunum saman við.

  4. Blandið allt saman þar til það er laust við kjekki. Ekki þeyta of lengi samt.

  5. Smyrjið 20 cm smelluform með smjörlíki (Ég skar út smá smjörpappír og lagði í botninn til öryggis, en það er kannski óþarfi. Ég fjarlægði pappírinn svo þegar kakan var orðin köld). Kakan er passleg í 20 cm hringlaga form og ég mæli ekki með því að nota mikið stærra form því kakan gæti þá orðið mjög þunn. Ég ætla að prufa að gera eina og hálfa uppskrift við tækifæri og sjá hvernig það kemur út í stærra formi og ég bæti því þá hérna inn ef það heppnast vel.

  6. Bakið í 25-30 mínutur. Það fer svolítið eftir ofninum. Minn er t.d ekki með blæstri þannig ég bakaði kökuna á undir og yfir hita. Ég myndi allavega byrja að fylgjast með kökunni eftir 20 mínútur.

  7. Látið kökuna kólna áður en þið setjið glassúrinn á hana.



Glassúr

  • 3 dl flórsykur

  • 3 msk heitt vatn

  • 1 msk Ríbena (það er líka hægt að nota vegan rauðan matarlit. Venjulega er rauður matarlitur úr karmín sem er ekki vegan. Það er þó hægt að finna vegan matarlit en ég veit ekki alveg hvar. Mér finnst Ríbena passa fullkomlega)

  • Möndludropar eftir smekk (1/4 tsk fannst mér nóg)

Aðferð:

  1. Blandið saman vatni, möndludropum og Ríbena

  2. Hellið blöndunni saman við flórsykurinn og hrærið vel saman

  3. Ef glassúrinn er ekki nógu bleikur er hægt að bæta örlitlu ríbena í viðbót

  4. Hellið yfir kökuna og berið fram



Takk innilega fyrir að lesa og vonum að ykkur líki vel

Veganistur

Bláberjasæla

IMG_1739.jpg

Síðan skólinn byrjaði höfum við verið alveg á kafi og hefur bloggið því aðeins setið á hakanum í haust. Ég (Helga) byrjaði í bachelor námi í jazzsöng hérna í Piteå, sem hefur verið stór draumur síðan ég var barn. Það hefur verið æðislegt og ég get sagt að ég hef ekki verið svona hamingjusöm lengi. Á sama tíma hef ég þurft að læra að skipuleggja tímann minn upp á nýtt. Síðustu ár hef ég haft gríðarlega mikinn tíma og hef því getað ráðið því sjálf hvernig ég eyði deginum. Það hefur því orðið mikil breyting hjá mér síðustu mánuði, og ég er enn að læra að nýta tímann vel svo ég nái að koma öllu fyrir sem ég vil gera. Ég hef þó líka þurft að sætta mig við að ég get ekki endilega gert allt sem mig langar á hverjum degi. Ég viðurkenni að ég hef stundum verið svolítið svekkt yfir því og ég fæ oft samviskubit yfir því að geta ekki verið nógu dugleg í öllu sem ég vil. Í hinum fullkomna heimi myndi ég standa mig gríðarlega vel í skólanum, vera alltaf vel undirbúin þegar ég syng með tríóinu mínu, blogga einu sinni í viku, vera dugleg að pósta á Instagram, snappa, hreyfa mig, nota eins lítið plast og ég get, lesa meira… og listinn heldur áfram. Ég hef sem betur fer áttað mig á því að ég er að setja alltof mikla pressu á sjálfa mig, og er að vinna í því að sleppa tökunum aðeins svo ég nái að njóta þess sem ég er að gera. Það gengur svona misvel hjá mér, en ég finn að þetta er allt á réttri leið.

IMG_1709.jpg

Ég hef komist að því að þegar ég blogga ekki lengi missi ég allt sjálfstraust og mikla hlutina gríðarlega fyrir mér. Allt í einu finnst mér ég ekkert kunna að blogga lengur og fresta því endalaust að taka fram myndavélina og skella í einhverja gómsæta uppskrift. Í hvert skipti sem ég upplifi þetta þarf ekki meira til en að byrja á einni færslu og þá byrjar þetta að rúlla. Í gær ákvað ég að setjast niður og gera vikumatseðil og birta á blogginu. Það eitt og sér var nóg til þess að kveikja í mér. Þegar ég vaknaði í morgun komst ekkert annað að en þessi dásamlega bláberjasæla sem ég hef ætlað mér að birta hérna á blogginu í sirka tvær vikur. Ég rauk fram úr og hófst handa. Ég mundi strax af hverju ég blogga, þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég geri og ég gleymi stund og stað á meðan. Allar áhyggjur af prófum, tónleikum og verkefnum hurfu á meðan ég bakaði og myndaði og það er akkurat það sem ég þurfti á að halda eftir annasamar vikur.

Uppskriftin af bláberjasælunni er ótrúlega einföld, eins og flest sem við deilum hérna á blogginu. Hún bragðast dásamlega, fyllir húsið guðdómlegum ilmi og gefur fullkominn haustfíling. Sælan minnir vissulega svolítið á hjónabandssælu, en þar sem ég nota bláber er hún ekki alveg eins. Ég leyfði henni að kólna alveg áður en ég bar hana fram, aðallega svo ég gæti auðveldlega skorið hana fyrir myndatökuna. Þó er líka hægt að bera hana fram volga og þá er æðislegt að hafa þeyttan soja- eða kókosrjóma eða vegan ís með.

IMG_1725.jpg

Bláberjablanda:

(ATH: bollin sem ég notaði er 2,5 dl)

  • 680 gr frosin bláber

  • Safi úr einni sítrónu

  • 1/2 bolli sykur

  • 2 msk hveiti

  • 1 msk maíssterkja

Krömbl:

  • 3 bollar hveiti

  • 3 bollar haframjöl

  • 2 bollar púðursykur. Ég pressaði hann lauslega

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1 og 1/2 bolli smjörlíki. Ég bræddi 1 bolla og blandaði saman við deigið og muldi svo niður 1/2 bolla af köldu smjörilíki og hnoðaði saman við með höndunum

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°C

  2. Leyfið bláberjunum að þiðna alveg og hellið þeim svo í sigti til að losna við allan auka vökva. Ég kreisti berin einnig örlítið í sigtinu til að taka af smá af safanum, samt bara aðeins.

  3. Blandið berjunum saman við restina af hráefnunum fyrir berjablönduna í blandara, matvinnsluvél eða með töfrasprota. Blandann verður svolítið þunn, en hún mun þykkna í ofninum.

  4. Blandið saman þurrefnunum fyrir krömblið og hellið svo útí bráðna smjörinu og blandið saman með sleif. Brjótið svo út í kalda smjörið og hnoðið saman með höndunum. Ef ykkur finnst deigið mjög þurrt mæli ég með að bæta við örlitlu smjöri.

  5. Hellið tveimur þriðju af deiginu í eldfast mjót og pressið því í botninn. Ég lagði bökunarpappír í formið mitt svo það væri auðveldara að ná sneiðunum upp úr. Eldfasta mótið sem ég notaði er 21x31 cm.

  6. Bakið botninn í 10 mínútur og takið svo út.

  7. Hellið bláberjablöndunni yfir og myljið svo restina af krömblinu yfir.

  8. Bakið í 25-30 mínútur

  9. Hægt er að bera þetta fram volgt, en ef þið viljið ná fallegum sneiðum úr þessu mæli ég með því að leyfa sælunni að kólna.

Vonum að þið njótið :)

veganisturundirskrift.jpg

Kasjúhnetuostakaka

IMG_5020.jpg

Eftirréttir eru í miklu uppáhaldi hjá mér en þeir eru, að mínu mati, ekki síður mikilvægir en aðalrétturinn þar sem þeir setja eins konar punkt yfir I'ið í góðu matarboði. Ostakökur finnst mér vera hinn fullkomni eftirréttur. Þær er hægt að gera á ótlejandi mismunandi vegu, bæði mjög sætur eða minna sætar, og svo eru þær oft svo ótrúlega fallegar.

Webp.net-gifmaker (3).gif
IMG_4851.jpg

Uppskrift vikunnar er einmitt af ostaköku en þó ekki hinni hefðbundu ostaköku sem að flestir þekkja. Þessi uppskrift inniheldur engan ost og engar mjólkurvörur. Kakan er því 100% vegan og inniheldur einungis holl og góð næringarefni, en meginuppistaða kökunnar eru kasjúhnetur. Kakan er einnig ekkert bökuð heldur einungis fryst og því alveg hrá.  

IMG_4874.jpg
IMG_5101.jpg

Ég gerði þessa köku í fyrsta skipti fyrir nokkrum árum og varð hún strax ein af mínum uppáhalds. Hún er alveg ótrúlega auðveld þar sem maður skellir einfaldlega öllu í blandara og síðan í form. Hún þarfnast þó smá fyrirvara þar sem hún þarf að vera í frysti í að minnsta kosti 8 klukkustundir. Mér finnst því fullkomið að henda í hana kvöldinu áður en bera á hana fram og geyma hana einfaldlega í frystinum þar til rátt áður en á að njóta hennar.

IMG_5226.jpg
IMG_5172.jpg

Þessi uppskrift hefur einnig þann kost að það er hægt að leika sér endalaust með hana. Uppskriftin er í grunninn alltaf sú sama og svo er hægt að bæta við alls kynns berjum, kaffi eða súkkulaði og þá verður þetta alltaf eins og ný og ný kaka. Hins vegar þarf í kökuna góðan blandara sem ræður vel við að gera kasjúhneturnar að silkimjúkri fyllingu. Þær má leggja í bleyti í svolitla stund til að mýkja upp en það þarf þó kraftmikinn og góðan blandara. Við systur eigum báðar blendtec blandara sem við erum virkilega ánægðar með. Hann er ótrúlega kraftmikill og ég hef ekki enn fundið neitt matakynns sem að hann á erfitt með að tæta niður í frumeindir. Blendtec fæst í heimilstækjum og hentar alveg fullkomlega í þessa uppskrift.

IMG_5129.jpg

Vanilla og jarðaberja kasjúostaka:

Döðlubotn:

  • 15 döðlur

  • 4 dl hnetublanda (t.d. hesli, valhnetur og möndlur)

Aðferð:

  1. Setjið döðlurnar og hneturnar í blandara (mjög hentugt að nota twister jar) og blandið vel þar til blandan verður að þéttri kúlu og allar hneturnar eru vel malaðar.

  2. Þjappið blöndunni í botninn á 22/24 cm formi og frystið á meðan þið útbúið fyllinguna.

Fylling:

  • 500 gr kasjúhnetur (lagðar í bleyti í nokkra klukkutíma ef tími gefst)

  • 4 1/2 dl kókosmjólk

  • 1 1/2 dl agave síróp

  • 2 msk sítróna

  • 2 tsk vanilla (+ef hafa á vanilluköku)

  • u.þ.b. 6-8 frosin jarðaber (einungis sett í helming fyllingarinnar)

Aðferð:

  1. Setjið allt nema jarðaberinn saman í blandarakönnuna og blandið á hæsta styrk þar til balndan verður silkimjúk.

  2. Hellið helming blöndunnar yfir döðlubotninn og frystið. Hafið kökuna í frystinum í minnsta kosti 4 klukkustundir áður en jarðaberjafyllingunni er helt yfir svo skilin verði falleg og bein.

  3. Setjið jarðaberinn út í restina af fyllingunni og blandið á hæsta styrk. Geymið fyllinguna í ísskáp þar til tímabært er að hella henni yfir vanillukökuna. Hafið kökuna í frysti í að minnsta kosti 4 klukkustundir í viðbót.

  4. Takið kökuna út úr frysti hálftíma til klukkutíma áður en hún er borin fram.

 

 

Eplakaka að hætti ömmu

IMG_1302.jpg

Þegar ég var yngri þótti mér ekkert betra en kökurnar hennar ömmu. Hún átti alltaf til nokkrar sortir í ísskápnum og nutum við Júlía þess mikið að vera hjá ömmu og afa yfir kaffitímann og borða yfir okkur af brauði og kökum. 

IMG_1230.jpg

Ein af kökunum sem ég borðaði oft hjá ömmu var eplakaka. Hún var í miklu uppáhaldi og mig hefur lengi langað að búa til vegan útgáfu af henni. Nú hef ég loksins látið verða að því og er mjög ánægð með útkomuna. Í kökuna nota ég aquafaba, sem er vökvinn sem fylgir kjúlingabaunum í dós. Vökvinn er próteinríkur og virkar eins og eggjahvítur í margar uppskriftir. Síðan baunavökvinn "uppgvötaðist" hefur verið ótrúlega skemmtilegt að prufa sig áfram með að nota hann í bakstur, og við erum nú þegar með nokkrar uppskriftir þar sem hann kemur að góðum notum, meðal annars lakkrístoppa og lagtertu. 

IMG_1294.jpg

Ég hef verið að skora á sjálfa mig að baka meira, og það gengur vel. Í langan tíma var ég viss um að ég væri alveg vonlaus bakari og bakaði því ekkert nema súkkulaðikökuna okkar, því hún gæti eiginlega ekki verið einfaldari. Uppá síðkastið hef ég þó komist að því að ég er kannski ekki alveg jafn vonlaus og ég hélt, en ég minni sjálfa mig líka á að það er allt í lagi þó eitthvað misheppnist af og til. Ég er líka farin að prufa mig meira áfram með brauðbakstur og hlakka til að deila einhverjum góðum brauð uppskriftum með ykkur á næstunni. 

IMG_1351.jpg

Eplakaka

  • 3 dl hveiti

  • 2 dl sykur

  • 1 dl aquafaba (vökvinn af kjúklingabaunum í dós)

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1 tsk vanilludropar

  • örlitið salt

  • 75 gr smjörlíki (Bæði Krónusmjörlíki og Ljómasmjörlíki eru vegan og henta mjög vel í þessa köku)

  • 1 dl haframjólk

  • 1-2 epli

  • kanilsykur eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið ofninn á 175°c

  2. Þeytið saman sykur og aquafaba í sirka 3 mínútur í hrærivél eða með rafmagnsþeytara, þannig það sé hvítt og svolítið froðukennt.

  3. Blandið saman í aðra skál hveiti, salti og lyftidufti.

  4. Bræðið smjörlíki og hellið því útí hrærivélaskálina, ásamt mjólkinni og þurrefnunum.

  5. Hrærið öllu saman þannig engir kekkir séu, en ekki hræra of mikið samt.

  6. Smyrjið form og leggið smjörpappír í botninn ef ykkur finnst það betra. Ég geri það oft til öryggis (mér hefur þótt best að nota 20 cm form og þessi uppskrift passar akkúrat í þá stærð).

  7. Flysjið eplið og skerið í þunnar sneiðar, raðið þeim á kökuna áður en hún fer í ofninn.

  8. Bakið í 30-40 mínútur. Það fer svolítið eftir ofninum hversu lengi kakan er að bakast. Minn er ekkert svakalega góður og hann hefur engan blástur, svo hún tekur kannski örlítið lengri tíma hjá mér, en ég bakaði hana í alveg 40 mínútur

  9. Ég beið með að strá kanisykrinum yfir þar til það voru sirka 15 mínútur í að kakan yrði tilbúin. Það fer algjörlega eftir smekk fólks hversu mikinn kanilsykur þarf, en ég var alls ekkert að spara hann.

  10. Berið fram með vegan þeyttum rjóma eða ís t.d

Vona að þið njótið :) 

Helga María 

Frosin ostakaka með Oreo botni

IMG_1113-3.jpg

Það er fátt sem toppar góða máltíð betur en gómsætur eftirréttur. Þegar ég held matarboð þykir mér eftirrétturinn oft alveg jafn mikilvægur og máltíðin sjálf. Eins og það er þægilegt að kaupa góðan vegan ís, ávexti og súkkulaði, þá er líka stundum skemmtilegt að útbúa eitthvað aðeins meira extra. Það er virkilega auðvelt að gera allskonar vegan eftirrétti og sætindi, og við ætlum að reyna að vera duglegri að birta uppskriftir af svoleiðis hérna á blogginu. 

IMG_1029-3.jpg

Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift af ótrúlega góðri vegan ostaköku. Ég myndi kalla þetta blöndu af ostaköku og ísköku því best er að borða hana nánast beint úr frystinum. Þessi kaka er svo góð að ég hef ekki getað hætt að hugsa um hana síðan ég gerði hana. Oreo botninn passar fullkomlega við fyllinguna sem hefur smá kaffikeim. Ég held það væri gaman að gera úr uppskriftinni litlar ostakökur í bollakökuformi, til að bjóða upp á í matarboðum eða afmælum. 

IMG_0964-2.jpg

Ég get ekki sagt að ég hafi alist upp við að borða ostakökur, en þær eru núna orðnar mikið uppáhald hjá mér. Ég er með aðra mjög góða uppskrift í pokahorninu sem er líka frosin, en á eftir að prufa mig áfram með bakaðar ostakökur. Ég get þó lofað ykkur því að um leið og ég hef masterað svoleiðis köku fáið þið uppskriftina strax. Ég er búin að skora á sjálfa mig að ögra sjálfri mér meira þegar kemur að því að útbúa kökur og deserta. Mér finnst ekkert mál að elda mat og það kemur til mín mjög náttúrulega, en ég er rosalega óöruggur bakari og er yfirleitt með Júlíu í tólinu á meðan ég baka. Ég er þó ákveðin í að hætta að vera hrædd við að baka og sætta mig við það að stundum misheppnast hlutirnir í fyrsta sinn og þá er ekkert annað að gera en að reyna aftur. 

IMG_1066-2.jpg

Þið megið endilega láta okkur vita hvað er ykkar uppáhalds desert og hvort það er eitthvað sem þið viljið að við reynum að "veganæsa." Við erum með endalausar hugmyndir af kökum og skemmtilegu bakkelsi sem okkur langar að setja á bloggið, en það væri mjög gaman að heyra frá ykkur hvað er í uppáhaldi. 

IMG_1120-2.jpg

Hráefni: 

  • 20 Oreo kexkökur

  • 70 gr bráðið vegan smjör (notið hvaða vegan smjör sem er virkar, t.d Krónu smjörlíki eða Ljóma smjörlíki)

  • 1 þeytirjómi frá Alpro (2 dl)

  • 2 öskjur påmackan rjómaosturinn frá Oatly (300gr)

  • 1,5 dl sykur

  • 1 msk vanillusykur

  • 2-3 msk kalt uppáhellt kaffi (fer alfarið eftir því hversu mikið kaffibragð þið viljið hafa. Ég setti 2 msk og það var mjög milt kaffibragð af minni, sem mér fannst fullkomið).

Aðferð:

  1. Myljið niður Oreo kexið, annaðhvort í matvinnsluvél eða með því að setja það í lokaðan nestispoka og brjóta kexið með kökukefli. Hellið muldu kexinu í skál.

  2. Bræðið smjörið, hellið því ofan í skálina og blandið vel saman við kexið með sleif.

  3. Hellið blöndunni í 20 cm smelluform og þrýstið vel í botninn. Setjið formið í frystinn á meðan þið undirbúið fyllinguna.

  4. þeytið rjómann í stórri skál og leggið til hliðar.

  5. Bætið restinni af hráefnunum í aðra stóra skál og þeytið saman.

  6. Bætið þeytta rjómanum útí skálina og þeytið allt saman í nokkrar sekúndur, eða þar til allt er vel blandað saman.

  7. Hellið blöndunni ofan í smelluformið og setjið í frystinn yfir nótt eða í allavega fjóra klukkutíma.

  8. Toppið kökuna með því sem ykkur lystir. Í þetta sinn bræddi ég súkkulaði og toppaði með því, sem voru smá mistök því það var virkilega erfitt að skera í gegnum súkkulaðið þegar það var orðið frosið. Næst myndi ég bræða súkkulaðið og blanda saman við það nokkrum matskeiðum af þykka hlutanum úr kókosmjólk í dós, því þannig harðnar súkkulaðið aldrei alveg. Eins er ótrúlega gott að toppa kökuna bara með muldu Oreo kexi, súkkulaðikurli eða setja yfir hana fullt af ferskum jarðarberjum þegar hún er tekin út. Í rauninni er kakan fullkomin ein og sér, en útlitsins vegna finnst mér skemmtilegt að toppa hana með einhverju gómsætu.

  9. Berið kökuna fram nánast beint úr frystinum. Gott er að láta hana standa í nokkrar mínútur, en hún er svolítið eins og ísterta og er því best ísköld.

Njótið
Helga María

 

Gómsæt eplabaka

IMG_3649-3.jpg

Það er ekkert betra eftir góða máltíð en góður eftirréttur. Eða það finnst mér allavega. Uppáhalds eftirréttirnir mínir eru einfaldir eftirréttir, eitthvað sem þarf ekki að hafa mikið fyrir, líkt og góður vegan ís eða einföld kaka. Við erum mjög heppin með það að það er ótrúlega mikið af góðum vegan ís komin á markaðin hér á landi og er þar ísinn frá Oatly einn af mínum uppáhalds. 

IMG_3520-2.jpg
IMG_3531 (3).jpg

Þessi eplabaka er einn af mínum uppáhalds eftirrétti en það er eindfaldlega vegna þess hversu auðvelt er að útbúa hana og hversu góð hún er. Það sem mér finnst líka vera mikill kostur er að það má undirbúa hana snemma um daginn og skella henni síðan bara í ofninn eftir matinn. 

IMG_3624-4.jpg

Kakan samanstendur af grænum eplum, möndlusmjörs-karamellu (sem passar fullkomlega með eplunu) og hafradeigi sem gerir "krönsí" áferð. Bakan passar fullkomlega með vanilluísnum frá Oatly.

IMG_3643-2.jpg

Eplabaka:

Aðferð:

  1. Afhýðið eplin og skerið niður í litla bita. Setjið í eldfast mót og hellið möndlusmjörs-karamellunni yfir.

  2. Útbúið deigið með því að blanda restinni af hráefnunum saman í skál og dreifið yfir eplin. 

  3. Bakið kökuna í 30 til 35 mínútur við 180°C 

Möndlusmjörs-karamella

Aðferð:

  1. Setjið allt saman í pott og leyfið suðunni að koma upp.

  2. Sjóðið í 2 til 3 mínútur og hrærið í á meðan.

Vonum að þið njótið
-Veganistur

innnes2.jpg

-Færslan er unnin í samstarfi við Rapunzel og Innnes-

Súkkulaðiterta með bananakremi

IMG_3403.jpg

Þegar við vorum börn var undantekningarlaust bökuð súkkulaðiterta með bananakremi við öll hátíðleg tilefni. Þessi kaka var í miklu uppáhaldi hjá okkur og við höfum alltaf tengt hana við hátíðir, eins og jól, páska, afmæli og allskonar fjölskylduboð. Það er sem betur fer lítið mál að útbúa vegan útgáfu af þessari gómsætu köku, svo við getum haldið áfram að njóta hennar við hvaða tilefni sem er. 

IMG_3311.jpg

Í kökuna ákváðum við að nota botnana okkar sem eru nú þegar hérna á blogginu. Eftir nokkrar tilraunir til að útbúa nýja uppskrift af súkkulaðibotnum áttuðum við okkur á að enginn af þeim var eins góð, að okkar mati, og sú sem við erum vanar að gera. Í stað þess að setja uppskrift af nýjum botnum sem okkur þykja ekki jafn góðir, ákváðum við að nota bara þá sem eru á blogginu og hafa slegið í gegn síðustu árin. 

IMG_3288.jpg

Þessi kaka er tilvalin fyrir páskana og banana-smjörkremið er svo gott að við gætum borðað það með skeið. Okkur þætti mjög gaman að vita hvort það eru margir sem ólust upp við að borða þessa köku, því við þekkjum ekki marga. Eins og margir hafa kannski tekið eftir þykir okkur virkilega gaman að útbúa vegan útgáfur af allskonar mat sem við ólumst upp við að borða. Ef þið hafið hugmyndir af einhverju sem þið mynduð vilja sjá í vegan útgáfu megið þið endilega koma með tillögur, við elskum að takast á við nýjar áskoranir. 

IMG_3421.jpg
IMG_3443.jpg

Botnarnir: 

  • 3 bollar hveiti

  • 2 bollar sykur

  • 1/2 bolli kakó

  • 2 tsk matarsódi

  • 1 tsk salt

  • 2 bollar vatn

  • 2/3 bolli bragðlaus olía - við notuðum sólblómaolíu

  • 2 tsk vanilludropar

  • 1 msk eplaedik

1. Hitið ofninn í 175°c með blæstri

2. Blandið þurrefnum saman í skál 

3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og hrærið þar til engir kekkir eru í deiginu

4. Smyrjið tvö kökuform og skiptið deiginu jafnt í þau.  Þessi uppskrift passar akkurat í tvö 24 cm hringlaga kökuform. Það er þó einnig hægt að baka kökuna í eldföstu móti.

5. bakið í 20-30 mínútur

Banakrem: 

  • 150 gr mjúkt smjörlíki

  • 120 gr flórsykur

  • 2 stappaðir bananar

Aðferð:

  1. Þeytið smjörlíkið þar til það verður vel mjúkt, bætið síðan flórsykrinum út í og þeytið vel

  2. Stappið bananana og hrærið saman við kremið með sleif.

  3. Smyrjið kreminu á milli botnanna.

Súkkulaðikrem:

  • 250 gr smjörlíki

  • 200 gr flórsykur

  • 100 gr brætt suðusúkkulaði

  • 1 tsk vanilludropar

Aðferð:

  1. Þeytið smjörlíkið í hrærivél þar til vel mjúkt, bætið flórsykrinum og vanilludropunum útí og þeytið vel saman.

  2. Bræðið súkkulaðið, hellið útí og þeytið vel saman við.

  3. Smyrjið kreminu vel yfir alla kökuna og á hliðina.

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg