Vegan marmarakaka

IMG_2419-3.jpg

Við fengum fyrirspurn fyrir nokkrum dögum um hvort við ættum uppskrift af vegan marmaraköku. Við áttum enga slíka uppskrift svo ég ákvað að slá til og prufa mig áfram með svoleiðis köku og í dag er ég komin með dásamlega góða uppskrift. Kakan er svo ótrúlega góð og er alveg dúnmjúk eins og mér þykir best. Okkur finnst svo skemmtilegt þegar þið sendið okkur hugmyndir af uppskriftum til að prufa. Mér finnst ég oft svo hugmyndasnauð og því er gott að fá smá extra hjálp við að koma sér af stað og reyna eitthvað nýtt.

IMG_2384.jpg

Mér finnst ótrúlega gaman að vera farin að prufa mig áfram með fleiri köku uppskriftir. Ég hef verið svolítið föst í því að baka alltaf það sama fyrir hvert tilefni, og það er þá yfirleitt súkkulaðikakan okkar eða gulrótarkakan. Báðar eru alveg dásamlega góðar, en mér finnst mjög skemmtilegt að hafa úr fleiru að velja. Í síðustu viku birti ég uppskrift af þessari dásamlegu vegan möndluköku og í dag er það þessi æðislega og einfalda marmarakaka. Nú held ég að ég þurfi að fara að skella í eitt risastórt kökuboð.

IMG_2392.jpg

Mér finnst marmarakaka vera hin fullkomna sunnudagskaka og hentar einnig vel að eiga í ísskápnum og fá sér yfir kaffibolla sem síðdegishressingu. Þetta er einmitt svona týpísk kaka sem amma okkar bar á borð með sídegiskaffinu þegar við vorum yngri.

IMG_2394-2.jpg

Eins og ég hef talað um áður er ég enginn bakarameistari og mér finnst mjög erfitt að gera fallega skreyttar kökur á mörgum hæðum (Júlía sér alfarið um svoleiðis meistaraverk). Þegar ég baka fyrir afmælisboð eða önnur tilefni enda ég yfirleitt á að baka kökur í einhverskonar eldföstu móti eða minni útgáfu af ofnskúffu, smyrja yfir þær kremi og skera í kassa. Því finnst mér alltaf svo gott að geta gert einfaldar uppskriftir sem þarf bara að skella í form og hafa litlar áhyggjur af. Þessi uppskrift er dæmi um slíka köku. Það er hægt að pensla yfir hana bræddu súkkulaði ef maður vill eftir að hún hefur kólnað, og leyfa því að harðna, en mér finnst best að hafa hana bara svona.

IMG_2397.jpg

Ég mun klárlega baka þessa köku reglulega. Hún er ekki bara þægileg til að eiga heima heldur líka til að taka með á kaffistofuna í vinnunni eða eitthvað því líkt. Það er auðvelt að skera hana og það þarf ekki diska eða gaffla til að borða hana. Það er líka svo gaman að bjóða fólki upp á bakkelsi sem sýnir að dýraafurðir eru engin nauðsyn þegar kemur að því að baka góðar kökur.

Mér þætti ótrúlega gaman að fá fleiri hugmyndir frá ykkur af uppskriftum til að prufa, hvort sem það er bakstur eða einhver annar matur. Við tökum öllum hugmyndum fagnandi. Munið líka að tagga okkur á Instagram ef þið gerið uppskriftirnar okkar, það er eitt það skemmtilegasta sem við vitum og gefur okkur enn meiri innblástur til að vera duglegar að blogga.

IMG_2402-2.jpg

Marmarakaka

  • 150 gr smjörlíki við stofuhita

  • 1,5 dl sykur

  • 4,5 dl hveiti

  • 1/4 tsk salt

  • 1,5 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 4,5 dl jurtamjólk (ég notaði Oatly ikaffe - ef þið notið þynnri mjólk myndi ég byrja á 4 dl og sjá svo hvort þarf meira. Áferðin ætti að vera eins og á myndunum hér að ofan)

  • 1 tsk vanilludropar (það passar líka fullkomlega að hafa kardimommudropa í staðinn fyrir vanillu)

  • 1,5 msk eplaedik

Það sem fer út í brúna deigið:

  • 4,5 tsk kakó

  • 1,5 tsk sykur

  • 1,5 msk kalt vatn

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c - minn ofn er ekki með blæstri svo ég baka á undir- og yfirhita.

  2. Þeytið smjör og sykur þar til það er ljóst og létt.

  3. Sigtið saman við hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt og hellið út í mjólk, vanilludropum og eplaediki og þeytið þar til engir kekkir eru. Reynið þó að þeyta eins stutt og mögulegt er.

  4. Takið 1/3 deigsins frá og setjið í aðra skál. Bætið við það kakói, sykri og vatni og hrærið saman.

  5. Smyrjið formið (mitt form er 26 cm á lengd og þessi uppskrift passar fullkomlega í það)

  6. Hellið helmingnum af ljósa deiginu í formið. Bætið svo næstum öllu brúna deiginu ofan á og reistinni af ljósa deiginu ofan á það. Ég setti svo restina af brúna deiginu (sem var alls ekki mikið) ofan á í litlum klípum. Næst tók ég hníf og stakk ofan í kökudeigið og dró hann um til að mynda svona mynstur. Ég er alls enginn snillingur í þessu, en ég var nokkuð ánægð með útkomuna.

  7. Bakið í 40-60 mínútur. Það fer örugglega mikið eftir því hvernig ofn notaður er og hvort fólk hefur blástur á eða ekki. Ég er búin að baka kökuna tvisvar og í bæði skiptin tók það akkúrat klukkutíma fyrir hana að verða tilbúna.

  8. Leyfið kökunni að kólna áður en hún er tekin úr forminu og skorin. Hún má auðvitað vera volg, en leyfið henni allavega að standa í nokkrar mínútur.

Takk innilega fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel

Veganistur