Súkkulaðiterta með bananakremi
/Þegar við vorum börn var undantekningarlaust bökuð súkkulaðiterta með bananakremi við öll hátíðleg tilefni. Þessi kaka var í miklu uppáhaldi hjá okkur og við höfum alltaf tengt hana við hátíðir, eins og jól, páska, afmæli og allskonar fjölskylduboð. Það er sem betur fer lítið mál að útbúa vegan útgáfu af þessari gómsætu köku, svo við getum haldið áfram að njóta hennar við hvaða tilefni sem er.
Í kökuna ákváðum við að nota botnana okkar sem eru nú þegar hérna á blogginu. Eftir nokkrar tilraunir til að útbúa nýja uppskrift af súkkulaðibotnum áttuðum við okkur á að enginn af þeim var eins góð, að okkar mati, og sú sem við erum vanar að gera. Í stað þess að setja uppskrift af nýjum botnum sem okkur þykja ekki jafn góðir, ákváðum við að nota bara þá sem eru á blogginu og hafa slegið í gegn síðustu árin.
Þessi kaka er tilvalin fyrir páskana og banana-smjörkremið er svo gott að við gætum borðað það með skeið. Okkur þætti mjög gaman að vita hvort það eru margir sem ólust upp við að borða þessa köku, því við þekkjum ekki marga. Eins og margir hafa kannski tekið eftir þykir okkur virkilega gaman að útbúa vegan útgáfur af allskonar mat sem við ólumst upp við að borða. Ef þið hafið hugmyndir af einhverju sem þið mynduð vilja sjá í vegan útgáfu megið þið endilega koma með tillögur, við elskum að takast á við nýjar áskoranir.
Botnarnir:
3 bollar hveiti
2 bollar sykur
1/2 bolli kakó
2 tsk matarsódi
1 tsk salt
2 bollar vatn
2/3 bolli bragðlaus olía - við notuðum sólblómaolíu
2 tsk vanilludropar
1 msk eplaedik
1. Hitið ofninn í 175°c með blæstri
2. Blandið þurrefnum saman í skál
3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og hrærið þar til engir kekkir eru í deiginu
4. Smyrjið tvö kökuform og skiptið deiginu jafnt í þau. Þessi uppskrift passar akkurat í tvö 24 cm hringlaga kökuform. Það er þó einnig hægt að baka kökuna í eldföstu móti.
5. bakið í 20-30 mínútur
Banakrem:
150 gr mjúkt smjörlíki
120 gr flórsykur
2 stappaðir bananar
Aðferð:
Þeytið smjörlíkið þar til það verður vel mjúkt, bætið síðan flórsykrinum út í og þeytið vel
Stappið bananana og hrærið saman við kremið með sleif.
Smyrjið kreminu á milli botnanna.
Súkkulaðikrem:
250 gr smjörlíki
200 gr flórsykur
100 gr brætt suðusúkkulaði
1 tsk vanilludropar
Aðferð:
Þeytið smjörlíkið í hrærivél þar til vel mjúkt, bætið flórsykrinum og vanilludropunum útí og þeytið vel saman.
Bræðið súkkulaðið, hellið útí og þeytið vel saman við.
Smyrjið kreminu vel yfir alla kökuna og á hliðina.