Ofnbakað gnocchi í pestórjómasósu
/Hæ kæru vinir. Vona að þið hafið það gott!
Í dag deili ég með ykkur uppskrift af ofnbökuðu gnocchi med grænkáli í gómsætri pestórjómasósu. Þetta er einn af þeim réttum sem er einfalt að útbúa en smakkast eins og á veitingastað. Hversu fullkomið?!
Síðustu vikur hef ég fundið ástríðuna mína fyrir matargerð og bakstri koma aftur. Eftir nokkra mánuði þar sem ég nennti ekki einu sinni að hugsa um mat, og borðaði einungis til að næra mig, var ég orðin svolítið áhyggjufull. Ég var farin að velta því fyrir mér hvort ég myndi nokkurn tíman fá góða hugmynd aftur í eldhúsinu og hvort ég væri kannski alveg búin að missa áhugann á því að elda mat. Eftir áramótin hefur mér þó liðið mun betur og hef fundið hvernig hugmyndirnar byrja að koma til mín aftur. Það hefur verið yndisleg tilfinning að finna hvernig ég sprett fram úr rúminu til að skrifa niður hugmynd af réttium sem mig langar að prófa.
Þessi réttur var einmitt dæmi um það. Ég lá í rúminu eitthvað kvöldið og þegar ég var í þann mund að sofna sá ég fyrir mér pönnu fulla af gnocchi í rjómakenndri pestósósu. Ég hljóp framúr og skrifaði niður á blað; “Gnocchi, pestó - heimagert, rjómi, hvítvín, sítrónusafi, grænkál eða spínat eða eitthvað svoleiðis”. Daginn eftir keypti ég svo hráefnin í réttinn og prófaði, og útkoman var dásamlega góð.
Ég komst að því fyrir ekki svo löngu að hægt er að kaupa vegan ferskt gnocchi og ég hoppaði hæð mína af gleði. Á sama tíma og ég elska að útbúa mitt eigið (uppskrift HÉR) þá er það tilbúna alveg ótrúlega gott og einfaldar eldamennskuna til muna. Ég kaupi gnocchi frá Rana og það er 100% vegan. Mörg önnur merki innihalda egg og mjólk svo það er mikilvægt að lesa á pakkninguna til að vera viss. Gnocchi frá Rana fæst í Fjarðarkaupum, Hagkaupum og Melabúðinni!
Ofnbakað gnocchi í pestórjómasósu
Hráefni:
500 gr gnocchi, heimagert eða keypt tilbúið
olía til að steikja upp úr
1 meðalstór gulur laukur
1 hvítlauksgeiri
150 gr grænkál eða spínat
1.5 tsk oregano
250 ml vegan matreiðslurjómi. Oatly er minn uppáhalds
1.5 dl þurrt hvítvín
1 dl vatn
safi og börkur af hálfri sítrónu
1/2 dl heimagert grænt pestó - uppskrift hér að neðan (Hægt að nota tilbúið úr búð líka og við mælum mikið með pestóinu frá Sacla)
chiliflögur eftir smekk
rifinn vegan ostur til að toppa með
gott brauð að bera fram með. Ég bar réttinn fram með baguettebrauði
Aðferð:
Hitið ofninn í 200°c.
Hitið olíu á pönnu við meðalháan hita.
Skerið niður laukinn og pressið hvítlaukinn og steikið þar til hann fær smá lit.
Bætið gnocchi út á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur.
Bætið oregano og grænkáli út á og steikið þar til grænkálið hefur mýkst og minnkað aðeins.
Hækkið hitann og bætið hvítvíninu útí og eldið í sirka 3-5 mínútur.
Bætið pestó, rjóma, vatni, sítrónusafa, sítrónuberki og chiliflögum út á og lækkið hitann aftur niður í miðlungshita. Blandið saman og takið af hellunni.
Færið yfir í eldfastmót, nema þið notið pönnu sem hægt er að setja beint inní ofn. Stráið rifnum vegan osti yfir og setjið í ofninn þar til osturinn hefur bráðnað og fengið gylltan lit.
Pestó
Hráefni:
50 gr fersk basilika
1/2 dl furuhnetur
2 hvítlauksgeirar
1/2 dl ólífuolía
Salt og pipar
Aðferð:
Blandið öllu fyrir utan olíunni saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél.
Hrærið olíunni saman við.
Takk fyrir að lesa og njótið!
-Helga María