Vegan snitsel á tvo vegu

IMG_0755.jpg

Þessi færsla er sú þriðja í samstarfi okkar með Anamma, og í þetta sinn ákvað ég að útbúa snitselið frá þeim, sem mér þykir gríðarlega gott. Ég gat þó með engu móti ákveðið hvernig ég vildi matreiða snitselið fyrir færsluna, og eftir miklar vangaveltur fram og til baka ákvað ég að útbúa tvo mismunandi rétti úr því. Mér fannst nauðsynlegt að gera eina hefðbundna snitsel máltíð, og útbjó ég með því gómsæta sveppasósu, steiktan aspas og einar þær bestu ofnbökuðu kartöflur sem ég hef gert. Auk þess ákvað ég að gera aðeins öðruvísi máltíð og bjó til snitsel grillsamloku með grænmeti og tarragon-kapers mæjónessósu. Ég er fegin að hafa ákveðið að gera bæði því ég get ekki gert upp á milli. 

Snitselið er eina varan frá Anamma sem ekki er glúteinlaus, en nýlega breyttu þau öllum uppskriftunum sínum og snitselið, sem var glúteinlaust, er það ekki lengur. Að mínu mati eru allar vörunar mun betri eftir breytingarnar og mér finnst snitselið alveg ótrúlega gott, bæði í áferð og bragði. 

IMG_0698.jpg

Kartöflurnar sem ég gerði með voru virkilega góðar, en galdurinn var að sjóða þær fyrst og setja þær svo í ofninn. Við það urðu þær mjúkar og góðar að innan, en dásamlega stökkar að utan. Þær voru fullkomnar með báðum réttunum sem ég gerði. 

IMG_0758.jpg

Þar sem það tekur enga stund að elda snitselið langaði mig að gera með því flott meðlæti sem tekur kannski aðeins meiri tíma, en er samt virkilega einfalt og þægilegt að búa til. Ef tíminn er naumur, eða maður nennir ekki mikilli eldamennsku er auðvitað hægt að skella frönskum í ofninn og útbúa einhverja góða vegan pakkasósu, en ég mæli auðvitað mjög mikið með að búa til eigið meðlæti ef tök eru á.
Eins með samlokuna hér að neðan. Það er ekkert mál að kaupa vegan mæjónes og blanda því saman við hvítlauk og góðar jurtir, en mér fannst heimatilbúna mæjónessósan passa ótrúlega vel með samlokunni. 

IMG_0715-2.jpg
IMG_0780-3.jpg

Snitsel frá Anamma fyrir 4

  • 2 pakkar Anamma snitsel (hver pakki inniheldur 4 stk svo það er fínt að gera ráð fyrir a.m.k 2 á mann)

1. Eldið snitselið eftir leiðbeiningum á pakkanum. Ég steikti það á pönnu upp úr vegan smjöri þar til það var gyllt á báðum hliðum.

Sveppasósa:

  • 1 askja sveppir (250g)

  • Olía til steikingar

  • 500 ml vegan matreiðslurjómi

  • 1 sveppateningur 

  • 1/2 tsk dökk sojasósa (má sleppa - hún gefur sósunni mjög gott bragð en er alls ekki nauðsynleg)

  • Vatn og hveiti til að þykkja (ég mæli það aldrei neitt sérstaklega heldur hristi ég bara saman smávegis af hveiti og smá vatni, það þarf alls ekki mikið).

  1. Sneiðið niður sveppina og setjið í pott. 

  2. Steikið þá uppúr smá olíu í pottinum. Ef mér finnst sveppirnir byrja að festast við botninn finnst mér best að bæta við örlitlu vatni og endurtek það ef mér finnst þurfa. Við það myndast líka smá sveppasoð sem mér finnst gefa sósunni gott bragð. 

  3. Bætið sveppakraftinum út í pottinn þegar sveppirnir eru orðnir mjúkir og hafa rýrnað svolítið, og látið hann leysast upp í soðinu sem hefur myndast í pottinum.

  4. Hellið rjómanum út í og leyfið suðunni að koma upp.

  5. Hristið saman svolítið af hveiti og vatni og hellið út í pottinn í mjórri bunu og meðan þið hrærið hratt í sósunni þar til hún hefur náð þeirri þykkt sem þið kjósið. 

  6. Bætið sojasósunni út í ásamt salti og pipar og smakkið til. 

Ristaðar kartöflur í ofni

  • 2 kg kartöflur

  • 6 msk olía til steikingar

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 1 tsk paprikuduft

  • Salt og pipar eftir smekk

  1. Byrjið á því að skræla kartöflurnar

  2. Hitið ofninn í 200 gráður

  3. Skerið kartöflurnar í meðalstóra bita og leggið í bleyti í kalt vatn í sirka korter

  4. Sjóðið vatn í stórum potti á meðan

  5. Sjóðið kartöflurnar þar til þær eru svona nálægt því að verða tilbúnar. Þær eiga ekki að vera orðnar alveg mjúkar í gegn (mínar voru samt mjög nálægt því)

  6. Á meðan kartöflurnar sjóða hitiði olíuna á pönnu og pressið hvítlauksgeirana útí. Þegar þeir eru orðnir brúnir helliði olíunni í skál, sigtið hvítlaukinn úr og leggið til hliðar. Passið að hvítlaukurinn brenni ekki því hann verður notaður seinna 

  7. Takið kartöflurnar úr pottinum og hellið þeim í stóra skál og veltið þeim upp úr olíunni sem þið hituðuð, ásamt paprikudufti, salti og pipar. Passið að þekja kartöflurnar vel. Á þessum tímapunkti líta þær út fyrir að vera svolítið maukaðar og þannig eiga þær að vera

  8. Hellið kartöflunum á hreina ofnplötu og dreifið úr þeim svo þær séu sem minnst klestar saman

  9. Ristið þær í ofninum í 20 mínútur, takið plötuna svo út, snúið kartöflunum og ristið í aðrar 20 mínútur

  10. Þegar þær eru tilbúnar er gott að velta þeim upp úr hvítlauknum sem þið hituðuð í olíunni. Ástæðan fyrir því að ég geri það ekki áður en kartöflurnar fara í ofninn er sú að hann gæti brunnið og þá gefur hann frá sér beiskt bragð sem skemmir svolítið fyrir. 

  11. Bætið við grófu salti ef ykkur finnst þurfa

Með þessu steikti ég svo frosinn aspas á pönnu upp úr sítrónupipar, hvítlauk og salti

 

Grill samloka með snitseli og tarragon- kapersmæjó:

  • Anamma snitsel

  • Gott brauð (mæli með að kaupa heilt brauð og skera í frekar þykkar sneiðar)

  • Grænmeti eftir smekk (ég notaði romain kál, tómata og rauðlauk)

  • 1,5 dl vegan mæjónes (uppskrift okkar af vegan mæjónesi má finna HÉR)

  • 3 tsk kapers

  • 1 tsk tarragon

  • 1/2 tsk rifinn sítrónubörkur

  • Örlítil ólífuolía

  • Salt og pipar eftir smekk

  1. Steikið snitselið á pönnu upp úr olíu eða vegan smjöri þar til það er gyllt báðum megin

  2. Ristið brauðið á pönnu upp úr örlitlu vegan smjöri 

  3. Saxið niður kapers og bætið út í mæjónesið ásamt tarragon, rifnum sítrónuberki, ólífuolíu, salti og pipar

  4. Smyrjið báðar brauðsneiðarnar með mæjónessósunni og setjið snitselið á ásamt því grænmeti sem ykkur þykir best 

  5. Berið fram með gómsætu kartöflunum hér að ofan eða ofnbökuðum frönskum

Vonum að þið njótið!+
- Veganistur

 

anamma.png

- Þessi færlsa er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-