Kjúklingabaunakarrý
/Baunir eru dæmi um mat sem ég kunni alls ekki að meta áður en ég varð vegan. Ég held að ástæðan sé fyrst og fremst sú að ég ólst ekki upp við að borða þær, að undanskildum þessum hefðbundnu grænu og gulu baunum sem flestir þekkja. Þegar ég gerðist grænkeri fór ég fljótt að læra að elda baunir og fyrir mér opnaðist nýr heimur. Í dag eru þær í algjöru uppáhaldi hjá mér.
Baunir eru virkilega hollar. Þær innihalda prótín, mikið af trefjum og alls kynns fleirum góðum næringarefnum. Eins finnst varla ódýrari matur í heiminum í dag og henta því vel námsmönnum eins og mér. hægt er að kaupa þurrar baunir og sjóða í stórum skömmtum og frysta t.d, en þær fást einnig tilbúnar í dós og þarfnast þá nánast engrar fyrirhafnar. Ég viðurkenni að ég mætti vera duglegri að sjóða mínar eigin baunir en það er bara svo ótrúlega auðvelt að kaupa þær tilbúnar í dós.
Síðustu ár hafa baunir verið virkilega stór partur af mínu mataræði og má segja að ég eldi einhverskonar baunir á hverjum degi. Það eru til ótrúlega margar tegundir af þeim sem allar hafa sína eiginleika og því eru möguleikarnir miklir. Kjúklingabaunir verða oftar en ekki fyrir valinu því þær eru fullkomnar í allskyns rétti, hvort sem það er hummus, falafelbollur, kryddaðar og ristaðar í ofni eða á pönnu, út á salöt eða í pottrétti.
Í þessari viku ákváðum við systur í samstarfi við Krónuna að deila með ykkur einni af okkar einföldustu baunauppskrift. Ég held að það sé einhverskonar karrýpottréttur á matseðlinum okkar í hverri einustu viku en það er vegna þess hversu einfalt og þægilegt er að gera slíka rétti. Það er einnig hægt að gera þennan rétt svo ótrúlega fjölbreyttan að maður fær aldrei leið á honum. Sú útgáfa sem við deilum með ykkur í þessari viku er sú allra einfaldasta en það þarf einungis fjögur hráefni í réttinn, og gengur hann fullkomlega sem máltíð einn og sér en einnig er hægt að hafa alls kyns gott meðlæti með honum.
Hráefni:
1 laukur
1/4 - 1/2 dl madras mauk frá Pataks
2 dósir kjúklingabaunir
1 dós kókosmjólk frá gestus
Aðferð:
saxið laukinn og steikið upp úr örlitlu vatni þar til mjúkur.
Setjið madras maukið út í, 1/4 ef þið viljið hafa réttinn mildan og meira fyrir sterkari útgáfu.
Hellið vatninu af baununum og bætið þeim útí ásamt kókosmjólkinni og sjóðið í 10 til 15 mínútur
Réttinn má bera fram einan og sér en hann er einnig virkilega góður með hrísgrjónum ,salati og auðveldu pönnubrauði. HÉR er uppskrift af virkilega einföldu brauði.
-Veganistur