Amerískar vegan pönnukökur með sítrónu og birkifræjum

Í dag deili ég með ykkur fyrstu uppskrift ársins en það eru þessar gómsætu amerísku pönnukökur með sítrónu og birkifræjum. Þykkar, dúnmjúkar og einstaklega braðgóðar. Pönnukökurnar eru hinn FULLKOMNI helgarmorgunmatur og passa vel með dögurði. Þær eru líka geggjaðar með kaffinu. Það tekur enga stund að skella í pönnsurnar og það er virkilega auðvelt að útbúa þær.

Sítrónur og birkifræ eru skemmtileg blanda. Við erum nú þegar með uppskrift af gómsætri sítrónuköku með birkifræjum og rjómaostakremi hérna á blogginu. Mér hefur alltaf þótt birkifræ góð en það er ekki langt síðan ég smakkaði þau í fyrsta sinn í sætum bakstri. Áður hafði ég einungis borðað þau í allskonar brauði, rúnstykkjum, beyglum og fl. En þau eru svo sannarlega ekki síður góð í sætum kökum og bakstri.

Í gær listaði ég niður 10 vinsælustu uppskrftirnar á blogginu árið 2021. Uppskriftin okkar af amerískum pönnukökum var ein af þeim vinsælustu og ég skil það vel. Pönnukökur slá einhvernveginn alltaf í gegn. Ég er mikið fyrir þessar þunnu íslensku en finnst amerískar líka mjög góðar. Eitt af því besta við þær síðarnefndu er að það er mun auðveldara að baka þær. Pönnukökudeigið er þykkt og það er létt að flippa þeim. Þær eru þessvegna skotheldar og fljótlegar.

Sjáið þessi fallegu birkifræ. Í deiginu er bæði sítrónusafi og sítrónubörkur sem gefur pönnukökunum dásamlegt bragð.

Ég toppaði pönnsurnar með því sem mér þykir best, þeyttum hafrarjóma, sultu og auðvitað fullt af hlynsírópi!

Ég neyddist að sjálfsögðu til að taka eina svona klassíska pönnukökumynd þar sem ég skar í gegnum allan pönnukökustaflann. Ég hló upphátt á meðan ég tók þessa mynd því ég myndi aldrei borða pönnukökur svona. Ég vil toppa hverja einustu pönnsu með allskonar góðgæti.

Amerískar vegan pönnukökur með sítrónu og birkifræjum

Hráefni:

  • 5 dl hveiti (ca 300 gr). Smá tips: þegar ég nota dl mál til að mæla hveiti legg ég það á borðið og nota matskeið til að moka hveitinu yfir í málið. Með því kemst ég hjá því að pressa of miklu hveiti í dl málið og fæ alltaf sama magn.

  • 2 msk sykur

  • 3 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 1/2 dl birkifræ

  • Pínulítið salt

  • 3 dl haframjólk eða önnur vegan mjólk

  • 2,5 dl sojajógúrt

  • 1 tsk vanilludropar

  • 2 msk bráðið smjörlíki sem hefur fengið að kólna aðeins (plús meira til að steikja upp úr)

  • Safi og rifinn börkur úr einni sítrónu

Aðferð:

  1. Blandið saman þurrefnunum í skál. Ég bæti yfirleitt birkifræjunum seinast út í þegar ég hef blandað hinum þurrefnunum saman.

  2. Hrærið saman í aðra skál restinni af hráefnunum.

  3. Hellið blautu hráefnunum saman við þau þurru og hrærið saman með písk.

  4. Hitið smjörlíki á pönnu við meðalhita.

  5. Steikið hverja pönnuköku þangað til bubblur myndast á yfirborðinu og botninn hefur fengið fallegan gylltan lit, flippið þá pönnukökunni og steikið þar til hin hliðin hefur einnig fengið fallegan lit.

  6. Berið fram með því sem ykkur dettur í hug. Þeyttum vegan rjóma, sultu, hlynsírópi, vegan “nutella”, ávöxtum.. listinn er endalaus.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur uppskriftin. Munið að tagga okkur á instagram ef þið gerið pönnsurnar eða einhverjar aðrar uppskriftir af blogginu okkar. Það gerir okkur alltaf jafn ótrúlega glaðar!

-Helga María