Vegan súkkulaðimús með appelsínukeim

Í dag deilum við með ykkur dásamlega mjúkri og loftkenndri súkkulaðimús úr Síríus suðusúkkulaði, appelsínum og möndlum. Þessi súkkulaðimús er fullkomin eftirréttur fyrir hvaða tilefni sem er, hvort sem það er um hátíðir líkt og jól eða páska, veislur eða hversdagslegri tilefni.

Færslan og uppskriftin eru í samstarfi við Nóa Síríus, en í uppskriftina notum við gamla góða suðusúkkulaðið sem er alltaf nauðsynlegt að eiga til á hverju heimili að okkar mati. Suðusúkkulaðið frá Nóa hefur alltaf verið vegan og hentar því í hvaða vegan matargerð sem er, hvort sem það er bakstur, eftirrétti eða heitt súkkulaði til dæmis.

Páskadagur eru á morgun og fannst okkur því nauðsynlegt að deila með ykkur góðum eftirrétti sem væri fullkomin fyrir páskadag og því kom ekki annað til greina en að gera eftirrétt með súkkulaði. Við vildum að uppskriftin væri einföld og tæki ekki langan tíma þar sem það er nauðsynlegt að slaka á og gera sem minnst á páskadag að okkar mati. Músin inniheldur því fá hráefni sem einungis þarf að þeyta saman og bera fram.

Við ákváðum að hafa appelsínur og möndlur með í músinni til að gera hana ennþá betri á bragðið en okkur finnst appelsínur passa fullkomlega með súkkulaði. Það kemur ekkert smá vel út og gerir músina ferskari og skemmtilegri á bragðið. Það er þó alveg hægt að sleppa því og gera músina ennþá einfaldari. Hún bragðast alveg ótrúlega vel á báða máta.

Við vonum að ykkur líki uppskriftin vel og eins og alltaf megið þið endilega tagga okkur á Instagram ef þið eruð að gera uppskriftir frá okkur þar sem okkur finnst svo ótrúlega gaman að fylgjast með.

Gleðilega páska!

Dámasleg vegan súkkulaðimús með appelsínum og möndlum

Dámasleg vegan súkkulaðimús með appelsínum og möndlum
Höfundur: Júlía Sif
( 0 reviews )
Undirbúningstími: 10 Min: 10 Min
Dásamleg mjúk og loftkennd súkkulaðimús með appelsínukeim sem hentar fullkomlega sem eftirréttur við hvaða tilefni sem er.

Hráefni:

  • 1 ferna vegan þeytirjómi (250 ml)
  • 150 gr Síríus suðusúkkulaði frá Nóa Síríus
  • Safi úr 1/2 appelsínu
  • Börkur af 1/2 appelsínu
  • 1 dl sykur
  • 1/2 dl hakkaðar möndlur (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að bræða súkkulaðið yfir vatnsbaði eða með því að setja það í örbylgjuofn í 20 sekúndur í einu og hræra vel í á milli.
  2. Þeytið rjóman í hrærivél eða með handþeytara þar til stífþeyttur.
  3. Þeytið áfram á meðalhraða og bætið appelsínusafanum, berkinum og sykri út í á meðan.
  4. Hellið súkkulaðinu út í rjóman í mjórri bunu á meðan þið þeytið áfram á meðalhraða. Skafið meðfram hliðum og þeytið þar til allt er komið saman.
  5. Bætið hökkuðum möndlum út í og blandið þeim saman við músina með sleikju.
  6. Fínt er að leyfa músinni að sitja í ísskáp í allavega klukkutíma áður en hún er borin fram en þess þarf þó ekki.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Smákökur með tvöföldu súkkulaði og sjávarsalti

Það kemur örugglega engum á óvart að jólin eru uppáhalds tími ársins hjá okkur systrum og þá sérstaklega hvað varðar mat. Við systur erum búnar að eyða síðustu vikum í að prófa og mynda nýjar hátíðlegar uppskriftir og það mun svo sannarlega ekki vanta nýjar jólauppskriftir á blogginu hjá okkur í ár. Fyrsta hátíðlega færslan eru þessar ótrúlega góðu súkkulaðismákökur með tvöföldu súkkulaði.

Smákökurnar eru einskonar “brownie” smákökur og eru þær alveg stútfullar af súkkulaði, ótrúlega mjúkar og gómæstar. Þær eru nánast eins og gott konfekt og henta því einstaklega vel með kaffibollan eða jafnvel eftir góða máltíð.

Ég notaði cocospread súkkulaðismyrjuna frá violife í kökurnar sem gerir þær extra mjúkar og bragðgóðar, en síðan er stráð örlítið af sjávarsalti yfir hverja köku sem dregur enn frekar fram djúpa súkkulaðibragðið. Við mælum með að allir prófi þessar kökur og fylgist með okkur næstu vikur þar sem við munum birta mikið af nýjum uppskriftum.

Hráefni:

  • 1 dolla violife cocospread (150 gr)

  • 50 gr smjörlíki eða vegan smjör

  • 100 gr suðusúkkulaði

  • 1 dl sykur

  • 1 dl púðursykur

  • 2 1/2 dl hveiti

  • 1 tsk lyftiduft

  • 2 msk kakóduft

  • 150 gr saxað suðusúkkulaði

Aðferð:

  1. Byrjið á því að bræða smjörlíki og 100 gr suðusúkkulaði í potti við lágan hita eða yfir vatnsbaði.

  2. Þeytið saman cocospread, sykur og púðursykur í hrærivél eða með handþeytara í 4-5 mínútur

  3. Hellið súkkulaðismjör blöndunni hægt út í sykurblönduna og hafið hrærivélina í gangi á meðan á lágri stillingu.

  4. Blandið þurrefnunum saman í skál og hrærið síðan saman við blautu hráefnin.

  5. Saxið 150 gr af suðusúkkulaði og bætið út í deigið.

  6. Kælið deigið í að minnsta kosti 4 klst eða yfir nótt.

  7. Mótið í litlar kúlur og bakið við 180°C í 8-10 mínútur. Leyfið þeim að kólna á plötunni áður en þið takið þær af.

-Njótið vel og endilega verið dugleg að tagga okkur á instagram þegar þið eruð að baka uppskriftirnar okkar. <3

- Færslan er unnin í samstarfi við Violife á Íslandi -