Vegan brauðterta

Brauðtertur voru virkilega vinsælar hér áður fyrr. Varla kom það fyrir að maður færi í veislu þar sem ekki voru bornar á borð fallega skreyttar brauðtertur. Svo virðist sem þær séu að detta úr tísku og persónulega datt okkur aldrei í hug að reyna að "veganæsa" slíka uppskrift. Fyrir ári fórum við svo að taka eftir ákveðnu "trendi" á sænskum facebookhóp þar sem meðlimir hópsins kepptust við að útbúa fallegustu vegan brauðtertuna, eða ,,smörgåstårta¨ eins og hún er kölluð á sænsku. Þar sem okkur þykir skemmtilegt að sýna ykkur hversu auðvelt er að útbúa vegan útgáfur af því sem manni þykir gott að borða ákváðum við að útbúa vegan brauðtertu og getum sagt ykkur að hún kom okkur virkilega mikið á óvart.

Við ákváðum að hafa tvær týpur af fyllingu. Annarsvegar tófú "eggjasalat" og hinsvegar "skinkusalat" með reyktri vegan skinku. Bæði salötin smakkast virkilega vel og skinkusalatið munum við hiklaust gera við fleiri tilefni.

Það er einfalt að gera brauðtertu og við erum hissa á því að hafa ekki dottið það í hug fyrr. Hver og einn getur að sjálfsögðu gert þá fyllingu sem hann langar en við erum mjög ánægðar með þessi salöt. Reykta vegan skinkan sem við notuðum gefur brauðtertunni skemmtilega jólalegt bragð. 

Eitt af því skemmtilegasta við að "veganæsa" klassískar uppskriftir er hvað fólk verður vanalega hissa yfir því að þetta sé vegan. Fólk á það til að halda að vegan matur smakkist ekki eins vel og sé minna spennandi. Þessvegna er svo skemmtilegt að sjá svipinn á fólki þegar það uppgvötar að því hefur svo sannarlega skjátlast. 

Það er gaman að heyra hversu margir eru farnir að gera uppskriftirnar okkar. Við höfum fengið sendar myndir þar sem fólk hefur bakað súkkulaðikökuna okkar eða gert aspasbrauðið fyrir ættingja og vini sem eru vegan. Fyrir nokkrum árum þótti fólki yfirleitt mjög stressandi að fá vegan manneskju í matarboð eða veislu því flestir vissu ekkert hvað þeir gætu boðið þeim uppá. Nú er þetta loksins að breytast og fólk farið að sjá hversu auðvelt það er að útbúa vegan rétti. Brauðtertan er einmitt tilvalinn réttur til þess að mæta með í veislu til þess að sýna öðrum að veganismi stoppar mann ekkert í því að borða góðan og fallegan mat. Við vegan fólkið getum svo sannarlega belgt okkur út um jólin á smákökum, lakkrístoppum, súkkulaðitertum og brauðréttum alveg eins og aðrir. 

Hráefni

Vegan brauðterta

  • 1 pakki af brauðtertubrauði

  • Vegan eggjasalat (uppskrift fyrir neðan)

  • Vegan skinkusalat (uppskrift fyrir neðan)

  • Auka mæjónes til að smyrja á tertuna (við gerum okkar mæjónes sjálfar, það er hægt að kaupa margar týpur af vegan mæjó til dæmis í Hagkaup og Gló fákafeni en okkur þykir alltaf miklu betra að gera okkar eigin. Það tekur innan við 5 mínútur og smakkast æðislega. Uppskriftin okkar er HÉR og tvöföld uppskrift passar fullkomlega í brauðtertuna, bæði í salötin og til að smyrja utan um tertuna)

  • Grænmeti til að skreyta. Það fer að sjálfsögðu bara eftir smekk og hugmyndaflugi hvað fólk kýs að hafa ofan á tertunni. Við notuðum graslauk, steinselju, kirsuberjatómata, gúrku og radísur. 

1. Leyfið brauðinu að þiðna og skerið skorpuna af

2. Smyrjið salötunum á hverja brauðsneið fyrir sig

3. Smyrjið vegan mæjónesi utan um brauðtertuna og skreytið með því sem ykkur dettur í hug

4. Ef þið hafið tök á er fínt að leyfa tertunni að fara í ísskáp í svolítinn tíma en þá er þægilegra að skera hana, hinsvegar er það bara aukaatriði og skiptir engu hvað bragðið varðar. 

Salat 1 - Tófú "eggjasalat"

  • 1 tófústykki (við kaupum tófúið sem fæst í Bónus)

  • Örlítil olía til steikingar

  • 1/2 tsk túrmerik

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 tsk laukduft

  • 1 msk sítrónusafi

  • 1 og 1/2 dl vegan mæjónes. 

  • 1 dl hreint sojajógúrt frá Sojade (jógúrtin fæst í Bónus og Hagkaup og ein dolla af stærri gerðinni er nóg í bæði salötin)

  • 1 tsk gróft sinnep eða dijon sinnep

  • 1 msk smátt skorinn graslaukur

  • salt og pipar eftir smekk

1. Brjótið tófúið niður á pönnu og steikið létt uppúr smá olíu, kryddum og sítrónusafa.

2. Leyfið tófúhrærunni að kólna í nokkrar mínútur, setjið hana í stóra skál og blandið mæjó, jógúrt, sinnepi og graslauk saman við. 

Salat 2 - Vegan skinkusalat

  • 1 dós blandað grænmeti frá Ora

  • 1 bréf vegan skinka (Við notuðum reyktu skinkuna frá Astrid och Aporna sem kom nýlega í Hagkaup. Auk þess fæst góð skinka frá Veggyness í Nettó)

  • 1 og 1/2 dl vegan mæjónes

  • 1 dl hreina jógúrtin frá Sojade

  • 1/2 tsk hlynsíróp

  • salt eftir smekk

1. Skerið skinkuna í bita og blandið öllu saman í skál.

 

 

Við vonum að þið njótið! 
Veganistur

 

 

Heitt súkkulaði

Heitt súkkulaði er eitt af því sem gerir veturinn betri. Það er fátt jafn gott eftir göngutúr í kuldanum en hentar líka fullkomlega á köldum sunnudagsmorgnum þegar mann langar ekkert frekar en að kúra uppi í sófa í náttfötum vafin í teppi! 

Margir halda að það sé mun fljótlegra að útbúa heitt kakó úr tilbúnu kakódufti, eins og Swiss miss, og verða því svekktir að komast að því að Swiss miss er alls ekki vegan. Að okkar mati er heitt súkkulaði gert "frá grunni" mun betra og meira alvöru. Það tekur innan við 10 mínútur að útbúa og er algjörlega þess virði.

Mjólkin frá Oatly er alveg frábær. Þau framleiða meðal annars mjólk sérstaklega gerða fyrir kaffi. Hún freyðir betur og er svolítið þykkari. Ég notaði hana í heita súkkulaðið og það kom virkilega vel út. Oatly fæst í krónunni. 
Sykurpúðarnir fást í Gló í Fákafeni og koma bæði svona litlir og einnig stærri. Þeir eru mjög góðir og pössuðu mjög vel við kakóið. 

Hráefni:

  • 175g suðusúkkulaði

  • 2 dl vatn

  • 1L kaffimjólk frá Oatly - eða önnur jurtamjólk

  • Smá salt

  • Kanilstöng

Valfrjálst: 

  • Jurtarjómi frá Soyatoo, fyrir þá sem vilja þeyttan rjóma með heita súkkulaðinu (fæst í Gló Fákafeni)

  • Vegan sykurpúðar (Fást í Gló Fákafeni)

 

Aðferð:

  1. Setjið vatnið í pott og brjótið súkkulaðið ofan í. Hrærið vel í pottinum á meðan súkkulaðið bráðnar í vatninu

  2. Hellið mjólkinni út í pottinn ásamt kanilstönginni og leyfið suðunni að koma upp.

  3. Saltið eftir smekk

Berið fram með sykurpúðum, þeyttum jurtarjóma eða bara eitt og sér. Uppskriftin er fyrir sirka 4-5.

Vona að þið njótið
Helga María

Innbakað hátíðarOumph!

Þegar gerast skal vegan er það oft jólamaturinn sem þvælist hvað mest fyrir fólki. Hvað skal borða á jólunum? er spurning sem við fáum ótrúlega oft á hverju ári. Flestir eiga margar góðar jólaminningar og tengjast þær nánast allar mat. Margir eru mjög vanafastir og líður illa við tilhugsunina um að borða eitthvað annað en það sem þau eru vön á jólunum. Við systur komumst hinsvegar að því að jólin verða alveg jafn hátíðleg og eftirminnileg sama hvað við borðum. Vegan matur er nefnilega ekki síðri öðrum mat líkt og margir virðast oft halda. 

Við höfum báðar prófað margt, annars vegar rétti sem hafa heppnast mjög vel og hins vegar rétti sem hafa endað í ruslinu. Ein jólin var það hnetusteik sem brann við, önnur jólin hnetusteik sem var óæt og fleira þess háttar. Svo hafa það verið gómsætar sveppasúpur sem hinir í fjölskyldunni geta ekki staðist og mjög gómsætar hnetusteikur. Við höfum komist að því að það skiptir í rauninni litlu máli hvað við borðum á jólnum, svo lengi sem það er gott.  Eftir þónokkuð mörg veganjól, áramót, páska og fleiri hátíðir höfum við þó loksins fundið rétt sem okkur finnst vera fullkomin fyrir hátíðirnar. 

Helga kynntist Oumph! vörunum á undan flestum Íslendingum þar sem hún bjó í Svíþjóð, en þaðan er varan upprunalega. Fyrir þá sem ekki vita hvað Oumph! er þá er það soyjakjöt sem inniheldur einungis soyja, vatn og olíu og er lang besta soyjakjötið á markaðnum í dag að okkar mati. Helga ákvað eftir að hafa kynnst þessari vöru að gera einhvern rétt úr henni um jólin í fyrra.  Tengdamamma hennar var að innbaka einhvers konar kjöt í smjördeigi og fannst henni tilvalið að prófa bara eitthvað þess háttar með Oumphinu.

Það kom ekkert smá vel út og vörum við staðráðnar í því að fyrir jólin í ár myndum við deila uppskriftinni með ykkur. Við fundum rosalega mikla þörf fyrir uppskrift af einhverju öðru en hnetusteik fyrir þessi jól. Hnetusteik er algengasti jólamatur grænmetisæta og sumir skiljanlega komnir með smá leið á henni. Júlía er að minnsta kosti spennt fyrir því að borða eitthvað annað þessi jóla eftir að hafa borðað hnetusteikina á aðfangadag, annan í jólum, gamlárskvöld og nýársdag í fyrra.  

Innbakað hátíðarOumph! (10 bökur)

  • 1 poki OumphI (annað hvort the chunk eða garlic and thyme)

  • 1-2 skallotlaukar

  • 3 hvítlauksrif

  • 2-4 blöð grænkál, allt eftir smekk

  • 1 tsk rósmarín

  • salt og pipar eftir smekk

  • 1 dl Oatly-hafrarjómi

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 1/2 sveppateningur

  • 1 pakki Findus smjördeig

Aðferð:

  1. Leyfið Oumphinu að þiðna þar til auðvelt er að skera það í litla bita. Saxið einnig niður laukinn og grænkálið og setjið til hliðar.

  2. Steikið Oumphið upp úr smá olíu þar til það er vel heitt og setjið síðan laukinn, grænkálið og hvítlaukinn útí ásamt kryddunum.

  3. Steikið þetta í nágóðan tíma, eða um 10 - 15 mínútur, áður en rjómanum, sveppakraftinum og sinnepinu er bætt út í.

  4. Leyfið fyllingunni að hitna vel áður en slökkt er undir, en rjóminn þarf ekki að sjóða.

  5. Fletjið hverju smjördeigsplötu örlítið út (ekki hafa áhyggjur þó þið eigið ekki kökukefli, við redduðum okkur með glerflösku hehe) og skerið í tvennt. Leggið hvern ferhyrning af smjördeigi í eitt hólf á möffinsskúffu og setjið sirka 2 msk af fyllingunni ofan í. Festið öll fjögur hornin vel saman.

  6. Penslið hverja böku með þeirra plöntusmjólk sem er til hverju sinni, það má einnig nota afgangin af hafrarjómanum og bakið við 190 °C í 20 til 30 mínútur eða þar til gullinbrúnar.

Við bárum innbakaða Oumphið fram með brúnuðum kartöflum, rauðvínssveppasósu, grænum baunum og rauðkáli.

Rauðvíns-sveppasósa

  • 100 gr sveppir

  • 1 peli Oatly-hafrarjómi (250ml)

  • 1 msk rauðvín

  • 1/2 sveppateningur

  • salt og pipar

  • 2 msk hveiti

  • 3/4 dl vatn

  1. Steikið sveppina þar þeir eru mjúkir og svolítið vökvi myndast.

  2. Bætið rjóma, rauðvíni, sveppateningi, salti og pipar á í pottinn og látið sjóða í u.þ.b. 15 mínútur,

  3. Hristið eða þeytið saman með písk vatninu og hveitinu þar til alveg kekklaust og hellið út í í mjórri bunu á meðan hrært er stanslaust í súpunni.

  4. Leyfið suðunni að koma aftur upp og slökkvið undir.

Brúnaðar kartöflur (10-12 litlar)

  • 10-12 soðnar litlar kartöflur

  • 50 gr vegan smjör

  • 100 gr sykur

  • 1/2 dl Oatly-hafrarjómi

  1. Bræðið sykurinn á meðalhita á pönnu og passið að fylgjast vel með.

  2. Setjið smjörið útí um leið og sykurinn er bráðinn svo hann brenni ekki.

  3. Þegar smjörið er bráðið er slökkt undir, rjómanum hellt útí og hrært standslaust í hálfa mínútu áður en kartöflunum er helt út í.

Njótið vel
-Veganistur

 

 

Vegan lagterta

Jólaundirbúningurinn heldur áfram hjá okkur systrum og enn einu sinni sannast það að maður þarf ekki dýraafurðir til að njóta matarins sem fylgir þessari hátíð. Núna í nóvember prófuðum við í fyrsta skipti síðan við gerðumst vegan að gera lagtertu. við gerðum okkur þó ekki miklar vonir og vissum í raun ekki alveg út í hvað við værum að fara.

Við skoðuðum nokkrar uppskriftir og sáum að þær voru ekkert rosalega flóknar. Uppistaðan í þeim flestum var u.þ.b. sú sama en auðvitað innihéldu þær allar egg. Við ákváðum að þróa okkar eigin uppskrift og nota aquafaba í staðin fyrir egg. 

Aquafaba er orðið flestum kunnungt en það notum við t.d. í marengsuppskriftirnar okkar. Júlía bakaði köku fyrir jólin í fyrra sem minnti mikið á lagtertu og notaði aquafaba í hana og því ákváðum við bara að halda okkur við það. En fyrir þá sem ekki vita hvað það er þá er það soðið sem kemur af kjúklingabaunum í dós.

Það að baka lagtertu er alls ekki eins flókið og við héldum. Ástæðan fyrir því að okkur hafði ekki dottið í hug að baka lagtertu áður er sú að við borðuðum ekki mikið af henni í æsku. Hún var aldrei bökuð heima og því ekki mjög stór partur af okkar jólum. Núna í vetur höfum við samt mikið verið að gæla við þessa hugmynd þar sem kakan er svo rosalega jólaleg.

Einnig fundum við fyrir svolítilli eftirspurn eftir uppskrift af þessari köku og við sjáum svo sannarlega ekki eftir að hafa skellt í hana. Við erum núna búnar að prófa uppskriftina nokkrum sinnum og hefur hún alltaf heppnast mjög vel.

Hráefni:

  • 150 gr vegan smjör (við notum Krónu smjörlíki)

  • 3 dl sykur

  • 6 msk aquafaba

  • 7 1/2 dl hveiti

  • 2 tsk kanill

  • 1 1/2 tsk negull

  • 1 1/2 tsk matarsódi

  • 1 msk kakó

  • 2 1/2 dl plöntumjólk (við notum Oatly haframjólkina)

Aðferð:

  1. Þeytið smjörið og sykurinn í hrærivél og bætið síðan aquafaba útí. Þeytið þetta þar til létt og ljóst.

  2. Blandið þurrefnunum saman í aðra skál.

  3. Bætið því út í smjörhræruna ásamt mjólkinni og hrærið saman.

  4. Skiptið deginu jafnt í tvennt og bakið tvo botna í 18 mínútur við 175°C. Botnarnir eiga að vera u.þ.b. 25 x 35 cm. Skerið hvorn botn í tvennt svo þið hafið fjóra botna og smyrjið smjörkreminu jafnt á milli þeirra.

Smjörkrem:

  • 200 gr vegan smjör

  • 3 msk aquafaba

  • 2 tsk vanilludropar

  • 1 pakki flórsykur (500 gr)

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin í hrærivel og þeytið vel saman.

  2. Smyrjið á milli botnanna.

Njótið vel!
-Veganistur