Gómsætt vegan heitt súkkulaði með skemmtilegu tvisti!

Hátíðlegt heitt súkkulaði með Cointreau og þeyttum vegan rjóma. Svo dásamlega gott. Fullkomið eftir langan göngutúr í desemberkuldanum. NAMM!

Í dag er annar sunnudagur í aðventu og ég er svo sannarlega komin í jólaskap. Ég mun eyða jólunum í Svíþjóð í fyrsta sinn og er bæði spennt og pínulítið stressuð. Venjurnar á t.d. aðfangadagskvöld eru aðeins öðruvísi en heima og ég mun líklega sakna þess að hlusta á kirkjuklukkurnar hringja inn jólin klukkan 6. Eins varð ég mjög hissa þegar ég fékk að heyra að þau deila út pökkunum og opna þá svo bara öll samtímis. En ég er viss um að ég mun njóta jólanna í botn.

En að heita súkkulaðinu. Ég vildi gera eitthvað aðeins öðruvísi en ég er vön og ákvað að setja smá Cointreau út í. Það sló heldur betur í gegn. Útkoman var gómsætt heitt súkkulaði með appelsínusúkkulaðibragði og smá extra kikki frá áfenginu. Fullorðinskakó hehe. Ég bauð vinum mínum uppá bolla af súkkulaðinu og þau sögðust aldrei hafa smakkað jafn gott heitt súkkulaði. Ætli það séu ekki ágætis meðmæli?!

Það sem þú þarft í þennan góða drykk er:

Suðusúkkulaði
Vatn
Vegan mjólk
Kanilstöng
Smá salt
(mikilvægt)
Cointreau
(Má sleppa auðvitað)
Þeyttan veganrjóma að toppa með

Gæti ekki verið einfaldara.

ímyndið ykkur að koma heim eftir kaldan göngutúr í desember, setja á ljúfa jólatónlist, baka vöfflur og skella í heitt súkkulaði. Ég veit fátt meira kósý.

Vegan heitt súkkulaði með Cointreau (fyrir 4-5)

Hráefni:

  • 175g suðusúkkulaði

  • 2 dl vatn

  • 1 líter vegan mjólk. Ég notaði Oatly haframjólk

  • Smá salt

  • Kanilstöng

  • 8 cl. Cointreau. Má sleppa eða nota annað áfengi sem ykkur finnst gott. Get t.d. ímyndað mér að Kahlúa passi mjög vel

  • Vegan þeyttur rjómi að toppa með. Mæli með Oatly eða Aito

Aðferð:

  1. Setjið vatnið í pott og brjótið súkkulaðið ofan í. Hrærið vel í pottinum á meðan súkkulaðið bráðnar í vatninu

  2. Hellið mjólkinni út í pottinn ásamt kanilstönginni og leyfið suðunni að koma upp. Hrærið í á meðan svo það brenni ekki við botninn.

  3. Takið af hellunni, saltið örlítið og bætið Cointreau út í og hrærip saman við.

  4. Berið fram með þeyttum vegan rjóma og njótið!

Takk fyrir að lesa og vona að ykkur líki vel!
-Helga María

Sunwarrior próteinþeytingar

,,...En hvar fáið þið prótein? Fæst það ekki einungis úr kjöti??"

Þessa spurningu höfum við heyrt ansi oft síðan við gerðumst grænkerar. Áður fyrr spurði okkur enginn út í matarræðið okkar. Við gátum komið með pakkanúðlur og pizzasnúða í nesti daglega í menntaskóla og enginn spurði hvort við værum ekki að passa uppá að fá nóg prótein. Eftir að við byrjuðum að mæta með grænmetisbuff, þeytinga og annan vegan mat fyllist fólk skyndilegri hræðslu sem oft á tíðum er svolítið fyndin. Sjálfar höfum við þó engar áhyggjur af því að fá próteinskort því við fáum meira en nóg prótein úr fæðunni okkar. Auk þess er próteinskortur eitthvað sem þekkist varla annarsstaðar en í þróunarlöndum. Þú þarft að minnsta kosti að vera virkilega vannærð/ur til þess að fá próteinskort. 

Við systur borðum fjölbreyttan, næringarríkan mat og pössum okkur að fá öll næringarefni. Hvorugar tökum við inn mikið af fæðubótarefnum en eitt af því fáa sem við tökum inn er próteinið frá Sunwarrior. Við tökum það þó ekki inn í miklu magni og alls ekki vegna þess að við séum hræddar við að fá annars próteinskort. Júlía tekur próteinið inn eftir æfingar. Hún mun hlaupa hálfmaraþon í ágúst og stundar líkamsrækt á hverjum degi. Henni þykir því gott að útbúa sér próteinþeyting eftir æfingar. Helga stundar einnig líkamsrækt, þó ekki í jafn miklu mæli, en hún útbýr sér einnig þeytinga eftir æfingar og setur Sunwarrior prótein yfirleitt út í þá. Stundum er líka gott að bæta því út í hafra- eða chiagrauta til að gefa smá sætu. Próteinduftið hefur einnig komið sér vel þá daga sem við nennum alls ekki að elda. Það er mjög þægilegt að geta skellt í einn næringarríkan, mettandi þeyting með ávöxtum, haframjöli, möndlumjólk og smá próteini. 

Próteinið frá Sunwarrior er 100% hreint, raw vegan jurtaprótein. Ástæðan fyrir því að við tökum það er vegna þess að það er stútfullt af næringu og inniheldur einungis efni sem við þekkjum. Próteinið fæst í Nettó og er til í nokkrum bragðtegundum og þessa stundina notar Helga vanillu og Júlía mokkaprótein. Við ætlum að deila með ykkur uppáhalds próteinþeytingunum okkar. 


Banana-mokka þeytingur

Mokkapróteinið frá Sunwarrior inniheldur blöndu af hemp-próteini, pea-próteini og goji berjum. Það er virkilega gott á bragðið og lætur þeytinginn bragðast eins og súkkulaði ískaffi. 

Hráefni: 

  • 2 bananar (mega vera frosnir)

  • 1 skeið af Sunwarrior mokka próteini (skeið fylgir með í dúnknum)

  • 1/2 avókadó

  • 1 tsk kakóduft

  • jurtamjólk að eigin vali - við notuðum kókosmjólkina frá  Ecomil, en hún fæst einnig í Nettó. (Það fer eftir smekk hversu þykka þeytinga fólk vill, en við settum sirka einn bolla af mjólkinni.)

  • klakar

Öllu skellt í blandarann og blandað þar til silkimjúkt. 

"Pina colada" próteinþeytingur

Í þessum þeyting notuðum við vanillupróteinið frá Sunwarrior. Það er einnig blanda af hemp-próteini, pea-próteini og goji berjum. Próteinduftið gefur gott vanillubragð og hefur þann kost að passa með nánast öllu. Það er því hægt að gera allskonar þeytinga án þess að hafa áhyggjur af því að vanillupróteinið eyðileggi fyrir. 

Hráefni:

  • 2 bananar (mega vera frosnir)

  • 2 bollar frosinn ananas

  • 1 bolli kókosmjólk frá Ecomil

  • 1 skeið af Sunwarrior vanillupróteininu

Allt sett í blandarann og blandað vel saman

-Njótið vel
Veganistur

Færslan er unnin í samstarfi við Nettó og fást öll hráefnin þar.

Þeytingur með mangó og spínati

Mér hefur alltaf þótt spínat og kál virkilega bragðgott. Ég borðaði eiginlega allt grænmeti sem barn. Ég man að ég var ekki mikið fyrir tómata og sveppi en það kom með aldrinum. Ég var þó ekki alin upp við að borða grænmeti, ég man hvað ég suðaði oft í mömmu og bað hana að hafa oftar salat með matnum. Það var bara alls ekkert svo algengt á þessum tíma. Þau skipti sem ferskt salat var með matnum var yfirleitt þegar mamma hélt matarboð eða þegar við grilluðum. Ég tengdi því ferskt salat við svokallaðan veislumat. 
 

Þrátt fyrir að vera svo heppin að þykja spínat og grænkál lostæti, eru ekki allir með sama smekk. Mörgum þykir virkilega erfitt að koma fersku salati ofan í sig og það á oft við um börn. Besta lausnin við því er að "plata" ofan í sig grænmetið. Þeytingar eru ein besta leiðin til þess. Þú getur búið til gómsætan banana-berjaþeyting og sett handfylli af spínati útí og treystu mér, þú munt ekki finna bragðið af spínatinu.

Þessi þeytingur er einstaklega frískandi og minnir mig alltaf á sumrið. Eins og ég sagði fyrir ofan er ég mikið fyrir grænmeti og leyfi því að vera svolítið áberandi í mínum þeytingum og söfum. Fyrir ykkur sem eruð minna fyrir bragðið af grænmetinu myndi ég mæla með því að sleppa gúrkunni og láta spínatið nægja. Fyrir ykkur sem finnst frískandi og gott að finna "græna" bragðið er þeytingurinn fullkominn eins og hann er. 

Hráefni

  • 1 banani 

  • 1 bolli frosið mangó (ananas virkar líka)

  • Handfylli af spínati

  • 1/4 gúrka

  • Safi úr 1/2 lime

  • 1/2 tsk túrmerik

  • Örlítið af svörtum pipar

  • 1-2 bollar vatn (það er virkilega mismunandi hversu þykka fólk vill hafa þeytingana sína. Mér þykir gott að hafa minn svolítið þykkan. Ég mæli með því að setja minna til að byrja með og bæta vatni útí eftir þörfum þar til maður finnur sína þykkt)

Aðferð

  1. Skellið öllum hráefnunum í blandara og blandið þar til hann er silkimjúkur.

  2. Njótið! 

Blandari - Blendtec 725

Helga María

Heitt súkkulaði

Heitt súkkulaði er eitt af því sem gerir veturinn betri. Það er fátt jafn gott eftir göngutúr í kuldanum en hentar líka fullkomlega á köldum sunnudagsmorgnum þegar mann langar ekkert frekar en að kúra uppi í sófa í náttfötum vafin í teppi! 

Margir halda að það sé mun fljótlegra að útbúa heitt kakó úr tilbúnu kakódufti, eins og Swiss miss, og verða því svekktir að komast að því að Swiss miss er alls ekki vegan. Að okkar mati er heitt súkkulaði gert "frá grunni" mun betra og meira alvöru. Það tekur innan við 10 mínútur að útbúa og er algjörlega þess virði.

Mjólkin frá Oatly er alveg frábær. Þau framleiða meðal annars mjólk sérstaklega gerða fyrir kaffi. Hún freyðir betur og er svolítið þykkari. Ég notaði hana í heita súkkulaðið og það kom virkilega vel út. Oatly fæst í krónunni. 
Sykurpúðarnir fást í Gló í Fákafeni og koma bæði svona litlir og einnig stærri. Þeir eru mjög góðir og pössuðu mjög vel við kakóið. 

Hráefni:

  • 175g suðusúkkulaði

  • 2 dl vatn

  • 1L kaffimjólk frá Oatly - eða önnur jurtamjólk

  • Smá salt

  • Kanilstöng

Valfrjálst: 

  • Jurtarjómi frá Soyatoo, fyrir þá sem vilja þeyttan rjóma með heita súkkulaðinu (fæst í Gló Fákafeni)

  • Vegan sykurpúðar (Fást í Gló Fákafeni)

 

Aðferð:

  1. Setjið vatnið í pott og brjótið súkkulaðið ofan í. Hrærið vel í pottinum á meðan súkkulaðið bráðnar í vatninu

  2. Hellið mjólkinni út í pottinn ásamt kanilstönginni og leyfið suðunni að koma upp.

  3. Saltið eftir smekk

Berið fram með sykurpúðum, þeyttum jurtarjóma eða bara eitt og sér. Uppskriftin er fyrir sirka 4-5.

Vona að þið njótið
Helga María