Vegan pítur með grísku ívafi
/Í dag deilum við með ykkur uppskrift að geggjuðum pítum með grísku ívafi, stútfullar af grænmeti, maríneruðu Oumphi og bragðmikilli tzatzikisósu. Hinn FULLKOMNI kvöldmatur að okkar mati.
Færsla dagsins er unnin í samstarfi við Hagkaup og fást öll hráefnin í uppskriftina þar. Hagkaup stendur sig virkilega vel þegar kemur að úrvali af vegan vörum og það er okkur mikill heiður að fá að vinna með þeim.
Í píturnar notaði ég Oumph sem ég lét þiðna og setti svo í maríneringu. Ég vildi hafa kryddið í gyros stíl þar sem það passar virkilega vel með tzatzikisósunni. Það kom að sjáfsögðu virkilega vel út!
Tzatzikisósa er jógúrtsósa með rifinni gúrku, hvítlauk, ólífuolíu og annaðhvort rauðvínsediki eða sítrónusafa, salti og pipar. Það er gott að bæta út í hana ferskum jurtum og yfirleitt er notað dill eða minta en ég átti til kóríander svo ég notaði það. Það passaði mjög vel fannst mér.
Ég velti því lengi fyrir mér hvort ég vildi gera pítur, gómsætar vefjur úr liba brauði eða baka heimagert pönnubrauð með Oumphinu og tzatzikisósunni en ákvað á endanum að gera pítur því það er svo fljótlegt og gott. Ég notaði frosna pítubrauðið frá Hatting sem er mitt uppáhalds.
Lyktin sem fyllti eldhúsið á meðan ég steikti Oumphið var dásamleg og bragðið af því alls ekki síðra. Ég mæli mjög mikið með því að prófa þessa kryddblöndu!
Ég gerði stóra uppskrift af tzatzikisósu því ég vildi eiga afgang í ísskápnum til að bera fram með matnum mínum næstu daga. Mér finnst sósan passa með nánast öllu, svo fersk og góð.
Við elskum Oumph og notum það mikið í okkar matargerð. Ef ykkur langar að elda aðra góða uppskrift með Oumphi þá mælum við mikið með þessu gómsæta tikka masala!
Takk fyrir að lesa og ég vona að þið njótið! <3
-Helga María
Vegan pítur með grísku ívafi
Hráefni:
- Olía að steikja upp úr
- Einn pakki Oumph the original chunk (280 gr)
- 1 tsk oregano
- 1 tsk timían
- 1 tsk paprikuduft
- 1/2 tsk chiliduft
- 1 tsk broddkúmen
- 3 msk ólífuolía
- 1 tsk dijonsinnep
- 1/2 tsk salt
- pipar eftir smekk
- 1/4 tsk sykur
- 2 hvítlauksgeirar pressaðir eða rifnir
- Tzatzikisósa (uppskrift hér að neðan)
- 3-4 pítubrauð
- Grænmeti í píturnar. Ég notaði kál, tómata og rauðlauk
Tzatzikisósa
- 1 dolla tyrknesk jógúrt frá Oatly (400 gr)
- 1 gúrka
- 2 hvítlauksgeirar
- 2 msk ólífuolía
- 1 msk ferskt dill, minta eða kóríander (oftast er notað dill eða minta en ég notaði kóríander í þetta skipti)
- Sítrónusafi, salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
Oumph í marineringu
- Takið Oumph úr frysti og leyfið að þiðna.
- Setjið það í skál og bætið restinni af hráefnunum út í.
- Látið marinerast í minnst einn klukkutíma (gott að gera tzatzikisósuna á meðan).
- Hitið olíu á pönnu og steikið oumphið í nokkrar mínútur á hvorri hlið þar til það fær á sig lit.
- Hitið pítubrauð í ofninum og fyllið með grænmeti, Oumphi og sósu. Njótið!
-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hagkaup-