Kalt núðlusalat með hnetusmjörssósu

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af gómsætu köldu núðlusalati með einfaldri hnetusmjörssósu. Salatið er samansett af þunnum núðlum, þunnt skornu fersku gærnmeti og bragðmikilli sósu.

Færslan er unnin í samstarfi við Hagkaup og fást öll hráefnin hjá þeim. Við völdum “glass” núðlurnar frá santa maria í salatið þar sem þær eru örþunnar og einstaklega góðar í kalda rétti. Síðan fann ég Lima baunir í dós hjá þeim en þær hef ég ekki séð í öðrum búðum. Þær henta fullkomlega í asíska rétti hvort sem um er að ræða kalda eða heita rétti.

Hnetusmjörssósan er það sem gefur réttinum bragð en hún er ótrúlega einföld en mjög bragðmikil. Það er hægt að leika sér með aðeins með innihaldsefnin og gera sósuna sterkari eða mildari eftir því hvað hver og einn kýs. Það má einnig sleppa alveg chillimaukinu ef þið viljið hafa hana alveg milda.

Kalt núðlusalat með hnetusmjörssósu

Kalt núðlusalat með hnetusmjörssósu
Fyrir: 4
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 15 MinEldunartími: 3 Min: 18 Min
Gómsætt kalt núðlusalat með bragðsterkri hnetusmjörssósu og fersku grænmeti.

Hráefni:

Hráefni
  • 1 pakki glass núðlur frá santa maria
  • Sirka 1 bolli af smátt sneiddu rauðkáli
  • 1 stór gulrót
  • 1/2 rauð papríka
  • 1/2 gul papríka
  • 2 litlir vorlaukar
  • 1/2 dós lima baunir (lima baunir eru grænar og þær má finna hjá niðursoðnum baunum í hagkaup)
  • hnetusmjörsósa (uppskrift hér að neðan)
  • 1 dl saxað ferskt kóríander (og aðeins meira til að bera fram með ef fólk vill)
  • 1 dl gróft saxaðar salthnetur
  • Lime til að bera fram með
Hnetusmjörssósa
  • 1 dl fínt hnetusmjör
  • 1 dl vatn
  • safi úr 1 lime
  • 2 msk sojasósa
  • 1 kúfull teskeið sambal oelek frá santa maria
  • 1 msk hlynsíróp
  • 1 msk sesamolía
  • 1 hvítlauksrif
  • sirka 1 cm af fersku engifer

Aðferð:

  1. Byrjið á að útbúa núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum, en þá eru þær lagðar í bleyti í soðið vatn í 3 mínútur. Hellið vatninu af og skolið núðlurnar vel upp úr köldu vatni svo þær haldi ekki áfram að eldast.
  2. Skerið allt grænmetið niður í þunnar ræmur. Passið að skera gulræturnar extra þunnt.
  3. Skolið lima baunirnar vel.
  4. Útbúið sósuna, og hrærið öllu saman í stóra skál.
  5. Berið fram með söxuðum jarðhnetum, fersku kóríander og lime sneið.
Hnetusmjörssósa
  1. Byrjið á því að hræra saman hnetusmjörinu og vatninu. Best er að blanda saman 1 dl af hnetusmjöri við 1/2 dl af vatni mjög vel og bæta síðan restinni af vatninu út í og hræra vel saman.
  2. Rífið niður hvítlaukinn og engifer mjög fínt.
  3. Blandið restinni af hráefnunum saman við hnetusmjörið.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hagkaup -