Frosin vegan ostakaka með Amaretto, sykruðum möndlum og súkkulaðiganache
/Góðan daginn!
Ég vona að þið hafið það gott. Sjálf sit ég við eldhúsborðið og drekk kaffisopa, þakklát fyrir að geta setið inni og unnið á meðan hellirignir úti. Sumarið er að líða undir lok og á þessum nokkrum mánuðum sumarsins hef ég gengið í gegnum miklar breytingar. Í rauninni hefur allt þetta ár haft í för með sér miklar breytingar hjá mér. Allra helst þó eftir að pabbi okkar Júlíu lést í vor. Það hefur opnað fyrir allskonar tilfinningar og spurningar og gert það að verkum að ég lít ýmsa hluti öðrum augum en ég gerði áður. Ég hef alltaf átt það til að ofhugsa aðstæður og festast í áhyggjum yfir hlutum sem ég hef haldið að skipti miklu máli. Hlutum sem virðast skipta máli á því augnabliki, en eru í raun bara smámunir. Ég finn að inni í mér hef ég verið að átta mig á því hversu miklum tíma ég hef eytt í að hafa áhyggjur af og svekkja mig að óþörfu. Á meðan það er að mörgu leyti frelsandi að átta sig á þessu og geta sleppt frá sér því sem hefur verið að taka óþarfa orku, er á sama tíma erfitt að breyta mynstrinu sem hefur verið síðan á unglingsárum.
Ég hef til dæmis eytt miklum tíma í sumar í að hafa áhyggjur af því hversu fjarverandi ég hef verið á blogginu okkar síðasta árið. Hversu lítið af uppskriftum ég hef deilt með ykkur og hvort ég sé að valda ykkur öllum vonbrigðum. Ykkur sem leitið til okkar í von um að finna nýjar og spennandi uppskriftir. Fyrri hluta ársins nagaði þetta mig mikið og ég var farin að hafa áhyggjur af því að ég hefði nú þegar gert allar þær uppskriftir sem ég mun nokkurntíman gera. Eins og ég væri búin að missa alla kunnáttu í eldhúsinu.
Í sumar hef ég svo unnið að því að breyta hugarfarinu mínu og minna mig á hvers vegna ég byrjaði að blogga og hvers vegna ég elska að vera í eldhúsinu. Ég áttaði mig á því að það er enginn annar en ég sem situr heima hjá sér með áhyggjur af því hvort ég muni elda góðan mat í dag eða blogga. Var þetta virkilega mitt stærsta vandamál? Ég stóð upp, gerði plan og byrjaði að elda og baka og mynda og áður en ég vissi af var ég komin aftur í flæðið sem ég hafði ekki komist í lengi.
Ég hef hlakkað mikið til að deila með ykkur uppskrift dagsins. Frosin ostakaka með Amaretto, ristuðum og sykruðum möndluflögum og súkkulaðiganache. Að mínu mati hinn fullkomni eftirréttur. Fyrir ykkur sem ekki viljið nota áfengi í kökuna er ekkert mál að sleppa því, setja smá kaffi kannski eða eitthvað annað sem gefur spennandi bragð. Annars get ég ímyndað mér að það sé gott að prófa að setja Kahlúa ef þið hafið ekkert á móti að nota áfengi en eruð minna fyrir möndlulíkjör.
Sykruðu og ristuðu möndlurnar eru að mínu mati punkturinn yfir i-ið. Þær gefa kökunni þetta litla extra og mér þykir nánast undantekningarlaust nauðsynlegt að hafa einhverskonar “crunch” í því sem ég borða.
Þetta er svo sannarlega eftirréttur sem ég mæli með því að bjóða uppá í matarboði eða veislu. Ef ég væri að halda matarboð í dag myndi ég bjóða uppá þetta gómsæta Tikka masala í aðalrétt og svo ostakökuna í eftirrétt. Hversu gott?!
Frosin ostakaka með Amaretto, sykruðum möndlum og súkkulaðiganache
Hráefni:
Botn:
200 gr digestive kex
100 gr vegan smjörlíki
1 msk sykur
Fylling:
2,5 dl vegan þeytirjómi (mæli með þeim frá Oatly. Ein svoleiðis ferna passar í uppskriftina)
300 gr vegan rjómaostur
1 dl Disaronno Amaretto likjör
1,5 dl sykur
1 msk vanillusykur
Sykraðar möndlur:
2 dl möndluflögur
6 msk sykur
1 msk vegan smjörlíki
Pínulítið salt
Súkkulaðiganache:
200 gr suðusúkkulaði (eða annað vegan súkkulaði)
1,5 dl vegan þeytirjómi (óþeyttur)
Pínulítið salt
Aðferð:
Byrjið á því að útbúa botninn með því að mylja niður kexið, annaðhvort í matvinnsluvél eða með því að setja það í lokaðan nestispoka og brjóta kexið með kökukefli.
Bræðið smjörlíki og hellið útí matvinnsluvélina ásamt sykrinum og púlsið þar til það hefur blandast vel saman við. Ef þið myljið kexið með kökukefli, hellið því þá í skál og blandið smjörlíkinu og sykrinum saman við með sleif.
Setjið bökunarpappír í botninn á 20 cm smelluformi og smyrjið hliðarnar með smjörlíki. Hellið mulda kexinu í formið og þrýstið því í botninn og aðeins uppí hliðarnar. Setjið í frysti á meðan þið útbúið fyllinguna og möndlurnar.
Útbúið möndlurnar með því að hita á pönnu smjörlíki og bæta restinni af hráefnunum saman við.
Hrærið stanslaust á meðal háum hita þar til möndlurnar byrja að taka á sig lit og sykurinn hefur bráðnað. Það tekur smá stund en að lokum verða möndlurnar gylltar og fínar.
Færið strax yfir á bökunarpappír og látið kólna. Brjótið svo í sundur til að nota í kökuna.
þeytið rjómann í stórri skál og leggið til hliðar.
Þeytið restina af hráefnunum fyrir fyllinguna saman í annarri skál.
Bætið þeytta rjómanum útí skálina og blandið varlega saman með sleif eða sleikju.
Takið kökubotninn úr frystinum og setjið fyllinguna í formið. Ég vildi ekki bæta möndlunum út í sjálfa fyllinguna því ég vildi ráða því svolítið sjálf hversu mikið af möndlum ég hafði í. Ég tók frá tæplega helminginn af möndlunum til að toppa kökuna. Ég setti smá fyllingu, stráði svo möndlum yfir, bætti við meiri fyllingu og koll af kolli.
Setjið í frysti í 1-2 klukkutíma
Gerið súkkulaðiganache með því saxa niður súkkulaði.
Hellið þeytirjóma í pott (ekki þeyta hann) og hitið þar til hann er nánast farinn að sjóða.
Setjið súkkulaðið í skál og hellið heita rjómanum saman við. Stráið út í örlitlu salti. hrærið varlega þar til súkkulaðið hefur bráðnað í rjómanum. Takið kökuna úr frystinum, hellið súkkulaðiganache yfir, stráið möndlum yfir og setjið aftur inn í frysti í a.m.k fjóra klukkutíma.
Takið út 30-60 mínútum áður en þið ætlið að bera kökuna fram.
Takk fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki vel.
-Helga María