Möffins með kanilmulningi og glassúr
/Góðan daginn!
Ég vona að þið hafið það gott. Sjálf sit ég inni í eldhúsi og drekk fyrsta kaffibolla dagsins. Það er föstudagur og ágúst er hálfnaður. Sumarið hefur verið gott. Hér í Piteå hefur sólin skinið nánast allt sumarið og eins og heima á Íslandi er bjart allan sólarhringinn. Á meðan ég fagna sumrinu á hverju ári eftir langan veturinn þá verð ég að viðurkenna að ég hlakka mikið til haustsins. Þegar það kólnar örlítið og loftið verður ferskt og frískandi. Þegar laufin verða gul og rauð ég get aftur farið að nota þykku peysurnar mínar. Uppskrift dagsins er einmitt innblásin af þrá minni eftir haustinu. Möffins með kanilsykurshvirfli (swirl), toppaðar með kanilmulningi og glassúr.
Eins og ég sagði í síðustu færslu er ég aldrei jafn hugmyndarík í eldhúsinu og á haustin og fram að jólum. Ég get ekki alveg útskýrt hvað það er. Á sumrin er ég yfirleitt alveg hugmyndasnauð og síðan þegar líður að haustinu fer hausinn í gang. Ég þarf að finna leið til að viðhalda þessu frjóa hugmyndaflugi allt árið.
Þessar möffins eru dúnmjúkar og “flöffy” með krispí krömbli, eða mulningi, sem er virkilega hin fullkomna blanda að mínu mati. Að lokum eru þær svo toppaðar með vanilluglassúr. Að hugsa sér að fyrir minna en tíu árum hafi fólk haldið að erfitt væri að baka góðar vegan kökur og tertur. Það er sem betur fer liðin tíð!
Við erum farnar að skipuleggja uppskriftir haustsins og ég spurði á instagram í gær hvað lesendur okkar vilja sjá á blogginu. Þar fengum við mikið af skemmtilegum hugmyndum sem við erum búnar að skrifa hjá okkur. En við skulum vinda okkur að gómsætu möffinskökunum.
Möffins (12 kökur):
5 dl hveiti
2 og 1/2 dl sykur
1 msk lyftiduft
1/2 tsk salt
2 tsk vanillusykur - eða vanilludropar
1 dl bragðlaus matarolía
4 dl haframjólk (önnur jurtamjólk virkar líka. Bætið við eftir þörf ef deigið er alltof þykkt)
Kanilsykursblanda:
1 dl púðursykur
1 msk kanill
Kanilmulningur
2 dl hveiti
1 dl púðursykur
1 msk kanill
6 msk bráðið smjörlíki
Glassúr:
3 dl flórsykur
2-3 msk haframjólk (eða önnur jurtamjólk)
1 tsk vanillusykur
örlítið salt
Aðferð:
Hitið ofninn í 200°c
Byrjið á því að búa til kanilsykursblönduna og mulninginn og leggið til hliðar. Bæði er gert með því að blanda hráefnunum í skálar.
Gerið möffinsdeigið með því að blanda saman þurrefnunum í stóra skál, bæta mjólkinni og olíunni saman við og hræra með höndunum. Það er alveg óþarfi að nota rafmagnsþeytara eða hrærivél. Ég nota písk og reyni að hræra ekkert alltof mikið svo kökurnar verði sem mjúkastar.
Leggið möffins pappírform í möffinsskúffu eða á ofnplötu ef þið eigið ekki svona möffinsskúffuform.
Fyllið formin að hálfu með deigi, deilið svo kanilsykursblöndunni niður í formin og hellið möffinsdeigi yfir þar til formið er sirka 3/4 fullt.
Deilið mulningnum niður í formin og munið að það mun líta út fyrir að þetta sé svakalega mikið en það mun ekki líta svoleiðis út þegar kökurnar eru bakaðar.
Bakið í 12-18 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn út úr kökunum þegar stungið er í þær.
Útbúið glassúrinn á meðan kökurnar kólna með því að blanda saman hráefnunum í skál. Hellið honum svo yfir kökurnar þegar þær hafa kólnað aðeins.
Takk fyrir að lesa og vona að ykkur líki vel!
-Helga María