Vegan tartalettur á tvo vegu
/Í dag ætla ég að deila með ykkur tveimur uppskriftum af tartalettum. Það var aldrei hefð á okkar heimili að borða tartalettur og ég held ég hafi bara smakkað þær nokkrum sinnum yfir ævina. Hinsvegar hefur mig lengi langað að prufa að gera tartalettur með góðri vegan fyllingu og í gær lét ég loksins verða af því. Ég ákvað að gera tvær útgáfur, en mér fannst nauðsynlegt að gera eina uppskrift sem minnir á hangikjötsfyllinguna sem margir borða. Ég elska aspasbrauðrétti svo mér fannst ég verða að gera svoleiðis útgáfu líka. Báðar heppnuðust alveg ótrúlega vel og komu mér í þvílíkt hátíðarskap.
Mér finnst alltaf jafn áhugavert hvað mér finnst margt gott, eftir að ég varð vegan, sem er innblásið af mat sem mér þótti aldrei góður áður fyrr. Hangikjöt, grænar baunir og uppstúf var eitthvað sem mér fannst hreinlega vont allt mitt líf, en þegar ég gerði fyllinguna í gær sem er gerð með salty & smoky Oumph! kom það mér á óvart hversu ótrúlega gott mér þótti þetta. Það eru mörg fleiri dæmi um þetta hjá mér og kokteilsósa er eitt sem er mér efst í huga. Ég skildi aldrei af hverju fólki þótti kokteilsósa góð, en í dag þykir mér vegan kokteilsósa alveg geggjuð.
Reyndar þegar ég hugsa um það hefur mér aldrei þótt matur jafn góður og eftir að ég gerðist vegan. Ég var aldrei spennt fyrir matnum yfir jólin. Mér þóttu marengstertur og aspasbrauðréttir góðir, en allt hitt þótti mér óspennandi eða vont. Í dag eru jólin í algjöru uppáhaldi og ég er alltaf jafn spennt að baka smákökur, lagtertu og lakkrístoppa. Jólamaturinn hefur líka aldrei verið jafn veglegur hjá mér og síðan ég varð vegan. Úrvalið er orðið svo gríðarlegt og grænkerar þurfa ekki lengur að borða hnetusteik í öll mál yfir hátíðirnar eins og fyrir sjö árum þegar ég hélt mín fyrstu vegan jól.
Reykta og saltaða Oumphið er virkilega gott og mjög jólalegt. Þegar ég gerði tartaletturnar í gær gerði ég bara hálfa uppskrift af hvorri tegund, svo ég ákvað að prufa að gera vegan útgáfu af hangikjötsalati úr afgöngunum. Það kom auðvitað sjúklega vel út, en ég steikti á pönnu afganginn af oumphinu, skar það mjög smátt niður og blandaði við afgangs mæjónes ásamt grænum baunum úr dós og örlitlu hlynsírópi. Þetta fékk svo að standa í ísskápnum í smá stund og ég fékk smá sjokk yfir því hvað þetta minnti mikið á hangikjötsalat (sem mér einmitt þótti aldrei gott þegar ég borðaði kjöt, en finnst alveg geggjað svona vegan).
Það eru örugglega margir sem hafa aldrei borðað tartalettur og finnst þetta kannski hljóma óspennandi, en ég mæli mikið með að gefa þeim séns. Sjálfar tartaletturnar minna á smjördeig og eru rosalega góðar með fyllingunni. Ég var smá viss um að mér myndi þykja aspas fyllingin miklu betri en hin, en ég get eiginlega ekki valið á milli, mér fannst þær báðar svo ótrúlega góðar.
Ég ætla ekki að deila uppskrift af meðlætinu í þessari færslu, en uppskriftin af rauðrófusalatinu er þó væntanleg núna eftir helgi. Rósakálið gerði ég einfaldlega með því að steikja það á pönnu upp úr smá olíu og salti og svo í lokinn bætti ég örlitlu hlynsírópi á pönnuna ásamt appelsínuberki og leyfði rósakálinu að brúnast örlítið í því.
Tartalettur með aspas og sveppum
1 bolli vegan mæjónes - Mér finnst laaang best og einfaldast að búa til mitt eigið. Hér er uppskrift af því
150 g sveppir
Smá olía til að steikja upp úr
1 sveppateningur - Ég notaði sveppakraft frá Knorr
180 g aspas úr dós plús 2 msk af safanum af aspasinum
Paprikuduft eftir smekk
Tartalettur
Aðferð:
Hitið ofninn á 180°C
Skerið sveppina niður og steikið á pönnu upp úr smá olíu þar til þeir eru frekar vel steiktir
Bætið út á pönnuna mæjónesi, aspas, safa af aspasinum og sveppakrafti
Skiptið fyllingunni í tartelettuform og toppið með smá paprikudufti
Hitið í ofninum í ca 15 mínútur eða þar til þetta er farið að taka smá gylltan lit.
Tartalettur með Oumph og uppstúf:
Uppstúf:
2 msk smjörlíki
4 msk hveiti
500 ml vegan mjólk
1-2 msk sykur
Salt og pipar (hvítur eða svartur)
Hitið smjörið og hveitið í potti og hrærið vel þannig það myndi smjörbollu
Hellið mjólkinni út í hægt þar til úr verður þykk sósa. Ég skrifaði 500 ml að ofan, en það fer svolítið eftir því hvaða mjólk er notuð. Það þarf þó ekki meira en 500 ml en sumir gætu þurft aðeins minna.
Bætið út í sykri, salti og pipar og smakkið til
Tartalettur með Oumphi, uppstúf, kartöflum og baunum:
1 poki salty & smoky Oumph!
Smá olía til að steikja upp úr
2-3 meðalstórar soðnar kartöflur - fer svolítið eftir smekk hversu mikið fólk vill af kartöflum, en ég notaði tvær.
Grænar baunir í dós eftir smekk
Uppstúf eftir smekk - Það mun líklega verða smá afgangur af uppstúf, en ég mæli með því að blanda smá í einu þar til fyllingin hefur þá áferð sem þið kjósið.
Aðferð:
Steikið oumphið upp úr smá olíu á pönnu og skerið svo niður í smærri bita
Afhýðið kartöflurnar og skerið í svipað stóra bita
Blandið saman í skál ásamt grænum baunum og uppstúf. Mér finnst svolítið erfitt að segja nákvæmt magn af t.d baunum eða uppstúf því það er svo misjafn hvað fólk vill, en ég held ég hafi notað sirka 1 dl af baunum og svo hellti ég sósu saman við þar til ég fékk þá áferð sem ég vildi. Þið sjáið á einni af myndunum hérna fyrir ofan hvernig fyllingin mín leit út áður en tartaletturnar fóru í ofninn.
Hitið í ofninum í 15 mínútur eða þar til tartaletturnar hafa fengið á sig gylltan lit.
Takk innilega fyrir að lesa og vona að ykkur líki vel