Spæsí buffaló vöfflur með nöggum

Næsta laugardag, 25.mars er alþjóðlegi vöffludagurinn og því deilum við með ykkur í dag gómsætri útfærslu af vöfflum með spæsí buffaló nöggum, “ranch” sósu og fersku grænmeti.

Við erum í samstarfi með Hagkaup og því ákvað ég að fara og þangað og athuga úrvalið af vöfflujárnum. Þar sá ég að þau eru að selja vöfflujárnið sem ég var búin að dreyma um lengi en það er járn frá merkinu Wilfa, en það gerir fullkomnar, stórar vöfflur sem henta einstaklega vel í svona “matar”vöfflur.

Ég gerði hefðbundnu uppskriftina okkar af vöfflum sem klikkar aldrei og úr henni komu um það bil 6 stórar vöfflur. Ég ákvað að gera “ranch” dressingu sem er mild og bragðgóð með alls konar kryddjurtum en hún passar fullkomlega á móti buffaló sósunni sem ég notaði á naggana.

Ég ákvað að kaupa naggana frá merkinu peas of heaven en þeir eru soja lausir sem hentar einstaklega vel þar sem dóttir mín er með soja óþol. Það er hins vegar mjög mikið úrval af góðum vegan nöggum í Hagkaup og þessi uppskrift passar með flestum þeirra.

Uppskriftina af vöfflunum sjálfum má finna hér.

Spæsí buffaló vöfflum með vegan nöggum

Spæsí buffaló vöfflum með vegan nöggum
Fyrir: 3 stórar vöfflur
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 10 HourEldunartími: 16 Hour: 26 Hour
Einstaklega góðar "matar" vöfflur með spæsi buffaló nöggum, "ranch" sósu og grænmeti.

Hráefni:

Spæsí buffaló vöfflur
  • 3 vöfflur
  • 1 pakki Peas of heaven naggar
  • sirka 1 dl Frank RedHot wings buffaló sósa
  • "Ranch" sósa
  • Fersk salat
  • 1 avócadó
  • 1/2 rauðlaukur
  • Ferskur kóríander
  • Lime
Ranch sósa
  • 2 dl vegan majónes
  • 2 dl oatly sýrður rjómi
  • 1 msk hvítlauksduft
  • 1 msk laukduft
  • 1 msk niðursaxaður graslaukur
  • 1 tsk dill
  • 1 tsk þurrkuð steinselja eða kóríander
  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Gerið vöffludeigið tilbúið
  2. Setjið naggana í ofninn við 200°C og bakið í 16 mínútur
  3. Útbúið "ranch" sósuna eftir uppskrift hér að neðan á meðan að naggarnir bakast
  4. Hitið vöfflujárnið vel og bakið síðan vöfflurnar
  5. Þegar naggarnir eru tilbúnir setjið þá í skál, hellið buffalósósunni yfir og veltið þeim vel upp úr henni.
  6. Skerið rauðlaukinn og avócadóið í þunnar sneiðar
  7. Setjið Ranch sósu, salat, rauðlauk, avócadó, nagga, ferskan kórander og lime sósu á hverja vöfflu.
Ranch sósa
  1. Saxið graslaukinn
  2. Hrærið öllu saman í skál og smakkið til salti og pipar
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Uppskriftin er unnin í samstarfi við Hagkaup -

 
 

Gómsæt vegan gúllassúpa

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að dásamlega góðri og bragðmikilli vegan gúllassúpu. Súpan er virkilega matarmikil og er bæði fullkomin í kvöldmatinn og frábær afgangur að eiga inni í ísskáp því hún er bara betri daginn eftir ef eitthvað er. Hún er líka tilvalin í veisluna og ég mæli mikið með því að bera hana með góðu brauði.

Færsla dagsins er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði öll hráefni sem þarf í súpuna. Próteinið sem ég valdi að nota í þetta sinn er Oumph! the chunk sem er ókryddað sojakjöt. Mér finnst það virkilega gott í súpur og pottrétti. Ef þið eruð ekki mikið fyrir það er auðvitað hægt að sleppa því og setja jafnvel tófú eða baunir í staðinn. Ég mæli samt mikið með að nota Oumph!.

Grænmetið sem ég setti í súpurnar voru laukur, hvítlaukur, kartöflur og gulrætur. Það má skipta því út fyrir eitthvað annað eins og sætar kartöflur, rófur og papriku. Ég kryddaði súpuna með paprikudufti, kúmen (og athugið, nú á ég ekki við proddkúmen sem við notum mest í matargerð, heldur kúmen sem er t.d. í kúmenbrauði). Þessi krydd eru mjög ólík og gefa því matnum allt annað bragð.

Ég toppaði súpuna svo með sýrðum rjóma frá Oatly og steinselju. Ég get ekki mælt meira með þessari geggjuðu súpu. Þar er algjört kuldakast um þessar mundir og fátt betra á þannig dögum en góð yljandi súpa.

Langar þig í fleiri hugmyndir að góðri súpu? Prufaðu þá þessar:

Geggjuð sætkartöflusúpa með rauðu karrý og hnetusmjöri

Gómsæt linsubaunasúpa

Tælensk núðlusúpa með rauðu karrý

Rjómakennd sveppasúpa

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur líki vel! <3

-Helga María

Vegan gúllassúpa

Vegan gúllassúpa
Fyrir: 4
Höfundur: Helga María
Dásamlega góð og bragðmikil gúllassúpa. Bæði fullkomin í kvöldmatinn og frábær afgangur að eiga inni í ísskáp því hún er bara betri daginn eftir ef eitthvað er. Hún er líka tilvalin í veisluna og ég mæli mikið með því að bera hana með góðu brauði.

Hráefni:

  • 1 msk olía
  • 1 pakki Oumph! the cunk eða annað sojakjöt. Hægt að nota tófú eða baunir ef þið kjósið það heldur.
  • 2 meðalstórir gulir laukar
  • 4 hvítlauksgeirar
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 msk paprikuduft
  • 1 msk kúmenfræ (ath. ekki broddkúmen sem notað er mikið í matargerð heldur kúmenfræ sem sett eru t.d. í kúmenbrauð)
  • 1 msk hveiti
  • 1 dós (ca 400ml) niðursoðnir tómatar
  • 1,7 l vatn
  • 3 grænmetisteningar
  • 2 lárviðarlauf
  • 2 meðalstórar gulrætur
  • 4 meðalstórar kartöflur
  • 1/2 dl söxuð steinselja
  • Salt og pipar eða chiliflakes eftir smekk
  • Sýrður rjómi frá Oatly til að toppa súpuna með ef maður vill
  • Gott brauð að borða með súpunni

Aðferð:

  1. Hitið olíu í potti á meðalháum hita.
  2. Skerið niður lauk og steikið þar till hann mýkist.
  3. Pressið eða rífið hvítlaukinn útí og steikið í sirka mínútu í viðbót.
  4. Bætið Oumphinu út í og steikið þar til það hefur mýkst og fengið á sig örlítinn lit. Ef þið látið það þiðna fyrir myndi ég skera það í aðeins minni bita, en ef þið steikið það beint úr frysti mæli ég með að taka skæri og klippa það niður í minni bita þegar það er búið að steikjast aðeins.
  5. Bætið tómatpúru, paprikudufti og kúmeni út í og steikið í sirka 2 mínútur á meðan þið hrærið.
  6. Bætið hveitinu saman við, hrærið og steikið 1-2 mínútur.
  7. Hellið niðursoðnu tómötunum út í ásamt 1 líter af vatninu (við geymum restina aðeins).
  8. Brjótið grænmetisteninga út í og leggið lárviðarlaufin í og leyfið súpunni að malla á frekar lágum hita í 1-2 klukkutíma.
  9. Skerið niður kartöflur og gulrætur og bætið út í súpuna ásamt restinni af vatninu og leyfið henni að sjóða í 30 mínútur eða þar til grænmetið er mjúkt í gegn. Ef ykkur finnst súpan of þykk, bætið 1-2 dl af vatni í viðbót.
  10. Bætið steinseljunni saman við og smakkið til með salti og pipar eða chiliflakes.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hagkaup-