Vegan ofnbakað pasta með pestó og rjómaosti

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að einföldum og gómsætum ofnbökuðum pastarétti með grænu pestói og rjómaosti. Pastarétturinn er einstaklega þægilegur og þarfnast lítillar sem engrar fyrirhafnar þar sem pastað eldast í pestórjómasósunni í ofninum. FULLKOMIÐ!

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Violife á Íslandi og í pastaréttinn notaði ég bæði Violife creamy original rjómaostinn og Violife prosociano parmesan ostinn frá þeim. Ákvörðunina að nota parmesanostinn tók ég mjög skyndilega þar sem ég átti hann til í ísskápnum og þessvegna eru umbúðirnar ekki sjáanlegar. Svona líta þær út fyrir ykkur sem hafið ekki séð hann áður. Við systur elskum ostana frá Violife og notum þá daglega í bæði matargerð og ofan á brauð. Við erum því alltaf jafn stoltar og glaðar að fá að vinna með þeim.

Ef þið hafið ekki prófað að baka pasta í ofni mælum við mikið með því að prófa það. Það gerist virkilega ekki einfaldara. Ég kaus að steikja kúrbítinn á pönnu á meðan pastað fékk að malla í ofninum og bætti því svo við pastað ásamt spínatinu þegar stutt var eftir af eldunartímanum. Það gerði ég svo að grænmetið yrði ekki of maukað. Það var í raun það eina sem ég gerði á annarri pönnu, en þar sem ég gat gert það á meðan pastað var í ofninum tók það enga stund.

Að lokum útbjó ég kasjúhnetuparmesan sem ég setti ofan á réttinn þegar ég hafði bætt grænmetinu út í og leyfði réttinum svo að bakast í svolitla stund í viðbót. Ég bókstaflega elska kasjúparmesan. Ég gæti sett hann á allt. Ég geri hann einfaldlega með því að mixa saman kasjúhnetur, næringarger, laukduft, hvítlauksduft og salt. Svo gómstætt. Það má sleppa honum eða skipta út fyrir rifinn ost fyrir ykkur sem eruð með ofnæmi eða nennið ekki að gera kasjúparmesan. Það er líka mjög gott.

Takk kærlega fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur uppskriftin. Elskið þið “one pot” pastauppskriftir? Kíkið þá á þetta gómsæta ofnbakaða pasta með rauðu pestói.

-Helga María

Ofnbakaður vegan pastaréttur með grænu pestói og rjómaosti

Ofnbakaður vegan pastaréttur með grænu pestói og rjómaosti
Höfundur: Helga María
Virkilega einfaldur og góður pastaréttur sem fær að malla í ofninum án mikillar fyrirhafnar!

Hráefni:

  • 500g pasta
  • 850 ml vatn
  • 1,5 grænmetiskraftur
  • 1 askja Violife creamy original rjómaostur
  • 1 krukka vegan grænt pestó
  • 1 kúrbítur
  • 150 gr spínat
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 50 violife prosociano parmesanostur
  • sítrónusafi og börkur af hálfri sítrónu
  • Salt og pipar
  • Kasjúparmesanostur (má sleppa)

Aðferð:

  1. Setjið pasta, vatn, grænmetiskraft, hvítlauk, sítrónusafa, sítrónubörk, salt og pipar rjómaost og pestó í eldfast mót. Setjið álpappír yfir og eldið við 200°c í 30 mínútur. Hrærið í þegar tíminn er hálfnaður.
  2. Sneiðið niður kúrbítinn og steikið á pönnu á meðan þar till hann fær á sig smá gyltan lit.
  3. Takið eldfasta mótið út úr ofninum, bætið kúrbít, spínati og parmesanosti út og hrærið saman. Stráið kasjúparmesanosti yfir (má líka vera rifinn vegan ostur) og bakið í sirka 20 mínútur í viðbót og hrærið í þegar tíminn er hálfnaður. Það fer svolítið eftir pastanu hversu langan tíma það tekur þannig fylgist með og leyfið því að vera aðeins lengur ef þarf. Ég notaði rigatoni og það þarf svolítið langan tíma. Saltið og piprið meira ef þarf.
  4. Berið fram með t.d. góðu brauði og njótið.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi uppskrift er í samstarfi við Violife á Íslandi-

 

Gómsæt vegan kanillengja með hlynsírópi og pekanhnetum

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að vegan kanillengju með hlynsírópi og pekanhnetum. Virkilega bragóð, dúnmjúk og góð. Úr deiginu koma tvær lengjur svo það er hægt að gera fleiri tvær tegundir af fyllingu. Kanillengjan er skemmtileg tilbreyting frá hefðbundnum kanilsnúðum og er einstaklega skemmtilegt að bjóða uppá með kaffinu.

Uppskriftin af sjálfu brauðinu er hefðbundin kanilsnúðauppskrift. Það er því ekkert mál að gera snúða í staðinn. Ég mæli þó auðvitað með því að þið prófið að gera kanillengju. Hún er svooo góð.

Ég hnoða deigið í hrærivél og leyfi því svo að hefast í sirka klukkutíma eða þar til það hefur tvöfaldast í stærð. Mitt tips er að hafa deigið ekki of þurrt. Það á að fá glansandi áferð og vera svolítið klístrað án þess að festast við fingurinn þegar honum er potað í deigið. Athugið að hafa fingurinn hreinan því ef það er nú þegar deig á honum þá festist allt auðveldlega.

Fyllinguna gerði ég úr smjörlíki, púðursykri, kanil og hlynsírópi. Ég stráði svo yfir niðurskornum pekanhnetum. Virkilega góð og passar fullkomlega í lengjuna. Þar sem uppskriftin gefur tvær lengjur finnst mér gaman að gera mismunandi fyllingu og finnst geggjað að setja til dæmis vegan nutella og hakkaðar heslihnetur. Ég get trúað því að bláberjasulta passi vel og þá myndi ég trúa því að það sé gott að gera sítrónuglassúr og setja ofan á. Í raun eru möguleikarnir endalausir.

Þegar ég var búin að rúlla upp deiginu skar ég það langsum svo úr komu tvær lengjur. Ég lét sárin snúa upp og fléttaði deigið saman og festi saman við endana.

Ef þið hafið áhuga á fleiri snúðauppskriftum mælum við mikið með þessum geggjuðu kanilsnúðum með eplum og rjómaostakremi.

Ég lagði deigið í brauðform sem ég hafði klætt með smjörpappír og leyfði því að hefast aftur í sirka klukkutíma. Því næst bakaði ég lengjuna í ofninum og á meðan hún bakaðist gerði ég síróp úr vatni og sykri sem ég penslaði svo yfir um leið og ég tók lengjuna úr ofninum. Það getur kannski litið út eins og það sé erfitt að gera kanillengju en í raun er það virkilega einfalt. Það erfiðasta er að bíða á meðan hún kólnar svo hægt sé að bera hana fram. Hún má auðvitað vera svolítið volg ennþá en það er gott að leyfa henni að kólna vel áður en hún er skorin.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að þér líki uppskriftin vel! <3

-Helga María

Gómsæt vegan kanillengja með hlynsírópi og pekanhnetum

Gómsæt vegan kanillengja með hlynsírópi og pekanhnetum
Höfundur: Helga María
Í dag deilum við með ykkur uppskrift að vegan kanillengju með hlynsírópi og pekanhnetum. Virkilega bragóð, dúnmjúk og góð. Skemmtileg tilbreyting frá hefðbundnum kanilsnúðum og er einstaklega skemmtilegt að bjóða uppá með kaffinu.

Hráefni:

  • 350 gr hveiti
  • 350 gr brauðhveiti (má skipta því út fyrir venjulegt hveiti)
  • 10 gr þurrger
  • 150 gr sykur (plús 1 dl til að gera síróp)
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1/2 tsk salt
  • 4 dl vegan mjólk
  • 100 gr smjörlíki
Fylling (passar fyrir tvær lengjur)
  • 200 gr smjörlíki við stofuhita
  • 1 og 1/2 dl púðursykur
  • 3 msk hlynsíróp
  • 2 msk kanil
  • 2 dl niðurskornar pekanhnetur

Aðferð:

  1. Bræðið smjörlíki í potti. Bætið mjólkinni út í og leyfið blöndunni að ná 37°c. Hellið í hrærivélarskál.
  2. Stráið þurrgeri í mjólkina, hrærið því við og leyfið að standa í nokkrar mínútur þar til myndast froða ofan á.
  3. Bætið sykri og salti út í og hrærið saman við.
  4. Hellið helmingnum af hveitinu út í og hnoðið í hrærivélinni þar til hráefnin hafa blandast vel saman. Bætið þá restinni af hveitinu út í og hnoðið með hrærivélinni í 10 mínútur. Deigið á að sleppa frá skálinni.
  5. Smyrjið örlítilli olíu í aðra skál og færið deigið yfir í hana. Leggið viskastykki eða plastfilmu yfir og leyfið að hefast í klukkutíma eða þar til það hefur tvöfaldast í stærð.
  6. Hitið ofninn í 180°c á undir og yfir hita.
  7. Takið loftið úr deiginu þegar þið hafið hefað það með því að smyrja örlítilli olíu á handarbakið og þrýstið krepptum hnefa létt í deigið.
  8. Færið deigið á borð og deilið því í tvennt. Byrjið á því að gera aðra lengjuna með því að fletja út deigið þar til það er um 1/2 cm þykkt. Sjá mynd að ofan til að sjá hvernig deigið mitt leit út. Smyrjið fyllingunni á og stráið yfir niðurskornum pekanhnetum.
  9. Rúllið upp deiginu og skerið í tvennt langsum svo úr komi tvær lengjur. Látið sárin snúa upp og fléttið þeim saman og festið við endana.
  10. Gerið hina lengjuna og setjið á þá fyllingu sem þið viljið hafa.
  11. Færið lengjurnar varlega yfir í sitt hvort hrauðform klætt með smjörpappír og bakið í 40-50 mínútur eða þar til þær eru bakaðar í gegn og hefur fengið fallegan lit að ofan. Það er auðvitað hægt að leggja þær á bökunarplötu ef þið eigið ekki brauðform.
  12. Á meðan þið bakið lengjurnar er tilvalið að gera sírópið sem þið penslið yfir þær þegar þær koma úr ofninum. Það er gert með því að blanda 1 dl sykri og 1 dl vatni í pott og hita á hellu þar til sykurinn hefur leyst upp.
  13. Takið lengjurnar út og penslið yfir þær. Leyfið þeim að kólna áður en þær eru skornar.
Fyllingin
  1. Þeytið saman smjörlíki, sykri, kanil og hlynsírópi.
  2. Skerið pekanhneturnar niður
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Gulrótarbollakökur með rjómaostakremi

Þessar vegan gulrótabollakökur eru þær bestu, einföldustu og mjúkustu gulrótarbollakökur í heimi. Já, þið heyrðuð það hér. Kökurnar eru bókstaflega ómótstæðilegar og silkimjúkt rjómaostakremið ofan á er svo gott að ég gæti borðað það með skeið. Ertu að halda partý, veislu, matarboð eða einfaldlega í stuði til að baka? Þá eru þessar kökur fullkomnar fyrir þig!

Gulrótarbollakökur eru í miklu uppáhaldi hjá mér og mínum nánustu. Kökurnar slá undantekningalaust í gegn hvenær sem ég ber þær fram og það hefur orðið hefð hjá mér síðustu ár að baka þær við allskyns tilefni. Bæði eru þær vinsælar hjá öllum sem smakka þær og á sama tíma er virkilega einfalt að búa þær til. Það gerir þær fullkomnar að baka fyrir afmæli, veislur og aðrar samkomur. Eins er þægilegt að bera þær fram þar sem óþarfi er að nota diska og hnífapör við að borða þær.

Þessi færsla var upprunalega skrifuð árið 2017 en ég sá þessar fallegu gulrætur úti í búð um daginn og ákvað að mynda bollakökurnar upp á nýtt. Uppskriftin er þó sú sama þrátt fyrir nýtt og ferkst útlit.

Eins og ég sagði hér að ofan er einstaklega auðvelt að baka þessar gulrótabollakökur. Hráefnunum er hrært saman í skál með písk á einungis nokkrum mínútum.

  1. Þurrefnum blandað saman í skál

  2. Blautu hráefnunum blandað saman við

  3. Gulræturnar rifnar og þeim blandað saman við

  4. Deiginu skipt í möffinsform og bakaðar

Einfaldara gerist það ekki!

Spurningar og svör

  • Er hægt að gera gulrótaköku úr deiginu í staðinn fyrir bollakökur?
    Já, það er ekkert mál. Hægt er að deila deiginu í tvö 24 cm form og gera þannig tveggja hæða köku

  • Er nauðsynlegt að nota eplaedik?
    Eins og þið hafið líklega tekið eftir notum við eplaedik í nánast allar okkar kökuuppskriftir. Við mælum virkilega með því að hafa það í deiginu þar sem edikið vinnur með matarsódanum að því að gera kökuna mjúka og létta.

  • Er hægt að frysta kökurnar?
    Já, það er ekkert mál. Ef þið ætlið að baka kökurnar fyrir fram og bera þær fram seinna mæli ég þó með því að baka þær fyrir og þá frysta þær ef þið kjósið og svo setja kremið á þegar á að bera þær fram.

  • Er hægt að gera kökurnar glúteinlausar?
    Við höfum sjálfar ekki prufað að gera þessar kökur glúteinlausar og þar sem glúteinlaust hveiti virkar oft öðruvísi en venjulegt getum við ekki lofað sömu úkomu.

Ég baka kökurnar í muffins bökunarformi sem ég set pappírsformin ofan í. Það gerir það að verkum að kökurnar halda forminu vel og auðvelt er að sjá til þess að þær verði jafn háar. Ég mæli mikið með því að nota svona form, það er virkilega þægilegt. ég notaði ísskeið til að setja deigið í formið og fyllti það sirka 3/4 til að vera viss um að þær verði ekki of háar.

Rjómaostakremið er klárlega punturinn yfir i-ið. Vegan rjómaosti, smjörlíki, vanilludropum og flórsykri er þeytt saman í skál þar til úr verður silkimjúkt og gott krem sem er fullkomið ofan á gulrótarkökurnar.

Vegan gulrótarbollakökur með rjómaostakremi

Vegan gulrótarbollakökur með rjómaostakremi
Höfundur: Helga María
Þessar vegan gulrótabollakökur eru þær bestu, einföldustu og mjúkustu gulrótarbollakökur í heimi. Já, þið heyrðuð það hér. Kökurnar eru bókstaflega ómótstæðilegar og silkimjúkt rjómaostakremið ofan á er svo gott að ég gæti borðað það með skeið.

Hráefni:

Gulrótarkaka
  • 6 dl hveiti (athugið að þegar ég mæli hveiti þá moka ég hveitinu úr pokanum með skeið og færi yfir í dl málið. Með því passa ég að pressa ekki of miklu hveiti ofan í málið)
  • 2 1/2 dl sykur
  • 3 tsk lyftiduft
  • 1 1/2 tsk matarsódi
  • 1 msk kanill
  • 1/2 tsk salt
  • 4 dl vegan mjólk (ég notaði haframjólk)
  • 2 tsk vanilludropar
  • 1 dl olía
  • 1 msk eplaedik
  • 5 dl rifnar gulrætur
Rjómaostakrem aðferð:
  • 1 dolla Sheese rjómaostur, hreinn (ca 200gr)
  • 100 gr Krónusmjörlíki
  • 2-3 tsk vanilludropar
  • 1 pakki flórsykur (500gr)
  • Valhnetur að toppa með

Aðferð:

  1. Blandið saman öllum þurrefnunum í skál.
  2. Hrærið haframjólkinni, vanillunni, olíunni og edikinu saman við þar til alveg kekklaust.
  3. Rífið gulræturnar og blandið þeim vel saman við.
  4. Setjið deigið í bollakökuform eða tvo kringlótt form og bakið í 20-25 mínútur í 180°C heitum ofni.
  5. Leyfið kökunum að kólna alveg áður en að kremið er sett á.
Rjómaostakrem
  1. Byrjið á því að þeyta rjómaostinn aðeins einan og sér í hrærivél.
  2. Bætið þar næst smjörlíkinu og vanilludropunum útí og þeytið aðeins saman við.
  3. Setjið síðast flórsykurinn og þeytið kremið þar til fallega slétt og fínt.
  4. Smyrjið eða sprautið kreminu á bollakökurnar eða botnana og njótið.
  5. Við stráðum aðeins af valhnetum yfir kökurnar og fannst það koma alveg æðislega út.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur