Kúskússalat með hummus og ristuðum kjúklingabaunum

Í deilum við með ykkur uppskrift að kúskússalati bornu fram með gómsætum hummus og ristuðum kjúklingabaunum. Fullkomið að bera fram með góðu brauði eins og heimapökuðu pönnubrauði, vefjum eða pítubrauði.

Færsla dagsins er í samstarfi við Til hamingju og ég notaði kúskús og ristuð graskersfræ frá þeim í salatið. Við elskum vörurnar frá Til hamingju og notum þær mikið í matargerð og bakstur hérna heima.

Kúskús er virkilega þægilegt að nota í matargerð þar sem það krefst lítillar sem engrar fyrirhafnar. Mér finnst best að hella því í skál og hella sjóðandi vatni ásamt ólífuolíu og salti og leggja lok eða disk yfir. Ég leyfi því að standa í 10-15 mínútur og hræri aðeins í því þegar tíminn er hálfnaður. Kúskús er svo hægt að nota á allskonar vegu, t.d. í allskonar salöt, pottrétti og sem meðlæti.

Salatið sem ég gerði í þetta skipti inniheldur kúskús, tómata, papriku, gúrku, rauðlauk, grænar ólífur, ristuð graskersfræ, steinselju, vegan fetaost, ólífuolíu, sítrónusafa, salt og chiliflögur. Einstaklega gott og ferkst hvort sem það er borðað eitt og sér eða með hummus, ristuðum kjúkligabaunum og brauði eins og ég gerði.

Ég einfaldlega smurði hummusnum á stórt fat og toppaði með ristuðu kjúklingabaununum og kúskússalatinu. Svo toppaði ég með chiliolíu, ólífuolíu, reyktri papriku, kúmmin, salti, pipar og aðeins meiri steinselju. Ég bar þetta svo fram með Liba brauði sem ég steikti á pönnu. Dásamlega gott!

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur muni líka vel! <3

-Helga María

Kúskússalat með hummus og ristuðum kjúklingabaunum

Kúskússalat með hummus og ristuðum kjúklingabaunum
Höfundur: Helga María

Hráefni:

Kúskússalat
  • 3 dl kúskús frá Til hamingju
  • 4 dl vatn
  • 1 msk ólífuolía + meira til að hella yfir salatið seinna
  • sjávarsalt
  • 1,5 dl ristuð graskersfræ frá Til hamigju
  • 1,5 dl niðurskornir kirsuberjatómatar (ath að grænmetið og magnið sem ég nefni er einungis hugmynd um hvað er hægt að setja í salatið, það má velja bara það sem til er heima eða skipta út hverju sem er)
  • 1,5 dl niðurskorin gúrka
  • 1,5 dl niðurskorin paprika
  • 1,5 dl niðurskornar grænar ólífur
  • 1 dl niðurskorinn rauðlaukur
  • 1,5 dl niðurskorin steinselja
  • 1,5 dl vegan fetaostur
  • Salt og chiliflögur
Hummus
  • 3 dósir kjúklingabaunir skolaðar
  • 2 dl tahini (ég mæli með að kaupa ekta tahini frá t.d. Instanbul market. það er langbest að mínu mati)
  • 3 hvítlauksgeirar
  • Safi úr enni sítrónu
  • 1/2-1 tsk kúmmín (má sleppa)
  • Salt eftir smekk. Mér finnst gott að salta hummusinn vel
  • 2 klakar
  • ískalt vatn eftir þörfum. Mér finnst gott að hafa vatn með klökum og bæta við 1 msk í einu ef hummusinn er of þykkur. Það fer mikið eftir bæði tahini og merki á baununum hversu þykkur hann er.
  • Hlutir sem gott er að toppa hummusinn með: chiliolía, ólífuolía, meira kúmmín, reykt papríkuduft.
Ristaðar kjúklingabaunir
  • 1 dós kjúklingabaunir
  • 1 msk harissamauk
  • 1/2 tsk hvítlauksduft
  • 1/2 tsk laukduft
  • 1 tsk reykt papríka
  • salt og pipar
  • Olía

Aðferð:

Kúskússalat
  1. Hellið kúskús í stóra skál og hellið sjóðandi vatni yfir ásamt ólífulolíu og salti og leggið lok eða disk yfir. Hrærið í eftir sirka 5 mínútur og svo aftur þegar þið ætlið að bæta restinni af hráefnunum út í.
  2. Leyfið að kólna, bætið svo restinni af hráefnunum saman við og smakkið til með salti og pipar.
Hummus
  1. Skolið kjúklingabaunirnar og setjið í matvinnsluvél ásamt restinni af hráefnunum. Bætið vatni við eftir þörfum á meðan matvinnsluvélin vinnur.
  2. Bætið við salti og kryddum eftir smekk.
  3. Smyrjið á fat og toppið með kúskússalatinu og ristuðu kjúklingabaununum.
Ristaðar kjúklingabaunir
  1. Skolið kjúklingabaunirnar í sigti og setjið í skál. Ég reyni að þurrka þær aðeins með viskastykki.
  2. Bætið harissamaukinu og kryddunum saman við.
  3. Steikið upp úr olíu í 10 mínútur eða þar til baunirnar eru orðnar stökkar að utan.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Uppskriftin er í samstarfi við Til hamingju-

 
 

Bökuð vegan kókosostakaka með rjómaostakremi

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að undursamlega góðri bakaðri vegan kókosostaköku toppaðri með dúnmjúku rjómaostakremi og ristuðu kókosmjöli. Hin fullkomna ostakaka að bjóða uppá í matarboðinu, saumaklúbbnum eða við önnur tilefni. Ostakaka slær alltaf í gegn!

Færsla dagsins er í samstarfi við Pólókex frá Frón. Við systur elskum og höfum alltaf elskað Pólókex. Það gladdi okkur mikið þegar við urðum vegan og komumst að því að Póló er vegan. Það var nánast eina kexið sem var laust við mjólk og egg á þeim tíma. Þið vitið það eflaust öll en Póló er kókoskex með súkkulaðihjúp og um leið og þau heyrðu í okkur varðandi samstarf fékk Júlía hugmynd um að gera kókosostaköku og nota Pólókex í botninn.

Það eru nú þegar nokkrar uppskriftir hérna á blogginu af frosnum ostakökum og það var kominn tími til að birta bakaða ostaköku og við vonum svo innilega að ykkur muni líka þessi uppskrift eins mikið og okkur. Pólókexið, kókosfyllingin og rjómaostakremið passar svo ótrúlega vel saman og kexið var svo sannarlega fullkomið í svona botn.

Uppistaðan í sjálfri fyllingunni er silkitófú, kasjúhnetur og condensed kókosmjólk. Það reka eflaust einhverjir upp stór augu við að lesa að kakan innihaldi tófú, en við lofum ykkur að hún smakkast ekkert eins og tófú. Tófúið er notað fyrir áferðina á kökunni og þið finnið ekki bragð af því. Condense kókosmjólk fæst í Krónunni, Nettó og Vegan búðinni og gefur fyllingunni sætt kókosbragð.

Ostakakan er svo toppuð með rjómaostakremi sem er gert úr vegan rjómaosti, þeytirjóma og ristuðu kókosmjöli. Kremið er sett á þegar kakan hefur kólnað. Dásamlega gott!

takk innilega fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki uppskriftin vel! <3

-Júlía Sif

Bökuð kókósostakaka

Bökuð kókósostakaka
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 30 MinEldunartími: 60 Min: 1 H & 30 M
Unaðsleg bökuð ostakaka með pólókexbotni og kókoskeim.

Hráefni:

Pólókexbotn
  • 200 gr pólókex
  • 60 gr vegan smjör eða smjörlíki
Kókosfylling
  • 300 gr silkitófú
  • 200 gr kasjúhnetur
  • 1 dós condensed kókosmjólk (320 gr)
  • 3/4 dl hlynsíróp
  • 1/2 dl flórsykur
  • 1/4 tsk salt
  • 1 1/2 dl kókosmjöl
Rjómaostakrem
  • 1 dl þeytirjómi
  • 1/2 dl vegan rjómaostur
  • 2-3 msk ristað kókosmjöl

Aðferð:

Pólókex botn
  1. Setjið kexið í matvinnsluvél eða blandara og malið saman
  2. Blandið smjörlíkinu saman við kexið með höndunum þar til það hefur blandast vel saman.
  3. Setjið bökunarpappír í botninn á smelluformi og þjappið fyllingunni vel í botninn.
  4. Bakið við 180°C í 10 mínútur.
  5. Takið úr ofninum og setjið til hliðar þar til fyllingin er tilbúin.
Kókosfylling
  1. Setjið öll hráefnin nema kókosmjölið í öflugan blandara og blandið vel þar til fyllingin verður silkimjúk
  2. Blandið kókosmjölinu saman við með sleikju
  3. Hellið ofan á kexbotninn og bakið við 160°C í 50 mínútur.
  4. Takið kökuna út og leyfið henni að kólna alveg í forminu áður en hún er tekin úr.
  5. Kakan er mjög mjúk þegar hún kemur úr ofninum svo það þarf að láta hana alveg vera þar til hún hefur kólnað alveg, eða í allavega 4 klst.
Rjómaostakrem
  1. Þeytið rjóman og bætið síðan rjómaostinum saman við og þeytið aðeins áfram.
  2. Smyrjið yfir kökuna.
  3. Ristið smá kókosmjöl í nokkrar mínútur á þurri pönnu.
  4. Stráið yfir kökuna og berið fram.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Pólókex frá Frón-

Gómsæt súpa með gnocchi, baunum og grænmeti

Gnocchisúpa-med-grænmeti-og-baunum

Í dag deili ég með ykkur uppskrift að gómsætri súpu með gnocchi, baunum og grænmeti. Hin fullkomna haustsúpa að mínu mati. Hún er bæði dásamlega góð, vermir bæði líkama og sál og tekur undir 30 mínútur að útbúa. Ég mæli með því að bera súpuna fram með góðu brauði og toppa með heimagerðum kasjúparmesan.

Gnocchisúpa-med-grænmeti-hráefnamynd

Ég hef alltaf elskað að elda góðar súpur. Það er eitthvað svo róandi við að standa og skera niður grænmeti sem fær svo að malla í stórum potti. Súpur og pottréttir eru einnig frábær leið til að nýta grænmeti, kornvörur og baunir sem til eru heima. Þessi súpa er einmitt dæmi um það. Það er hægt að skipta grænmetinu út fyrir það sem þið eigið til heima, baununum má auðvitað skipta út fyrir aðra tegund af baunum og gnocchi er hægt að skipta út fyrir annað pasta. Mér finnst t.d. mjög gott að brjóta lasagnaplötur út í súpuna.

Hráefnin sem ég notaði í súpuna eru:

  • Niðursoðnir tómatar

  • Laukur

  • Gulrætur

  • Sellerí

  • Hvítlaukur

  • Grænmetiskraftur

  • Gnocchi

  • Cannellini baunir (sem má skipta út fyrir hvaða baunir sem er, t.d. kjúklingabaunir, pintobaunir eða smjörbaunir)

  • Balsamikedik

  • Fersk basílika

  • Ferskt timían

  • Þurrkaðar kryddjurtir

  • Salt, pipar og chiliflögur

Ert þú mikið fyrir súpur og vantar fleiri hugmyndir? Þá eru hérna nokkrar hugmyndir:

Rjómakennd vegan lasagnasúpa

Tælensk núðlusúpa með rauðu karrý

Uppáhalds linsubaunasúpan okkar

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að þér líki uppskriftin vel!

-Helga María <3

Gósmæt súpa með gnocchi, baunum og grænmeti

Gósmæt súpa með gnocchi, baunum og grænmeti
Höfundur: Helga María

Hráefni:

  • Ólífuolía eða önnur olía að steikja í
  • 1 meðalstór laukur
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 2 gulrætur
  • 2 sellerístilkar
  • 2 dósir niðursoðnir tómatar
  • 2 grænmetisteningar
  • 1.5 líter vatn
  • 2 tsk balsamikedik
  • 1 tsk þurrkað oregano
  • 1/2 tsk þurrkað marjoram
  • 2 msk ferskt timían
  • 2 msk fersk basílika
  • 1 dós baunir (ég notaði cannellinibaunur en það er ekkert mál að skipta þeim út fyrir t.d. kjúkligabaunir, pintobaunir eða smjörbaunir)
  • 1 pakki (ca 500g) gnocchi - passa að það sé vegan. Ég mæli með því frá Rana

Aðferð:

  1. Skerið niður lauk, gulrætur og sellerí.
  2. Steikið upp úr olíu í nokkrar mínútur eða þar til grænmetið hefur mýkst aðeins.
  3. Pressið hvítlaukinn og steikið í nokkrar mínútur.
  4. Bætið oregano og marjoram út í og hrærið.
  5. Bætið tómötum, vatni, grænmetisteningum, balsamikediki og ferskum jurtum og leyfið súpunni að malla í 15 mínútur.
  6. Bætið gnocchi og baunum saman við og leyfið súpunni að malla í 5 mínútur í viðbót eða þar til gnocchi-ið er mjúkt í gegn.
  7. Berið fram með góðu brauði
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur