Vegan ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði
/- Samstarf -
Í dag deilum við með ykkur uppskrift að rjómakenndum vegan ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði. Hinn fullkomni eftirréttur að okkar mati og einmitt það sem ég myndi bjóða upp á í matarboðinu yfir sumartímann. Þessi ís sannar að heimagerður ís er alveg jafn rjómakenndur og góður þó hann sé laus við mjólk og egg.
Uppskriftin er gerð í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi og í ísinn notaði ég gómsæta jarðarberja- og rabarbaramarmelaðið frá þeim. St. Dalfour marmelaðin innihalda engan hvítan sykur og eru því ekki jafn dísæt og mörg önnur marmelaði eða sultur. Marmelaðið gefur ísnum því ferskleika sem passar fullkomlega með rjómakenndum ísnum.
Ísinn sjálfur er gerður úr þeyttum hafrarjóma, heimagerðri eða keyptri sætri niðursoðinni mjólk (e. condensed milk), vanilludufti og rjómaostablöndu. Svo er Digestive kexi og marmelaðinu bætt út í. Það er ótrúlega einfalt að útbúa ísinn en mesta vinnan er að sjóða niður mjólkina í svona hálftíma og láta hana svo standa í nokkra klukkutíma í ísskápnum. Þó það taki smá tíma er það alls ekki flókið. Svo má að sjálfsögðu kaupa hana tilbúna.
Ísinn sjálfur þarf svo nokkra klukkutíma í frystinum. Ísinn tekur því smá stund að útbúa en alls ekki mikla vinnu! Ég get lofað ykkur að sá tími er algjörlega þess virði. Útkoman er gómsætur mjólkurlaus og eggjalaus ís sem svíkur engann.
Á blogginu okkar finnurðu allskonar eftirréttaruppskriftir. Hér eru nokkrar:
Sjáið bara þessa fegurð. Ég elska ís sem er rjómakendur en inniheldur ferskleika og einhverskonar “kröns”. Af því þetta er ostakökuís braut ég niður digestivekex í ísinn sem var frábær hugmynd því kexið gefur bæði stökkleikann og smá salt. það er að sjálfsögðu hægt að gera sömu grunnuppskrift af ísnum en skipta út bragðinu, en ég mæli mjög mikið með því að prófa að þessa uppskrift.
Takk innilega fyrir að lesa og vonandi líkar þér uppskriftin.
-Helga María
Vegan ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði
Í dag deilum við með ykkur uppskrift að rjómakenndum vegan ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði. Hinn fullkomni eftirréttur að okkar mati og einmitt það sem ég myndi bjóða upp á í matarboðinu yfir sumartímann. Þessi ís sannar að heimagerður ís er alveg jafn rjómakenndur og góður þó hann sé laus við mjólk og egg.
Hráefni:
Ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði:
- 1 ferna vegan þeytirjómi (ég notaði Oatly sem er 250 ml)
- ca 400 ml sæt niðursoðin mjólk (það er akkúrat magnið sem uppskriftin hér að neðan gefur)
- 150 gr vegan rjómaostur
- 1/2 dl sykur
- 2 tsk sítrónusafi
- salt á hnífsoddi
- smá vanilluduft (má skipta út fyrir vanilludropa)
- 1 krukka jarðarberja- og rabarbaramarmelaði frá St. Daflour
- Digestive kex eftir smekk (ég notaði sirka 4-5 stykki)
Sæt niðursoðin mjólk:
- 2 fernur vegan þeytirjómi (ég notaði Oatly og hef ekki prófað að gera þetta með annarri tegund. Hef prófað með þykkri kókosmjólk og það virkaði líka).
- 2,5 dl sykur
Aðferð:
Ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði:
- Þeytið rjóma og setjið í stóra skál.
- Þeytið saman rjómaost, sykur, sítrónusafa og pínulítið salt og bætið út í skálina ásamt sætu niðursoðnu mjólkinni og vanilludufti.
- Hrærið varlega saman með sleikju þar til allt er vel blandað saman.
- Setjið hluta af ísnum í brauðform, kökuform eða eldfast mót. Brjótið kex ofan á og setjið marmelaði ofan á líka og hrærið létt saman við. Þarf alls ekki að blandast mjög vel við.
- Bætið meiri ís yfir og svo aðeins af kexi og marmelaði og koll af kolli þar til þið eruð búin að setja allan ísinn í.
- Látið sitja í frystinum í minnst 3 tíma eða þar til ísinn hefur sett sig.
Sæt niðursoðin mjólk:
- Setjið þeytirjóma og sykur í pott og látið malla á meðal lágum hita í 30 mínútur á meðan þið hrærið reglulega svo hann brenni ekki við botninn.
- Hellið í krukku og setjið í ísskáp helst yfir nótt svo mjólkin nái að þykkna. Hún mun vera frekar þunn þegar hún er heit en þykknar töluvert í ísskápnum.
-Þessi færsla er unnin í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi-