Einföld vegan ostasósa

Ég deili með ykkur uppskrift af minni uppáhalds vegan ostasósu. Grunnurinn er úr kasjúhnetum og auk þeirra inniheldur sósan hvítlauk, jalapeno, krydd, eplaedik og næringarger. Ostasósan er fullkomin með mexíkóskum mat, svo sem nachos, taco og burrito. Ég elska að bera hana fram með tortillaflögum og salsasósu eða hella henni yfir nachos og baka inni í ofni.

Eins og ég sagði að ofan er þessi ostasósa virkilega góð með mexíkóskum mat. Ef ég myndi gera sósuna til að nota með mat sem ekki er mexíkóskur myndi ég kannski sleppa því að nota jalapeno þar sem það gefur sósunni svolítið þetta “nacho cheese” bragð. Ég hef þó gert sósuna akkúrat eins og hún er hér í ofnbakaðan pastarétt og það var virkilega gott.

Það gæti ekki verið einfaldara að útbúa þessa sósu. öllu er blandað saman í blandara eða matvinnsluvél og útkoman er dásamlega góð silkimjúk sósa sem minnir á ostasósuna sem kemur með nachos í bíó. Ég man að ég elskaði svoleiðis sósu þegar ég var yngri og elska að geta skellt í svipaða sósu heima úr gómsætum og næringarríkum hráefnum.

Ég vona að ykkur líki ostasósan vel. Endilega deilið með mér hvernig ykkur þykir best að bera sósuna fram. Mér finnst best að borða hana sem ídýfu með tortillaflögum, ofan á ofnbakað nachos eins og þetta HÉR, í tacos eða burrito.

-Helga María

Vegan ostasósa

Vegan ostasósa
Höfundur: Helga María

Hráefni:

  • 3 dl kasjúhnetur (lagðar í bleyti annaðhvort yfir nótt eða í heitu vatni í einn klukkutíma. Fer eftir því hversu öflugan blandara eða matvinnsluvél þið notið)
  • 2 dl haframjólk eða önnur vegan mjólk (helst ósæt samt)
  • 4 sneiðar jalapeno í krukku
  • 1/2 dl safi úr jalapenokrukkunni
  • 1/2 dl næringarger
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 1 tsk laukduft
  • 1 tsk paprikuduft
  • 1/2 tsk túrmerík
  • 2 tsk eplaedik
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Leggið kasjúnhnetur í bleyti. Ég á mjög öflugan blandara svo ég setti þær í bleyti í sjóðandi heitu vatni í klukkutíma. Ef ykkar blandari/matvinnsluvél er kraftminni mæli ég með að hafa þær í bleyti í vatni yfir nótt.
  2. Hellið vatninu af kasjúhnetunum og setjið hneturnar ásamt restinni af hráefnunum í blandara eða matvinnsluvél og blandið þar til úr kemur mjúk sósa. Saltið og piprið eftir smekk.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Vegan brún sósa

Brún sósa er eitthvað sem er algjörlega nauðsynlegt að kunna að gera að okkar mati. Þessi uppskrift er ótrúlega einföld, fljótleg og klikkar aldrei. Innihaldsefnin eru fá og tekur innan við 10 mínútur að útbúa sósuna alveg frá grunni. Sósan hentar fullkomlega með vegan kjötbollum, grænmetisbollum og hrísgrjónaréttum til dæmis eða nánast hverju sem er.

Þessi uppskrift er ein af svona grunn uppskriftunum sem ég gríp til nánast í hverri viku. Það er svo ótrúlega auðvelt að gera einfaldan, fljótlegan kvöldmat, eins og vegan kjötbollur til dæmis, að máltíð með þessari góðu sósu. Þetta er líka uppskrift sem ég á alltaf allt til í og er erfitt að trúa því hversu góð hún er miðað við hversu einfalt og fljótlegt það er að matreiða hana.

Vegan brún sósa

Vegan brún sósa
Höfundur: Júlía Sif
( 0 reviews )

Hráefni:

  • 1/2 lítri vatn
  • 2 grænmetisteningar
  • 1/4 dl næringarger
  • 1/4 dl hveiti
  • 1 msk soyjasósa
  • 1 tsk laukduft
  • 2-3 dropar sósulitur

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hrista saman vatnið og hveiti í hristibrúsa eða krukku.
  2. Hellið hveitiblöndunni í pott og bætið öllu nema sósulitnum út í.
  3. Hitið að suðu og hrærið vel í á meðan. Sjóðið í 4-5 mínútur.
  4. Bætið sósulitnum út í, einum dropa í einu þar til sá litur sem þið kjósið kemur fram.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Piparmajónes sem passar með nánast öllu!

Ef það er eitthvað sem við Íslendingar elskum þá eru það SÓSUR! Og mikið af þeim… Það breyttist mikið í matargerð okkar systra þegar við fórum að prófa okkur áfram með að gera vegan majónes heima, allt í einu opnaðist möguleiki á að búa til allar okkar uppáhaldssósur sem við þekktum síðan við vorum yngri. Hvort sem það var kokteilsósa, hamborgarsósa eða pítusósa var allt í einu ekkert mál að útbúa þær allar heima á núll, einni! Nú má líka finna vegan majónes í öllum helstu búðum sem er ótrúlega þægilegt og gerir sósugerðina ennþá einfaldari.

IMG_8150.jpg

Í þessari viku ætlum við að deila með ykkur uppskrift af einni af okkar uppáhalds. En það er piparmajónessósa.

Piparmajónes

  • 1 dós majónes (250gr)

  • 1/2 dl vatn

  • 1 msk malaður pipar

  • 1 msk sítrónusafi

  • 1/2 tsk salt

Aðferð:

  1. Hrærið vatninu og majónesi saman í skál. það þarf að hræra svolítið vel til að það blandist alveg saman. (Þessi skrefi má alveg sleppa en mér finnst það betra til að fá sósuna örlítið þynnri en majónesið er eitt og sér).

  2. Bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið vel saman.

Sósan er fullkomin til að nota í alls kynns pítur eða vefjur og passar alveg einstaklega vel með anamma snitselinu sem er á myndunum hérna að ofan.

-Njótið vel og endilega! Endilega taggið okkur og sendið okkur myndi þegar þið eruð að prófa uppskriftinar okkar! <3

Þessi færsla er unnin í samstarfið við Anamma vegan á Íslandi.

 
anamma_logo.png