Hrísgrjónanúðlur með hnetusmjörssósu og tofu
/Þá er veturinn kominn langt á veg og flestir komnir á fullt, rútínan loksins að verða komin á ról aftur og allir á fullu í sínu, allan daginn. Meðlimir fjölskyldunnar fara út á morgnanna hver í sína átt og hittast oft ekki aftur fyr en um kvöldmatarleytið. "En hvað á að hafa í matinn?" Þetta er ein leiðinlegasta umræða sem flestar fjölskyldur þurfa að eiga á hverjum degi. Hvort sem fjölskyldna samanstendur af einni manneskju eða átta þarf alltaf að hafa eitthvað í matinn og bara að ákveða það getur verið mikill hausverkur, hvað þá að þurfa að ákveða það á hverjum einasta degi.
Eg sagði þessari spurningu stríð á hendur fyrir nokkrum árum og fór að gera matseðla um helgar fyrir viku í senn sem eg verslaði svo inn fyrir í einni ferð. Þvílíkur léttir að þurfa ekkert að hugsa um það, dag eftir dag, hvað ég eigi að hafa í matinn. Fara bara út í daginn vitandi nákvæmlega hvað á að vera í kvöldmat og að allt sé til í ísskápnum í akkúrat þann rétt. Hins vegar er auðvitað ekki alltaf auðvelt að setja niður á blað 6 máltíðir í einu, það er oft snúið, stundum alveg ótrúlega létt en stundum eins og það séu bara ekki til fleiri réttir í heiminum en tveir eða þrír. Ég er hins vegar komin með ágætis æfingu og enn ágætara gagnasafn af vikumatseðlum og fannst því komin tími til að leyfa ykkur að njóta góðs af. Við systur höfum því ákvaða að gera vikumatseðil að vikulegum færslum hérna á blogginu og vonum að ykkur líki vel.
Þó eru auðvitað ekki næstum allar uppskriftirnar af réttunum hérna inná blogginu en munum við auðvitað bæta í smátt og smátt og reyna að koma öllum okkar uppáhalds réttum hingað inn. Í þessari viku eru hnetusmjörs-tofu-núðlur á matseðlinum og fannst mér því tilvalið að setja þá uppskrift inn samhliða honum en þessar núðlur eru í algjöru uppaháldi hjá okkur þessa stundina. Þær eru alveg ótrúlega bragðgóðar og matarmiklar, og ekki skemmir fyrir hversu hollar og næringarríkar þær eru í leiðinni.
Hráefni:
1/2 pakki hrísgrjónanúðlur
1/2 kubbur tofu
1/2 haus brokkoli
1/2 græn paprika
u.þ.b. 10 cm af blaðlauk
u.þ.b. 1 bolli harricot baunir (ég kaupi frosnar)
u.þ.b. 1 bolli hvítkál skorið í þunnar ræmur
4 gulrætur
Hnetsmjörssósa:
2 bollar vatn
2-3 msk grænmetiskraftur
4 kúfullar msk hnetusmjör
1 msk tamarisósa
3 hvítlauksgeirar
2 ferskar döðlur (muna að taka steininn úr)
2 tsk rautt karrý mauk (red curry paste)
smá sítrónusafi kreystur úr ferskri sítrónu (má alveg sleppa)
salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
Mér finnst best að byrja á því að setja vatn í frekar stóran pott og kveikja undir, þá er það farið að sjóða og hægt að setja núðlurnar útí, þegar ég hef undirbúið allt hitt.
Ég sker tofuið niður en mér finnst best að henda því bara inn í ofn eins og það er, ekki með neinu kryddi eða neitt og leyfa því að vera þar á meðan að ég steiji grænmetið og útbý hnetusósuna.
Skerið grænmetið niður eftir smekk og steikið létt upp úr örlitlu vatni
Setjið öll hréfnin fyrir sósuna í blandara ðea matvinnsluvél og blandið vel þar til allt er komið vel saman.
Sjóðið núðlurnar í vatninu eftir leiðbeiningum á pakkningunni.
Takið tófuið út og bætið út á pönnuna með grænmetinu, hellið síðan hnetusósunni yfir það og leyfið suðunni á henni að koma upp. Mér finnst best að leyfa sósunni að malla í 5-7 mínútur áður en ég blanda núðlunum saman við.
Berið réttinn fram einan og sér eða með spírum og muldum salthnetum
Njótið vel