Vegan súkkulaðimús með appelsínukeim

Í dag deilum við með ykkur dásamlega mjúkri og loftkenndri súkkulaðimús úr Síríus suðusúkkulaði, appelsínum og möndlum. Þessi súkkulaðimús er fullkomin eftirréttur fyrir hvaða tilefni sem er, hvort sem það er um hátíðir líkt og jól eða páska, veislur eða hversdagslegri tilefni.

Færslan og uppskriftin eru í samstarfi við Nóa Síríus, en í uppskriftina notum við gamla góða suðusúkkulaðið sem er alltaf nauðsynlegt að eiga til á hverju heimili að okkar mati. Suðusúkkulaðið frá Nóa hefur alltaf verið vegan og hentar því í hvaða vegan matargerð sem er, hvort sem það er bakstur, eftirrétti eða heitt súkkulaði til dæmis.

Páskadagur eru á morgun og fannst okkur því nauðsynlegt að deila með ykkur góðum eftirrétti sem væri fullkomin fyrir páskadag og því kom ekki annað til greina en að gera eftirrétt með súkkulaði. Við vildum að uppskriftin væri einföld og tæki ekki langan tíma þar sem það er nauðsynlegt að slaka á og gera sem minnst á páskadag að okkar mati. Músin inniheldur því fá hráefni sem einungis þarf að þeyta saman og bera fram.

Við ákváðum að hafa appelsínur og möndlur með í músinni til að gera hana ennþá betri á bragðið en okkur finnst appelsínur passa fullkomlega með súkkulaði. Það kemur ekkert smá vel út og gerir músina ferskari og skemmtilegri á bragðið. Það er þó alveg hægt að sleppa því og gera músina ennþá einfaldari. Hún bragðast alveg ótrúlega vel á báða máta.

Við vonum að ykkur líki uppskriftin vel og eins og alltaf megið þið endilega tagga okkur á Instagram ef þið eruð að gera uppskriftir frá okkur þar sem okkur finnst svo ótrúlega gaman að fylgjast með.

Gleðilega páska!

Dámasleg vegan súkkulaðimús með appelsínum og möndlum

Dámasleg vegan súkkulaðimús með appelsínum og möndlum
Höfundur: Júlía Sif
( 0 reviews )
Undirbúningstími: 10 Min: 10 Min
Dásamleg mjúk og loftkennd súkkulaðimús með appelsínukeim sem hentar fullkomlega sem eftirréttur við hvaða tilefni sem er.

Hráefni:

  • 1 ferna vegan þeytirjómi (250 ml)
  • 150 gr Síríus suðusúkkulaði frá Nóa Síríus
  • Safi úr 1/2 appelsínu
  • Börkur af 1/2 appelsínu
  • 1 dl sykur
  • 1/2 dl hakkaðar möndlur (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að bræða súkkulaðið yfir vatnsbaði eða með því að setja það í örbylgjuofn í 20 sekúndur í einu og hræra vel í á milli.
  2. Þeytið rjóman í hrærivél eða með handþeytara þar til stífþeyttur.
  3. Þeytið áfram á meðalhraða og bætið appelsínusafanum, berkinum og sykri út í á meðan.
  4. Hellið súkkulaðinu út í rjóman í mjórri bunu á meðan þið þeytið áfram á meðalhraða. Skafið meðfram hliðum og þeytið þar til allt er komið saman.
  5. Bætið hökkuðum möndlum út í og blandið þeim saman við músina með sleikju.
  6. Fínt er að leyfa músinni að sitja í ísskáp í allavega klukkutíma áður en hún er borin fram en þess þarf þó ekki.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Hátíðlegt grasker með fyllingu og brún sósa

Í dag deili ég með ykkur ótrúlega góðu fylltu butternut graskeri með hátíðlegri linsubaunafyllingu sem inniheldur auk linsubauna, villt hrísgrjón, ferskt tímían, grænmeti, trönuber og valhnetur. Þessi réttur er ótrúlega hátíðlegur og passar því fullkomlega fyrir páskana. Hann má bera fram með helsta hátíðarmeðlæti en uppskrift af brúnni sósu sem hentar fullkomlega með má finna hér.

Í gegnum tíðina höfum við systur reynt að vera duglegar að deila með ykkur uppskriftum sem henta við öll tækifæri. Frá því við urðum vegan höfum við gert sérstaklega mikið upp úr því geta eldað ljúffenga rétti fyrir hátíðir og veislur. Þessi réttur er einn af þeim sem hentar einstaklega vel um hátíðir en í þetta skiptið deilum við með ykkur rétti sem inniheldur einungis grænmeti.

Okkur fannst löngu komin tími á að útbúa uppskrift af góðum grænmetisrétti sem getur virkað við hátíðlegri tilefni en við vissum strax að við vildum hafa ákveðna hluti í huga við þróun réttarins:

1. Ég vildi að innihaldsefnin væru ekki of mörg og alls ekki flókin.

2. Ég vildi að rétturinn myndi passa með öllu hefðbundnu meðlæti sem flestir bera fram með hátíðarmat.

3. Ég vildi að rétturinn gæfi ekki eftir hvað varðar bragð.

Ég elska að gera fóða fyllingu og setja í grænmeti og geri til dæmis oft fylltar papríkur eða kúrbít. Ég hafði hins vegar aldrei prófað að gera fyllt butternut grasker eða það er eitt af uppáhalds grænmetinu mínu. Mér fannst þá mikilvægast að fyllingin væri sérstaklega góð þar sem það er mjög milt bragð af butternut graskeri. Ég ákvað strax að grunnurinn af fyllingunni yrðu hrísgrjón og linsubanir þar sem þau hráefni draga mjög vel í sig bragð af kryddum. Þá valdi ég bragðmikið grænmeti svo sem lauk, sveppi og sellerí og til að gera þetta hátíðlegt bætti ég við trönuberjum og valhnetum.

Ég ákvað að ég vildi eiinig hafa uppskrift af góðri sósu með og fór því í að gera uppskrift af skotheldri brúnni sósu frá grunni. Það er hægt að fá vegan pakkasósu í Krónunni en mig langaði að gera mína eigin uppskrift af heimagerðri sósu og náði ég að gera ótrúlega einfalda sósu sem er einungis úr hráefnum sem eru til í flestum eldhúsum.

Gleðilega páska og vonandi njótið þið vel.

-Júlía Sif

Hátíðlegt grasker með fyllingu

Hátíðlegt grasker með fyllingu
Höfundur: Júlía Sif
( 0 reviews )
Undirbúningstími: 30 MinEldunartími: 60 Min: 1 H & 30 M

Hráefni:

  • Meðalstórt butternut grasker
  • 1 bolli soðin villt hrísgrjón frá gestus
  • 1 bolli soðnar brúnar linsur (gott að sjóða upp úr sveppakrafti)
  • 1 stilkur sellerí
  • 6 litlir sveppir
  • 2 litlir skallotlaukar
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2-3 greinar ferskt timían
  • salt og pipar
  • 1 dl valhnetur
  • 1/2 dl trönuber
  • 1 dl brauðrasp
  • 1/2 dl vatn

Aðferð:

  1. Hitið ofnin á 200°C og notist við blástur (180°C með undir- og yfirhita)
  2. Byrjið á því að sjóða hrísgrjón og linsubaunirnar.
  3. Skerið endana af graskerinu sitthvoru meginn og graskerið síðan í tvennt. Skerið innan úr því svo það sé hollt að innan en hafið frekar þykkan kannt allan hringin. (Sjá myndir að ofan)
  4. Saxið niður skallotlauk, hvítlauk, sellerí og sveppi og steikið á pönnu í nokkrar mínútur eða þar til grænmetið mýkist vel.
  5. Bætið út í smátt söxuðum trönuberjum, timíani og valhnetum ásamt hrísgrjónum, linsubaunum og steikið áfram í 4-5 mínútur á meðalhita.
  6. Bætið brauðraspi og vatni út í og hrærið vel saman.
  7. Fyllið báða helmingja af graskerinu mjög vel og pressið vel niður. Lokið graskerinu og bindið það saman með vel blautu snæri eða pakkið því inn í álpappír svo það haldist vel saman
  8. Bakið í miðjum ofni í 60 mínútur.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar -

 
 

Vegan páskaegg

Ég hef ekki keypt mér páskaegg um páskana síðan ég gerðist vegan. Í staðinn hef ég lagt það í vana minn að kaupa mér bara uppáhalds vegan nammið mitt og háma það í mig á meðan að hinir gæða sér á eggjunum sínum. Úrvalið af vegan nammi er orðið svo gríðarlegt í dag að það er ekkert mál fyrir grænkera að njóta hátíðarinnar.

Þetta árið er þó hægt að fá vegan páskaegg í Krónunni en ég ákvað samt að búa mér til mitt eigið egg í fyrsta skipti. Páskaeggið í Krónunni er úr suðusúkkulaði en mig langaði í egg úr vegan mjólkursúkkulaði sem myndi minna meira á það sem ég var vön að borða áður. Ég hafði hugsað um að búa mér til páskaegg í svolítinn tíma en aldrei lagt í það. Ég ákvað að láta reyna á það og ég sé svo sannarlega ekki eftir því.

Það að gera heimagerð páskaegg var þó örlítið meira maus en ég hélt. Það var alls ekki flókið eða erfitt, það var bara aðeins tímafrekara en ég hafði gert ráð fyrir. Ég varð sem betur fer ótrúlega sátt með útkomuna sem gerði þetta allt þess virði.  Ég ætla að deila með ykkur mínum ráðum og því nammi sem ég notaði í eggin.

Ichoc súkkulaðið er uppáhalds súkkulaðið mitt og því fannst mér tilvalið að nota það til að útbúa páskaeggin. Ichoc er vegan mjólkursúkkulaði gert úr hrísgrjónamjólk og það fæst í nokkrum tegundum sem eru allar ómótstæðilega góðar. Súkkulaðið hentaði fullkomlega í páskaeggin sem gerði mig að sjálfsgöðu virkilega glaða, það var mjög auðvelt að vinna með það og það harnaði vel. Páskaegg eru ekki alvöru páskaegg nema þau séu stútfull af gómsætu nammi. Ef maður ætlar á annað borð að belgja sig út af sykri verður maður að gera það almennilega. Ég fór því í leiðangur og valdi mitt uppaáhalds nammi til þess að setja inní eggin. Formin fékk ég í búðinni Allt í köku, en þar fást páskaeggjamót í öllum stærðum og gerðum. Ég notaði mót sem eru 19 centímetrar en mér finnst það mjög mátuleg stærð.

Hráefni í eitt egg:

  • 4 plötur Ichoc súkkulaði (320 gr) (Classic súkkulaðið henntar best en ég gerði líka úr hvíta súkkulaðinu og núggat súkkulaðinu)

  • það nammi sem hugurinn girnist (ég notaði eftirfarandi)

    • bubs hlaup (fæst í Krónunni)

    • biona hlaup (fæst í Nettó)

    • dökkt brak (fæst í Iceland)

    • lakkrís (flestur íslenskur lakkrís er vegan, fyrir utan fylltan lakkrís og lakkrískonfekt. ATH mjólkursýra er vegan og hefur ekkert með kúamjólk að gera)

    • svartur brjóstsykur

    • Hjúpaður lakkrís sem ég hjúpaði sjálf með classic súkkulaðinu

Aðferð:

  1. Það er nauðsynlegt að "tempra" súkkulaðið eins og það er kallað en þá er 2/3 af súkkulaðinu eða í þessu tilfelli u.þ.b. 200 gr brætt yfir vatnsbaði og hrært í á meðan. Þegar súkkulaðið er bráðið er það tekið af hitanum og restinni sem var tekin frá (1/3) bætt út í og hrært þar til allt er bráðnað.

  2. Súkkulaðinu er hellt í páskaeggjaformin og vellt um í góða stund. Mér fannst best að setja vel í fomin, velta því um og leggja fomin svo á hvolf yfir skálina í allt að 10 mínútur. Þetta er svo endurtekið nokkrum sinnum eða þar til frekar þykkt lag af súkkulaði hefur myndast í formin. Passa þarf að brúnirnar séu einnig þykkar svo auðvelt sé að festa eggin saman.

  3. Ef setja á eitthvað í súkkulaðið líkt og lakkrískurl eða krispies er best að setja eitt lag af súkkulaði fyrst í formin áður en kurlinu er bætt út í. 

  4. Formin þurfa síðan að sitja í frysti í allavega 30 mínútur eða þar til súkkulaðið hefur losnað frá plastinu. Þegar fomið er lagt á hvolf á eggið að detta auðvledlega úr.

  5. Til að festa eggin saman er best að vera með súkkulaði sem hefur verið "temprað" og leyft að kólna við stofuhita þar til það verður ágætlega þykkt. Munið að fylla eggin með nammi og málshætti áður en því er lokað.

Gleðilega páska

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg