Hátíðlegar morgunverðarbökur úr smjördeigi

IMG_0147.jpg

Nú er innan við vika í að jólin gangi í garð og í nótt fljúgum við Siggi til Noregs og eyðum jólunum með fjölskyldunni hans. Við erum orðin svakalega spennt að komast í smá jólafrí saman eftir annasamt haust. Ég er ekki byrjuð að pakka, en það var mér mikilvægt að koma þessarri færslu frá mér áður en við förum. Ég ætla nefnilega að deila með ykkur uppskrift af dásamlegum fylltum morgunverðarbökum úr smjördeigi sem eru fullkomnar í jólabrönsinn.

IMG_0119.jpg

Ég var búin að ákveða að útbúa einhverja uppskrift með smjördeigi fyrir jólin en var ekki alveg viss hvað ég vildi gera. Við erum nú þegar með geggjaða uppskrift af innbökuðu Oumph! hérna á blogginu og sveppawellington í bókinni okkar. Eins er fjöldinn allur af geggjuðum hugmyndum af wellington á netinu og það er hægt að kaupa nokkrar tegundir tilbúnar. Mér fannst því meira spennandi að gera eitthvað annað en hefðbundinn aðalrétt fyrir jólin. Mér datt í hug að útbúa eitthvað gott og hátíðlegt sem væri hugsað sem morgunmatur/hádegismatur yfir hátíðirnar. Í bökunum eru steiktar kartöflur, tófúhræra, Oumph! og bechamel sósa.

IMG_0123.jpg

Ég prufukeyrði uppskriftina um daginn og sýndi aðeins frá því í Instastory. Þar spurði ég fylgjendur okkar hvaða meðlæti þeim dytti í hug að væri gott með bökunum. Flestir stungu uppá hefðbundnu bröns meðlæti og svo fékk ég allskonar nýjar og skemmtilegar hugmyndir líka. Að lokum sá ég að það skiptir í raun ekki miklu máli hvaða meðlæti ég hef í færslunni, því það er misjafnt hvað fólki þykir gott. Ég ákvað að hafa þetta svolítið eins og stóran og góðan bröns og það var fullkomið.

Í þetta skiptið notaði ég upprúllað kælt smjördeig þar sem ég fann hvergi fryst vegan smjördeig hérna í Piteå. Á Íslandi er þó held ég auðveldara að finna það í frysti en ég hef þó rekist á vegan smjördeig í kæli í Hagkaup. flest keypt smjördeig er vegan því það inniheldur smjörlíki en ekki smjör en það er mikilvægt að lesa á pakkann. Þau merki sem ég veit að fást á Íslandi og eru vegan eru Findus og TC bröd. Það eru örugglega til fleiri tegundir sem ég man ekki eftir.

IMG_0132.jpg

Ég elska að gera smjördeigsbökur í möffinsskúffu. Það er bæði þægilegt að útbúa þær og skemmtilegt að bera þær fram. Það er pottþétt hægt að gera þær fallegri en mér finnst það skipta litlu máli og eiginlega bara betra að hafa þær heimilislegar og fínar.

IMG_0135.jpg

Þetta verður síðasta uppskriftin okkar núna fyrir jólin en ég ælta að gera mitt allra besta að gefa ykkur eina uppskrift á milli jóla og nýárs af desert sem er geggjaður fyrir gamlárskvöld. Við erum með nokkrar uppskriftir á blogginu sem gætu verið góðar sem eftirréttir en svo erum við með uppskrift af risalamande og súkkulaðibúðing í bókinni okkar sem eru hinir fullkomnu hátíðareftirréttir. En eins og ég segi ætla ég að reyna að birta eina fyrir gamlárskvöld.

IMG_0143.jpg

Ég flýg svo til Íslands í byrjun janúar og ég get ekki beðið eftir því að koma heim og halda útgáfuhóf fyrir bókina og gera allskonar skemmtilegt með Júlíu í tilefni veganúar. Við erum ekkert smá spenntar fyrir komandi tímum!

Morgunverðarbökur - 12 bökur

  • 6 plötur fryst smjördeig (2 stykki upprúllað smjördeig ef þið kaupið svoleiðis)

  • 1 pakki Oumph! - Ég notaði garlic & thyme

  • 1 tsk liquid smoke (má sleppa en ég mæli með að hafa það með)

  • 300 gr kartöflur

  • Olía til steikingar

  • Salt og pipar eftir smekk

  • Tófúhræra (uppskrift hér að neðan)

  • Bechamelsósa (uppskrift hér að neðan

Aðferð:

  1. Takið Oumph úr frystinum og leyfið því að þiðna þar til hægt er að skera það í litla bita.

  2. Skrælið kartöflurnar og skerið í litla bita.

  3. Hitið olíu á tveimur pönnum. Ef þið eigið bara eina pönnu geriði þetta hvort á eftir öðru.

  4. Steikið kartöflurnar þar til þær eru mjúkar í gegn. Saltið þær og passið að fylgjast vel með þeim því kartöflur eiga það til að festast svolítið við pönnuna. Takið kartöflurnar af pönnunni og leggið til hliðar þegar þær eru tilbúnar.

  5. Steikið á meðan Oumph uppúr olíu og bætið á pönnuna salti og liquid smoke. Takið af pönnunni og leggið til hliðar þegar bitarnir eru eldaðir í gegn. Ekki þrífa pönnuna.

  6. Bætið aðeins meira af olíu á pönnuna sem þið steiktuð Oumph á og útbúið tófúhræru eftir leiðbeiningunum að neðan.

  7. Útbúið bechamelsósuna eftir leiðbeiningum hér að neðan.

  8. Blandið tófúhrærunni, Oumphinu, kartöflunum og sósunni saman í stóra skál. Saltið ef þarf. Ég salta allt frekar vel á meðan ég geri það og vil hafa þessa blöndu bragðmikla og góða.

  9. Ef þið notið fryst smjördeig mæli ég með að taka það út þannig plöturnar nái að þiðna svolítið áður en það er notað. Þó eiga þær ekki að vera orðnar alveg þiðnar því þá er erfiðara að vinna með smjördeigið. Það er svolítið erfitt að útskýra en þið munuð skilja þegar þið byrjið að vinna með þetta. fletjið hverja plötu aðeins út og skerið í tvennt þannig úr komi tveir ferhyrningar. Ef þið notið upprúllað kælt deig rúllið það út og skerið fyrst í tvennt langsum og svo í þrennt þannig úr komi sex kassar. Þið sjáið á einni af myndunum fyrir ofan hvernig ég gerði. Uppskriftin af fyllingunni passar í 12 bökur.

  10. Bakið við 200°c í 20 mínútur eða þar til þetta er orðið fallega gyllt að ofan.

Tófúhræra

  • 1 pakki tófú (sirka 400-450 gr)

  • olía til steikingar

  • 1 tsk hvítlauskduft

  • 1 tsk laukduft

  • 1/2 tsk túrmerik

  • 1/2 tsk paprikuduft

  • 1/2 teningur sveppakraftur

  • 3 msk vatn eða sojamjólk

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið olíu á pönnu.

  2. Opnið tófúið og helið vatninu af því. Myljið tófúið á pönnuna.

  3. Bætið við restinni af hráefnunum og blandið vel saman.

  4. Smakkið til og bætið við kryddum ef þarf.

Bechamelsósa

  • 2 msk smjörlíki

  • 2 msk hveiti

  • 3-4 dl ósæt sojamjólk

  • 2-3 msk næringarger

  • Örlítið af hvítum pipar

  • Salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Setið smjörlíki í pott og bræðið.

  2. Bætið hveiti saman við og hrærið vel saman með písk.

  3. Hellið mjólkinni út í 1 dl í einu og hrærið vel á milli.

  4. Bætið næringargeri og kryddum út í og smakkið til.

Hugmyndir af meðlæti:

  • Sveppir steiktir uppúr olíu, hvítlauk og salti

  • Tómatar bakaðir í ofni með olíu, timían, rósmarín, grófu salti og svörtum pipar

  • Bakaðar baunir

  • Klettasalat

  • Vínber

  • Heimagerður kryddostur

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel

-Veganistur

Vegan partýplatti - kryddostur, kex og salat

IMG_0105-3.jpg

Ég elska að halda partý. Í hvert sinn sem ég býð fólki í heimsókn vil ég helst útbúa heilt veisluborð af kræsingum og oftar en ekki þarf Siggi að stoppa mig og draga mig niður á jörðina. Eins finnst mér alveg ómögulegt að koma tómhent í heimsókn til annarra og baka því yfirleitt eitthvað gott. Ég hef ekki alltaf verið svona en þetta byrjaði þegar ég varð vegan. Mér þótti mikilvægt að sýna fólki hversu góður vegan matur getur verið og lengi vel var það svoleiðis að ef mér var boðið í mat eða veislur þá þurfti ég að sjá um minn mat sjálf þar sem flestir héldu að það væri of erfitt að útbúa vegan mat. Þetta var árið 2011, löngu áður en úrvalið af spennandi vegan hráefnum varð svona gott. Ég vandist því að mæta með mat í allskyns heimsóknir og oftar en ekki þótti fólki svakalega spennandi að smakka það sem ég mætti með. Með tímanum hefur þetta svo orðið að vana hjá mér og nú elska ég að bjóða fólki í heimsókn og útbúa skemmtilega partýrétti og allskonar kökur.

Þessi færsla er einmitt ætluð þeim sem vilja bjóða uppá skemmtilega partýrétti um jólin eða áramótin eða jafnvel útbúa góðan veislubakka sem forrétt um hátíðirnar. Sem betur fer hefur hugarfar fólks almennt breyst mikið hvað varðar vegan mat og flestir vita að ekkert mál er að borða gómsætan hátíðarmat án dýraafurða. Þó eru enn sumir sem halda að vegan jól þýði að þeir þurfi að fórna einhverju og er þessi veislubakki tilvalinn til að koma fólki rækilega á óvart.

IMG_0083.jpg

Það var mikil áskorun að gera þessa færslu því á þessum tíma ársins er dagsbirta af skornum skammti hérna í Piteå. Í dag var nánast alveg dimmt í eldhúsinu fyrir utan pínuitla ljósglætu alveg við gluggann og ég gerði mitt besta til að nýta hana. Það er synd að minn uppáhalds tími til að blogga sé akkúrat þegar skilyrðin eru sem verst. Ég læt það þó ekki á mig fá og held ótrauð áfram að útbúa gómsætar uppskriftir.

IMG_0092-3.jpg

Þessar uppskriftir eru báðar virkilega einfaldar og fljótlegar en þó skiptir máli að þær séu gerðar svolítið fyrirfram. Osturinn þarf helst að fá að sitja í ísskáp í nokkrar klukkustundir og salatið er einnig betra þegar það fær að sitja í ísskápnum og draga í sig bragðið frá kryddunum. Allt annað á disknum er svo bara smekksatriði og hægt er að leika sér endalaust með það. Ég t.d. held að laufabrauðið úr bókinni okkar væri fullkomið á partýbakkann og dásamlegt með bæði salatinu og ostinum.

Ég var fyrst svolítið á báðum áttum með að birta færslu sem inniheldur svona mikið af tilbúnum vegan vörum. En eftir því sem ég hugsaði meira um það áttaði ég mig á því að það er ekkert að því að birta svoleiðis færslu. Það er oft sett svolítil krafa á okkur sem erum vegan að búa allt til frá grunni og nota ekkert tilbúið. Ég hef stundum rekist á athugasemdir við uppskriftir annarra grænkera þar sem þau eru gagnrýnd fyrir það að nota t.d. tilbúinn rjómaost í stað þess að gera hann sjálf, en ég hef aldrei séð athugasemdir þar sem fólk er beðið um að útbúa sinn eiginn rjómaost úr kúamjólk í stað þess að kaupa tilbúinn. Það er enginn skömm af því að kaupa tilbúnar vörur og þegar það eru jól og við erum öll á fullu í eldhúsinu er svakalega gott að geta útbúið eitthvað einfalt til að bjóða uppá.

IMG_0106-3.jpg

Ég vona innilega að þið prófið að útbúa þennan dásamlega partýbakka og látið okkur endilega vita hvernig ykkur og öðrum líkar við uppskriftirnar.

IMG_0107-3.jpg
IMG_0118-2.jpg

Vegan kryddostur (2 stk)

  • 3 öskjur (samtals 450 gr) hreinn vegan rjómaostur (ég notaði Oatly)

  • 2 dl rifinn vegan ostur (ég notaði Violife)

  • 2 msk vegan majónes. Ég nota heimagert því það er virkilega einfalt og mér finnst það langbest. Það þarf líka majónes í salatið hér að neðan svo ég geri tvöfalda uppskrift af þessu hér

  • 2 msk smjörlíki frá Naturli - vegan block

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1,5 dl saxaður vorlaukur (bara græni parturinn)

  • 2-3 tsk tabasco sósa (mæli með að byrja á því að setja 2 og bæta svo við eftir þörf)

  • 1 tsk sojasósa

  • salt eftir smekk

Utan um ostinn

  • 2 dl saxaðar hnetur (ég notaði möndlur því Siggi er með ofnæmi fyrir öðrum hnetum. Pekanhnetur og valhnetur passa örugglega mjög vel líka)

  • svartur pipar eftir smekk

  • gróft salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hræra saman rjómaostinn, smjörið og mæjónesið.

  2. Bætið restinni ofan í skálina og blandið vel saman með sleif.

  3. Skiptið ostinum í tvennt og útbúið tvær kúlur sem þið vefjið inn í plastfilmu (sjá mynd að ofan).

  4. Setjið ostinn í ísskáp í minnst tvo tíma svo hann harðni svolítið og auðveldara sé að velta honum uppúr möndlunum. Ef þið ætlið að bjóða uppá ostinn í partýi eða sem forrétt mæli ég með því að gera hann snemma sama dags eða jafnvel kvöldið áður. Hann er nefnilega betri ef hann fær aðeins að standa í ísskápnum.

  5. Takið hann út þegar þið ætlið að bera hann fram og veltið uppúr söxuðu möndlunum og kryddunum.

Vegan kjúklingasalat með karrý

Þetta salat gerði ég upprunalega fyrir skonsubrauðtertu. Það er ekkert smá gott og karrýið gerir salatið enn betra að mínu mati. Það má þó sleppa því. Ég gerði þetta salat fyrir partý um daginn og það sló bókstaflega í gegn.

  • 1 pakki vegan filébitar frá Hälsans Kök

  • Sirka 5-6 dl vegan majónes. Eins og ég sagði hér að ofan finnst mér langbest að útbúa mitt eigið majónes og ef þið ætlið að gera bæði salatið og ostana mæli ég með því að tvöfalda þessa uppskrift. Ef þið ætlið aðeins að útbúa salatið myndi ég gera eina og hálfa uppskrift

  • 1-2 dl saxaður vorlaukur. Ég setti um 1,5 dl

  • 1 msk gróft sinnep

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 msk karrý

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Takið bitana úr frysti og steikið aðeins á pönnu uppúr smá olíu og salti. Bitarnir þurfa í raun ekkert að eldast mikið, bara í nokkrar mínútur þannig þeir séu orðnir mjúkir.

  2. Hellið þeim á stórt skurðarbretti og rífið í sundur með tveimur göfflum. Mér finnst þetta skipta miklu máli uppá áferðina á salatinu. Ég ríf þá ekkert alveg niður en ríf þá í sundur í þá stærð sem ég vil hafa bitana í stað þess að skera þá niður.

  3. Setjið bitana í stóra skál og bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið saman.

  4. Leyfið salatinu að standa í ísskáp í allavega klukkustund. Þetta gerir það að verkum að salatið verður bragðmeira og betra. Eins og ég sagði hér að ofan er mjög gott að gera þetta snemma sama dag og þið ætlið að bera salatið fram eða jafnvel kvöldið áður.

Ég vona innilega að þið njótið. Eins og þið sjáið kannski þá hef ég bætt við linkum á margar vörur í færslunni svo auðvelt sé að sjá hvernig þær líta út. Ég mæli með að opna hvern link í nýjum glugga svo það sé sem þægilegast þegar þið skoðið færsluna.

-Veganistur

Smákökur með súkkulaðidropum

IMG_0071-3.jpg

Í dag deili ég með ykkur annarri smákökuuppskrift. Í síðustu viku birti ég uppskrift af vanilluhringjum og nú deili ég með ykkur gómsætum smákökum með súkkulaðidropum. Bæði vanilluhringirnir og súkkulaðidropakökurnar eru einskonar vegan útgáfa af uppskriftum frá mömmu. Það minnir mig fátt meira á jólin en handskrifaðar uppskriftir úr gömlu bókunum hennar. Uppskriftir sem hún fékk hjá ömmu og hafa fylgt fjölskyldunni lengi. Þar sem ég bý erlendis og get ekki flett uppskriftarbókunum hennar hefur hún þurft að taka myndir af blaðsíðunum og senda mér. Svo þarf hún helst að vera laus akkúrat þegar ég ætla að baka til þess að hjálpa mér og gefa mér ráð. Hún fær því að taka þátt í smákökutilraunum mínum þó við séum í sitthvoru landinu.

IMG_0046.jpg

Þessi færsla er sú fjórða í samstarfi við Naturli og það hefur verið ótrúlega gaman að útbúa góðan jólabakstur og nota í það smjörlíkið þeirra. Smjörlíkið er vegan og unnið úr Shea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Naturli framleiða bæði vegan smjör sem er fullkomið á brauð og svo smjörlíki til baksturs. Eins framleiða þau allskonar vegan matrvöru og dásamlega góðan ís sem er hinn fullkomni jóladesert.

IMG_0048-2.jpg

Nú erum við komnar með ansi gott úrval af jólabakstri á blogginu og svo enn meira í bókinni okkar sem er nýkomin út. Í bókinni eru til dæmis uppskriftir af mömmukökum, piparkökum og laufabrauði. Það er svo magnað að hugsa til þess að fyrir nokkrum árum hafi fólk almennt haldið að ekki væri hægt að baka góðar vegan jólasmákökur. Það eru heldur ekkert svakalega mörg ár síðan erfitt var að finna vegan smjörlíki í baksturinn. Í dag sem betur fer er ekkert mál að vera vegan allan ársins hring og við grænkerarnir getum borðað yfir okkur af allskyns kræsingum. Ég hlakka til að deila með ykkur fleiri hátíðlegum uppskriftum í desember.

IMG_0055-4.jpg

Ég sit með Blonde Redhead í eyrunum og hugsa til þess hversu þakklát ég er fyrir öll fallegu skilaboðin sem okkur hefur borist síðan bókin okkar kom út. Þetta ár hefur verið það allra besta sem ég hef lifað hingað til, en á sama tíma virkilega krefjandi og oft hef ég átt erfitt með að finna góðan balans. Ég efast í sífellu um það sem ég geri. Ég er hrædd um að gera mistök, valda fólki vonbrigðum og bara almennt standa mig ekki nógu vel. Ég talaði aðeins um það á Instagram um helgina hvernig ég ætla að reyna að vera duglegri að sýna ykkur á bakvið tjöldin þegar ég er að blogga og prófa mig áfram í eldhúsinu. Ég nefnilega deili með ykkur færslunum þegar þær eru tilbúnar, með myndum og öllu, en í raun er ýmislegt sem á sér stað áður en sjálf færslan er tilbúin. Ég hef oftar en ekki þurft að prófa hverja uppskrift nokkrum sinnum áður en ég finn nákvæmlega hvernig ég vil hafa hana og í þau skipti sem uppskriftirnar mistakast hjá mér fyllist ég vonleysi og langar að hætta við allt saman. Eins hef ég oft útbúið uppskrift og tekið myndir en verið óánægð með myndirnar sjálfar, eða jafnvel eitthvað pínulítið smáatriði og endað á að gera allt uppá nýtt. Það er svo auðvelt að birta fínustu myndirnar, fullkláraðar uppskriftir og einhvernveginn líta út fyrir að vera manneskja sem er með allt á hreinu. Sama á við um bókina okkar. Okkur leið nánast allan tíman sem við unnum að henni eins og við værum að falla á tíma og eins og allt myndi mistakast. Ég er aðeins meira dramatísk en Júlía svo hún náði oftar en ekki að koma mér út úr þessu hugarfari í sumar þegar við unnum að bókinni og ég reyni auðvitað sjálf að hafa hemil á þessum tilfinningum. Ég er stanslaust að vinna í sjálfri mér og þá aðallega í því að hætta að vera svona hrædd við að gera mistök þegar kemur að hlutunum sem skipta mig mestu máli. Þá á ég helst við jazzinn og svo allt sem viðkemur Veganistum. Ég ætla á næstkomandi ári að leyfa ykkur að fylgjast með því hvernig mér tekst til.

IMG_0059-3.jpg

Það er því við hæfi að láta ykkur vita af því að þessa uppskrift þurfti ég að gera þrisvar til að verða ánægð með hana. Þrátt fyrir mikinn pirring og vonleysi í þau skipti sem uppskriftin var ekki alveg nógu góð er ég himinlifandi í dag yfir því að hafa gefið mér tíma í að prófa mig áfram með hana því útkoman er dásamleg. Þessar kökur eru akkúrat eins og ég vildi hafa þær og ég vona innilega að þið verðið jafn ánægð með þær og ég.

IMG_0073-4.jpg

Smákökur með súkkulaðidropum

  • 200 gr smjörlíki frá Naturli (takið það út úr ísskáp svona klukkustund áður en þið ætlið að baka)

  • 100 gr sykur

  • 100 gr púðursykur

  • 250 gr hveiti

  • 1 tsk matarsódi

  • 20 gr kókosmjöl

  • 1/2 tsk salt

  • 3 msk aquafaba (vökvinn sem fylgir kjúklingabaunum í dós)

  • Dökkir súkkulaðidropar

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 150°C.

  2. Blandið þurrefnunum í skál.

  3. Skerið smjörið í kubba og bætið í skálina ásamt aquafaba.

  4. Hnoðið vel saman með höndunum. Bætið meira hveiti ef þetta er alltof klesst. Þetta á að vera frekar blautt en samt auðvelt að rúlla í kúlur. Bara svona eins og deig af súkkulaðibitakökum.

  5. Rúllið í kúlur og raðið á ofnskúffu klædda með bökunarpappír. Ég hef kúlurnar frekar litlar svo kökurnar verði ekki of stórar.

  6. Bakið í 10-12 mínútur. Takið út og raðið súkkulaðidropanum strax á á meðan kökurnar eru heitar.

  7. Leyfið þeim að kólna vel áður en þið setjið þær í stamp eða skál. Það tekur svolitla stund fyrir súkkulaðidropann að harða aftur.


Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel!
- Veganistur <3

 
naturlilogo.png
 

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli á Íslandi-

Vegan vanilluhringir

IMG_9973-3.jpg

Nú er desember genginn í garð og við getum glaðar sagt að við höfum beðið eftir þessum mánuði lengi. Ekki bara afþví við erum jólabörn heldur einnig vegna þess að nú er bókin okkar komin út. Bókin heitir Úr eldhúsinu okkar og er gefin út af Björt bókaútgáfu.
Við erum enn á fullu í skólanum að klára próf og verkefni annarinnar svo við reynum eftir bestu getu að halda okkur aðeins niðri á jörðinni en í raun erum við lengst uppi í skýjunum. Við höfum aldrei unnið jafn hart að neinu eins og bókinni okkar og við erum svo ótrúlega ánægðar með hana.

IMG_9959.jpg

En í dag ætlum við að deila með ykkur uppskrift af vanilluhringjum. Mamma okkar bakar alltaf svona smákökur og er uppskriftin okkar innblásin af hennar uppskrift. Eins og komið fram hefur áður erum við í samstarfi við Naturli í desember og þessi færsla er sú þriðja í því samstarfi. Smjörlíkið þeirra hefur reynst okkur gríðarlega vel í jólabakstrinum í ár. Smjörlíkið er 100% vegan, lífrænt og unnið úr Shea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Naturli framleiða bæði smjör sem er dásamlegt á brauð og heitir smörbar en svo nýlega hófu þau að framleiða smjörlíki til baksturs og steikingar en það heitir vegan block. Bæði eru þau dásamlega góð og mikið notuð á okkar heimilum.

IMG_9962-2.jpg

Upprunalega hugmyndin var að gera eina stóra smákökufærslu með nokkrum sortum en ég ákvað að gera frekar sér færslur fyrir hverja sort svo auðveldast sé að finna þær. Ég ákvað að byrja á vanilluhringjum og þeir eru ekkert smá góðir. Ég bakaði þá í fyrsta sinn um daginn og mamma var tilbúin í símanum og hjálpaði mér. Ég hélt þetta yrði alveg svakalega flókið en svo var þetta ekkert mál. Næsta sort kemur svo á bloggið á næstu dögum.

IMG_9969-3.jpg

Ég útvegaði mér hakkavél svo það yrði sem auðveldast að útbúa hringina. Ég viðurkenni að mér leið svolítið kjánalega í búðinni þegar ég keypti hakkavélina þar sem ég er vegan og hélt aldrei að ég myndi þurfa svoleiðis vél. Þið megið því endilega koma með skemmtilegar hugmyndir fyrir mig af einhverju sem hægt er að nýta vélina í hehe. Kannski hægt að útbúa í henni baunabuff eða eitthvað slíkt?

IMG_9971-2.jpg

Nú er aðeins að róast í skólanum hjá mér svo ef allt gengur upp þá mun ég ná að pósta uppskriftum af öðru en bara bakstri fyrir jólin. Ég ætla að gera mitt allra besta. Nú þegar erum við með allskonar skemmtilegar uppskriftir í veislu- og hátíðaréttir. Þar eru heitir brauðréttir, brauðtertur, tartalettur, innbakað Oumph og margt fleira. Það ættu allavega flestir að finna eitthvað við sitt hæfi á blogginu okkar og í bókinni. Okkur finnst eiginlega fátt skemmtilegra en að útbúa vegan hátíðarétti. Við vonum innilega að ykkur eigi eftir að líka vanilluhringirnir vel og endilega látið okkur vita ef það er eitthvað sérstakt sem þið viljið sjá á blogginu núna í desember.

IMG_9978-2.jpg

Vegan vanilluhringir (sirka fjórar plötur)

  • 500 gr hveiti

  • 250 gr sykur

  • 1/4 tsk hjartasalt

  • 350 gr kalt Naturli smjörlíki

  • 3 msk aquafaba (kjúklingabaunasafi sem fylgir kjúklingabaunum í dós)

  • 1 tsk vanilludropar

  • 1/2-1 msk vegan mjólk

Aðferð:

  1. Blandið saman þurrefnunum í stóra skál.

  2. Skerið smjörlíkið í litla kubba og bætið út í skálina ásamt restinni af hráefnunum.

  3. Hnoðið vel saman með höndunum.

  4. Plastið deigið inn og setjið í ísskáp í eina klukkustund.

  5. Hitið á meðan ofninn í 170°c.

  6. Setjið deigið í hakkavél og hafið stjörnuna á. Margir sem eiga hrærivélar eiga svona stykki sem hægt er að setja á og það virkar mjög vel líka. Ég las einhversstaðar að eins sé hægt að nota sprautupoka en þar sem deigið er hnoðað gæti það verið svolítið erfiðara.

  7. Útbúið lengjur og mótið hringi. Ég hef hverja lengju um 8-9 cm.

  8. Bakið í 7-10 mínútur. Passið að fylgjast vel með þeim eftir svona 7 mínútur svo þeir ofbakist ekki.

  9. Kælið vel áður en þeir eru settir í stamp eða skál.

Takk fyrir að lesa og njótið vel.

-Veganistur

 
naturlilogo.png
 


-þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli á Íslandi-