Ómótstæðileg Ella - Sætkartöflubrúnkur

Við systur fengum að gjöf bókina Ómótstæðileg Ella rétt fyrir jól. Eftir að hafa átt bókina í svolítinn tíma og prófað að elda og baka úr henni fannst okkur vert að tala aðeins um hana hérna á blogginu. Við höfum fylgst með Ellu á samfélagsmiðlum í dágóðan tíma og getum svo sannarlega sagt að hún sé algjör snillingur í eldhúsinu. Það er sko enginn leikur að elda og baka úr svona hollum og heilnæmum hráefnum og láta það heppnast svona ótrúlega vel og girnilega.

Vegna þess hversu vel okkur hefur líkað bókin ætlum við systur, ásamt forlaginu Angústúra, að gefa tvö eintök af henni. Það eina sem þarf að gera til að komast í pottinn er að setja athugasemd við þessa færslu hér að neðan. Við lofum að enginn verður svikinn af þessari bók en allar uppskriftirnar í henni eru auðvitað vegan, fyrir utan nokkrar þar sem notast er við hunang. Það er þó ekkert vandamál að skipta hunangi út fyrir aðra sætu en við notumst þá aðallega við agave- og hlynsíróp.

Bókin hefur að geyma alveg ótrúlega mikið af æðislegum fróðleik og girnilegum uppskriftum en sætkartöflubrúnkurnar urðu strax ein af okkar uppáhalds. Þessi kaka er svo holl að það væri hægt að borða hana í morgunmat, hádegismat og kvöldmat. Maður myndi þó ekki trúa því þegar maður smakkar hana en hún uppfyllir svo sannarlega sætindaþörfina og bragðast eins og hefðbundin heit súkkulaðikaka.

Við höfum gert þessa köku nokkrum sinnum, boðið vinum og vandamönnum uppá hana og fengið góðar viðtökur. Þess vegna ætlum við að deila með ykkur uppskriftinni af þessari æðislega köku hérna fyrir neðan. Við systur erum þó örlítið erfiðar þegar kemur að því að fylgja uppskrift og auðvitað þurftum við aðeins að bæta við hana. Það er þó alls ekki nauðsynlegt þar sem kakan er æðisleg eins og hún er í bókinni.

Hráefni: úr uppskriftinni koma 10-12 brúnkur

  • 2 miðlungstórar sætar kartöflur (600 gr)

  • 14 ferskar döðlur (muna að taka steininn úr)

  • 2/3 stór bolli malaðar möndlur (80 gr)

  • 1/2 stór bolli bókhveiti- eða hýðishrísmjöl (100 gr) (við notum bókhveitimjöl)

  • 4 msk hrákakó

  • 3 msk hlynsíróp

  • saltklípa

  • (ég bætti útí 30 gr af söxuðum heslihnetum og 60 gr af dökku appelsínusúkkulaði)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn á 180°C (blástur 160°C)

  2. Skrælið sætu kartöflurnar. Skerið þær í bita og gufusjóðið í 20 mínútur, þar til þær verða mjög mjúkar.

  3. Þegar kartöflurnar eru orðnar mjúkar í gegn og byrjaðar að detta í sundur blandið þið þær í matvinnsluvél ásamt steinlausum döðlum þar til þetta verður að mjúku deigi.

  4. Blandið þeim hráefnum sem eftir eru saman í skál, áður en þið hrærið sætu kartöflunum og döðlunum vel saman við.

  5. Setjið bökunarpappír í eldfast mót, hellið deiginu í það og bakið í um 20 - 30 mínútur, þar til þið getið stungið í kökuna með gaffli og hann kemur þurr út. Losið kökuna úr forminu og leyfið henni að kólna í um 10 mínútur. Það skiptir miklu máli þar sem brúnkurnar þurfa þenna tíma til að loða saman.

Njótið vel og munið að skrifa athugasemt fyrir neðan til að eiga möguleika á að vinna bókina.
-Veganistur

Vegan mac & cheese

unnamed (11).jpg

Mac and cheese er réttur sem fæstir íslendingar alast upp við að borða. Við eigum ekki einu sinni til íslenskt nafn yfir réttinn. Makkarónur með osti gæti gengið en það hljómar ekkert svakalega spennandi. Við systur höfum ekki oft smakkað mac and cheese og Í þau fáu skipti höfum við ekki skilið hæpið. Ekki fyrr en við smökkuðum vegan útgáfu þar sem ostasósan var búin til úr graskeri og kasjúhnetum. Eins og það hljómar nú furðulega smakkast það virkilega vel. Við vissum strax að við yrðum að búa til uppskrift innblásna af þeirri hugmynd. 

Rétturinn gæti ekki verið einfaldari, nema kannski ef sósan væri úr dufti og kæmi úr pakka, en þó munar ekki miklu. Þessi pínulitla auka-fyrirhöfn er algörlega þess virði því þetta er bæði virkilega bragðgott og svo er sósan næringarrík og inniheldur einungis holl og góð hráefni. 

Mac and cheese er vanalega ekkert svakalega hollur réttur en í þessu tilfelli er hann það. Margir þola illa hvítt hveiti en það er hægt að nota hvaða pasta sem er með þessari sósu. Fyrir ykkur sem borðið ekki glútein er að sjálfsögðu ekkert mál að nota glúteinlaust pasta, við höfum margoft notað svoleiðis og það er nákvæmlega enginn munur á bragðinu.

 

Hráefni

  • 450g butternut grasker

  • 350g pasta

  • 150g kasjúhnetur

  • 1/2 laukur - við notuðum lítinn lauk. Ef ykkar er í stærri kanntinum mælum við með að nota 1/4

  • 1/4 haus brokkólí

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 3 msk næringarger

  • 1 dl jurtamjólk að eigin vali - við notuðum haframjólk frá Oatly

  • 2 tsk pasta rossa krydd frá Santa maria (eða annað sambærilegt krydd)

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 msk sítrónusafi

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð

  1. Leggið kasjúhneturnar í bleyti í að minnsta kosti klukkustund. Það er mjög fínt að setja þær í bleyti kvöldið áður og leyfa þeim að liggja yfir nótt svo þær séu orðnar vel mjúkar. Þetta fer allt eftir blandaranum sem þið eigið. Því betri sem hann er, því styttra þurfa þær að liggja í bleyti.

  2. Skerið graskerið niður í teninga og gufusjóðið í 15-20 mínútur

  3. Mýkið laukinn á pönnu

  4. Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkanum

  5. Steikið brokkólí á pönnu í nokkrar mínútur

  6. Setjið öll hráefnin fyrir utan pastað og brokkólíið í blandara og blandið vel.

  7. Setjið pastað í stóra skál ásamt brokkólíinu, hellið sósunni útí og hrærið saman.

  8. Okkur þykir gott að bera þetta fram með ristuðu brauði

Vonum að þið njótið!
Veganistur

Amerískar pönnukökur

Okkur þykir fátt betra en nýbakaðar pönnukökur á sunnudagsmorgnum. Það er eitthvað svo yndislegt við það að vakna og skella í þessar einföldu og gómsætu pönnsur. Þessi uppskrift er skothelld og fljótleg. Við höfum prófað allskonar uppskriftir en endum alltaf aftur á þessari því okkur þykir hun einfaldlega best. 

Eins og flestar uppskriftirnar okkar eru þessar pönnsur virkilega einfaldar. Bragðið gefur samt ekkert eftir, þær eru fullkomlega "fluffy" og bragðgóðar. Við bökum þær við allskonar tilefni. Þær eru frábærar sem morgunmatur einar og sér, eða jafnvel bara miðdegishressing. Þær fullkomna sunnudagsbrönsinn og eru meira að segja góðar sem eftirréttur með vegan ís og súkkulaðisósu. 

Það er misjafnt með hverju við berum pönnsurnar fram. Ef þær eru partur af bröns er einfaldlega best að hafa á þeim hlynsíróp. Við aðrar aðstæður fær hugmyndaflugið að ráða. Júlíu finnst algjört möst að hafa banana á sínum pönnsum en Helga er mikið fyrir allskonar ber. Í þetta skipti ákvað ég að skella allskonar dóti á þær og ég held þær hafi aldrei smakkast betur. 

Ég setti á þær:
Hlynsíróp
Ichoc súkkulaði sem ég skar niður
Hindber
Og kókosmjöl

Hráefni:

  • 2 bollar hveiti

  • 2 msk sykur

  • 4 tsk lyftiduft

  • Smá salt

  • 2 bollar haframjólk - eða önnur jurtamjólk

  • 4 msk olía

  • 1 tsk vanilludropar eða vanillusykur

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita smá olíu á pönnu við meðalhita

  2. Blandið þurrefnum saman í stóra skál

  3. Bætið mjólkinni, olíunni og vanilludropunum útí skálina og hrærið þar til engir kekkir eru

  4. Steikið pönnukökur úr deiginu, sirka 2-3 mínútur á hvorri hlið

  5. Berið fram með því sem ykkur lystir.

Vona að þið njótið

Helga María