Döðlupestó og auðveldir pestó snúðar

Ég er alltaf mjög hrifin af fallegum ostabökkum þegar ég sé myndir af þeim og hefur mér lengi langað að prófa að gera svona bakka sjálf. Mér fannst því tilvalið að gera fallegan ostabakka með döðlupestó uppskrift sem ég er búin að vera að elska síðustu vikur. Þetta pestó er svo ótrúlega einfalt og það þarf engin sérstök tæki eins og matvinnsluvél eða slíkt til að útbúa það.

Ég ákvað kaupa alls konar vegan osta sem mér finnst góðir og hafa síðan ávexti, grænt pestó og ólífur líka. Þessi ostabakki kom ótrúlega vel út og mér finnst þetta vera fullkominn bakki til að bera fram í veislum eða bara þegar ég fæ vini í heimsókn.

Ég notaði nýja vegan chilli pestóið frá Sacla Italia sem er alveg einstaklega gott að mínu mati en það er þó smá sterkt svo það er ekkert mál að nota rauða pestóið eða til dæmi eggaldin pestóið frá þeim í staðinn til að gera það aðeins mildara.

IMG_9537.jpg
IMG_9546.jpg

Hráefni:

  • 1 dl svartar ólífur

  • 1 dl saxaðar döðlur

  • 1 dl kasjúhnetur

  • 1 dl söxuð fersk steinselja

  • 1 hvítlauksgeiri

  • Salt

  • Ein krukka chilli pestó frá Sacla Italia

Aðferð:

  1. Saxið gróflega niður ólífurnar, döðlurnar, kasjúhneturnar og ferska steinselju.

  2. Merjið hvítlaukinn og blandið öllum hráefnunum saman í skál.

Þetta perstó hentar fullkomlega með til dæmis góðu kexi, brauði eða bara nánast hverju sem er. Ég prófaði einnig að amyrjaum vel af pestóinu á smjördeigsplötur rúlla þeim upp í snúða og baka í ofni þar til þeir urðu fallega gylltir til að útbúa gómsæta smjördeigssnúða.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi.

 
logo Sacla.jpg
 

Ofnbakað gnocchi í pestórjómasósu

IMG_0022-2.jpg

Hæ kæru vinir. Vona að þið hafið það gott!

Í dag deili ég með ykkur uppskrift af ofnbökuðu gnocchi med grænkáli í gómsætri pestórjómasósu. Þetta er einn af þeim réttum sem er einfalt að útbúa en smakkast eins og á veitingastað. Hversu fullkomið?!

IMG_0001_1-4.jpg

Síðustu vikur hef ég fundið ástríðuna mína fyrir matargerð og bakstri koma aftur. Eftir nokkra mánuði þar sem ég nennti ekki einu sinni að hugsa um mat, og borðaði einungis til að næra mig, var ég orðin svolítið áhyggjufull. Ég var farin að velta því fyrir mér hvort ég myndi nokkurn tíman fá góða hugmynd aftur í eldhúsinu og hvort ég væri kannski alveg búin að missa áhugann á því að elda mat. Eftir áramótin hefur mér þó liðið mun betur og hef fundið hvernig hugmyndirnar byrja að koma til mín aftur. Það hefur verið yndisleg tilfinning að finna hvernig ég sprett fram úr rúminu til að skrifa niður hugmynd af réttium sem mig langar að prófa.

Þessi réttur var einmitt dæmi um það. Ég lá í rúminu eitthvað kvöldið og þegar ég var í þann mund að sofna sá ég fyrir mér pönnu fulla af gnocchi í rjómakenndri pestósósu. Ég hljóp framúr og skrifaði niður á blað; “Gnocchi, pestó - heimagert, rjómi, hvítvín, sítrónusafi, grænkál eða spínat eða eitthvað svoleiðis”. Daginn eftir keypti ég svo hráefnin í réttinn og prófaði, og útkoman var dásamlega góð.

IMG_0012-4.jpg

Ég komst að því fyrir ekki svo löngu að hægt er að kaupa vegan ferskt gnocchi og ég hoppaði hæð mína af gleði. Á sama tíma og ég elska að útbúa mitt eigið (uppskrift HÉR) þá er það tilbúna alveg ótrúlega gott og einfaldar eldamennskuna til muna. Ég kaupi gnocchi frá Rana og það er 100% vegan. Mörg önnur merki innihalda egg og mjólk svo það er mikilvægt að lesa á pakkninguna til að vera viss. Gnocchi frá Rana fæst í Fjarðarkaupum, Hagkaupum og Melabúðinni!

IMG_0016-4.jpg

Ofnbakað gnocchi í pestórjómasósu

Hráefni:

  • 500 gr gnocchi, heimagert eða keypt tilbúið

  • olía til að steikja upp úr

  • 1 meðalstór gulur laukur

  • 1 hvítlauksgeiri

  • 150 gr grænkál eða spínat

  • 1.5 tsk oregano

  • 250 ml vegan matreiðslurjómi. Oatly er minn uppáhalds

  • 1.5 dl þurrt hvítvín

  • 1 dl vatn

  • safi og börkur af hálfri sítrónu

  • 1/2 dl heimagert grænt pestó - uppskrift hér að neðan (Hægt að nota tilbúið úr búð líka og við mælum mikið með pestóinu frá Sacla)

  • chiliflögur eftir smekk

  • rifinn vegan ostur til að toppa með

  • gott brauð að bera fram með. Ég bar réttinn fram með baguettebrauði

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c.

  2. Hitið olíu á pönnu við meðalháan hita.

  3. Skerið niður laukinn og pressið hvítlaukinn og steikið þar til hann fær smá lit.

  4. Bætið gnocchi út á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur.

  5. Bætið oregano og grænkáli út á og steikið þar til grænkálið hefur mýkst og minnkað aðeins.

  6. Hækkið hitann og bætið hvítvíninu útí og eldið í sirka 3-5 mínútur.

  7. Bætið pestó, rjóma, vatni, sítrónusafa, sítrónuberki og chiliflögum út á og lækkið hitann aftur niður í miðlungshita. Blandið saman og takið af hellunni.

  8. Færið yfir í eldfastmót, nema þið notið pönnu sem hægt er að setja beint inní ofn. Stráið rifnum vegan osti yfir og setjið í ofninn þar til osturinn hefur bráðnað og fengið gylltan lit.

Pestó

Hráefni:

  • 50 gr fersk basilika

  • 1/2 dl furuhnetur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1/2 dl ólífuolía

  • Salt og pipar

Aðferð:

  1. Blandið öllu fyrir utan olíunni saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél.

  2. Hrærið olíunni saman við.

Takk fyrir að lesa og njótið!

-Helga María

Kanilsnúðar með eplum og rjómaostakremi

IMG_2371-4.jpg

Hæ! :)

Ég vona að þið hafið það gott. Hérna í Piteå er allt á kafi í snjó og kuldinn yfirleitt í kringum mínus 10 gráður. Ég nýt vetrarins í botn og finnst snjórinn gera allt svo fallegt. Á köldum vetrardögum sem þessum finnst mér fátt betra en að baka eitthvað gott og bjóða vinum í kaffi. Ég bý á stúdentagörðum svo vinirnir búa allir annað hvort í sama húsi eða í húsunum í kring, svo hjá mér er yfirleitt opið hús og eitthvað bakkelsi í boði.

Uppskrift dagsins er einmitt tilvalið að baka þegar von er á gestum í kaffi. Þessir kanilsnúðar eru ekki bara kanilsnúðar, heldur eru epli í fyllingunni og ofan á er svo rjómaostakrem og ristaðar möndlur. Ég held ég hafi sjaldan bakað eitthvað jafn gott.

IMG_0002-9.jpg

Ég hef ekki gert bloggfærslu síðan í sumar. Lífið mitt tók miklum breytingum í byrjun haustsins og ég þurfti að taka mér smá pásu í kjölfarið. Nú er ég þó virkilega spennt að koma til baka og fannst tilvalið að byrja á þessum dúnmjúku snúðum, þeir eru algjört sælgæti. Ég bauð vinum mínum, Hans og Malin. uppá kaffi og snúða um helgina. Þau gáfu þeim heldur betur góð meðmæli; “Helga, þessir snúðar eru betri en kynlíf” sagði Malin og Hans bætti við “Já, Helgaaaa, þetta eru bestu snúðar sem ég hef nokkurntíman smakkað!!” Það er ekkert annað hehe.

IMG_0004-6.jpg

Ég get ekki lofað ykkur að snúðarnir séu betri en kynlíf en góðir eru þeir!

IMG_0008-2.jpg

Í nokkrar vikur hefur mig langað að baka eitthvað gott með eplum. Það var svo einn morguninn sem mér datt í hug að útbúa kanilsnúða og hafa epli í fyllingunni og vissi ég vildi hafa möndlur með, annað hvort í fyllingunni eða ofan á. Ég ákvað á endanum að rista möndluflögur og strá ofan á eftir að þeir komu úr ofninum og útkoman var akkúrat eins og ég hafði vonað. Það er örugglega líka mjög gott að saxa niður möndlur og hafa í fyllingunni.

Ef ykkur þykja epli ekki góð er auðvitað ekkert mál að sleppa þeim. Það er líka hægt að nota hugmyndaflugið og gera einhverja nýja og spennandi fyllingu. Hvítt súkkulaði og appelsínufylling hljómar t.d. mjög vel finnst mér hehe.

IMG_0011-3.jpg

Ég held ég verði að sækja mér einn snúð úr frystinum og borða á meðan ég skrifa þessa færslu heh.

Rjómaostakremið er svo punkturinn yfir i-ið að mínu mati. Það gerir snúðana extra safaríka og góða. Já, ég skrifaði hér að ofan að þeir séu algjört sælgæti, ég meinti það bókstaflega. Gott bakkelsi er mitt uppáhalds nammi!

IMG_2363.jpg

Kanilsnúðar með eplum og rjómaostakremi

Snúðarnir:

  • 8-10 dl hveiti (byrjið á 8 og bætið svo við eftir þörfum)

  • 1 pakki þurrger

  • 1 og 1/2 dl sykur

  • örlítið salt

  • 5 dl plöntumjólk

  • 100 gr smjörlíki

  • 1 tsk kardimommudropar

Aðferð:

  1. Bætið öllum þurrefnum í stóra skál

  2. Bræðið smjörlíki í potti og bætið mjólkinni saman við. Mjólkin þarf ekki að hitna mikið, heldur vera við líkamshita.

  3. Hellið blöndunni saman við þurrefnin ásamt kardimommudropum

  4. Bætið við meira hveiti ef þarf. Ég held ég hafi á endanum notað um 9 dl. Deigið má ekki vera of þurrt, þið eigið að geta stunduð hreinum fingri ofan í án þess að deig klessist við hann. Hnoðið deigið létt.

  5. Leyfið deiginu að hefast í klukkutíma í skál með viskustykki eða plastfilmu yfir.

  6. Skiptið deiginu í tvennt og fletjið út hvern helming fyrir sig. Smyrjið fyllingunni á, rúllið upp og skerið niður.

  7. Leggið snúðana í eldföst mót eða í tvær ofnskúffur, leggið plastfilmu eða viskustykki yfir og látið þá hefast aftur í klukkutíma.

  8. Hitið ofninn á meðan í 200°c. Minn ofn er ekki með blástur svo ég nota undir og yfir hita.

  9. Bakið snúðana í 12-15 mínútur.

  10. Pennslið snúðana með sykurlagi um leið og þið takið þá út. Sykurlagið er gert með því að blanda 1 dl sykri og 1 vatni saman svo að sykurinn leysist upp í vatninu.

  11. Smyrjið rjómaostakreminu yfir. Ég ristaði möndluflögur á pönnu og setti yfir líka. Mér fannst það koma mjög vel út.

Fylling:

  • 200 gr smjörlíki við stofuhita

  • 1 og 1/2 dl púðursykur

  • 1 msk flórsykur

  • 2 msk kanill plús aðeins meira til að strá yfir eplin

  • Epli eftir smekk. Ég skar niður 2 frekar lítil

Aðferð:

  1. þeytið allt saman (fyrir utan eplin)

  2. Skerið niður eplin

Rjómaostakrem:

  • 150 gr vegan rjómaostur (Ég notaði påmackan frá Oatly)

  • 100 gr smjörlíki

  • 250 - 300 gr flórsykur

  • 1 msk vanillusykur

Aðferð:

  1. Þeytið saman smjörlíki og rjómaost.

  2. Bætið saman við flórsykri og vanillusykri og þeytið þar til úr verður mjúkt krem.

Takk fyrir að lesa og vona að þið njótið

Helga María