Grillspjót með grænmeti og tófú, og köld piparsósa

IMG_9424.jpg

Við erum loksins farin að finna fyrir smá sumri hérna í höfuðborginni og sjá smá sól en það er fátt sem mér finnst betra þegar það sést í sól en að grilla. Grillmatur er bara eitthvað svo einstaklega góður og stemmingin við að grilla er engu lík. Ég hef alltaf verið mjög dugleg að prófa nýja rétti á grillið á sumrin og er það svo sannarlega ekkert mál að gera góðan vegan grillmat. Það er hægt að finna fullt af góðum hamborgurum og pylsum eða öðrum vegan “kjöt” vörum í búðum í dag og er alls konar grænmeti einnig einstaklega gott á grillinu.

Í þetta skiptið ætla ég hins vegar að deila með ykkur, í samstarfi við Krónuna, ótrúlega góðum grillpinnum með alls konar grænmeti og tófú. Tófú er snilldar hráefni sem passar í alls konar rétti þar sem það er tiltölulega bragðlítið eitt og sér en ef það er marinerað dregur það í sér bragðið af marineringunni. Það passar því alveg ótrúelga vel á grillið þar sem grillmarinergingar er algjört lykilatriði oft í grillmat. Ég notaðist við gómsæta sítrónu og kryddjurta marinerignu en hún passar fullkomlega með grænmeti og tófu. Það má nota allt það grænmeti sem manni dettur í hug í þessari uppskrift.

IMG_9426.jpg

Það sem er svo þægilegt við þennan rétt er að auðvelt er að græja marineringuna í box, skera grænmetið og tófúið út í og taka þetta með sér hvort sem það er í útileguna, sumarbústað eða í grillveisluna. Þá þarf einfaldlega að þræða pinnana, skella þeim á grillið og maturinn er tilbúin. Það finnst mér alveg æði því þá þarf ekki að fara í einhverja sérstaka “eldamennsku” í útilegunni en mér finnst lang þægilegast að fara í útilegur með matinn nánast tilbúin og að þurfa ekki að undirbúa hann mikið á staðnum.

IMG_9419.jpg

Grillpinnana ber ég fram með því meðlæti sem ég á til hverju sinni. Grillaðar kartöflur finnst mér vera algjörlega ómissandi og köld piparsósa einnig. Í þetta skiptið var ég einnig með grillaðan aspas sem ég velti aðeins upp úr ólífuolíu og salti áður en ég setti hann á grillið. Grillaður maís passað einnig mjög vel með en ef ég grilla maís þá sýð ég hann fyrst í um 10 mínútur því þá verður hann extra safaríkur. Það geri ég einnig við kartöflurnar áður en ég grilla þær.

IMG_9432.jpg

Grillpinnar (sirka 10 spjót, fyrir 4)

  • Marinering

    • 3/4 dl góð ólífuolía

    • 3/4 dl sítrónusafi (safi úr sirka 2 sítrónum)

    • börkur af 1 sítrónu

    • 3-4 hvítlauksgeirar

    • 1 msk oreganó

    • 1 msk rótargrænmetiskrydd frá pottagöldrum (eða einhvers konar blandaðar jurtir)

    • 1-2 msk ferskt timían

    • 1 tsk papríkuduft

    • 1 tsk laukduft

    • 1/2 tsk chilli duft eða chilli flögur (má sleppa)

    • 1 msk sesamfræ

  • 1/2 rauð paprika

  • 1/2 gul eða appelsínugul papríka

  • 1 rauðlaukur

  • 1 pakki kastaníusveppir

  • 1 pakki tófú

Aðferð:

  1. Blandið öllum hráefnunum fyrir marineringuna í stóra skál eða stórt box.

  2. Skerið grænmeti og tófúið í mjög grófa bita, bitarnir eiga að vera frekar stórir svo þeir tolli vel á grillpinnunum.

  3. Setjið grænmetið og tófúið út í marineringuna og veltið því vel um þar til allir bitar eru vel þakknir af kryddolíunni.

  4. Leyfið þessu að liggja í marineringunni í að minnsta kosti 30 mínútur, en því meiri tíma sem þetta fær að hvíla því betra.

  5. Byrjið að huga að meðlætinu en ég var með grillaðar kartöflur, aspas, blandað ferskt salat og kalda sósu með. Uppskrift af sósunni er hér fyrir neðan.

  6. Takið um 10 grillpinna og leyfið þeim að liggja í vatni í 10 til 15 mínútur. Takið pinnana úr vatninu og þræðið grænmeti og tófú á þá í þeirri röð sem þið viljið.

  7. Grillið í nokkrar mínútur á hverri hlið eða þar til grænmetið og tófúið fær fallegar “bruna” rákir. Við mælum með að hafa grill álbakka undir svo maturinn brenni ekki of mikið að utan.

Köld piparsósa

  • 1 dl oatly sýrður rjómi eða hreint sykurlaust vegan jógúrt

  • 1 dl vegan Krónu majónes

  • 2 tsk grófmalaður svartur pipar

  • 1/2 tsk laukduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1 tsk sítrónusafi

  • 1-2 msk vatn (eftir því hversu þunna þið viljið sósuna)

Aðferð:

  1. Hrærið öllu saman í skál.

-Njótið vel og endilega verið dugleg að tagga okkur og krónuna ef þið hendið í vegan grillveislu með uppskriftinni þar sem okkur finnst svo ótrúlega gaman að sjá myndir frá ykkur <3

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna.

 
KRONAN-merki.png
 

Íssamlokur úr súkkulaðibitakökum

IMG_2556.jpg

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af gómsætum íssamlokum úr súkkulaðibitakökum. Uppskriftin er í samstarfi við Ben & Jerry’s á Íslandi en frá þeim fást nokkrar tegundir af vegan ís sem er virkilega góður. Fyrir ekki svo mörgum árum var ómögulegt að finna vegan ís sem ekki var frostpinni. Í dag er sem betur fer hægt að fá vegan rjómaís sem gefur ekkert eftir hvað bragð og áferð varðar. Vegan ísinn frá Ben & Jerry’s er einmitt dæmi um svoleiðis ís.

Nýbakaðar súkkulaðibitakökur og ís er kombó sem er virkilega erfitt að toppa. Ég mæli allavega með því að þið prufið! Uppskriftin af kökunum er virkilega einföld og tekur enga stund að búa þær til.

IMG_2517-2.jpg

Ég hafði mínar mjög hefðbundnar og notaði suðusúkkulaði en það er hægt að breyta til og setja allskonar skemmtilegt í kökurnar, eins og hnetur, hvítt súkkulaði, eða annað sælgæti sem manni þykir gott!

Þær bragðtegundir sem ég notaði í íssamlokurnar að þessu sinni voru “Cookies on cookie dough” og “Chocolate fudge brownie”. Báðar tegundirnar eru í miklu uppáhaldi hjá mér!

IMG_2561.jpg

Hráefni:

  • 250 gr smjörlíki

  • 1 dl sykur

  • 1 dl púðusykur

  • 1/2 dl plöntumjólk

  • 1 tsk vanilludropar

  • 4 1/2 dl hveiti

  • 1 tsk matarsódi

  • örlítið salt

  • 150 gr suðusúkkulaði

  • Vegan Ben & Jerry’s ís

Aðferð:

  1. Þeytið saman smjörið og sykurinn í smá tíma, bætið síðan útí mjólkinni og vanniludropunum og þeytið örlítið lengur.

  2. Blandið saman öllum þurrefnunum í skál og hrærið síðan saman við smjörið og sykurinn.

  3. Síðast er súkkulaðið saxað og því blandað saman við deigið.

  4. Rúllið kúlur úr deiginu og bakið í 7-9 mínútur við 180°C.

  5. Leyfið kökunum að kólna á plötunni.

  6. Setjið eina kúlu af ís á hverja köku og pressið svo aðra köku ofan á og njótið!

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel!


-Veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Ben & Jerry’s á Íslandi-

 
ben-and-jerrys-logo.png
 


Fylltir kleinuhringir með Violife súkkulaðismyrju

Það er ekkert betra, að mér finnst, en að eyða frídögum og helgum í að baka eitthvað gómsætt. Sérstaklega þegar ég næ að útbúa eitthvað svo einstaklega gott með einföldum hætti. Þessir fylltu kleinuhringir eru án efa ein af þeim uppskriftum sem lítur út fyrir að vera flókin en er svo bara furðu einföld þegar maður lætur vaða.

Ég notaðist ég við hefðbundnu kleinuhringja uppskriftina úr bókinni okkar sem eru svo auðveld og klikkar aldrei. Ég ákvað að fylla snúðana með nýju Violife súkkulaðismyrjunni, og guð minn góður hvað það kom VEL út. Ég vissi strax þegar ég smakkaði súkkulaðismyrjuna að ég yrði að prófa að gera eitthvað extra “djúsí” úr henni og passaði hún fullkomlega í kleinuhringina.

Þessi uppskrift er svo sannarlega orðin ein af mínum uppáhalds núna og get ég ekki beðið eftir að prófa að gera þessa kleinuhringi með alls konar mismunandi fyllingum. Mér dettur einna helst í hug að það sé gott að fylla þá með sultu eða einhverjum góðum vanillubúðing. VIð munum alveg klárlega setja inn fullt af fleiri útfærslum af þessari uppskrift í framtíðinni.

Fylltir kleinuhringir

  • 4 dl plöntumjólk

  • 100 gr smjörlíki

  • 1 tsk vanilludropar

  • 1 bréf þurrger

  • 8-10 dl hveiti

  • 1 dl sykur

  • 1 tsk salt

  • 2 l olía til steikingar

  • Súkkulaðifylling:

    • 2 pakkar violife súkkulaðismyrjan

    • 2-3 msk plöntumjólk

Aðferð:

  1. Hitið mjólkinu og smjörlíkið saman í pottið það til smjörlíkið er alveg bráðnað. Leyfið blöndunni að kólna þar til hún er sirka 37°C (blandan á einungis að vera volg eða við líkamshita, ekki heit)

  2. Hellið mjólkinni í stóra skál, bætið vanilludropum út í og stráið þurrgerinu ásamt 1 msk af sykri yfir. Leyfið þessu að standa í um 5-10 mínútur eða þar til vökvinn fer að freyða.

  3. Blandið restinni af þurrefnunum saman við. Best er að byrja á því að setja 8 dl af hveiti og bæta síðan við ef deigið er of blautt.

  4. Hellið deiginu á hreint borð og hnoðið í nokkrar mínútur. Setjið aftur í skál sem viskustykki eða plastfilmu yfir og leyfið því að hefast í um klukkustund.

  5. Skiptið deiginu í tvo hluta. FLetjið annan hlutan út í einu þar til það er u.þ.b. 1 cm að þykkt

  6. Skerið út hring,i en notaði tvenns konar stærðir af glösum til að gera annars vegar stóra hringi og hins vegar svona “mini” útgáfu. Í stóru notaði ég hefðbundið vatnsglas en skotglas í þá minni.

  7. Leggið viskastykki yfir og leyfið þeim að hvíla á meðan þið hitið olíuna.

  8. Hitið olíuna í stórum potti. Mér finnst gott að athuga hvort olía sé tilbúin með því að setja smá bút af afgangs deigi út í og sjá hversu fljótur hann er að bakaðast. Lítill bútur á að fá gullitaða áferð á einungis nokkrum sekúndum. Olían á að vera um 180°C og ef þið eigið mæli til að mæla hitann er það að sjálfsögðu fullkomið.

  9. Steikið kleinuhringina í 3-4 mínútur á hvorri hlið. Takið þá upp úr og leggið á disk með eldhúsbréfi á svo restinn af olíunni fái að leka í bréfið.

  10. Leyfið kleinuhringjunum að kólna á meðan þið hrærið saman súkkulaðismjörinu og plöntumjólkinni þar til það verður fallega mjúkt og slétt.

  11. Stingið gat í hliðina á hverju kleinuhring og notaði sprautupoka til að sprauta fyllingunni inn í þá. Passið að kleinuhringirnir séu alveg kaldir þegar þið setjið fyllinguna inn í.

-Njótið vel

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Violife á Íslandi.

 
violife-logo-1.png