Vegan kartöflusalat og grillaðar "pylsur"

Ég, líkt og flestir sem ég þekki reyndar, elska fátt meira en íslenska sumarið. Það er eitthvað svo ótrúlega magnað við þessar björtu sumarnætur þegar minningarnar verða til einhverveginn að sjálfu sér. Þetta sumar hefur einkennst af mörgu ótrúlega skemmtilegu en eitt af því er grillmatur. Við erum búin að grilla mjög mikið, bæði í útilegum og hérna heima. En í þetta skiptið ætla ég að deila með ykkur uppáhalds útilegugrillmatnum mínum þetta sumarið.

Fyrr í vor kom á markaðinn sýrður rjómi frá Oatly og það fyrsta sem mér datt í hug að gera var vegan kartöflusalat, en það hafði ég aldrei gert áður. Ég hef reyndar aldrei verið mikið fyrir kartöflusalat, það var aldrei með grillmat heima hjá mér þegar ég var yngri. Hins vegar varð Ívar, kærastinn minn, vegan um áramótin og er þetta því hans fyrsta vegan sumar. Hann borðaði oft kartöflusalat og ég ákvað því strax að prófa að gera svoleiðis fyrir hann. 

Ég hafði mjög litla hugmynd um hvað væri í kartöflusalati en eftir að hafa lesið á nokkrar dollur í búðinni virtist þetta ekki vera svo flókið. Og það var rétt hjá mér, þetta var eiginlega bara lygilega einfalt en sló svo sannarlega í gegn hjá Ívari. Síðan þá höfum við haft heimagert kartöflusalat með okkur í allar útilegur og það hefur alltaf verið mjög vinsælt. Ég ætla því að deila með ykkur uppkriftinni ásamt því hvað ég set á útilegu grillpylsuna mína.

Hráefni:

  • 500 gr kartöflur

  • 2 dl vorlaukur (einnig hægt að nota blöndu af venjulegum lauk og graslauk)

  • 3/4 dl vegan majónes

  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

  • 1 msk gróft sinnep

  • 2 tsk sítrónusafi

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Afhýðið kartöflurnar, skerið í litla bita og gufusjóðið í 20 mínútur. Það er líka alveg hægt að sjóða kartöflurnar venjulega og flysja og skera niður þegar þær hafa kólnað.

  2. Saxið vorlaukinn og blandið öllu nema kartöflunum saman í skál. Setjið kartöflurnar út í þegar þær hafa kólnað alveg.

  3. Berið fram með hverju sem er, en salatið passar auðvitað sérstaklega vel með öllum grilluðum mat.

Dórupylsa

  • Pylsubrauð

  • Veggyness pylsur

  • Tómatsósa

  • Steiktur laukur

  • Hrár laukur

  • Kálblöð

  • Kartöflusalat

  • Sinnep

Aðferð:

  1. Grillið pylsurnar og útbúið kartöflusalatið

  2. Raðið hráefnunum í pylsubrauð eftir eigin höfði og njótið

-Júlía Sif

Vegan í Barcelona

Í júní fórum við Ívar í vikuferð til Barcelona. Þar nutum við þess að liggja í sólbaði, skoða fallegu borgina og borða góðan mat. Ég hafði heyrt að úrvalið af vegan mat væri frábært í Barcelona svo ég hafði litlar áhyggjur af því að erfitt yrði að finna góða veitingastaði. Ég vildi þó vera vel undirbúin svo ég fann nokkra spennandi staði á netinu sem fengu góða umsögn. Við urðum að sjálfsögðu ekki fyrir vonbrigðum með matinn í Barcelona, en þar sem úrvalið af vegan valkostum er gríðarlegt komumst við ekki í að prufa meira en brotabrot. Ég ákvað að útbúa lista af þeim stöðum sem stóðu uppúr hjá okkur. 

Við gistum ekki á hóteli og því var enginn morgunmatur innifalinn í ferðinni. Við vorum þó heppin að búa í rúmgóðri íbúð með fínu eldhúsi svo við gátum útbúið okkur mat sjálf. Við nenntum samt ekki að eyða miklum tíma í matargerð í fríinu og borðuðum því helst ávexti á morgnanna. Það hentaði okkur vel því ávextir eru svo safaríkir og frískandi þegar heitt er í veðri. 

La Trocadero

Fyrsti staðurinn sem mig langar að mæla með er La Trocadero, nýr hamborgarastaður rétt hjá Sagrada Familia kirkjunni. Ég myndi segja að La Trocadero hafi verið okkar uppáhalds veitingastaður í ferðinni. Hann er 100% vegan og býður upp á alls konar hamborgara, pylsu og nachos. Við fengum okkur bæði "beikon" borgara og franskar með hvítlauks majónesi. Maturinn var æðislega góður og alls ekki dýr, en hamborgara máltíð kostaði í kringum 9 evrur. Staðurinn er ótrúlega flottur og stór sem er mikill plús þar sem margir veitingastaðir sem við prófuðum voru mjög litlir með fáum sætum.
 

Väcka

Næsti staður sem ég vil mæla með er lítill veitingastaður sem ég fann á netinu og var mjög spennt fyrir. Staðurinn heitir Väcka og er virkilega flottur og krúttlegur. Hann er 100% vegan en þar er boðið upp á mikið af glútenlausum og hollum mat. Það er ekkert sérstakt þema heldur er boðið upp á alls konar rétti, t.d. acai skálar, glútenlausar vöfflur, beyglur, hamborgara og fleira. Uppáhalds réttirnir okkar voru vöfflurnar og banana ísinn.

IMG_0147.jpg

Veggie Garden

Veggie Garden var mjög ódýr og góður en við fórum þangað tvisvar þar sem hann var rétt hjá íbúðinni okkar. Staðurinn býður upp á alls konar, allt frá indversku thali til ítalskra hálfmána. Það er alltaf hægt að fá þriggja rétta máltíð sem maður setur saman sjálfur fyrir 8,50 evrur, sem er æðislegt verð. Drykkirnir eru einnig mjög ódýrir og góðir. Uppáhalds réttirnir okkar voru tófú núðlurnar, thali og guacamole sem var borið fram með indversku snakki.

Cat Bar

Cat Bar er lítill kósý bar í miðbæ Barcelona þar sem boðið er upp á fjöldan allan af alls konar bjórum og borgurum. Staðurinn er í ódýrari kantinum og 100% vegan. Mjög kósý stemming og töff staður og borgararnir voru einnig ótrúlega góðir. Staðsetningin er einnig mjög góð en ef þú ert í Barcelona áttu alveg pottþétt eftir að vera í nágrenni við hann oftar en einu sinni.

 

 

Eins og ég skrifa hér fyrir ofan gátum við auðvitað ekki smakkað allt og er þetta því bara brot af þeim góða vegan mat sem leynist í borginni. Það voru þó nokkrir staðir sem við fórum á þar sem ég náði ekki mynd en ég ætla að setja smá lista hérna yfir þá staði.

La gelateria del barri - Besti vegan ísinn sem við smökkuðum en hann er í dýrari kanntinum.

Wok to Walk - Ótrúlega þægilegur núðlustaður sem er t.d. staðsettur á römblunni. Maður velur sjálfur núðlur, tofu, grænmeti og sósu og það er svo steikt í wok pönnu. Virkilega gott.

Falafel - Þó svo að ég hafi verið búin að finna fullt af vegan stöðum og merkja í kortinu í símanum mínum vorum við stundum einhversstaðar þar sem ekkert af þeim bar nálægt. Þá gátum við oftast reddað okkur með því að fá okkur falafel vefjur en það er miðausturlenskir staðir út um alla borg sem mjög gott falafel og hummus.

-Júlía Sif

Sunwarrior próteinþeytingar

,,...En hvar fáið þið prótein? Fæst það ekki einungis úr kjöti??"

Þessa spurningu höfum við heyrt ansi oft síðan við gerðumst grænkerar. Áður fyrr spurði okkur enginn út í matarræðið okkar. Við gátum komið með pakkanúðlur og pizzasnúða í nesti daglega í menntaskóla og enginn spurði hvort við værum ekki að passa uppá að fá nóg prótein. Eftir að við byrjuðum að mæta með grænmetisbuff, þeytinga og annan vegan mat fyllist fólk skyndilegri hræðslu sem oft á tíðum er svolítið fyndin. Sjálfar höfum við þó engar áhyggjur af því að fá próteinskort því við fáum meira en nóg prótein úr fæðunni okkar. Auk þess er próteinskortur eitthvað sem þekkist varla annarsstaðar en í þróunarlöndum. Þú þarft að minnsta kosti að vera virkilega vannærð/ur til þess að fá próteinskort. 

Við systur borðum fjölbreyttan, næringarríkan mat og pössum okkur að fá öll næringarefni. Hvorugar tökum við inn mikið af fæðubótarefnum en eitt af því fáa sem við tökum inn er próteinið frá Sunwarrior. Við tökum það þó ekki inn í miklu magni og alls ekki vegna þess að við séum hræddar við að fá annars próteinskort. Júlía tekur próteinið inn eftir æfingar. Hún mun hlaupa hálfmaraþon í ágúst og stundar líkamsrækt á hverjum degi. Henni þykir því gott að útbúa sér próteinþeyting eftir æfingar. Helga stundar einnig líkamsrækt, þó ekki í jafn miklu mæli, en hún útbýr sér einnig þeytinga eftir æfingar og setur Sunwarrior prótein yfirleitt út í þá. Stundum er líka gott að bæta því út í hafra- eða chiagrauta til að gefa smá sætu. Próteinduftið hefur einnig komið sér vel þá daga sem við nennum alls ekki að elda. Það er mjög þægilegt að geta skellt í einn næringarríkan, mettandi þeyting með ávöxtum, haframjöli, möndlumjólk og smá próteini. 

Próteinið frá Sunwarrior er 100% hreint, raw vegan jurtaprótein. Ástæðan fyrir því að við tökum það er vegna þess að það er stútfullt af næringu og inniheldur einungis efni sem við þekkjum. Próteinið fæst í Nettó og er til í nokkrum bragðtegundum og þessa stundina notar Helga vanillu og Júlía mokkaprótein. Við ætlum að deila með ykkur uppáhalds próteinþeytingunum okkar. 


Banana-mokka þeytingur

Mokkapróteinið frá Sunwarrior inniheldur blöndu af hemp-próteini, pea-próteini og goji berjum. Það er virkilega gott á bragðið og lætur þeytinginn bragðast eins og súkkulaði ískaffi. 

Hráefni: 

  • 2 bananar (mega vera frosnir)

  • 1 skeið af Sunwarrior mokka próteini (skeið fylgir með í dúnknum)

  • 1/2 avókadó

  • 1 tsk kakóduft

  • jurtamjólk að eigin vali - við notuðum kókosmjólkina frá  Ecomil, en hún fæst einnig í Nettó. (Það fer eftir smekk hversu þykka þeytinga fólk vill, en við settum sirka einn bolla af mjólkinni.)

  • klakar

Öllu skellt í blandarann og blandað þar til silkimjúkt. 

"Pina colada" próteinþeytingur

Í þessum þeyting notuðum við vanillupróteinið frá Sunwarrior. Það er einnig blanda af hemp-próteini, pea-próteini og goji berjum. Próteinduftið gefur gott vanillubragð og hefur þann kost að passa með nánast öllu. Það er því hægt að gera allskonar þeytinga án þess að hafa áhyggjur af því að vanillupróteinið eyðileggi fyrir. 

Hráefni:

  • 2 bananar (mega vera frosnir)

  • 2 bollar frosinn ananas

  • 1 bolli kókosmjólk frá Ecomil

  • 1 skeið af Sunwarrior vanillupróteininu

Allt sett í blandarann og blandað vel saman

-Njótið vel
Veganistur

Færslan er unnin í samstarfi við Nettó og fást öll hráefnin þar.