Vegan hakk og spaghettí

IMG_9011-2.jpg

Í janúar ætlum við, í samstarfi við Krónuna, að útbúa fjóra gríðarlega einfalda rétti sem tekur einungis nokkrar mínútur að elda. Réttirnir munu henta öllum, hvort sem þeir eru að taka sín fyrstu skref í lífsstílnum eða löngu orðnir sjóaðir. Réttirnir eru fullkomnir fyrir þá sem eru á síðasta snúningi með að kaupa í matinn eða einfaldlega nenna ekki að hafa mikið fyrir kvöldmatnum eftir langan vinnu- eða skóladag. Þó eru þeir líka tilvaldir fyrir þá sem elska að elda og munu réttirnir allir bjóða upp á að hægt sé að bæta við því sem manni þykir gott ef maður er í stuði til að eyða meiri tíma í eldamennskuna. Réttirnir munu passa fyrir alla fjölskylduna og líka fyrir þá sem eru svolítið efins varðandi vegan mat. 

Mér fannst viðeigandi að byrja á þeirri máltíð sem ég geri hvað oftast þegar ég vil elda eitthvað sem er fljótlegt en á sama tíma bragðgott og saðsamt. Hakk og spaghettí hefur alla tíð verið í uppáhaldi hjá mér og enn frekar eftir að ég varð vegan. Sojahakkið frá Hälsans Kök er ótrúlega gott og hentar mjög vel í þennan rétt. Ég er ekki viss um að margir myndu taka eftir því að um vegan hakk sé að ræða þegar þeir borða það í réttum eins og þessum. 

IMG_9094-2.jpg

Það er að sjálfsögðu misjafnt hvaða grænmeti fólk notar í hakk og spaghettí en í þetta skiptið vildi ég hafa þetta virkilega einfalt og notaði frosnar grænar baunir og svartar ólífur. Mér finnst ólífurnar eiginlega þarfar í réttinn en vissulega þykja ekki öllum ólífur góðar og vilja því nota eitthvað annað. Ég myndi þá mæla með sveppum og gulrótum. 

IMG_9078-3.jpg
IMG_9090.jpg

Ég útbjó hvítlauksbrauð og hemp-parmesan sem meðlæti en fyrir þá sem hafa ekki tíma eða nenna ekki að útbúa meðlæti er t.d mjög gott að hafa bara baguette og vegan smjör. Þó er alls ekki þörf á því að hafa meðlæti þar sem rétturinn er saðsamur og bragðgóður einn og sér. 

IMG_9103-2.jpg

Hakk og spaghettí - fyrir 4

  • 400g Spaghettí frá Gestus

  • 1 poki hakk frá Hälsans Kök

  • Olía til steikingar

  • 1 krukka pastasósa frá Gestus

  • 1 dl frosnar grænar baunir (má sleppa)

  • 1 dl svartar ólívur skornar í sneiðar (má sleppa)

Aðferð

1. Sjóðið pastað eftir leiðbeiningunum á pakkanum. Gott er að setja örlítið salt í pottinn og nokkra dropa af olíu

2. Hitið olíu á pönnu og steikið hakkið í sirka fjórar mínútur

3. Bætið grænu baununum, ólívunum og pastasósunni á pönnuna og leyfið því að malla í sirka sjö mínútur

4. Smakkið til með salti og pipar

Hérna eru svo uppskriftir af:
Hvítlauksbrauði
Hemp-parmesan

-Veganistur

krónan.png

-Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar-

Hemp-parmesan

IMG_9105.jpg

Ég geri oft parmesan úr kasjúhnetum og næringargeri sem er fullkominn á pastarétti. Þar sem kærastinn minn er með ofnæmi fyrir hnetum byrjaði ég að prufa mig áfram og útbúa parmesan úr t.d sólblómafræjum og hempfræjum. Það bragðast virkilega vel og í dag ætla ég að deila með ykkur þessari einföldu uppskrift.

Hemp-parmesan:

  • 1/2 bolli hempfræ

  • 3 msk næringarger

  • Örlítið hvítlauksduft

  • Örlítið laukduft

  • 1/2 tsk salt

Skellið öllu í blandara og púlsið nokkrum sinnum. Það þarf ekki að mylja hann alveg niður í duft heldur er betra að hafa hann smá "chunky"

Veganistur

Vegan möffins með súkkulaðibitum

IMG_8854-2.jpg

Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift af gómsætum súkkulaðibita-möffins. Þessi uppskrift hefur verið í uppáhaldi hjá mér lengi og það var því löngu kominn tími til að skella henni hérna inná bloggið. Þessar möffinskökur minna mig á það þegar ég var barn. Í hvert sinn sem við fórum í ferðalög bakaði mamma möffins sem við tókum með okkur í gömlum Mackintosh stampi. Ég man hvað mér þótti það ótrúlega spennandi. Þessar möffinskökur vekja upp svipaða spennu hjá mér á meðan þær eru í ofninum.

IMG_8754.jpg

Kökurnar hef ég bakað í mörg ár og þær eru einmitt fullkomnar í ferðalagið, afmælisveisluna, brunchinn eða einfaldlega fyrir notalegan dag með fjölskyldunni. Uppskritin er virkilega auðveld og því tilvalin til að baka með krökkunum.  Ég man hvað mér þótti alltaf yndislegt að fá að taka þátt í möffinsbakstrinum með mömmu. 

Webp.net-gifmaker (3).gif

Uppskriftin er ekki einungis einföld, heldur innihalda kökurnar aðeins 7 hráefni sem flestir eiga til uppi í skáp. Þið sem hafið fylgt blogginu okkar í svolítinn tíma vitið að við erum ekki mikið fyrir flóknar uppskriftir sem innihalda alltof mörg hráefni sem enginn þekkir. Við elskum allt sem er einfalt og eru þessar möffins því lýsandi fyrir okkur. Þrátt fyrir einfaldleikann gefa kökurnar ekkert eftir hvað bragðið varðar. Þær eru dúnmjúkar að innan og undursamlega bragðgóðar. 

Þar sem ég fann engin falleg pappírsform fyrir kökurnar ákvað ég að prufa að útbúa mín eigin úr bökunarpappír. Siggi klippti niður fyrir mig sirka 13x13 cm arkir úr pappírnum. Ég mótaði þær með því að leggja þær yfir formin á möffins skúffunni og þrýsta þeim svo niður með bolla sem passaði akkúrat í hólfin. Formin komu mjög skemmtilega út og voru góð tilbreyting frá þessum hefðbundnu pappírsformum. 

IMG_8862-3.jpg

Hráefni:

  • 5 dl hveiti

  • 2 og 1/2 dl sykur

  • 1 msk lyftiduft

  • 2 tsk vanillusykur - eða vanilludropar

  • 100gr vegan smjör - Krónusmjörlíkið hentar mjög vel í þessa uppskrift

  • 3 og 1/2 dl Oatly haframjólk - hvaða jurtamjólk sem er ætti að þó að virka

  • 200gr suðusúkkulaði

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c.

  2. Blandið saman þurrefnunum í stóra skál.

  3. Bræðið smjörið og hellið því saman við mjólkina.

  4. Hellið blöndunni útí stóru skálina og hrærið vel saman. Ef þið eigið rafmagns handþeytara myndi ég nota hann en þar sem ég á eftir að útvega mér svoleiðis lét ég duga að nota hefðbundinn písk sem virkaði líka vel.

  5. Saxið niður súkkulaðið og hrærið því saman við deigið með sleif.

  6. Deilið deiginu í möffinsformin og bakið í sirka 12-18 mínútur. Ég myndi segja að það komi svona 9-15 kökur úr hverri uppskrift en það fer bara eftir því hversu stórar kökur þið gerið.

  7. Leyfið kökunum að kólna í nokkrar mínútur áður en þær eru bornar fram. Mér þykja kökurnar bestar volgar með glasi af ískaldri Oatly haframjólk. Þær eru samt yndislega góðar líka kaldar.

Vona að þið njótið! :) 

Helga María 

Amerískar pönnukökur

Okkur þykir fátt betra en nýbakaðar pönnukökur á sunnudagsmorgnum. Það er eitthvað svo yndislegt við það að vakna og skella í þessar einföldu og gómsætu pönnsur. Þessi uppskrift er skothelld og fljótleg. Við höfum prófað allskonar uppskriftir en endum alltaf aftur á þessari því okkur þykir hun einfaldlega best. 

Eins og flestar uppskriftirnar okkar eru þessar pönnsur virkilega einfaldar. Bragðið gefur samt ekkert eftir, þær eru fullkomlega "fluffy" og bragðgóðar. Við bökum þær við allskonar tilefni. Þær eru frábærar sem morgunmatur einar og sér, eða jafnvel bara miðdegishressing. Þær fullkomna sunnudagsbrönsinn og eru meira að segja góðar sem eftirréttur með vegan ís og súkkulaðisósu. 

Það er misjafnt með hverju við berum pönnsurnar fram. Ef þær eru partur af bröns er einfaldlega best að hafa á þeim hlynsíróp. Við aðrar aðstæður fær hugmyndaflugið að ráða. Júlíu finnst algjört möst að hafa banana á sínum pönnsum en Helga er mikið fyrir allskonar ber. Í þetta skipti ákvað ég að skella allskonar dóti á þær og ég held þær hafi aldrei smakkast betur. 

Ég setti á þær:
Hlynsíróp
Ichoc súkkulaði sem ég skar niður
Hindber
Og kókosmjöl

Hráefni:

  • 2 bollar hveiti

  • 2 msk sykur

  • 4 tsk lyftiduft

  • Smá salt

  • 2 bollar haframjólk - eða önnur jurtamjólk

  • 4 msk olía

  • 1 tsk vanilludropar eða vanillusykur

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita smá olíu á pönnu við meðalhita

  2. Blandið þurrefnum saman í stóra skál

  3. Bætið mjólkinni, olíunni og vanilludropunum útí skálina og hrærið þar til engir kekkir eru

  4. Steikið pönnukökur úr deiginu, sirka 2-3 mínútur á hvorri hlið

  5. Berið fram með því sem ykkur lystir.

Vona að þið njótið

Helga María