Ofnbakað nachos með vegan hakki, ostasósu og salsasósu

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að ofnbökuðu nachosi með vegan hakki, ostasósu og salsasósu. Sannkallað súpernachos. Skemmtilegur, fljótlegur og einfaldur réttur sem gaman er að deila með vinum eða fjölskyldu og passar vel sem til dæmis forréttur, snarl eða kvöldmatur.

Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi og í nachosið notaði ég hakkið frá þeim sem er í miklu uppáhaldi hjá mér og virkilega mikið notað á mínu heimili. Við systur elskum vörurnar frá Anamma og erum alltaf jafn stoltar af því að fá að vinna með þeim.

Ég kryddaði hakkið með blöndu af gómsætum mexíkóskum kryddum. Ég notaði tómatpúrru, hvítlauk, kúmín, túrmerík, reykta papríku, oregano. laukduft og chiliduft. Ég bætti svo örlítilli sojasósu við til að gefa réttinum örlítið extra “umame” og að lokum safa úr hálfu lime. Það má að sjálfsögðu nota tilbúna taco kryddblöndu sem fæst í öllum verslunum. Ég gríp oft í svoleiðis krydd sjálf og finnst það mjög gott.

Vegan-nachos-med-anamma-hakki-vegan-osti-vegan-ostasosu

Ég setti nachosflögurnar í eldfast mót og toppaði með hakkinu, heimatilbúinni ostasósu, salsasósu og rifnum vegan osti áður en það fór inn í ofn. Uppskrift af ostasósunni finnurðu HÉR.

Ég bakaði nachosið þar til osturinn bráðnaði og rétturinn hafði fengið á sig örlítið gylltan lit. Það tók ekki langan tíma, um það bil 10 mínútur.

Ég skellti í einfalt guacamole til að toppa réttinn með. Ég nota yfirleitt ferskt avókadó en ég hafði nýlega keypt tvo pakka af frystu avókadó á afslætti og ákvað að prófa að nota það í guacamole og mér fannst það koma mjög vel út.

Ég toppaði nachosið með guacamole, vorlauk, fersku kóríander, vegan sýrðum rjóma og fullt af kreistum limesafa. Það er í raun hægt að toppa með öllu því sem manni þykir gott. Ég mæli með t.d. svörtum baunum, maísbaunum, fersku eða niðursoðnu jalapeno, ferskum tómötum, sýrðum rauðlauk.. listinn gæti haldið endalaust áfram.

Takk kærlega fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur líki uppskriftin. Taggið okkur endilega á Instagram ef þið prófið uppskriftirnar okkar, það gerir okkur svo ótrúlega glaðar.

-Helga María

Ofnbakað nachos með vegan hakki, ostasósu og salsasósu

Ofnbakað nachos með vegan hakki, ostasósu og salsasósu
Fyrir: 3-4
Höfundur: Helga María
Einstaklega gott ofnbakað nachos með vegan hakki, ostasósu og salsasósu.

Hráefni:

  • 1 poki tortillaflögur
  • 1 poki Anamma hakk (320 g)
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 tsk reykt papríka (má nota venjulegt paprikukrydd ef ykkur líkar ekki reykta bragðið)
  • 1 tsk kúmín
  • 1 tsk oregano
  • 1 tsk laukduft
  • 1/2 tsk chiliduft
  • 1 dl vatn
  • 2 tsk sojasósa
  • salt og pipar eftir smekk
  • safi úr 1/2 lime
  • 1 krukka salsasósa
  • heimagerð ostasósa eftir smekk (ég notaði sirka helminginn af sósunni á nachosið og notaði svo afganginn á tacos nokkrum dögum seinna. Uppskriftin er hér að neðan).
  • Rifinn vegan ostur eftir smekk
  • Ég toppaði nachosið með: guacamole, fersku kóríander, vorlauk, vegan sýrðum rjóma og limesafa. Hugmyndir af fleira góðgæti að toppa með eru t.d. svartar baunir, maísbaunir, jalapeno, tómatar og sýrður rauðlaukur. Það er í raun hægt að toppa með öllu því sem manni þykir gott.

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn við 200°c.
  2. Steikið hakkið á pönnu uppúr olíu þar til það mýkist örlítið.
  3. Bætið pressuðum hvítlauk út á og steikið í 2 mínútur í viðbót.
  4. Bætið kryddunum, sojasósunni og vatninu út á og steikið í nokkrar mínútur í viðbót.
  5. Kreistið limesafa út á og takið pönnuna af hellunni.
  6. Setjið tortillaflögur í eldfast mót.
  7. Toppið með hakkinu, ostasósu, salsasósu og rifnum osti.
  8. Bakið í ofninum í sirka 10 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og nachosið fengið á sig örlítið gylltan lit.
  9. Takið út og toppið með því sem ykkur lystir.
Guacamole
  1. 2-3 avókadó
  2. 1/2 laukur
  3. 2 hvítlauksgeirar
  4. 1/2 tómatur
  5. 2 msk ferskt kóríander
  6. safi úr 1/2 lime
  7. örlítið af chiliflögum
  8. Salt og pipar eftir smekk
  1. Stappið avókadó gróflega.
  2. Saxið niður lauk og tómat og pressið hvítlauk.
  3. Bætið saman við avókadóið og pressið limesafa út í.
  4. Saltið og piprið eftir smekk.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 
 

Einföld vegan ostasósa

Ég deili með ykkur uppskrift af minni uppáhalds vegan ostasósu. Grunnurinn er úr kasjúhnetum og auk þeirra inniheldur sósan hvítlauk, jalapeno, krydd, eplaedik og næringarger. Ostasósan er fullkomin með mexíkóskum mat, svo sem nachos, taco og burrito. Ég elska að bera hana fram með tortillaflögum og salsasósu eða hella henni yfir nachos og baka inni í ofni.

Eins og ég sagði að ofan er þessi ostasósa virkilega góð með mexíkóskum mat. Ef ég myndi gera sósuna til að nota með mat sem ekki er mexíkóskur myndi ég kannski sleppa því að nota jalapeno þar sem það gefur sósunni svolítið þetta “nacho cheese” bragð. Ég hef þó gert sósuna akkúrat eins og hún er hér í ofnbakaðan pastarétt og það var virkilega gott.

Það gæti ekki verið einfaldara að útbúa þessa sósu. öllu er blandað saman í blandara eða matvinnsluvél og útkoman er dásamlega góð silkimjúk sósa sem minnir á ostasósuna sem kemur með nachos í bíó. Ég man að ég elskaði svoleiðis sósu þegar ég var yngri og elska að geta skellt í svipaða sósu heima úr gómsætum og næringarríkum hráefnum.

Ég vona að ykkur líki ostasósan vel. Endilega deilið með mér hvernig ykkur þykir best að bera sósuna fram. Mér finnst best að borða hana sem ídýfu með tortillaflögum, ofan á ofnbakað nachos eins og þetta HÉR, í tacos eða burrito.

-Helga María

Vegan ostasósa

Vegan ostasósa
Höfundur: Helga María

Hráefni:

Aðferð:

  1. Leggið kasjúnhnetur í bleyti. Ég á mjög öflugan blandara svo ég setti þær í bleyti í sjóðandi heitu vatni í klukkutíma. Ef ykkar blandari/matvinnsluvél er kraftminni mæli ég með að hafa þær í bleyti í vatni yfir nótt.
  2. Hellið vatninu af kasjúhnetunum og setjið hneturnar ásamt restinni af hráefnunum í blandara eða matvinnsluvél og blandið þar til úr kemur mjúk sósa. Saltið og piprið eftir smekk.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur
Created using The Recipes Generator

Vegan súkkulaðimús með appelsínukeim

Í dag deilum við með ykkur dásamlega mjúkri og loftkenndri súkkulaðimús úr Síríus suðusúkkulaði, appelsínum og möndlum. Þessi súkkulaðimús er fullkomin eftirréttur fyrir hvaða tilefni sem er, hvort sem það er um hátíðir líkt og jól eða páska, veislur eða hversdagslegri tilefni.

Færslan og uppskriftin eru í samstarfi við Nóa Síríus, en í uppskriftina notum við gamla góða suðusúkkulaðið sem er alltaf nauðsynlegt að eiga til á hverju heimili að okkar mati. Suðusúkkulaðið frá Nóa hefur alltaf verið vegan og hentar því í hvaða vegan matargerð sem er, hvort sem það er bakstur, eftirrétti eða heitt súkkulaði til dæmis.

Páskadagur eru á morgun og fannst okkur því nauðsynlegt að deila með ykkur góðum eftirrétti sem væri fullkomin fyrir páskadag og því kom ekki annað til greina en að gera eftirrétt með súkkulaði. Við vildum að uppskriftin væri einföld og tæki ekki langan tíma þar sem það er nauðsynlegt að slaka á og gera sem minnst á páskadag að okkar mati. Músin inniheldur því fá hráefni sem einungis þarf að þeyta saman og bera fram.

Við ákváðum að hafa appelsínur og möndlur með í músinni til að gera hana ennþá betri á bragðið en okkur finnst appelsínur passa fullkomlega með súkkulaði. Það kemur ekkert smá vel út og gerir músina ferskari og skemmtilegri á bragðið. Það er þó alveg hægt að sleppa því og gera músina ennþá einfaldari. Hún bragðast alveg ótrúlega vel á báða máta.

Við vonum að ykkur líki uppskriftin vel og eins og alltaf megið þið endilega tagga okkur á Instagram ef þið eruð að gera uppskriftir frá okkur þar sem okkur finnst svo ótrúlega gaman að fylgjast með.

Gleðilega páska!

Dámasleg vegan súkkulaðimús með appelsínum og möndlum

Dámasleg vegan súkkulaðimús með appelsínum og möndlum
Höfundur: Júlía Sif
( 0 reviews )
Undirbúningstími: 10 Min: 10 Min
Dásamleg mjúk og loftkennd súkkulaðimús með appelsínukeim sem hentar fullkomlega sem eftirréttur við hvaða tilefni sem er.

Hráefni:

  • 1 ferna vegan þeytirjómi (250 ml)
  • 150 gr Síríus suðusúkkulaði frá Nóa Síríus
  • Safi úr 1/2 appelsínu
  • Börkur af 1/2 appelsínu
  • 1 dl sykur
  • 1/2 dl hakkaðar möndlur (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að bræða súkkulaðið yfir vatnsbaði eða með því að setja það í örbylgjuofn í 20 sekúndur í einu og hræra vel í á milli.
  2. Þeytið rjóman í hrærivél eða með handþeytara þar til stífþeyttur.
  3. Þeytið áfram á meðalhraða og bætið appelsínusafanum, berkinum og sykri út í á meðan.
  4. Hellið súkkulaðinu út í rjóman í mjórri bunu á meðan þið þeytið áfram á meðalhraða. Skafið meðfram hliðum og þeytið þar til allt er komið saman.
  5. Bætið hökkuðum möndlum út í og blandið þeim saman við músina með sleikju.
  6. Fínt er að leyfa músinni að sitja í ísskáp í allavega klukkutíma áður en hún er borin fram en þess þarf þó ekki.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Gómsætt vegan ostasalat

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að dásamlega góðu vegan ostasalati með majónesi, vínberjum, vorlauk og papríku. Salatið er tilvalið að hafa ofan á gott brauð eða kex og passar fullkomlega að bjóða upp á í veislu, matarboði eða til dæmis saumaklúbbnum.

Færsla dagsins er í samstarfi við Violife á Íslandi og í ostasalatið notuðum við Epic festive platter hátíðarplattann frá þeim. Í plattanum eru þrjár tegundir af gómsætum ostum, mature, smoked og garlic chili. Einstaklega góðir ostar sem eru æðislegir í ostasalatið.

Páskarnir eru um helgina og þeim fylgja yfirleitt matarboð eða aðrir hittingar. Við vildum gera uppskrift af salati sem er geggjað að bjóðan uppá á svoleiðis hittingum og kemur öllum á óvart, hvort sem viðkomandi er vegan eða ekki. Við getum lofað ykkur að ef þið bjóðið upp á þetta salat verður það klárað á núll einni.

Ég elska að skella í svona einföld salöt og bjóða uppá því það þarf virkilega ekki að gera neitt annað en að skera niður og blanda öllu saman í skál. Við erum nú þegar með nokkrar uppskriftir af góðum majónessalötum á blogginu sem við mælum með, eins og t.d. þetta kjúklingabaunasalat og vegan karrí “kjúklingasalat”. Hægt er að gera mismunandi salöt í skálar og bera fram með góðu brauði og kexi.

Takk innilega fyrir að lesa og vona að ykkur líki vel! <3

-Veganistur

Geggjað vegan ostasalat

Geggjað vegan ostasalat
Höfundur: Júlía Sif
( 0 reviews )
Undirbúningstími: 10 MinHeildartími: 10 Min
Æðislega gott vegan ostasalat sem er fullkomið í veisluna, matarboðið eða saumaklúbbinn

Hráefni:

  • 1 kubbur chilli og hvítlauksostur úr ostabakkanum frá Violife
  • 1/2 kubbur epic mature ostur úr ostabakkanum frá Violife
  • 1/2 kubbur epic smoked ostur úr ostabakkanum frá Violife
  • 1/4 rauð papríka
  • 1/4 gul papríka
  • 1 vorlaukur
  • 1/2 dl niðurskorin vínber
  • 3/4 dl vegan majónes
  • 1/2 dl vegan sýrður rjómi
  • 1/2 tsk salt

Aðferð:

  1. Skerið ostana í litla kubba.
  2. Saxið niður grænmetið í þá stærð sem þið kjósið.
  3. Hrærið öllu saman í skál.
  4. Berið fram með því sem ykkur þykir gott.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi færsla er í samsarfi við Violife á Íslandi-

 
 

Hátíðlegt grasker með fyllingu og brún sósa

Í dag deili ég með ykkur ótrúlega góðu fylltu butternut graskeri með hátíðlegri linsubaunafyllingu sem inniheldur auk linsubauna, villt hrísgrjón, ferskt tímían, grænmeti, trönuber og valhnetur. Þessi réttur er ótrúlega hátíðlegur og passar því fullkomlega fyrir páskana. Hann má bera fram með helsta hátíðarmeðlæti en uppskrift af brúnni sósu sem hentar fullkomlega með má finna hér.

Í gegnum tíðina höfum við systur reynt að vera duglegar að deila með ykkur uppskriftum sem henta við öll tækifæri. Frá því við urðum vegan höfum við gert sérstaklega mikið upp úr því geta eldað ljúffenga rétti fyrir hátíðir og veislur. Þessi réttur er einn af þeim sem hentar einstaklega vel um hátíðir en í þetta skiptið deilum við með ykkur rétti sem inniheldur einungis grænmeti.

Okkur fannst löngu komin tími á að útbúa uppskrift af góðum grænmetisrétti sem getur virkað við hátíðlegri tilefni en við vissum strax að við vildum hafa ákveðna hluti í huga við þróun réttarins:

1. Ég vildi að innihaldsefnin væru ekki of mörg og alls ekki flókin.

2. Ég vildi að rétturinn myndi passa með öllu hefðbundnu meðlæti sem flestir bera fram með hátíðarmat.

3. Ég vildi að rétturinn gæfi ekki eftir hvað varðar bragð.

Ég elska að gera fóða fyllingu og setja í grænmeti og geri til dæmis oft fylltar papríkur eða kúrbít. Ég hafði hins vegar aldrei prófað að gera fyllt butternut grasker eða það er eitt af uppáhalds grænmetinu mínu. Mér fannst þá mikilvægast að fyllingin væri sérstaklega góð þar sem það er mjög milt bragð af butternut graskeri. Ég ákvað strax að grunnurinn af fyllingunni yrðu hrísgrjón og linsubanir þar sem þau hráefni draga mjög vel í sig bragð af kryddum. Þá valdi ég bragðmikið grænmeti svo sem lauk, sveppi og sellerí og til að gera þetta hátíðlegt bætti ég við trönuberjum og valhnetum.

Ég ákvað að ég vildi eiinig hafa uppskrift af góðri sósu með og fór því í að gera uppskrift af skotheldri brúnni sósu frá grunni. Það er hægt að fá vegan pakkasósu í Krónunni en mig langaði að gera mína eigin uppskrift af heimagerðri sósu og náði ég að gera ótrúlega einfalda sósu sem er einungis úr hráefnum sem eru til í flestum eldhúsum.

Gleðilega páska og vonandi njótið þið vel.

-Júlía Sif

Hátíðlegt grasker með fyllingu

Hátíðlegt grasker með fyllingu
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 30 MinEldunartími: 60 Min: 1 H & 30 M

Hráefni:

Aðferð:

  1. Hitið ofnin á 200°C og notist við blástur (180°C með undir- og yfirhita)
  2. Byrjið á því að sjóða hrísgrjón og linsubaunirnar.
  3. Skerið endana af graskerinu sitthvoru meginn og graskerið síðan í tvennt. Skerið innan úr því svo það sé hollt að innan en hafið frekar þykkan kannt allan hringin. (Sjá myndir að ofan)
  4. Saxið niður skallotlauk, hvítlauk, sellerí og sveppi og steikið á pönnu í nokkrar mínútur eða þar til grænmetið mýkist vel.
  5. Bætið út í smátt söxuðum trönuberjum, timíani og valhnetum ásamt hrísgrjónum, linsubaunum og steikið áfram í 4-5 mínútur á meðalhita.
  6. Bætið brauðraspi og vatni út í og hrærið vel saman.
  7. Fyllið báða helmingja af graskerinu mjög vel og pressið vel niður. Lokið graskerinu og bindið það saman með vel blautu snæri eða pakkið því inn í álpappír svo það haldist vel saman
  8. Bakið í miðjum ofni í 60 mínútur.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur
Created using The Recipes Generator

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar -

 
 

Vegan brún sósa

Brún sósa er eitthvað sem er algjörlega nauðsynlegt að kunna að gera að okkar mati. Þessi uppskrift er ótrúlega einföld, fljótleg og klikkar aldrei. Innihaldsefnin eru fá og tekur innan við 10 mínútur að útbúa sósuna alveg frá grunni. Sósan hentar fullkomlega með vegan kjötbollum, grænmetisbollum og hrísgrjónaréttum til dæmis eða nánast hverju sem er.

Þessi uppskrift er ein af svona grunn uppskriftunum sem ég gríp til nánast í hverri viku. Það er svo ótrúlega auðvelt að gera einfaldan, fljótlegan kvöldmat, eins og vegan kjötbollur til dæmis, að máltíð með þessari góðu sósu. Þetta er líka uppskrift sem ég á alltaf allt til í og er erfitt að trúa því hversu góð hún er miðað við hversu einfalt og fljótlegt það er að matreiða hana.

Vegan brún sósa

Vegan brún sósa
Höfundur: Júlía Sif
( 0 reviews )

Hráefni:

  • 1/2 lítri vatn
  • 2 grænmetisteningar
  • 1/4 dl næringarger
  • 1/4 dl hveiti
  • 1 msk soyjasósa
  • 1 tsk laukduft
  • 2-3 dropar sósulitur

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hrista saman vatnið og hveiti í hristibrúsa eða krukku.
  2. Hellið hveitiblöndunni í pott og bætið öllu nema sósulitnum út í.
  3. Hitið að suðu og hrærið vel í á meðan. Sjóðið í 4-5 mínútur.
  4. Bætið sósulitnum út í, einum dropa í einu þar til sá litur sem þið kjósið kemur fram.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Ljúffeng vegan sætkartöflusúpa með kókosmjólk, rauðu karrí og hnetusmjöri

saetkartoflusupa-tilbuin-og-pottur

Í dag deili ég með ykkur uppskrift að sætkartöflusúpu með kókosmjólk, rauðu karrí og hnetusmjöri. Einstaklega braðgóð súpa sem tekur einungis 30 mínutur að elda og passar fullkomlega sem bæði hversdagsmatur, í matarboðið eða við önnur tilefni. Súpan er stútfull af bæði bragði og næringu frá hráefnum svo sem sætum kartöflum, gulrótum, lauk, hvítlauk, engifer, chili, kókosmjólk, rauðu karrí, hnetusmjöri og lime.

Sækartöflusúpa hráefni ofan frá. Sætar kartöflur, gulrætur, kókosmjólk, hnetusmjör

Þegar ég varð fyrst vegan var sætkartöflusúpa einn af þeim fáu réttum sem ég kunni að elda. Sú súpa smakkaðist þó ekkert í líkingu við súpuna sem ég deili með ykkur í dag. Það vill svo skemmtilega til að uppskriftin að gömlu súpunni er ennþá hérna inni á blogginu og eina ástæðan fyrir því er sú að fólk virðist elda hana oft. Hún er með vinsælli uppskriftum á blogginu okkar enn í dag. Á þessum árum borðaði ég svo mikið af sætkartöflusúpu að ég hef ekki fengið mig til að snerta hana síðastliðin ár.

Sætkartöflusúpa sætar kartöflur og gulrætur skornar í bita

Ég ákvað þó fyrir stuttu að prófa að gera hana aftur en leggja mitt að mörkum til að gera hana virkilega gómsæta. Ég hef lært mikið um matargerð síðan ég gerði gömlu súpuna fyrir mörgum árum svo ég vissi að ég gæti gert mun betur. Það sem ég vissi var að:

  1. Ég vildi að súpan hefði djúpt og gott bragð en væri ekki bara dísæt súpa með kókosbragði.

  2. Ég vildi hafa hana svolitið þykka og matarmikla svo ég yrði vel södd.

  3. Ég vildi hafa hnetusmjör í henni.

Útkoman var þessi dásamlega góða súpa sem ég get stolt mælt með að þið prófið að gera!

Það er ekki oft sem ég vel að mauka súpurnar mínar. Mér finnst yfirleitt að hafa bita í þeim. Ég fæ t.d. áfall þegar fólk maukar sveppasúpu. En sætkartöflusúpa er ein af þeim fáu súpum sem ég mauka alltaf. Ég vil þó alls ekki hafa hana þunna svo þessi súpa er í þykkari kantinum. Mér finnst mikilvægt að finna að súpan er matarmikil og mettandi.

Sætkartöflusúpa í potti með trésleif ofan í

Eins og ég sagði hér að ofan er auðvelt og fljótlegt að útbúa þessa sætkartöflusúpu. Það gerir hana að mjög hentugum hversdags kvöldmat. Mér finnst hún samt passa mjög vel sem matur um helgar eða jafnvel í matarboðum því hún er svo ljúffeng. Ég myndi mæla með að bera hana fram með þessu hérna fljótlegu heimagerðu pönnubrauði.

Sætkartöflusúpa tilbúin og toppuð með kóríander og jarðhnetum. Hönd heldur á skeið í súpunni

Ég toppaði súpuna með fersku kóriander og ristuðum jarðhnetum. Ég get ímyndað mér að það sé gott að bæta við vegan jógúrt ofan á líka en ég átti hana ekki til.

Sætkartöflusúpa nærmynd af tilbúinni súpu í skál með kóríander og jarðhnetum

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að þér líki uppskriftin!

-Helga María! <3

Ljúffeng vegan sætkartöflusúpa með kókosmjólk, rauðu karrý og hnetusmjöri

Ljúffeng vegan sætkartöflusúpa með kókosmjólk, rauðu karrý og hnetusmjöri
Höfundur: Helga María
Einstaklega braðgóð sætkartöflusúpa sem tekur einungis 30 mínutur að elda og passar fullkomlega sem bæði hversdagsmatur, í matarboðið eða við önnur tilefni. Súpan er stútfull af bæði bragði og næringu frá hráefnum svo sem sætum kartöflum, gulrótum, lauk, hvítlauk, engifer, chili, kókosmjólk, rauðu karrí, hnetusmjöri og lime.

Hráefni:

  • 2 meðalstórar sætar kartöflur (sirka 600-650 gr)
  • 2 meðalstórar gulrætur (sirka 300 gr)
  • 1 laukur
  • 1 rauður chilipipar
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 1 msk rifið engifer
  • 4 tsk rautt karrýmauk
  • 700 ml vatn
  • 1 grænmetisteningur
  • 1 dós þykk kókosmjólk (400ml)
  • 1-2 msk sojasósa
  • safi úr 1 lime
  • 1/2 dl hnetusmjör (ég notaði gróft en það má auðvitað nota fínt líka)
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Ferskt kóríander og salthnetur að toppa með

Aðferð:

  1. Saxið lauk og steikið uppúr olíu í potti á meðalháum hita þar til hann mýkist
  2. Pressið hvítlauk, rífið engifer, saxið chili og bætið út í pottinn og steikið í smá stund í viðbót. Saltið örlítið.
  3. Bætið karrýmaukinu út í og steikið í sirka 1-2 mínútur á meðan þið hrærið.
  4. Afhýðið sætu kartöflurnar og gulræturnar og bætið út í pottinn ásamt kókosmjólk, vatni, grænmetiskrafti og sojasósu. Látið malla í 15-20 mínútur þar til auðvelt er að stinga í gegnum sætu kartöflurnar og gulræturnar.
  5. Bætið hnetusmjöri og limesafa út í pottinn og mixið súpuna með töfrasprota.
  6. Smakkið til og bætið við salti, pipar eða limesafa ef þarf.
  7. Berið fram með t.d. góðu brauði og toppið með kóríander og fræjum.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið veganistur