Eplakaka að hætti ömmu

IMG_1302.jpg

Þegar ég var yngri þótti mér ekkert betra en kökurnar hennar ömmu. Hún átti alltaf til nokkrar sortir í ísskápnum og nutum við Júlía þess mikið að vera hjá ömmu og afa yfir kaffitímann og borða yfir okkur af brauði og kökum. 

IMG_1230.jpg

Ein af kökunum sem ég borðaði oft hjá ömmu var eplakaka. Hún var í miklu uppáhaldi og mig hefur lengi langað að búa til vegan útgáfu af henni. Nú hef ég loksins látið verða að því og er mjög ánægð með útkomuna. Í kökuna nota ég aquafaba, sem er vökvinn sem fylgir kjúlingabaunum í dós. Vökvinn er próteinríkur og virkar eins og eggjahvítur í margar uppskriftir. Síðan baunavökvinn "uppgvötaðist" hefur verið ótrúlega skemmtilegt að prufa sig áfram með að nota hann í bakstur, og við erum nú þegar með nokkrar uppskriftir þar sem hann kemur að góðum notum, meðal annars lakkrístoppa og lagtertu. 

IMG_1294.jpg

Ég hef verið að skora á sjálfa mig að baka meira, og það gengur vel. Í langan tíma var ég viss um að ég væri alveg vonlaus bakari og bakaði því ekkert nema súkkulaðikökuna okkar, því hún gæti eiginlega ekki verið einfaldari. Uppá síðkastið hef ég þó komist að því að ég er kannski ekki alveg jafn vonlaus og ég hélt, en ég minni sjálfa mig líka á að það er allt í lagi þó eitthvað misheppnist af og til. Ég er líka farin að prufa mig meira áfram með brauðbakstur og hlakka til að deila einhverjum góðum brauð uppskriftum með ykkur á næstunni. 

IMG_1351.jpg

Eplakaka

  • 3 dl hveiti

  • 2 dl sykur

  • 1 dl aquafaba (vökvinn af kjúklingabaunum í dós)

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1 tsk vanilludropar

  • örlitið salt

  • 75 gr smjörlíki (Bæði Krónusmjörlíki og Ljómasmjörlíki eru vegan og henta mjög vel í þessa köku)

  • 1 dl haframjólk

  • 1-2 epli

  • kanilsykur eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið ofninn á 175°c

  2. Þeytið saman sykur og aquafaba í sirka 3 mínútur í hrærivél eða með rafmagnsþeytara, þannig það sé hvítt og svolítið froðukennt.

  3. Blandið saman í aðra skál hveiti, salti og lyftidufti.

  4. Bræðið smjörlíki og hellið því útí hrærivélaskálina, ásamt mjólkinni og þurrefnunum.

  5. Hrærið öllu saman þannig engir kekkir séu, en ekki hræra of mikið samt.

  6. Smyrjið form og leggið smjörpappír í botninn ef ykkur finnst það betra. Ég geri það oft til öryggis (mér hefur þótt best að nota 20 cm form og þessi uppskrift passar akkúrat í þá stærð).

  7. Flysjið eplið og skerið í þunnar sneiðar, raðið þeim á kökuna áður en hún fer í ofninn.

  8. Bakið í 30-40 mínútur. Það fer svolítið eftir ofninum hversu lengi kakan er að bakast. Minn er ekkert svakalega góður og hann hefur engan blástur, svo hún tekur kannski örlítið lengri tíma hjá mér, en ég bakaði hana í alveg 40 mínútur

  9. Ég beið með að strá kanisykrinum yfir þar til það voru sirka 15 mínútur í að kakan yrði tilbúin. Það fer algjörlega eftir smekk fólks hversu mikinn kanilsykur þarf, en ég var alls ekkert að spara hann.

  10. Berið fram með vegan þeyttum rjóma eða ís t.d

Vona að þið njótið :) 

Helga María 

Svartbauna- & sætkartöfluenchilada

IMG_4085-2.jpg

Mexíkóskur matur hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi mér. Það er eitthvað svo skemmtilegt við að dúlla sér í alls konar litlum sósum og salötum sem síðan koma saman í fallegar bragðsamsetningu og litadýrð. Ef ég mætti ráða myndi ég örugglega borða tortillaflögur og guacamole í hvert mál, mögulega með smá ostasósu.

IMG_3940.jpg

Þessi réttur er einn af þeim fyrstu sem ég fullkomnaði alveg frá grunni þegar ég varð vegan. Ég hef boðið upp á hann ótrúlega oft undanfarin ár og hefur hann alltaf slegið í gegn. Baunir voru eitt af því sem ég þurfti að venjast svolítið að borða þegar ég varð vegan og fannst ekki mjög spennandi. En á smá tíma lærði ég að meta þær og finnst ekkert skemmtilegra í dag en að leika mér með alls kynns baunir. Svartar baunir eru í miklu uppáhaldi, og þá sérstaklega í mexíkóska rétti en ekki skemmir hvað þær eru fallegar í réttinum með tómötunum og sætu kartöflunum. Þær eru einnig alveg ótrúelga næringaríkar og tikka í mjög mörg box í einu hvað varðar næringarefni.

IMG_4000.jpg

Rétturinn er toppaður með tveimur virkilega góðum sósum sem eru alveg svart og hvítt en passa alveg fullkomlega saman. Þessar sósur eru heimagerð enchilada sósa og heimagerð ostasósa. Ostasósan er ein af okkar uppáhalds sósum og finnst mér hún miklu betri ofan á mexíkóska rétti en rifin ostur. Einnig er hún alveg ótrúlega holl og stutt full af næringarefnum. Sósuna má líka borða eina og sér með tortilla flögum en ég geri alltaf rúmlega af henni svo ég eigi afgang til að narta í með afgangsflögunum.

IMG_4026-2.jpg
IMG_3934.jpg

Heimagerð ostasósa

  • 1/2 bolli niðursneiddar kartöflur (afhýddar)

  • 1/4 bolli niðursneiddar gulrætur

  • 1/2 bolli kasjúhnetur

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 2 sneiðar niðursoðið jalapeno + örlítið af safanum úr krukkunni

  • 3-4 msk næringarger

  • 1/2 til 3/4 haframjólk

  • salt

Aðferð:

  1. Afhýðið kartöflurnar og skerið niður ásamt gulrótunum. Gufusjóðið eða sjóðið í vatni í 10 mínútur.

  2. Setjið restina í blandara og blandið þar til sósan er silkimjúk (Ef ekki er notaður mjög kraftmikill blandari er gott að leggja kasjúhneturnar í bleyti í soðið vatn í sirka klukkustund áður en sósan er blönduð.)

Vegan Enchilada sósa:

  • 3 msk olía

  • 2 msk hveiti

  • 5 msk tómatpúrra

  • 2 msk chilliduft

  • 1 tsk broddcúmen

  • 1 tsk laukduft

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 msk grænmetiskraftur

  • 3 1/2 dl vatn

Aðferð:

  1. Hrærið saman í litlum potti á miðlungshita olíu og hveiti.

  2. Bætið tómatpúrru ásamt kryddi útí og blandið vel

  3. Bætið að lokum hálfum desilíter af vatni út í, í einu, þar til öllu vatninu hefur verið hrært saman við. Sósan þarf ekkert að sjóða, aðeins að hitna vel.

IMG_4047.jpg

Sætkartöflu & svartbauna enchilada:

  • 1 sæt kartafla

  • 2 dósir svartar baunir

  • 1 laukur

  • 1 paprika

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 2 msk saxaður ferskur kóríander

  • 2 tsk broddcúmen

  • 2 tsk malaður kóríander

  • 2 tsk paprikuduft

  • 1 tsk chilliduft

  • salt og pipar eftir smekk

  • 1/2 dós niðursoðnir tómatar

  • 1/2 lítil krukka salsasósa

  • 2 msk vegan rjómaostur (oatly passar mjög vel)

  • Helmingur af enchilada sósunni

  • 8 maís tortillur

Aðferð:

  1. Skerið sætu kartöfluna í litla bita. Setjið kartöflubitana með vatni svo það fljóti yfir í pönnu og látið malla á meðan þið saxið niður papriku, lauk, hvítlauk og kóríander.

  2. Þegar kartöflurnar hafa fengið að sjóða í 15 mínútur hellið þeim í sigti og látið vatnið renna vel af.

  3. Steikið á pönnunni upp úr örlitlu vatni, lauk, hvítlauk og papríku. Þegar grænmetið hefur fengið að mýkjast aðeins bætiði við sætu kartöflunum og svörtu baununum ásamt niðursoðnum tómötum, salsasósunni, rjómaostinum og kryddinu. Látið malla í 10 mínútur áður en þið setjið enchilada sósuna saman við.

  4. Setjið fyllingu í miðja maíspönnukökuna, rúllið upp og komið fyrir í heldföstu móti. Endurtakið þetta með allar 8 pönnukökurnar. Smyrjið enchilada sósunni yfir og hellið síðan heimagerðu ostasósunni þar yfir. Bakið í 190°C heitum ofni í u.þ.b. 20 mínútur.

Frosin ostakaka með Oreo botni

IMG_1113-3.jpg

Það er fátt sem toppar góða máltíð betur en gómsætur eftirréttur. Þegar ég held matarboð þykir mér eftirrétturinn oft alveg jafn mikilvægur og máltíðin sjálf. Eins og það er þægilegt að kaupa góðan vegan ís, ávexti og súkkulaði, þá er líka stundum skemmtilegt að útbúa eitthvað aðeins meira extra. Það er virkilega auðvelt að gera allskonar vegan eftirrétti og sætindi, og við ætlum að reyna að vera duglegri að birta uppskriftir af svoleiðis hérna á blogginu. 

IMG_1029-3.jpg

Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift af ótrúlega góðri vegan ostaköku. Ég myndi kalla þetta blöndu af ostaköku og ísköku því best er að borða hana nánast beint úr frystinum. Þessi kaka er svo góð að ég hef ekki getað hætt að hugsa um hana síðan ég gerði hana. Oreo botninn passar fullkomlega við fyllinguna sem hefur smá kaffikeim. Ég held það væri gaman að gera úr uppskriftinni litlar ostakökur í bollakökuformi, til að bjóða upp á í matarboðum eða afmælum. 

IMG_0964-2.jpg

Ég get ekki sagt að ég hafi alist upp við að borða ostakökur, en þær eru núna orðnar mikið uppáhald hjá mér. Ég er með aðra mjög góða uppskrift í pokahorninu sem er líka frosin, en á eftir að prufa mig áfram með bakaðar ostakökur. Ég get þó lofað ykkur því að um leið og ég hef masterað svoleiðis köku fáið þið uppskriftina strax. Ég er búin að skora á sjálfa mig að ögra sjálfri mér meira þegar kemur að því að útbúa kökur og deserta. Mér finnst ekkert mál að elda mat og það kemur til mín mjög náttúrulega, en ég er rosalega óöruggur bakari og er yfirleitt með Júlíu í tólinu á meðan ég baka. Ég er þó ákveðin í að hætta að vera hrædd við að baka og sætta mig við það að stundum misheppnast hlutirnir í fyrsta sinn og þá er ekkert annað að gera en að reyna aftur. 

IMG_1066-2.jpg

Þið megið endilega láta okkur vita hvað er ykkar uppáhalds desert og hvort það er eitthvað sem þið viljið að við reynum að "veganæsa." Við erum með endalausar hugmyndir af kökum og skemmtilegu bakkelsi sem okkur langar að setja á bloggið, en það væri mjög gaman að heyra frá ykkur hvað er í uppáhaldi. 

IMG_1120-2.jpg

Hráefni: 

  • 20 Oreo kexkökur

  • 70 gr bráðið vegan smjör (notið hvaða vegan smjör sem er virkar, t.d Krónu smjörlíki eða Ljóma smjörlíki)

  • 1 þeytirjómi frá Alpro (2 dl)

  • 2 öskjur påmackan rjómaosturinn frá Oatly (300gr)

  • 1,5 dl sykur

  • 1 msk vanillusykur

  • 2-3 msk kalt uppáhellt kaffi (fer alfarið eftir því hversu mikið kaffibragð þið viljið hafa. Ég setti 2 msk og það var mjög milt kaffibragð af minni, sem mér fannst fullkomið).

Aðferð:

  1. Myljið niður Oreo kexið, annaðhvort í matvinnsluvél eða með því að setja það í lokaðan nestispoka og brjóta kexið með kökukefli. Hellið muldu kexinu í skál.

  2. Bræðið smjörið, hellið því ofan í skálina og blandið vel saman við kexið með sleif.

  3. Hellið blöndunni í 20 cm smelluform og þrýstið vel í botninn. Setjið formið í frystinn á meðan þið undirbúið fyllinguna.

  4. þeytið rjómann í stórri skál og leggið til hliðar.

  5. Bætið restinni af hráefnunum í aðra stóra skál og þeytið saman.

  6. Bætið þeytta rjómanum útí skálina og þeytið allt saman í nokkrar sekúndur, eða þar til allt er vel blandað saman.

  7. Hellið blöndunni ofan í smelluformið og setjið í frystinn yfir nótt eða í allavega fjóra klukkutíma.

  8. Toppið kökuna með því sem ykkur lystir. Í þetta sinn bræddi ég súkkulaði og toppaði með því, sem voru smá mistök því það var virkilega erfitt að skera í gegnum súkkulaðið þegar það var orðið frosið. Næst myndi ég bræða súkkulaðið og blanda saman við það nokkrum matskeiðum af þykka hlutanum úr kókosmjólk í dós, því þannig harðnar súkkulaðið aldrei alveg. Eins er ótrúlega gott að toppa kökuna bara með muldu Oreo kexi, súkkulaðikurli eða setja yfir hana fullt af ferskum jarðarberjum þegar hún er tekin út. Í rauninni er kakan fullkomin ein og sér, en útlitsins vegna finnst mér skemmtilegt að toppa hana með einhverju gómsætu.

  9. Berið kökuna fram nánast beint úr frystinum. Gott er að láta hana standa í nokkrar mínútur, en hún er svolítið eins og ísterta og er því best ísköld.

Njótið
Helga María