Piparmajónes sem passar með nánast öllu!

Ef það er eitthvað sem við Íslendingar elskum þá eru það SÓSUR! Og mikið af þeim… Það breyttist mikið í matargerð okkar systra þegar við fórum að prófa okkur áfram með að gera vegan majónes heima, allt í einu opnaðist möguleiki á að búa til allar okkar uppáhaldssósur sem við þekktum síðan við vorum yngri. Hvort sem það var kokteilsósa, hamborgarsósa eða pítusósa var allt í einu ekkert mál að útbúa þær allar heima á núll, einni! Nú má líka finna vegan majónes í öllum helstu búðum sem er ótrúlega þægilegt og gerir sósugerðina ennþá einfaldari.

IMG_8150.jpg

Í þessari viku ætlum við að deila með ykkur uppskrift af einni af okkar uppáhalds. En það er piparmajónessósa.

Piparmajónes

  • 1 dós majónes (250gr)

  • 1/2 dl vatn

  • 1 msk malaður pipar

  • 1 msk sítrónusafi

  • 1/2 tsk salt

Aðferð:

  1. Hrærið vatninu og majónesi saman í skál. það þarf að hræra svolítið vel til að það blandist alveg saman. (Þessi skrefi má alveg sleppa en mér finnst það betra til að fá sósuna örlítið þynnri en majónesið er eitt og sér).

  2. Bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið vel saman.

Sósan er fullkomin til að nota í alls kynns pítur eða vefjur og passar alveg einstaklega vel með anamma snitselinu sem er á myndunum hérna að ofan.

-Njótið vel og endilega! Endilega taggið okkur og sendið okkur myndi þegar þið eruð að prófa uppskriftinar okkar! <3

Þessi færsla er unnin í samstarfið við Anamma vegan á Íslandi.

 
anamma_logo.png
 

Rjómapasta með grænu pestói og hvítlauksbrauði

IMG_8090 copy.jpg

Þeir sem hafa fylgt okkur systur í einhvern tíma ættu að vita að rjómapasta er einn af okkar uppáhalds réttum. Það er eitthvað við pasta og góða rjómasósu sem gerir þennan rétt ómótstæðilegan. Að okkar mati er nauðsynlegt að bera hann fram með góðu hvítlauksbrauði. Ég hef verið að prófa mig áfram með nýjar uppskriftir síðustu vikur og ákvað að prófa að nota æðislega græna pestóið sem kemur í nýju vegan vörulínunni frá Sacla Italia og tók það venjulega rjómapastað á nýjar hæðir.

Ég ákvað að nota fá og góð hráefni þar sem að sósan er ótrúlega bragðmikil og góð og vildi ég ekki eitthvað bragðmikið grænmeti á móti. Að mínu mati er nauðsynlegt að hafa mikið af hvítlauk í sósunni. Annað hráefni má alveg leika sér með og nota það sem til er í ísskápnum hverju sinni. Ég ákvað að setja lauk, soyjakjöt og spínat.

Ég geri þetta pasta við öll tækifæri, hvort sem það er bara kósýkvöld heima eða þegar ég er fá vini eða fjölskyldu í mat og ég get lofað ykkur að þessi réttur slær í gegn hjá öllum. Fólk biður yfirleitt um uppskriftina eftir að hafa borðað þennan rétt og því fannst mér tilvalið að deila henni með ykkur hérna.

Það sem er þó best við þennan rétt er hvað hann er auðveldur og tekur stuttan tíma að útbúa, öll hráefnin fara saman á pönnu og svo soðið pasta sett út í. Það geta því allir eldað þennan rétt og er mjög auðvelt að elda mikið magn af honum í einu.

IMG_8078.jpg

Hráefni (fyrir fjóra):

  • Tagliatelle fyrir 4 ( sirka 400 gr) (passa að kaupa eggjalaust)

  • 2-3 hvítlauksrif

  • 1 lítill laukur eða 1/2 stór

  • lúkka af spínati

  • 200 gr soyjakjöt

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk laukduft

  • salt og pipar

  • 2-3 msk næringarger

  • 1/2 teningur eða 1 msk grænmetiskraftur

  • 250-350 ml vegan rjómi ( ég notaði Aito en hann er svolítið þykkur svo ég set um 1 dl af vatni með) ( má alveg setja meiri rjóma ef fólk við meirra creamy pasta)

  • 1 dl Sacla vegan grænt pestó

  • Fersk basilíka ef vill (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja vatn í stóran pott ásamt smá olíu og salti og leyfa suðunni að koma upp.

  2. Þegar suðan er komin upp sjóðið það tagliatelle eftir leiðbeiningum á pakkanum (passa að kaupa eggjalaust tagliatelle)

  3. Skerið hvítlaukinn, laukinn og soyjakjötið niður og steikið upp úr olíu í nokkrar mínútur eða þar til það fer að mýkjast og verða fallega gyllt.

  4. Kryddið grænemtið og soyjakjötið með paprikuduftinu, laukduftinu og salti og pipar eftir smekk.

  5. Bætið rjómanum, pestóinu, næringargerinu og kraftinum út í ásamt spínatinu og hrærið vel saman við kjötið og grænmetið.

  6. Leyfið þessu að sjóða í nokkrar mínútur og bætið síðan soðnu pastanu út í og berið fram ásamt ferskum basil og hvítlauksbrauði.

Njótið vel og takk fyrir að lesa <3

IMG_8090.jpg

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia

 
logo Sacla.jpg
 

Crunchy rabbabarakaka

IMG_7957.jpg

Haustið og veturinn er líklegast minn uppáhalds tími hvað varðar mat. Það er ekkert betra en góðar súpur, kássur og haustlegar kökur og tengi ég haustið alltaf við slíkan mat. Nú þegar haustið er handan við hornið er þessi gómæsta rabbabarakaka hin fullkomna kaka fyrir kósý helgarbakstur eða sem eftirréttur í gott matarboð.

IMG_7887.jpg

Mér finnst rabbabari ótrúlega góður og fannst því fullkomið að gera mjúka rabbabara köku með “crunchy” toppi þessa vikuna. Það kom mér þó á óvart hversu erfitt er að finna rabbabara út í búð þar sem ég átti alls ekki í vandræðum með að þefa hann uppi hvar sem er þegar ég var barn.

IMG_7897.jpg
IMG_7901.jpg

Ég kíkti í Hagkaup en ég fékk skilaboð um að einhverjir hefðu séð hann þar fyrr í sumar en þau áttu hann ekki til ennþá. Ég fékk einhver skilaboð um að hann fengist í frú Laugu en ég kíkti ekki þangað þar sem mamma vinkonu minnar var svo góð að gefa mér einn poka sem hún átti í frysti.

Það er þó allt í góðu ef þú finnur ekki rabbabara eða jafnvel finnst hann ekki góður þar sem það má alveg nota aðra ávexti í staðinn. Epli passa til dæmis ótrúlega vel með þessari uppskrift og ég gæti trúað því að hindber eða bláber gætu gætu gert það líka en ég ætla klárlega að prófa það á næstunni.

Þessi kaka er því fullkomin grunnur til að leika sér með en ég elska slíkar uppskriftir. Kakan er bökuð í lítilli skúffu sem er 30x20 cm en það má líka baka hana í venjulega hringformi en þá þarf að helminga uppskriftina.

IMG_7952.jpg

Hráefni:

  • 150 gr niðurskorinn rabbabari

  • 1 dl sykur

  • 150 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 2 dl sykur

  • 5 dl hveiti

  • 2 tsk matarsódi

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1 tsk salt

  • 1 tsk vanilludropar

  • 2 msk eplaedik

  • 5 dl mjólk

Aðferð:

  1. Hitið ofnin á 175° C

  2. Skerið rabbabaran í sneiðar og blandið einum dl af sykri saman við bitana. Setjið til hliðar á meðan deigið er undirbúið.

  3. Þeytið saman sykur og smjör með rafmagnsþeytara eða í hrærivél þar til létt og ljóst.

  4. Blandið þurrefnunum saman í annari skál og hellið út í smjörblönduna ásamt mjólkinni, edikinu og vanilludropunum.

  5. Hrærið saman þar til deigið er slétt og laust við kjekki. Ekki hræra deigið of lengi.

  6. Smyrjið form með smjörlíki, olíu eða setjið smjörpappír í botninn. Dreifið úr rabbabaranum í formið og hellið deiginu yfir. Útbúið haframjöls”crumble” og stráið yfir. Bakið í 40 mínútur þar til kakan er fallega gyllt að ofan og tannstöngull kemur hreinn út þegar honum er stungið í kökuna.

Haframjöls”crumble”

  • 2 dl haframjöl

  • 1 dl hveiti

  • 1 & 1/2 dl púðursykur

  • 100 gr mjúkt vegan smjör eða smjörlíki

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin saman í skál.

  2. Skerið smjörið í bita og hrærið saman við þurrefnin. Best er að nota bara hendurnar til að ná öllu saman í stóran “klump”. Deigið á að vera frekar þurrt og molna auðveldlega.

  3. Stráið yfir kökuna og bakið í 40 mínútur, þar til kakan er fallega gyllt að ofan og tannstöngull kemur hreinn út þegar honum er stungið í kökuna.

Kökuna má bera fram heita, beint úr ofninum, með vegan ís eða rjóma eða kalda eina og sér eða með rjóma.

Njótið vel