Klassísk súkkulaðiterta

Súkkulaðikökur eru í miklu uppáhaldi hjá flestum. Þegar við gerðumst vegan urðu vinir og ættingar oftar en ekki stressaðir að fá okkur í afmælis- og matarboð. Þeim fannst tilhugsunin um að baka vegan köku yfirþyrmandi og ómöguleg. ,,Getið þið ekki bakað sjálfar bara, ég kann ekkert að baka svona vegan kökur" heyrðum við í hvert einasta skipti. Ástæðan fyrir því að fólk hræðist bakstur á vegan kökum er yfirleitt sá algengi misskilningur að vegan kökur innihaldi þrjátíu hráefni og að það taki marga klukkutíma að búa þær til. Það gæti hreinlega ekki verið meira fjarri sanni.

Kakan okkar er gríðarlega einföld og virkar bæði sem hefðbundin súkkulaðikaka og einnig sem dýrindis bollakökur. Þeir sem hafa smakkað hjá okkur kökuna eru yfirleitt steinhissa á því hvað hún er bragðgóð. ,,Vá þetta bragðast nú bara nákvæmlega eins og súkkulaðikakan sem ég er vön að gera."
Ástæðan er einmitt sá algengi misskilningur að vegan matur og kökur séu alltaf öðruvísi og verri á bragðið en annar matur. Aftur gæti það ekki verið meira fjarri sanni. 

Þessi uppskrift er ein af fyrstu vegan kökuuppskriftum sem við systur þróuðum og birti Helga hana fyrst fyrir mörgum árum á gömu bloggi sem hún var með. Hún varð strax lang vinsælasta uppskriftin á síðunni og var birt meðal annars á vefsíðu Kvennablaðsins. Fljótlega fór það að spyrjast út að til væri uppskrift af vegan súkkulaðiköku sem innihéldi færri en tíu hráefni og ekki bara það, að hún innihéldi einungis hráefni sem allir þekkja og flestir eiga til inni í skáp. Skyndilega hætti fólkið í kringum okkur að vera hrætt við að fá okkur í afmælisveislur. Í dag nota flestir okkar vina og fjölskyldumeðlima þessa uppskrift þegar þeir baka súkkulaðikökur þar sem þeim finnst ótrúlega þægilegt að geta boðið upp á köku sem hentar vegan fólki og er laus við flesta ofnæmisvalda.

Það er ekki einungis kakan sem slær í gegn heldur skiptir smjörkremið miklu máli líka. Það er nefnilega ekkert mál að útbúa vegan smjörkrem og það myndi enginn þekkja það í sundur frá öðru kremi. Það fæst gríðarlega gott vegan smjör í flestum búðum í dag og einnig er smjörlíki nánast alltaf vegan. Við notumst þó mest við smjörlíki í kremið þar sem það heldur vel stífleika og gerir smjörkremið fallegt og þægilegt að vinna með.

Þriðji algengi misskilningurinn hvað varðar vegan bakstur er sá að vegan kökur séu hollustukökur. Fólk setur oft upp svip þegar við segjumst ætla að baka köku því það sér fyrir sér harða hráfæðiköku úr hnetum og döðlum.  Flestir verða yfirleitt hissa yfir því hvað kökurnar eru mjúkar, sætar og gómsætar en verður þó yfirleitt mög hissa þegar það fær þau svör að kakan sé ekki endilega holl. Það er nefnilega ennþá mjög margir sem setja enn samansem merki á milli vegan og hollustu.

Svo ef þið eruð að leita ykkur að uppskrift af hollri köku er þessi uppskrift ekki fyrir ykkur. Hér er á ferð klassísk súkkulaðikaka úr hveiti og sykri og uppistaða kremsins er smjörlíki og flórsykur. 

Júlía nýtur þess mikið að útbúa fallegar kökur og hefur frá því að hún var lítil haft mjög gaman af því að skreyta kökur fallega og fylgja nýjustu “trendunum” í kökuskreytingum. Þeir sem hafa fylgst með blogginu í einhvern tíma muna líklegast vel eftir rósaköku myndunum sem voru áður við þessa uppskrift en var það mikið “trend” í kökuskreytingum þegar við útbjuggum hana fyrst. Nú hefur þó margt breyst og er mikið í tísku núna að gera háar fallegar kökur með súkkulaði sem lekur niður með hliðunum. Okkur fannst því nauðsynlegt að nýta tækifærið og uppfæra þessa vinsælu uppskrift með nýjum fallegum myndum.

Við bættum við súkkulaði ganache sem við notuðum sem fyllingu á milli kökubotnanna og til að láta leka fallega niður með hliðum kökunnar. Það þarf þó alls ekki að hafa það með og er kakan virkilega góð með smjörkreminu einu og sér. Við mælum þó með að allir prófi að setja ganache á milli með kreminu því það tekur kökuna alveg á næsta stig. Uppskriftin af því er að sjálfsögðu hér að neðan.

IMG_0212.jpg

Súkkulaðikökubotnar með smjörkremi og ganache

Súkkulaðikökubotnar með smjörkremi og ganache
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 20 MinEldunartími: 30 Min: 50 Min
Klassíska súkkulaðikakan hefur verið ein vinsælasta uppskriftin okkar frá upphafi. Þessi uppskrift er fullkomin í afmæliskökuna, sem skúffukaka eða í muffinsform.

Hráefni:

Súkkulaðikökubotnar
Einfalt súkkulaðismjörkrem
Súkkulaði ganache

Aðferð:

Súkkulaðikökubotnar
  1. Hitið ofninn í 175°c með blæstri
  2. Blandið þurrefnum saman í skál
  3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og hrærið þar til engir kekkir eru í deiginu
  4. Smyrjið tvö kökuform og skiptið deiginu jafnt í þau. Þessi uppskrift passar akkurat í tvö 20-24 cm hringlaga kökuform eða þrjú 15 cm kökuform. Það er þó einnig hægt að baka kökuna í eldföstu móti, lítilli skúffu eða sem bollakökur.
  5. Bakið í 20-30 mínútur eða þar til tannstöngull eða grillpinni kemur hreinn út þegar honum er stungið í botnana.
Einfalt súkkulaðismjörkrem
  1. Þeytið smjörið í hrærivél eða með rafmagnsþeytara þar til það er vel mjúkt og loftkennt.
  2. Bætið öllum hráefnum nema súkkulaðinu útí og hrærið vel saman.
  3. Bræðið súkkulaðið og hellið því útí og hrærið á meðan á litlum hraða.
  4. Leyfið kökubotnunum að kólna alveg áður en kreminu er smurt á.
  5. Ath. Ef gera á þriggja hæða köku og skreyta hana þarf að gera eina og hálfa uppskrift af kreminu. Okkur þykir gott að gera tvöfalda uppskrift og ef það er afgangur þá frystum við það og notum seinna.
Súkkulaði ganache
  1. Brjótið súkkulaðið niður og skerið það í litla bita og setjið í skál sem má fara í örbylgjuofn.
  2. Vigtið rjómann og hellið honum út í skálina. Það er ekki sniðugt að slumpa þessa uppskrift þar sem við viljum fá ákveðna áferð á súkkulaðið svo hægt sé að vinna með það.
  3. Setjið súkkulaðið og rjóman í örbylgjuofn og hitið í 20 sekúndur. Takið út og hrærið til í skálinni. Setjið súkkulaði blönduna aftur í örbylgjuofn í 10 sekúndur í einu þar til súkkulaðið er alveg bráðnað. Það er best að hræra mjög vel í skálinni á milli þess sem blandan er hituð, helst með litlum sósupísk eða gaffli.
  4. Ef nota á ganache a milli botnanna er best að setja fyrst vel af smjörkremi á neðri botninn, dreifa vel úr því og búa síðan til holu í kremið í miðjunni. Ganache’ið þarf að fá að kólna aðeins og er honum síðan hellt í holuna og næsti botn settur yfir.
  5. Til að láta það lekur niður með hliðum kökunnar er mikilvægt að kæla kökuna tilbúna í allavega 30 mínútur áður. Leyfið einnig ganache’inum að kólna aðeins og prófið að láta það leka niður hliðina á glasi t.d. áður en þið byrjið á kökunni. Súkkulaði ganache’ið á að leka hægt og rólega niður glasið þegar það er tilbúið. Ef það lekur hratt í mjög mjórri bunu er það enn of heitt.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur
Created using The Recipes Generator

- Þessi færsla er unnin við Nathan og Olsen -

download.png

Fljótlegt spagetti bolognese

IMG_9628.jpg

Í dag deilum við með ykkur einfaldri og ótrúlega góðri uppskrift af spagetti bolognese. Þessa uppskrift er tilvalið að gera þegar þið hafið ekki mikinn tíma og viljið gera fljótlegan, en á sama tíma bragðgóðan og næringarríkan kvöldmat. Það er einhvernveginn alltaf það fyrsta sem okkur systrum dettur í hug að gera þegar við viljum eitthvað gott sem ekki tekur of langan tíma; pasta, allskonar gott á pönnu og góð sósa. Getur ekki klikkað.

IMG_9569.jpg
IMG_9607.jpg

Færsla dagsins er í samstarfi við Sacla og við notuðum bolognese sósuna frá þeim í réttin. Sósan er dásamlega góð og svo hentug í góða pastarétti. Sósan inniheldur baunaprótein (e. pea protein) og allskonar krydd og þarf því lítið annað að gera en að skella henni á pönnuna með restinni af hráefnunum. Ekkert smá hentugt!

IMG_9634.jpg

Spagetti Bolognese (fyrir 4)

Hráefni:

  • 300 gr spagetti

  • 4 msk olífuolía

  • 2 msk salt

  • 1 bolli niðurskorið brokkolí

  • ⅕ bolli niðurskornar gulrætur (2-3 litlar)

  • ½ laukur

  • 2 hvítlauksrif

  • 1 dl þurrar brúnar linsubaunir (eða ein dós niðursoðnar)

  • 1 krukka vegan bolognese sósa frá Sacla Italia

  • ½ bolli pasta vantið (vatnið sem spagettíið var soðið í)

Aðferð:

  1. Ef notast er við þurrar linsubaunir er best að byrja á því að sjóða linsurnar í vatni í um 30 mínútur.

  2. Setjið vel af vatni í stóran pott ásamt 2 msk af olíu og saltinu og leyfið suðunni að koma upp.

  3. Skerið niður allt grænmeti og steikið upp úr restinni af olíunni þar til það fer að mýkjast.

  4. Bætið linsubaununum út á pönnuna ásamt ½ bolla af pastavatni og leyfið suðunni að koma upp. Smakkið til og bætið við salti og pipar ef þarf.

  5. Hrærað spagettíinu út í þegar það er tilbúið og berið fram.

Takk fyrir að lesa og vonandi smakkast vel!

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi-

 
Sacla_HR.png
 

Tómat og ostapasta með Violife "feta"osti.

Fyrir um það bil ári síðan, þegar Covid var ný byrjað og ég lá heima í nokkrar vikur eftir aðgerð, “downloadaði” ég í fyrsta skipti Tik Tok forritinu. Ég var MJÖG fljót að þefa uppi alls konar matar og baksturs “aðganga” en ég get legið yfir skemmtilegum matarmyndböndunum á Tik Tok oft tímunum saman. Það hafa ótal matar “trend” sprottið upp á forritinu sem ég elska að fylgja og prófa að gera sjálf heima hjá mér.

Fyrir ekki svo löngu fór ég, og líklegast flestir sem eru á samfélagsmiðlum, að sjá endalaust af mjög auðveldri pastauppskrift á netinu sem samanstóð af tómötum, hvítlauk og fetaosti. Ég vissi strax að ég yrði að gera þessa uppskrift vegan með violife greek white block ostinum þar sem ég hef mjög góða reynslu af honum. Ég prófaði að gera vegan útgáfu af pastanu fyir u.þ.b. mánuði síðan og er þetta ein sú auðveldasta uppskrift sem ég veit um.

Pastað kom ótrúlega vel út með vegan ostinum og eftir að ég deildi með ykkur myndbandi af því á Instagram fékk ég fullt af spurningum út í uppskriftina svo ég ákvað að koma henni hérna inn fyrir ykkur. Ég hef eldað þennan rétt margoft síðustu vikurnar og mér finnst þetta vera fullkomin réttur þegar ég veit ekki hvað ég á að hafa í matinn eða nenni ekki að elda. Ég einfaldlega hendi pasta í pott, restinni af hráefnunum inn í ofn og blanda þessu síðan saman hálftíma seinna. Alveg fullkomið þegar það er mikið að gera.

IMG_0183.jpg

Hréfni (fyrir 4):

  • 300 gr pasta

  • 4 msk olífuolía

  • u.þ.b. 300 gr af kirsuberjatómötum eða öðrum litlum tómötum

  • 1 pakki violife greek white block

  • 3 hvítlauksrif

  • 1 msk óregano eða aðrar ítalskar jurtir

  • Smá fersk basilíka (má sleppa)

  • Vel af salti

Aðferð:

  1. Setjið ólífuolíu, tómatana í hvítlauksrifin í eldfast mót eða pönnu sem má fara í ofn. Ég hef hvítlauksrifin heil með hýðinu á. Hrærið tómatana saman við olíuna og myndið síðan gat í miðju mótinu fyrir ostin. Leggið heilan ost í mitt formið og hellið örlítið af olíu yfir hann. Stráið saltinu og óreganóinu yfir ostinn og tómatana.

  2. Bakið í 200°C heitum ofni í 25-30 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og tómatarnir orðnir vel grillaðir að ofan.

  3. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum á meðan að tómatarnir og osturinn eru í ofninum.

  4. Takið ostinn úr ofninum, pressið hvílauksrifin úr hýðinu og takið það frá. Stappið tómatana og hvítlaukinn vel saman við gríska ostinn og hellið síðan pastanum út í og blandið vel saman. Rífið nokkur basilíkulauf yfir og bætið við smá salti ef ykkur finnst það þurfa.

IMG_0179.jpg

-Njótið vel og takk fyrir að lesa. <3

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Violife á íslandi

 
violife-logo-1.png
 

Pítsa með rauðu pestó og ceasar dressingu.

Pítsur eru í miklu uppáhaldi hjá mér og líkt og hjá mörgum hef ég oftar en ekki pítsu í matinn á föstudagskvöldum. Eftir að ég varð vegan fór ég að prófa mjög mikið af msimunandi hráefnum ofan á pítsur og elska ég að finna nýjar samsetningar sem koma vel út. Þegar ég bjó í Danmörku kynntist ég því að setja grænt salat og salatdressingar ofan á pítsur og það hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér núna síðustu mánuði.

Ég hef mikið verið að nota salat dressingarnar úr vegan línunni frá Sacla en þær eru ótrúlega ferskar og góðar og passa fullkomlega ofan á pítsur. Áður en ég fékk þær í hendurnar notaði ég oft majónessósur í þetta en ég fékk alltaf smá ógeð eftir nokkrar sneiðar þar sem majónessósur eru mikið feitari og þyngri að mínu mati. Þess vegna hef ég verið í skýjunum eftir að ég fékk Sacla sósurnar. Bæði Ceasar sósan sem ég nota í þessari uppskrift og Blue cheese sósan frá þeim passa fullkomlega ofan á pítsu. Ég nota venjulegt salat ofan á, frekar en klettasalat þar sem mér finnst það passa betur með salatdressingunum.

Hráfeni:

  • Pítsadeig (annað hvort heimagert eða keypt deig)

  • Rautt pestó úr vegan línu Sacla Italia

  • Rauðlaukur

  • Rauð eða gul papríka

  • Rifinn vegan ostur (ég nota alltaf origianl violife ostinn)

  • 3 msk olífuolía + örlítið salt

  • Grænt salat

  • sirka 1/2 flaska Ceasar sósa frá Sacla italia

Aðferð:

  1. Stillið ofnin á 220°C blástur

  2. Fletjið út pítsadeigið og smyrjið með vel af rauða pestóinu.

  3. Skerið rauðlaukinn og papríkuna í strimla og dreyfið á deigið. Dreyfið ostinum yfir, hellið ólífuolíunni yfir ostinn og stráið smá salti yfir.

  4. Bakið pítsuna í ofninum þar til osturinn bráðnar og deigið verður fallega gyllt í könntunum. Tekur sirka 12 mínútur.

  5. Skerið salatið niður og dreyfið yfir pítsuna þegar hún kemur út úr ofninum. Hellið sósunni yfir pítsuna, notið það magn sem hver og einn vill.

Takk fyrir að lesa og njótið vel.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi

 
sacla-logo.png
 

Mexíkóskar chorizo kjötbollur

Eins og flestir sem skoða bloggið okkar eða fylgjast með okkur á Instagram vita, þá elskum við systur mexíkóskan mat mjög mikið. Ég er líklega með einhvers konar mexíkóskan mat í kvöldmatinn í hverri viku og er ég alltaf að prófa að gera nýjar útfærslur á uppáhalds uppskriftunum mínum.

Ég er lengi búin að ætla að gera uppskrift af einhvers konar kjötbollum með svörtu doritosi og eftir að ég gerði ofnbakað nachos með chorizo pylsunum frá Anamma í fyrra datt mér í hug að þær myndu passa fullkomlega í kjötbollurnar.

Ég notaði því formbar hakkið frá Anamma, sem er lang besta hakkið til að gera bollur og borgara að mínu mati, ásamt chorizo pylsunum í bollurnar. Þessi tvenna kom virkilega vel út en pylsurnar eru mjög bragðmiklar og gera bollurnar extra bragðgóðar.

Þessi uppskrift er alls ekki flókin og má nota hana til að gera bollur, borgara eða sem einskonar “fyllingu” ofan á nachos eða í quesadilla. Ég bakaði mínar í ofni og bar þær fram með hrísgrjónum og guacamole en það er einnig mjög gott að steikja þær og nota í vefjur.

IMG_9884.jpg

Hráefni (fyrir 4-5) :

  • 350 gr formbar anamma hakk

  • 2 stk chorizo pylsur frá anamma

  • 1/2 rauðlaukur

  • 2 hvítlauksrif

  • 1/2 dl rifinn vegan ostur

  • 1/2 dl mulið svart doritos

  • 1/2 dl niðursaxað kóríander

  • 1 msk mexíkósk kryddblanda (t.d. taco krydd eða mexican fiesta

  • 1 tsk salt.

Aðferð:

  1. Leyfið Anamma hakkinu og chorizo pylsunum að þiðna áður en byrjað er að hræra restinni af hráefnunum saman við. Ég nota oftast örbylgjuofn til að þíða “kjötið”.

  2. Saxið niður rauðlaukinn og kóríanderinn, myljið svarta doritosið og pressið hvítlaukinn.

  3. Stappið chorizo pylsurnar með gaffli og hrærið saman við hakkið ásamt restinni af hráefnunum.

  4. Mótið bollur eða fjóra hamborgara úr hakkinu.

  5. Steikið bollurnar eða hamborgarana upp úr smá ólífuolíu í nokkrar mínútur á hverri hlið eða eldið þær í bakarofni í sirka 15 mínútur við 210°C.

  6. Ég hrærði 1 krukku af salsasósu saman við 1/2 dl af vatni, hellti yfir bollurnar og setti rifin vegan ost yfir. Þetta bakaði ég síðan í 15 mínútur í 210°C heitan ofn.

Það er fullkomið að bera þessar bollur fram með hrísgrjónum, guacamole og fersku salati eða með því meðlæti sem hver og einn kýs að nota.

Þessi uppskrift hentar fullkomlega í að gera mexíkóska hamborgara en ég setti quacamole, salsasósu, ferskt grænmeti, jalapeno og tortilla flögur á minn borgara.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi.

 
anamma_logo.png