10 skemmtilegir hlutir að gera sem kosta lítinn sem engan pening

Hugmyndina af þessari færslu fékk ég um daginn þegar ég var að reyna að lista niður hugmyndir af skemmtilegum hlutum fyrir okkur Sigga að gera sem ekki kosta mikinn pening. Það er magnað hvað ég gleymi því fljótt að það er hægt að fara út úr húsi og gera sér glaðan dag án þess að eyða fullt af pening. Ég ákvað að skrifa niður 10 hluti sem hægt er að gera með vinum sínum, maka, fjölskyldu eða bara með sjálfum sér.

1. Njóta í fallegri náttúru
Það er svo æðislegt að útbúa kaffi í brúsa og samlokur og fá sér göngutúr um einhvern fallegan stað eins og Elliðarárdal eða Heiðmörk. Það þarf oft að keyra svolítinn spöl til að komast á svona staði og ef nokkrir fara saman er ekkert mál að deila bensínkostnaði, og þá er það alls ekki dýrt. Eftir að ég flutti til Norður Svíþjóðar hef ég komist að því að það er aldrei of kalt fyrir “lautarferð.” Hérna grillar fólk í snjónum. Á sumrin er svo endalaust af möguleikum á skemmtilegum gönguferðum, bíltúrum út í sveit og fjallgöngum, jafnvel þó það þurfi oft að klæða sig vel. Eins er ótrúlega gaman, ef maður hefur góðan tíma, að keyra kannski klukkutíma út úr borginni og heimsækja litla bæi eins og Eyrarbakka og skoða fallegu gömlu húsin og taka skemmtilegar myndir.

2. Spila spil
Eitt af því sem ég geri sjaldan og vildi að ég gerði oftar er að taka spilastokk eða önnur skemmtileg spil með á kaffihús og spila. Það er undantekningalaust ótrúlega gaman og gerir kaffihúsadeitin enn meira spennandi. Við mæðgurnar áttum til dæmis ótrúlega kósý kvöld á bar í Edinborg um daginn, þar sem við spiluðum saman Olsen olsen upp og niður. Á mörgum kaffihúsum fæst uppáhelt kaffi fyrir innan við 500 kr þar sem boðið er upp á fría áfyllingu. Það getur verið virkilega gaman að setjast með vinum og spila. Eins er líka bara geggjað að halda spilakvöld heima. Ein skemmtilegustu kvöld sem ég hef átt með vinum eru spilakvöld, og það er oft hægt að fá lánuð ný og spennandi spil ef maður vill aðeins breyta til.

3. Halda Pálínuboð eða elda saman
Við vinir mínir höfum stundum haldið “matarboð” þar sem allir í hópnum taka með sér eitthvað sem til er í ísskápnum og elda úr því eitthvað gott. Þetta er mjög ódýrt og yfirleitt miklu skemmtilegra en þessi hefðbundnu matarboð þar sem einhver eldar og býður svo öllum hinum í mat, auk þess sem þetta er oft mun meira kósý. Við útbjuggum t.d ótrúlega góða vegan borgara um daginn þar sem einn tók með sér kartöflur og sætar sem við bökuðum í ofninum, ein átti allt sem þurfti í sjálfan borgarann og önnur átti borgarabrauð í frystinum. Ég átti allt í heimagerða hamborgarasósu og eitthvað grænmeti. Það var eitthvað svo heimilislegt að elda og borða öll saman og það urðu til virkilega skemmtilegar samræður á meðan.

IMG_2843-3.jpg

4. Stofna leshóp
Ég er nýbyrjuð í leshóp sem mun hittast einu sinni í mánuði. Þetta er eitthvað sem mig hefur alltaf langað að gera og er rosalega spennt fyrir þessu. Það er ekkert mál að redda sér bókum annað hvort á bókasafninu eða fá að láni svo það er engin þörf á því að kaupa allar bækurnar glænýjar. Leshópurinn mun hittast í fyrsta skipti núna á sunnudaginn og ég hlakka mikið til. Mér finnst svo gaman að lesa en gef mér svo sjaldan tíma í það þessa dagana. Því finnst mér frábært að hafa eitthvað svona sem hvetur mig til þess. Stelpurnar í leshópnum eru líka frábærar og það verður svo gaman að kynnast þeim enn betur. Við munum mest lesa á sænsku og það verður frábær leið til að ná enn betri tökum á tungumálinu.

5. Finna ókeypis tónleika eða aðra viðburði og fara á
Það eru oft allskonar skemmtilegir ókeypis viðburðir í Norræna húsinu og eins er Listaháskólinn oft með mjög áhugaverða og skemmtilega viðburði sem eru ókeypis. Ég fór mikið á ljóðakvöld þegar ég bjó heima og reyndi að fylgjast með því þegar höfundar voru að lesa upp verkin sín. Það er oft hægt að finna margt skemmtilegt með því að skoða viðburðina sem koma upp á Facebook. Það er t.d. frábær leið til að kynnast böndum sem maður hefur aldrei hlustað á. Nokkrar af mínum uppáhalds íslensku hljómsveitum og tónlistarmönnum hef ég fundið alveg óvart með því að mæta á tónleika hjá þeim án þess að vita við hverju var að búast.

6. Búa til heimagert barsvar (pub quiz)
Þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert með vinum mínum. Þar sem ég er í tónlistarháskóla er tónlist oftar en ekki þema keppninnar, en það er að sjálfsögðu hægt að útbúa hvernig quiz sem er. Ef keppnin á að snúast um tónlist geta til dæmis tveir úr vinahópnum útbúið lagalista á Spotify og samið spurningar. Síðan er hægt að skipta hópnum í tvö eða fleiri lið. Ef fólk vill drekka áfengi er tilvalið að kaupa ódýra bjóra í ríkinu eða jafnvel hreinsa til úr skápunum og búa til góða kokteila. Það eiga oft margir flösku af sterku áfengi sem aldrei er tilefni til að opna og því snilld að nýta það í að útbúa skemmtilega kokteila með vinunum.

IMG_2906.jpg

7. Fara á bókasafnið
Mörgum finnst þetta kannski óspennandi hlutur að gera, en ég mæli samt með að prufa. Það er ótrúlega kósý að taka með te eða kaffi í brúsa og annað hvort læra, vinna í tölvunni eða blaða í skemmtilegum bókum. Það gerir oft gríðarlega mikið fyrir mig að komast út úr húsi og breyta til þegar ég er að vinna eða læra heima. Þrátt fyrir að maður ætli að sitja og skrifa og drekka kaffi, sem vissulega er hægt að gera bara við eldhúsborðið, þá fæ ég að minnsta kosti oft á tilfinninguna að ég einbeiti mér betur að því sem ég er að gera og komi meiru í verk þegar ég klæði mig og rölti á bókasafnið. Ég tek oft með mér smá nesti og tek pásur inn á milli þar sem ég skoða skemmtilegar bækur.

8. Halda bíómaraþon með skemmtilegu þema
Þetta er mjög gaman að gera annað hvort tvö eða fleiri. Við Siggi höfum stundum haft bíómaraþon á grámyglulegum sunnudögum, en við höfum meðal annars haft “ljótumynda þema” þar sem við horfðum á myndir sem þekktar eru fyrir að vera einstaklega lélegar. Eins höfum við líka haft Steve Martin þema, sem var mjög áhugavert. Það er hægt að útbúa ótrúlega kósý bíókvöld, kveikja á kertum og finna til púða og teppi, leggja í púkk fyrir kartöfluflögum og gosi, eða poppa í potti og njóta í botn.

IMG_2890.jpg

9. Heimsækja ættingja sem þú hittir sjaldar en þú vildir
Það kostar ekkert að heimsækja ömmu, blaða í gömul myndaalbúm og drekka kaffi. Oftar en ekki gefur það manni ótrúlega mikið að eiga góðar samræður og styrkja tengslin við fólkið í lífinu sínu. Amma okkar Júlíu er mikill gestgjafi og vill alltaf bjóða gestum uppá eitthvað gott. Henni hefur hinsvegar þótt mjög erfitt að vita hvað hægt er að bjóða okkur systrum eftir að við urðum vegan svo við höfum stundum útbúið eitthvað sjálfar og tekið með. Ég hef þó gert miklu minna af því en ég vildi. Júlía hefur nokkrum sinnum bakað súkkulaðikökuna okkar og ég hef útbúið aspas rúllubrauðið okkar og ömmu þótti bæði auðvitað svakalega gott.

10. Syngja í kór
Okei, þetta er kannski ekki fyrir alla en það eru til ótrúlega margir mismunandi kórar sem henta mismunandi fólki. Það þarf alls ekki að fara í inntökupróf í alla kóra. Það syngja ekki allir kórar klassíska tónlist, oft er sungin popp tónlist eða dægurtónlist. Kórar æfa flestir einu sinni í viku og á kóræfingum kynnist maður frábæru fólki og skemmtilegri tónlist. Stundum er ársgjald fyrir meðlimi, en það er aldrei hátt.

Takk fyrir að lesa. Mér þætti svo ótrúlega gaman að heyra ykkar hugmyndir að hlutum sem kosta lítinn sem engan pening

-Veganstur <3

Vegan rjómabollur að sænskum sið (semlur)

IMG_2799-4.jpg

Bolludagur Svía (fettisdagen) er næsta þriðjudag, daginn eftir að hann er haldinn hátíðlegur á Íslandi, en sænska rjómabollan kallast semla. Á Íslandi fást bollurnar bara á bolludaginn og kannski einhverjir afgangar næstu daga eftir, en hérna í Svíþjóð byrja kaffihús og bakarí að selja semlur um miðjan janúar. Svíar eru sjúkir í bollurnar og borða þær mikið alveg frá því þær byrja að seljast og fram að bolludeginum.

Mér finnst sænsku bollurnar æðislegar. Deigið er eins og af gerbollunum sem við þekkjum, en þau setja mulda kardimommu út í bolludeigið sem mér finnst alveg svakalega gott. Á Íslandi erum við vön að borða bollurnar okkar með sultu, rjóma og glassúr, en Svíarnir borða sínar fylltar með möndlumassa og rjóma og strá flórsykri yfir. Ég man að mér fannst þessar sænsku bollur ekkert hljóma svakalega spennandi fyrst, en þær eru alveg gríðarlega góðar, ekkert síðri en þær sem við borðum heima.

IMG_2755.jpg

Möndlumassa kaupir maður tilbúinn úti í búð hérna í Svíþjóð, en þar sem hann fæst ekki tilbúinn á Íslandi ákvað ég að búa til ótrúlega góðan og einfaldan möndlumassa sjálf. Þeir sem ekki eiga matvinnsluvél eða góðan blandara geta líka rifið niður 400g af marsípani og blandað saman við 1 dl af jurtamjólk. Möndlumassi og marsípan er þó ekki alveg sami hluturinn, en marsípan inniheldur minna af möndlum og meiri af sykri. Ég er þó viss um að marsípan væri mjög gott í svona fyllingu.

IMG_2773.jpg

Ég notaði rjómann frá Alpro á bollurnar. Mér finnst hann rosalega góður, en hann verður ekki alveg jafn stífur og hefðbundinn rjómi. Ég er búin að lesa mikið um að fólk setji stundum pínulítið af lyftidufti út í hann þegar það þeytir og að það hjálpi honum að stífna, og ég var að spá í að prufa það í dag, en átti svo ekki til lyftiduft svo það verður að fá að bíða. Ef þið ákveðið að prufa væri ég mikið til í að heyra hvort það breytir einhverju.

IMG_2784-2.jpg

Uppskriftin af bollunum er ekkert smá einföld. Það er auðvitað hægt að sleppa kardimommunni ef þið viljið gera bollurnar eins og íslenskar rjómabollur, en ég mæli samt svo mikið með að prufa þessar sænsku. Eins og ég segi er uppskriftin ótrúlega einföld og það er ekkert mál að skella bara í tvö deig og gera bæði íslenskar og sænskar. Halló, bolludagurinn er einu sinni á ári, live a little!

Þegar ég var búin að baka bollurnar og mynda þær hljóp ég yfir til vinar míns sem er líka vegan. Þar sem kaffihúsin í Piteå bjóða ekki upp á vegan semlor þá datt mér í hug að hann yrði spenntur að fá tvær heimabakaðar. Ég viðurkenni að ég var mjög stressuð um að honum þætti þær ekkert spes og að ég þyrfti meiri æfingu til að geta gert góðar semlor sem stæðust væntingar svíana sem hafa borðað bollurnar alla ævi. Hann át þær báðar upp til agna og sagðist ekki hafa fengið svona góðar semlor í mörg ár og gaf þeim A+. Ég varð ekkert smá ánægð með þá einkunn.

IMG_2811-2.jpg

Ef þið gerið bollurnar okkar, værum við ekkert smá ánægðar ef þið sendið okkur myndir. Bolludagurinn hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér, ekki síst vegna þess að daginn eftir er sprengidagurinn, sem er bókstaflega uppáhalds dagurinn minn. Ég geri mér fulla grein fyrir því hvað það hljómar skringilega, komandi frá vegan manneskju, en mér finnst sprengidagssúpan alveg jafn góð vegan. Við erum með æðislega góða uppskrift af saltOumph! og baunum sem ég er ekkert smá spennt að elda næsta þriðjudag.

IMG_2825-2.jpg

Sænskar semlur

  • 2 dl plöntumjólk (ég notaði haframjólk)

  • 50 gr smjörlíki

  • 2 tsk þurrger + 1 tsk sykur

  • örlítið salt

  • 1/2 tsk vanilludropar

  • 1 tsk mulin kardimomma

  • 50 gr sykur

  • 250 gr hveiti

  • Smá jurtamjólk til að pensla með

Aðferð:

  1. Hitið mjólk og smjörlíki saman í potti þar til smjörlíkið hefur bráðnað og hrærið í á meðan. Hellið blöndunni svo í skál og leyfið að standa þar til hún er við líkamshita, eða um 37°c.

  2. Stráið þurrgerinu yfir ásamt 1 tsk sykri og leyfið að standa í 10 mínútur.

  3. Blandið restinni af hráefnunum út í og hrærið saman. Ef deigið er of blautt blandið við það smá meira hveiti á meðan þið hnoðið þar til þið fáið rétta áferð. Deigið á að vera svolítið blautt, en þó auðvelt að að meðhöndla án þess að það sé festist við fingurna. Hnoðið deigið þar til það verður slétt og sprungulaust.

  4. Leyfið deiginu að hefast í skál með hreinu viskustykki yfir í allavega klukkutíma áður en litlar kúlur eru myndaðar og settar á bökunarplötu. Passið að hafa bollurnar ekki of stórar þar sem þær stækka vel í ofninum. það komu 10 bollur úr uppskriftinni hjá mér í dag, en þær voru svona meðalstórar. Ég gerði aðeins minni bollur í fyrra og þá komu alveg 14 bollur hjá mér. Leyfið bollunum að hefast á plötunni í allavega hálftíma í viðbót, penslið þær svo með plöntumjólk og bakið í 15 mínútur við 180°C.

Möndlumassi

  • 5 dl möndlumjöl

  • 3 dl flórsykur

  • 5 msk aquafaba (það er vökvinn sem fylgir með kjúklingabaunum í dós)

  • 2-3 msk plöntumjólk eða vegan rjómi

  • Pínu möndludropar. Ég setti í litlu kryddskeiðina mína sem er 1 ml

Aðferð:

  1. Hellið öllu í matvinnsluvél eða góðan blandara og blandið þar til mjúkt. Þetta á að vera þykkt, en þó auðvelt að meðhöndla.

  2. Leyfið að standa við stofuhita. Ég setti þetta strax í sprautupoka sem gerði það auðvelt að fylla bollurnar.

Bollan sett saman

  • Bollurnar

  • Möndlumassinn

  • 1 ferna Alpro jurtarjómi

  • Flórsykur

Til að setja saman bollurnar klippti ég þríhirning úr lokinu og tók aðeins innan úr. Svo sprautaði ég möndlumassa inn í, sprautaði svo þreyttum rjóma yfir, lagði lokið á og sigtaði flórsykur yfir. Það er að sjálfsögðu líka hægt að skera þær í tvennt, en svona gera Svíarnir þetta svo ég ákvað að slá til, mest upp á lúkkið hehe.

Vona innilega að ykkur líki vel <3
-Veganistur

Gómsætt vegan Chili

IMG_2655-2.jpg

Eins og ég hef oft talað um hérna á blogginu finnast mér pottréttir og súpur ótrúlega góður matur. Ég elska að geta skellt allskonar hráefnum í pott, leyft þeim að malla og geta svo bara borið fram án frekari fyrirhafnar. Oft er líka bara svo gott að leyfa mat að malla og taka í sig allskonar brögð. Uppskrift dagsins er einmitt af svoleiðis rétti, en ég hef gert þennan chili rétt oft síðastliðin ár og það er löngu orðið tímabært að ég birti hann hérna á blogginu.

IMG_2633-2.jpg

Árið 2016 vann ég um stund á veitingastað í Gautaborg þar sem reglulega var eldað chili. Það var á þessum veitingastað sem ég lærði að setja kakó í chili. Mér fannst tilhugsunin fyrst rosalega skrítin, en í dag finnst mér það ómissandi. Kokkurinn skellti reyndar líka alltaf vænri skvettu af Kóki í pottinn, en ég er ekki alveg komin þangað.

IMG_2639.jpg

Ég nota mjög oft vegan hakk í þennan rétt, en þar sem ég notaði það í síðustu uppskrift þá ákvað ég að nota sveppi í dag. Það er alveg jafn gott, ef ekki betra. Auk þess er rétturinn stútfullur af gómsætum baunum sem gerir chili-ið rosalega mettandi en á sama tíma alls ekki þungt í magann.

IMG_2644-2.jpg

Rétturinn er passlegur fyrir 3-4 og ég elda eiginlega aldrei minna fyrir okkur Sigga þó við séum bara tvö því það er svo gott að eiga afganga. Það er mismunand hvernig ég ber chili fram, en mér finnst eiginlega möst að toppa það með hreinni sojajógúrt eða Oatly sýrðum rjóma. Svo finnst mér alltaf jafn gott að útbúa djúsí hvítlauksbrauð með. Ef þið eruð í svakalegu stuði er geggjað að búa til “chili cheese fries” og toppa franskar með chiliréttinum og fullt af vegan osti.

IMG_2650.jpg

Eitt af því sem einkennir pottrétti oft er að það er hægt að leika sér mikið með réttina. Það er ekkert heilagt hvaða grænmeti er notað, en ég hef oft bara nýtt það sem ég á heima. Mér finnst gott að setja smá papriku í chili eða jafnvel sætar kartöflur ef ég er í svoleiðis stuði. Ég ákvað að hafa uppskriftina í dag eins og mér þykir hún allra best, og mæli mikið með því að prufa hana.

IMG_2651-2.jpg

Vegan Chili (fyrir 3-4)

  • Olía til steikingar

  • 350g sveppir

  • 2 gulir laukar

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 1 sellerístöngull

  • 2 msk tómatpúrra

  • 3 tsk sojasósa

  • 2 tsk balsamik edik

  • 2 msk kakóduft

  • 1/2 tsk kanill

  • 1 tsk chiliduft

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk cumin

  • 1 tsk oregano

  • 1 lárviðarlauf

  • salt og pipar eftir smekk

  • 2 x 400g dósir niðursoðnir tómatar

  • 2 x 400 g dósir baunir (ég notaði 1 dós af svörtum baunum og 1 dós af blönduðum baunum, en ég mæli t.d mikið með að nota nýrnabaunir)

  • 1/2 - 1 tsk sykur

Aðferð:

  1. Skerið sveppina mjög smátt niður, eins smátt og þið getið.

  2. Saxið lauk og hvítlauk niður smátt.

  3. Hellið olíu í heitan pott og bætið lauk og hvítlauk ofan í og leyfið honum að mýkjast í nokkrar mínútur.

  4. Hellið sveppunum út í ásamt smá salti sem hjálpar þeim að svitna smá í pottinum.

  5. Saxið sellerí niður og bætið út í pottinn þegar sveppirnir hafa byrjað að eldast svolítið (eftir 5-10 mínútur).

  6. Bætið kryddunum út í ásamt sojasósunni, balsamik edikinu og tómatpúrrunni og hrærið vel saman í nokkrar mínútur.

  7. Hellið niðursoðnu tómötunum út í ásamt baunum og lárviðarlaufi og leyfið að malla í sirka 20 mínútur, því lengur, því betra. Ég mæli með að bæta smá vatni út í með því að hella aðeins í dósirnar af tómötunum ( sirka 250 ml samtals) og nýta þannig allan tómatsafann sem verður eftir í botninum.

  8. Smakkið til og bætið við kryddum, salti og pipar eftir þörf.

  9. Takið lárviðarlaufið úr áður en borið er fram.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel <3

Veganistur

Vegan döðlukaka með karamellusósu

IMG_2588.jpg

Uppskrift dagsins er af döðluköku með heitri karamellusósu. Þessi kaka kallast á ensku “Sticky toffee pudding” og er alveg dásamlega góð og með karamellusósunni og ísnum er þetta held ég bara besti desert sem ég hef smakkað lengi. Ég hlakka mikið til að bjóða upp á þessa köku næst þegar ég held matarboð.

IMG_2552.jpg

Þegar maður sér orðið “döðlukaka” hugsa margir eflaust fyrst að um sé að ræða holla hráköku. Ég hef allavega lengi tengt döðlur við sykurlausan bakstur og hráfæðinammi, en þessi kaka er langt frá því að vera sykurlaus eða hrá. Upprunalega ætlaði ég mér að gera eitthvað allt annað fyrir bloggið þessa viku, en svo var okkur send fyrirspurn á Instagram í síðustu viku um hvort við gætum gert uppskrift af vegan döðluköku. Ég tók þessari áskorun fagnandi og er ekkert smá ánægð með það. Ég er eiginlega hissa á að mér hafi ekki dottið þetta í hug fyrr. Eins og ég hef sagt áður þykir mér gríðarlega vænt um að fá hugmyndir frá ykkur að uppskriftum til að baka eða elda og verð alltaf mjög spennt þegar ég fæ áskorun um að útbúa eitthvað nýtt.

IMG_2555.jpg

Ég held ég hafi aldrei bakað jafn mikið á jafn stuttum tíma og ég hef gert síðustu vikur. Ég er búin að baka möndluköku þrisvar og bakaði marmarakökuna tvisvar áður en ég birti hana á blogginu. Ég hélt svo afmælisveislu síðustu helgi og bakaði fyrir hana súkkulaðiköku, gulrótarköku og tvo skammta af súkkulaðibitamöffins. Svo á sunnudagskvöld ákvað ég að baka marmarakökuna aftur og sýna á Instastory. Ég er svo búin að baka þessa döðluköku bæði í gær og í dag og á núna fullan frysti af kökum. Ég þarf að vera duglegri að gefa frá mér það sem ég baka svo ég endi ekki á því að borða það allt sjálf. Allar kökurnar sem ég nefni eru að sjálfsögðu hérna á blogginu.

Eins og ég sagði bakaði ég döðlukökuna líka í gær. Ég hafði verið með hugmynd í hausnum um hvernig ég ætlaði að baka hana og var svo bjartsýn að ég ákvað að baka hana í fyrsta sinn og taka myndir fyrir bloggið á sama tíma. Það endaði þannig að ég var mjög óörugg í bakstrinum og myndirnar urðu alls ekki góðar heldur. Í dag er ég mjög fegin að hafa þurft að endurtaka leikinn því þetta gekk miklu betur í dag og bæði kakan og myndirnar komu mun betur út.

IMG_2572.jpg

Þegar ég bakaði kökuna í gær hélt ég fyrst að hún hefði misheppnast, en áttaði mig á því aðeins seinna að svo var ekki. Þegar ég skar hana var hún enn svolítið heit og leit út fyrir að vera svolítið óbökuð í miðjunni. Þó hafði ég stungið í hana og gaffallinn kom hreinn út svo ég skildi ekki alveg af hverju hún var svona klístruð að innan. Ég varð í smá stund alveg hundfúl yfir þessu en þegar kakan hafði kólnað sá ég hvernig hún var nú bara alveg bökuð í gegn. Það var þá sem ég áttaði mig á því að döðlurnar í kökunni gera hana klístraða, og að hún var fullkomlega vel bökuð. Ég hló í svolitla stund að sjálfri mér, bæði því ég hefði átt að fatta þetta, en líka því ég er svo fljót stundum að verða dramatísk. Ég bakaði svo kökuna í dag meðvituð um þetta og hún varð fullkomin.

IMG_2574.jpg

Eitt sem ég breytti þó í dag, sem fór aðeins úrskeiðis í gær er karamellusósan. Í gær varð hún nefnilega rosalega þykk hjá mér svo ég passaði að það gerðist ekki í dag. Málið er að það tekur svolítinn tíma fyrir hana að þykkna og mér fannst ég standa og hræra í henni mjög lengi án þess að nokkuð gerðist, en svo skyndilega byrjaði hún að þykkna og varð rosalega þykk á stuttum tíma. Ekki misskilja mig, sósan var svo góð að ég hefði getað borðað hana með skeið, en það gekk ekkert rosalega vel að hella henni yfir kökuna. Í dag gerði ég uppskriftina alveg eins, en passaði mig að láta hana ekki þykkna svona svakalega. Ég stóð því og hrærði í henni og tók vel eftir því þegar hún fór að þykkna og tók hana af hellunni um leið og hún var komin með þá áferð sem ég vildi.

Ég er mjög ánægð með þessa útkomu og vona svo innilega að ykkur líki vel. Ég hlakka líka til að deila með ykkur uppskriftunum sem eru væntanlegar á næstunni, ég hef ekki verið í svona miklu bloggstuði lengi og vona að það haldist hjá mér. Ég er líka að reyna að vera dugleg á Instagram og þætti mjög vænt um að þið mynduð fylgja okkur þar! <3

IMG_2583.jpg

Hráefni:

  • 250 gr þurrkaðar döðlur

  • 3 dl vatn

  • 1 tsk matarsódi

  • 100 gr smjörlíki við stofuhita

  • 130 gr púðursykur

  • 1 tsk lyftiduft

  • Örlítið salt

  • 2 og 1/2 dl hveiti

  • 1 msk eplaedik

  • 1 dl jurtamjólk


Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C.

  2. Saxið döðlurnar gróft niður og setjið í pott ásamt vatni og sjóðið á lágum hita í 5 mínútur eða þar til þær hafa mýkst svolítið.

  3. Takið þær af hellunni og stappið vel með gaffli, eða kartöflustappara. Það er líka hægt að mauka þær með töfrasprota eða matvinnsluvél, en mér finnst nóg að stappa bara með svona kartöflustappara.

  4. Stráið matarsóda yfir döðlumaukið og blandið honum vel saman við og leyfið að standa í smá stund. Ég geri þetta bara í pottinum sem ég sauð þær í. Maukið mun freyða svolítið þegar matarsódinn er kominn í.

  5. Þeytið smjörlíki og púðursykur þar til blandan er orðin létt og svolítið ljós. Bætið svo restinni af hráefnunum út í og hrærið vel saman.

  6. Smyrjið kökuform. Ég nota eiginlega alltaf kringlótt smelluform sem er 20 cm að stærð og eru uppskriftirnar mínar oftast akkúrat passlegar í það. Ef þið eruð að nota miklu stærra form myndi ég tvöfalda uppskriftina. Ég á t.d eitt 26 cm form sem ég nota voða sjaldan og ég myndi held ég gera þessa uppskrift tvöfalda í það. Ég klippi líka út smá smjörpappír og set í botninn, bara því mér finnst það svo þægilegt.

  7. Bakið kökuna í 40-50 mínútur. Minn ofn er ekki með blæstri og ég bakaði mína köku í 50 mínútur. Ég byrjaði þó að fylgjast með henni eftir 35 mínútur til að vera viss.

Karamellusósa:

  • 1 og 1/2 dl Alpro sojarjómi

  • 120 gr smjörlíki

  • 120 gr púðursykur

  • Örlítið salt

Aðferð:

  1. Setjið allt í pott og hrærið vel saman.

  2. Látið suðuna koma upp og hrærið reglulega í pottinum þar til þið fáið þá áferð sem þið viljið. Ég vildi ekki hafa mína of þykka og passaði því í þetta skiptið að hræra ekki alltof lengi. Ég þurfti samt að sýna svolitla þolinmæði því það tók nokkrar mínútur fyrir sósuna að byrja að þykkna, en þegar það gerðist þá þykknaði hún mjög hratt.

Tips: Kakan er ótrúlega góð ein og sér með karamellusósunni, en Guð minn góður hvað vegan vanilluísinn fullkomnaði hana. Mæli því mikið með að kaupa einhvern góðan vegan ís og bera fram með henni.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að þið njótið. Við höfum verið að fá margar myndir á Instagram uppá síðkastið frá fólki sem hefur verið að elda og baka uppskriftir frá okkur, og okkur þykir ekkert smá vænt um það.

Veganistur <3

Gómsætar fylltar paprikur

IMG_2481.jpg

Ég fattaði það um daginn að ég hef ekki póstað neinni “hversdagslegri” uppskrift frá því fyrir jólin. Ég ákvað að bæta úr því í dag og gera gómsæta uppskrift af fylltum paprikum, sem eru fullkomnar sem kvöldmatur á venjulegum virkum degi, en á sama tíma svo ótrúlega bragðgóðar að þær passa vel fyrir fínni tilefni eins og matarboð.

IMG_2443.jpg

Ég hef verið svolítið föst í að elda alltaf það sama síðustu mánuði og ákvað um daginn að breyta því. Mér hafa alltaf þótt fylltar paprikur góðar en mér dettur einhvernveginn aldrei í hug að útbúa þær þegar ég er að ákveða hvað ég ætla að hafa í matinn. Þessi uppskrift er svo ótrúlega góð og auðvelt að útbúa hana og ég skil ekkert í mér að elda hana ekki oftar. Ég ætla að reyna að vera dugleg að pósta góðum uppskriftum af mat sem ég elda mér hversdagslega. Það gefur mér sjálfri innblástur til að vera hugmyndarík og breyta reglulega til.

IMG_2445.jpg

Ég eyddi síðustu helgi í Edinborg með Júlíu, mömmu okkar og Katrínu litlu systur. Við Júlía vorum auðvitað búnar að finna alla veitingastaði sem okkur langaði að prufa og Katrín hafði orð á því að við tölum varla um annað en mat. Matur var hefur alltaf verið stórt áhugamál hjá Júlíu, en hjá mér gerðist það ekki fyrr en ég varð vegan og byrjaði að blogga. Í dag eigum við það sameiginlegt að hugsa mikið og tala mikið um mat. Við urðum alls ekki fyrir vonbrigðum með vegan matinn í Edinborg og borgin þótti okkur alveg æðisleg. Það er þó alltaf jafn áhugavert að sama hvað það er gott að borða á veitingastöðum, þá er oftast langbest að elda mat heima. Ég verð því alltaf jafn fegin þegar ég kem heim úr svona ferðum og get farið að elda sjálf. Ég tek þó oft með mér hugmyndir og innblástur frá veitingastöðunum sem ég borða á.

IMG_2457.jpg

Ég bar paprikurnar fram með góðu salati og hvítlauksbrauði. Við erum með einfalda og þægilega uppskrift af fljótlegu hvítlausbrauði HÉR. Það þarf enga sósu með paprikunum. Þær eru virkilega bragðmiklar og fyllingin er safarík og góð. Það er þó örugglega gott að strá smá vegan osti yfir áður en þær fara í ofninn, en mér finnst það persónulega óþarfi. Ég nota vegan hakk í réttinn og mæli með hakkinu frá Anamma. Fyrir þá sem ekki vilja sojahakk mæli ég með að nota soðnar brúnar linsubaunir. Mér finnst uppskriftin þó fullkomin með hakkinu.

IMG_2466.jpg

Fylltar paprikur (fyrir fjóra)

  • 4 paprikur

  • Olía til steikingar og til að pennsla paprikurnar

  • 30 g furuhnetur

  • 1 lítill laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 225 g vegan hakk - mæli með því frá Anamma

  • 1 tsk chilliduft

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk cumin

  • 1/2 tsk kanill

  • 1 msk balsamik edik

  • 250 g ferskir tómatar - skornir niður í grófa bita

  • 2 msk sítrónusafi

  • 2 dl soðin hrísgrjón - Ég notaði brún grjón

  • 40 g tómatpúrra

  • 1,5 msk tapenade úr sólþurrkuðum tómötum. Ég keypti það í Svíþjóð og vona innilega að svoleiðis fáist á Íslandi. Ef ekki, þá er rauða pestóið frá Himneskt mjög gott, en eins er hægt að mauka niður sólþurrkaða tómata.

  • 4 lárviðarlauf

  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C.

  2. Skerið toppana af paprikunum og leggið til hliðar.

  3. Pennslið paprikurnar að innan með smá olíu og saltið aðeins. Látið þær standa á meðan þið gerið fyllinguna.

  4. Ristið furuhneturnar á pönnu án olíu í 1-2 mínútur. Leggið til hliðar þegar þær eru orðnar svolítið gylltar.

  5. Hitið olíu í stórum potti. Saxið laukinn og pressið hvítlaukinn og steikið í pottinum þar til þeir hafa mýkst. Passið að brenna þá ekki.

  6. Bætið hakkinu og kryddunum út í pottinn og hrærið vel í nokkrar mínútur.

  7. Bætið tómötunum í pottinn ásamt 100 ml vatni og latið malla i sirka 10-15 minutur.

  8. Hellið grjónunum (ath að þau eiga að vera soðin þegar þau fara í fyllinguna), edikinu, furuhnetunum og sítrónusafanum saman við og saltið og piprið eftir smekk.

  9. Hrærið saman tómatpúrru, tapande/pestó og 200 ml heitu vatni í skál.

  10. Hellið helmingnum af blöndunni út í pottinn og hrærið saman við fyllinguna.

  11. Fyllið paprikurnar og raðið þeim í eldfast mót. Leggið toppinn á og pennslið tómatpúrrublöndu yfir. Hellið restinni af blöndunni svo ofan í eldfasta mótið og leggið lárviðarlauf i botninn.

  12. Setjið i ofninn i sirka 35 mínútur eða þar til paprikurnar eru orðnar svolítið dökkar að ofan.

  13. Berið fram með salati, hvítlauksbrauði eða því sem ykkur lystir.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur
-Veganistur