Vegan ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði

- Samstarf -

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að rjómakenndum vegan ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði. Hinn fullkomni eftirréttur að okkar mati og einmitt það sem ég myndi bjóða upp á í matarboðinu yfir sumartímann. Þessi ís sannar að heimagerður ís er alveg jafn rjómakenndur og góður þó hann sé laus við mjólk og egg.

Uppskriftin er gerð í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi og í ísinn notaði ég gómsæta jarðarberja- og rabarbaramarmelaðið frá þeim. St. Dalfour marmelaðin innihalda engan hvítan sykur og eru því ekki jafn dísæt og mörg önnur marmelaði eða sultur. Marmelaðið gefur ísnum því ferskleika sem passar fullkomlega með rjómakenndum ísnum.

Ísinn sjálfur er gerður úr þeyttum hafrarjóma, heimagerðri eða keyptri sætri niðursoðinni mjólk (e. condensed milk), vanilludufti og rjómaostablöndu. Svo er Digestive kexi og marmelaðinu bætt út í. Það er ótrúlega einfalt að útbúa ísinn en mesta vinnan er að sjóða niður mjólkina í svona hálftíma og láta hana svo standa í nokkra klukkutíma í ísskápnum. Þó það taki smá tíma er það alls ekki flókið. Svo má að sjálfsögðu kaupa hana tilbúna.

Ísinn sjálfur þarf svo nokkra klukkutíma í frystinum. Ísinn tekur því smá stund að útbúa en alls ekki mikla vinnu! Ég get lofað ykkur að sá tími er algjörlega þess virði. Útkoman er gómsætur mjólkurlaus og eggjalaus ís sem svíkur engann.

Á blogginu okkar finnurðu allskonar eftirréttaruppskriftir. Hér eru nokkrar:

Sítrónuostakaka

Kókos- og súkkulaðimús með Pólókexi

Hátíðlegur ís með saltkaramellu

Sjáið bara þessa fegurð. Ég elska ís sem er rjómakendur en inniheldur ferskleika og einhverskonar “kröns”. Af því þetta er ostakökuís braut ég niður digestivekex í ísinn sem var frábær hugmynd því kexið gefur bæði stökkleikann og smá salt. það er að sjálfsögðu hægt að gera sömu grunnuppskrift af ísnum en skipta út bragðinu, en ég mæli mjög mikið með því að prófa að þessa uppskrift.

Takk innilega fyrir að lesa og vonandi líkar þér uppskriftin.

-Helga María

Vegan ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði

Vegan ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði
Höfundur: Helga María
Í dag deilum við með ykkur uppskrift að rjómakenndum vegan ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði. Hinn fullkomni eftirréttur að okkar mati og einmitt það sem ég myndi bjóða upp á í matarboðinu yfir sumartímann. Þessi ís sannar að heimagerður ís er alveg jafn rjómakenndur og góður þó hann sé laus við mjólk og egg.

Hráefni:

Ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði:
  • 1 ferna vegan þeytirjómi (ég notaði Oatly sem er 250 ml)
  • ca 400 ml sæt niðursoðin mjólk (það er akkúrat magnið sem uppskriftin hér að neðan gefur)
  • 150 gr vegan rjómaostur
  • 1/2 dl sykur
  • 2 tsk sítrónusafi
  • salt á hnífsoddi
  • smá vanilluduft (má skipta út fyrir vanilludropa)
  • 1 krukka jarðarberja- og rabarbaramarmelaði frá St. Daflour
  • Digestive kex eftir smekk (ég notaði sirka 4-5 stykki)
Sæt niðursoðin mjólk:
  • 2 fernur vegan þeytirjómi (ég notaði Oatly og hef ekki prófað að gera þetta með annarri tegund. Hef prófað með þykkri kókosmjólk og það virkaði líka).
  • 2,5 dl sykur

Aðferð:

Ostakökuís með jarðarberja- og rabarbaramarmelaði:
  1. Þeytið rjóma og setjið í stóra skál.
  2. Þeytið saman rjómaost, sykur, sítrónusafa og pínulítið salt og bætið út í skálina ásamt sætu niðursoðnu mjólkinni og vanilludufti.
  3. Hrærið varlega saman með sleikju þar til allt er vel blandað saman.
  4. Setjið hluta af ísnum í brauðform, kökuform eða eldfast mót. Brjótið kex ofan á og setjið marmelaði ofan á líka og hrærið létt saman við. Þarf alls ekki að blandast mjög vel við.
  5. Bætið meiri ís yfir og svo aðeins af kexi og marmelaði og koll af kolli þar til þið eruð búin að setja allan ísinn í.
  6. Látið sitja í frystinum í minnst 3 tíma eða þar til ísinn hefur sett sig.
Sæt niðursoðin mjólk:
  1. Setjið þeytirjóma og sykur í pott og látið malla á meðal lágum hita í 30 mínútur á meðan þið hrærið reglulega svo hann brenni ekki við botninn.
  2. Hellið í krukku og setjið í ísskáp helst yfir nótt svo mjólkin nái að þykkna. Hún mun vera frekar þunn þegar hún er heit en þykknar töluvert í ísskápnum.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi-

 
 

Gómsæt vegan pokeskál með marineruðu tófú

-Samstarf-

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af gómsætri vegan pokeskál með sushihrísgrjónum, maríneruðu tófú, fersku mangó, litríku grænmeti og srirachamajónesi. Máltíð sem er tiltölulega auðvelt að útbúa og smakkast eins og á veitingastað. Viltu ganga í augun á vinum og fjölskyldu? Þá er þessi pokeskál fullkomin að elda!

Pokeskál hefur lengi verið einn af mínum uppáhalds réttum að panta mér þegar ég fer út að borða, en eftir að ég prófaði að gera hana sjálf hef ég mun heldur valið að útbúa hana heima. Með því er hægt að útfæra skálina algjörlega eftir eigin höfði og svo er gaman að bjóða uppá hana í matarboðinu, skera niður allskonar grænmeti og leyfa fólki að útbúa sínar eigin.

Bæði sushihrísgrjónin og tófúið gegna lykilhlutverki í pokeskálinni. Ég var lengi hrædd við að útbúa sushihrísgrjón heima því mér fannst það hljóma eins og það væri svaka vesen. Ég get þó sagt að það er alls ekki erfitt. Það má auðvitað gera pokeskál með annarri tegund af hrísgrjónum, en það er að mínu mati ekki eins gott og gefur ekki þessa sushi tilfinningu.

Tófuið er svo próteinið í réttinum og gefur seltu og umame. Ég lét það marínerast í sojasósu, sesamolíu, hrísgrjónaediki, agavesírópi og srirachasósu. Svo bætti ég sesamfræjum við og bakaði tófúið í ofni þar til það varð stökkt að utan.

Pokeskálina toppaði ég svo með tófúinu og allskonar fersku og góðu grænmeti. Þarna er hægt að fara alveg eftir eigin höfði. Ég valdi ferskt mangó, gúrku, lárperu, pikklaðan rauðlauk og kóríander. Að lokum hrærði ég svo saman majónesi og srirachasósu og setti út á ásamt smá limesafa. Ég er ekki að grínast þegar ég segi að þetta smakkaðist eins og á veitingastað.

Viltu bjóða upp á gómsæta pokeskál í matarboðinu og vantar hugmynd að góðum eftirrétti? Þá mælum við með þessari geggjuðu sítrónuostaköku!

Eins og ég sagði er hægt að fara alveg eftir eigin höfði og smekk þegar verið er að setja saman pokeskál. Ég geri þær í raun aldrei alveg eins. Hér eru t.d. nokkrar hugmyndir að öðru grænmeti sem er gott í skálina:

Radísur
Edamame baunir
Rifnar gulrætur
Rifið hvítkál eða rauðkál
Nori eða annar þari
Vorlaukur

Það er endalaust hægt að leika sér og prófa sig áfram!

Takk fyrir að lesa og vona innilega að þér líki uppskriftin.

Helga María! <3

Gómsæt vegan pokeskál

Gómsæt vegan pokeskál
Fyrir: 4
Höfundur: Helga María
Gómsæt vegan pokeskál með sushihrísgrjónum, maríneruðu tófú, fersku mangó, litríku grænmeti og srirachamajónesi. Máltíð sem er tiltölulega auðvelt að útbúa og smakkast eins og á veitingastað. Viltu ganga í augun á vinum og fjölskyldu? Þá er þessi pokeskál fullkomin að elda!

Hráefni:

sushihrísgrjón
  • 500 gr sushihrísgrjón
  • 800 ml vatn
  • 2 msk hrísgrjónaedik
  • 1 msk sykur
  • 1 tsk salt
Marínerað ofnabakað tófú
  • 1 kubbur tófú (400-500 gr)
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 1 "þumall" engiefer
  • 3 msk sojasósa
  • 3 msk hrísgrjónaedik
  • 2 msk sesamolía
  • 2 tsk agavesíróp
  • 1/2-1 msk sriracha (fer eftir smekk)
  • 1 msk sesamfræ
Pikklaður rauðlaukur:
  • 2 meðalstórir eða 3 litlir rauðlaukar
  • 3 dl vatn
  • 2 dl sykur
  • 1 dl edik
  • 1 tsk salt
  • piparkorn (má sleppa)
Pokeskálar fyrir fjóra:
  • Soðin sushihrísgrjón
  • Ofnbakað tófú
  • Grænmeti eftir smekk (ég notaði gúrku, pikklaðan rauðlauk, mangó, lárperu, og limesafa)
  • Sesamfræ að toppa með
  • Vegan majónes + srirachasósa blandað saman

Aðferð:

Sushihrísgrjón:
  1. Hreinsið grjónin vel undir köldu vatni.
  2. Setjið þau í skál og hellið köldu vatni yfir og látið standa í 20 mínútur.
  3. Hellið vatninu af, setjið grónin í pott og bætið hreinu vatni saman við.
  4. Setjið lok yfir og látið ná suðu, lækkið þá hitann og látið grjónin malla á lágum hita í 10 mínútur með lok yfir, eða þar til ekkert vatn er í pottinum lengur.
  5. Slökkvið undir, takið pottinn af hellunni og látið standa í 10 minútur með lokið á.
  6. Hrærið saman hrísgrjónaediki, sykri og salti.
  7. Hellið yfir grjónin og blandið með velta grjónunum varlega til og frá með hrísgrjónaskeið eða trésleif. Passið samt að vera ekki harðhent svo þau klessist ekki saman.
Marínerað ofnbakað tófú
  1. Látið vökvann renna af tófúinu, vefjið því inn í viskastykki og leggið pönnu eða eitthvað svolítið þungt yfir og leyfið því að pressast í svolítinn tíma.
  2. Blandið saman blautu hráefnunum í stóra skál.
  3. Rífið niður engifer og hvítlauk í skálina.
  4. Skerið tófúið í bita og setjið í maríneringuna í a.m.k. 1 klukkustund.
  5. Hitið ofninn í 200°c
  6. Hellið tófúinu í eldfast mót og bakið í sirka 20-30 minútur eða þar til það er orðið svolitið stökkt að utan og hefur tekið á sig lit.
Pikklaður rauðlaukur:
  1. Skerið laukinn niður í þunna strimla. Ekki saxa hann. Ég sker hann í tvennt og svo í strimla.
  2. Blandið sykri, vatni og ediki saman í pott og látið hitna þannig að sykurinn leysist upp.
  3. Setjið laukinn í hreina krukku og hellið vökvanum yfir.
  4. Látið standa í klukkustund.
  5. Laukurinn geymist í allt að 2 vikur í ísskáp.
Pokeskálar:
  1. Sjóðið grjónin.
  2. Bakið tófúið.
  3. Útbúið rauðlaukinn ef þið viljið hafa hann.
  4. Skerið niður það grænmeti sem þið viljið hafa.
  5. Blandið saman majónesi og srirachasósu.
  6. Setjið saman skálarnar.
  7. NJÓTIÐ!
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi uppskrift er í samstarfi við Hagkaup og fást öll hráefnin í hana þar-

 
 

Sítrónuostakaka

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af ótrúlega gómsætri og sumarlegri sítrónuostaköku sem slær svo sannarlega í gegn. Kakan hefur virkilega gott sítrónubragð en er á sama tíma mátulega sæt og ekkert smá loftkennd og mjúk. Þessa ostaköku er hinn fullkomni eftirréttur, til dæmis eftir grillmat en hún hentar einnig fullkomlega á veisluborðið eða bara með kaffinu.

Það sem er best við þessa uppskrift er að það þarf ekki að frysta kökuna og best er að útbúa hana í fati eða öðru fallegu móti sem hægt er að bera hana fram í. Það er virkilega einfalt að útbúa kökuna og hana má bera fram samdægurs.

Kakan er svo fallega gul og því er auðvelt að skreyta hana smá til að hún verði mjög falleg á borði og gerir liturinn hana ekkert smá sumarlega. Ég notaði einungis sítrónu sneiðar og smá mynntu til að skreyta mína og kom það mjög fallega út.

Sumarleg sítrónuostakaka

Sumarleg sítrónuostakaka
Höfundur: Veganistur
Sumarleg sítrónuostakaka sem er virkilega gómsæt. Þessi kaka er fullkomin eftirréttur eftir grillmatinn eða bara með kaffinu hvenær sem er. Kökuna er hægt að útbúa sama dag og á að bera hana fram

Hráefni:

Kexbotn
  • 200 gr digestive hafrakex
  • 70 gr bráðið vegan smjör eða smjörlíki
Ostakökufylling
  • 250 ml (1 ferna) oatly þeytirjómi
  • 2 öskjur oatly rjómaostur
  • 1 dl flórsykur
  • börkur af 1 sítrónu
  • safi úr 1/2 sítrónu
Sítrónugljái
  • 1 dl mjólk
  • safi úr 3 sítrónum
  • börkur af 1 sítrónu
  • 1 dl flórsykur
  • 2 msk hveiti

Aðferð:

Kexbotn
  1. Setjið kexið í matvinnsluvél eða blandara og myljið niður
  2. Bræðið smjörið og hellið út í og blandið aðeins saman
  3. Setjið í botnin á fati eða kökuformi og þrýstið niður í botninn
  4. Geymið í kæli á meðan þið útbúið fyllinguna
Ostakökufylling
  1. Þeytið rjóman í hrærivél eða með handþeytara þar til hann verður stífþeyttur
  2. Bætið rjómaostinum, flórsykrinum, sítrónusafanum og sítrónuberkinum út í og þeytið aðeins lengur
  3. Hellið yfir kexbotnin of dreifið jafnt yfir formið
  4. Setjið í kæli á meðan þið útbúið sítrónugljáan
  1. Hristið saman mjólkina og hveitið þannig það verði ekki kekkjótt.
  2. Setjið öll hráefnin saman í pott og hitið að suðu
  3. Sjóðið í nokkrar mínútur eða þar til það þykknar örlítið
  4. Setjið í breiða, grunna skál og leyfið gljáanum að kólna í 30 mínútur áður en þið hellið honum varlega yfir kökuna.
  5. Kælið kökuna í að minnsta kosti 2 klst áður en þið berið hana fram
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Hagkaup -