Kasjúhnetuostakaka

IMG_5020.jpg

Eftirréttir eru í miklu uppáhaldi hjá mér en þeir eru, að mínu mati, ekki síður mikilvægir en aðalrétturinn þar sem þeir setja eins konar punkt yfir I'ið í góðu matarboði. Ostakökur finnst mér vera hinn fullkomni eftirréttur. Þær er hægt að gera á ótlejandi mismunandi vegu, bæði mjög sætur eða minna sætar, og svo eru þær oft svo ótrúlega fallegar.

Webp.net-gifmaker (3).gif
IMG_4851.jpg

Uppskrift vikunnar er einmitt af ostaköku en þó ekki hinni hefðbundu ostaköku sem að flestir þekkja. Þessi uppskrift inniheldur engan ost og engar mjólkurvörur. Kakan er því 100% vegan og inniheldur einungis holl og góð næringarefni, en meginuppistaða kökunnar eru kasjúhnetur. Kakan er einnig ekkert bökuð heldur einungis fryst og því alveg hrá.  

IMG_4874.jpg
IMG_5101.jpg

Ég gerði þessa köku í fyrsta skipti fyrir nokkrum árum og varð hún strax ein af mínum uppáhalds. Hún er alveg ótrúlega auðveld þar sem maður skellir einfaldlega öllu í blandara og síðan í form. Hún þarfnast þó smá fyrirvara þar sem hún þarf að vera í frysti í að minnsta kosti 8 klukkustundir. Mér finnst því fullkomið að henda í hana kvöldinu áður en bera á hana fram og geyma hana einfaldlega í frystinum þar til rátt áður en á að njóta hennar.

IMG_5226.jpg
IMG_5172.jpg

Þessi uppskrift hefur einnig þann kost að það er hægt að leika sér endalaust með hana. Uppskriftin er í grunninn alltaf sú sama og svo er hægt að bæta við alls kynns berjum, kaffi eða súkkulaði og þá verður þetta alltaf eins og ný og ný kaka. Hins vegar þarf í kökuna góðan blandara sem ræður vel við að gera kasjúhneturnar að silkimjúkri fyllingu. Þær má leggja í bleyti í svolitla stund til að mýkja upp en það þarf þó kraftmikinn og góðan blandara. Við systur eigum báðar blendtec blandara sem við erum virkilega ánægðar með. Hann er ótrúlega kraftmikill og ég hef ekki enn fundið neitt matakynns sem að hann á erfitt með að tæta niður í frumeindir. Blendtec fæst í heimilstækjum og hentar alveg fullkomlega í þessa uppskrift.

IMG_5129.jpg

Vanilla og jarðaberja kasjúostaka:

Döðlubotn:

  • 15 döðlur

  • 4 dl hnetublanda (t.d. hesli, valhnetur og möndlur)

Aðferð:

  1. Setjið döðlurnar og hneturnar í blandara (mjög hentugt að nota twister jar) og blandið vel þar til blandan verður að þéttri kúlu og allar hneturnar eru vel malaðar.

  2. Þjappið blöndunni í botninn á 22/24 cm formi og frystið á meðan þið útbúið fyllinguna.

Fylling:

  • 500 gr kasjúhnetur (lagðar í bleyti í nokkra klukkutíma ef tími gefst)

  • 4 1/2 dl kókosmjólk

  • 1 1/2 dl agave síróp

  • 2 msk sítróna

  • 2 tsk vanilla (+ef hafa á vanilluköku)

  • u.þ.b. 6-8 frosin jarðaber (einungis sett í helming fyllingarinnar)

Aðferð:

  1. Setjið allt nema jarðaberinn saman í blandarakönnuna og blandið á hæsta styrk þar til balndan verður silkimjúk.

  2. Hellið helming blöndunnar yfir döðlubotninn og frystið. Hafið kökuna í frystinum í minnsta kosti 4 klukkustundir áður en jarðaberjafyllingunni er helt yfir svo skilin verði falleg og bein.

  3. Setjið jarðaberinn út í restina af fyllingunni og blandið á hæsta styrk. Geymið fyllinguna í ísskáp þar til tímabært er að hella henni yfir vanillukökuna. Hafið kökuna í frysti í að minnsta kosti 4 klukkustundir í viðbót.

  4. Takið kökuna út úr frysti hálftíma til klukkutíma áður en hún er borin fram.

 

 

Íslenskar pönnukökur

IMG_4569-3.jpg

Þessi færsla er gerð í samstarfi við Heiðu, fyrstu íslensku jurtamjólkina og jafnframt því fyrstu fersku jurtamjólkina sem seld er á landinu. Mjólkin er úr höfrum og er hituð á lægra hitastigi en önnur jurtamjólk sem gerir hana enn bragðbetri og gæðameiri. Þar sem mjólkin er ferskvara er mikilvægt að geyma hana í kæli. Heiða fæst bæði ósæt og með örlítill sætu, er undursamlega rjómakennd og bragðgóð og við mælum eindregið með því að styrkja íslenska framleiðslu þar sem hún er mun umhverfisvænni fyrir vikið. Heiða fæst í öllum helstu matvörubúðum landsins.

IMG_4597.jpg

Okkur fannst tilvalið að útbúa klassíska íslenska uppskrift úr mjólkinni og það kom ekkert annað til greina en ekta íslenskar pönnukökur. Við höfum það sem hefð að baka eitthvað gott um helgar. Það er svo róandi að taka sér tíma í eldhúsinu á laugardags- eða sunnudagsmorgni, hlusta á skemmtilegt hlaðvarp og baka eitthvað gómsætt sem fyllir íbúðina góðum ilmi. Við vorum lengi smeykar við að baka íslenskar pönnsur og gerðum alltaf þessar þykku amerísku, sem varla er hægt að klúðra. Það var því ekki fyrr en mamma tók sig til og bakaði vegan útgáfu af íslenskum pönnukökum handa Helgu, sem við áttuðum okkur á því að þessar íslensku eru eiginlega ómissandi og auðveldar í bakstri. 

IMG_4602.jpg

Þessi uppskrift er æði og á mamma okkar heiðurinn af henni. Við elskum að rúlla þeim upp með sykri eða fylla þær af þeyttum vegan rjóma og sultu. Að þessu sinni útbjó Júlía súkkulaðisósu sem hún stráði yfir ásamt ferskum jarðarberjum og flórsykri. Þetta kom ekkert smá vel út. Heiða var alveg fullkomin í baksturinn og það er yndislegt að geta loksins keypt íslenska jurtamjólk sem er dásamlega bragðgóð og ekki skemmir fyrir hvað umbúðirnar eru fallegar. 

IMG_4599.jpg

Hráefni:

  • 8 dl hveiti

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk salt

  • 1 tsk vanilludropar

  • 2,5 dl eplamauk

  • 100 gr brætt smjörlíki

  • 8-10 dl haframjólkin frá Heiðu

Aðferð:

  1. Blandið þurrefnum saman í skál.

  2. Bætið við mjólkinni, brædda smjörlíkinu, eplamaukinu og vanilludropunum.

  3. Steikið á háum hita upp úr smá smjörlíki.

Berið fram með því sem ykkur lystir. Júlía bræddi súkkulaði og blandaði saman við örlita mjólk og helti yfir pönnsurnar sínar. Það kom mjög vel út. 

-Veganistur

39295002_297353777512105_765831551215730688_n.png

-Færslan er unnin í samstarfi við Heiðu-

 

 

Hafra- og speltbrauð með fræjum

IMG_1511-7.jpg

Við fengum skilaboð um daginn þar sem við vorum beðnar að gera fleiri uppskriftir af góðu brauði. Við elskum gott brauð og þess vegna er kannski svolítið skrítið að á blogginu finnist bara tvær brauðuppskriftir, en það eru heimagerðar tortillur og svo ernubrauð. Ernubrauðið er alveg ótrúlega gott, en maður þarf að plana svolítið fram í tímann þar sem deigið þarf að hefast yfir nótt, eða í allavega 8 klst. Stundum fæ ég skyndilega löngun í að baka gómsætt brauð, en nenni ekki að bíða í margar klukkustundir, og þá geri ég þetta gómsæta hafra- og speltbrauð sem ég ætla að deila með ykkur í dag. Þessi uppskrift er ekkert smá einföld og góð og tekur enga stund að gera. 

IMG_1355-2.jpg

Ég vann um stund á veitingastað í Gautaborg og bakaði svipað brauð, sem var virkilega vinsælt. Brauðið innihélt nokkurskonar súrmjólk, sem ég hef skipt út fyrir vegan jógúrt, og svo voru allskonar hnetur í því en ég ákvað að hafa fræ í staðinn því kærastinn minn er með ofnæmi fyrir flestum hnetum. Ég get ekki borið brauðið saman við það sem ég bakaði á veitingastaðnum, þar sem það var ekki vegan og ég smakkaði það aldrei, en ég er viss um að þetta er alveg jafn gott. Uppskriftin er alls ekki sú sama, en hitt brauðið var innblástur við gerð þessa brauðs. 

Ef ég fengi að ráða myndi ég útbúa hlaðborð af mat á hverjum morgni. Ég elska að hafa allskonar að velja úr og þetta brauð er einmitt fullkomið fyrir helgarbrönsinn. Nýbakað brauð, allskonar álegg, nýlagað kaffi, góður appelsínusafi, grautur og ávextir... er hægt að biðja um eitthvað betra?? 

IMG_1490-3.jpg
IMG_1504-2.jpg

Í dag er úrvalið af góðu vegan áleggi orðið endalaust. Hægt er að fá allskonar vegan smjör, osta, skinkur, ótrúlega margar tegundir af hummus, smurosta.. og lengi mætti telja. Ég átti svolítið erfitt með að ákveða hvað ég vildi hafa á brauðinu fyrir færsluna og ákvað á endanum að gera tvær útgáfur. Á sneiðina til vinstri setti ég vegan rjómaostinn frá Oatly, avókadó, sultaðan rauðlauk sem ég keypti úti í búð (Ica fyrir ykkur sem eruð í Svíþjóð), sítronusafa, chilli explosion, gróft salt og svartan pipar. Á hægri sneiðina setti ég svo hummus, kirsuberjatómat, frosinn graslauk og gróft salt. Grauturinn sem er í bakgrunni er svo "overnight oats" með túrmerik og fl. Þið megið endilega láta mig vita ef þið viljið fá uppskrift af grautnum, en ég geri hann daglega og fæ bara ekki nóg. 

IMG_1519-7.jpg

Hafra- og speltbrauð með fræjum

  • 3,5 dl gróft spelt

  • 1,5 dl fínt spelt

  • 2 dl grófir hafrar

  • 1 dl graskersfræ

  • 1/2 dl sólblómafræ

  • 1,5 tsk salt

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1 msk olía

  • 3 dl hrein vegan jógúrt

  • 2 dl heitt vatn (bætið við hálfum dl ef þetta verður of þykkt. Deigið á samt að vera þykkt, svolítið eins og slímugur hafragrautur hehe)

  • Gróft salt og fræ til að strá yfir brauðið

  1. Stillið ofninn á 180°c.

  2. Blandið saman þurrefnunum.

  3. Hrærið saman við öllu nema vatninu.

  4. Bætið vatninu við og sjáið hvernig deigið er eftir 2 dl. Ef ykkur finnst það of þykkt, bætið við 1/2-1 dl í viðbót.

  5. Smyrjið brauðform og hellið deiginu í

  6. Bakið í 45-60 mínútur. Það fer rosalega eftir ofnum hversu lengi brauðið þarf að baka. Ofninn minn er frekar lélegur og býður ekki upp á blástur og það tekur alveg rúmlega klukkustund að baka brauðið í honum. Hinsvegar tók það mig 45 mínútur í öðrum ofni um daginn. Brauðið á að vera aðeins gyllt að ofan, en brauðið mitt á myndunum er ekki gyllt, því ég var óþolinmóð og tók það aðeins of snemma út í þetta skiptið.

  7. Ég leyfi brauðinu að kólna aðeins áður en ég sker það, en mér finnst samt gott að hafa það volgt. 

Njótið!! 

Helga María <3