Súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

IMG_1530.jpg

Í dag færi ég ykkur súkkulaði ofan á súkkulaði. Jújú, páskarnir eru nýbúnir, en þessar möffins eru einfaldlega of góðar til að bíða með að deila uppskriftinni með ykkur. Mig langaði að gera klassískar stórar möffins sem minntu á þær sem hægt er að fá á kaffihúsum og eftir smá prufubakstur hefur mér tekist það (að mínu mati).

IMG_1493-2.jpg

Ég bakaði þær í fyrsta sinn um daginn og var ekki alveg nógu ánægð með útkomuna. Bragðið var mjög gott, en áferðin minnti svolítið á brauð. Eftir smá gúggl áttaði ég mig á því að ég hafði líklega hrært þær alltof mikið. Ég var svolítið að prófa mig áfram og notaði rafmagnsþeytarann og bætti við meiri og meiri vökva á meðan ég hrærði. Að sjálfsögðu urðu þær því seigar. Ég hljóp yfir til vinkonu minnar sem smakkaði og var sammála því að áferðin væri ekki alveg nógu góð. Ég dreif mig því að baka þær aftur og þá urðu þær akkúrat eins og ég vildi hafa þær. ,,Ég myndi borga fyrir þessar á kaffihúsi” sagði vinkona mín þegar hún smakkaði nýju kökurnar og það var akkúrat markmiðið.

IMG_1497-2.jpg

Síðustu daga hef ég unnið hörðum höndum að því að útbúa sænska útgáfu af blogginu. Þetta er eitthvað sem ég hef hugsað um lengi. Ég bý jú hérna í Svíþjóð og væri því mikið til í að vera hluti af bloggheiminum hér. Við spáðum í því á sínum tíma að skrifa á ensku til að ná til fólksins hérna líka en okkur þykir vænt um að skrifa á Íslensku og finnst við ná að tengjast ykkur betur þannig. Ég ákvað því eftir mikla umhugsun að opna sænska síðu. Hún er nú komin í loftið og ég hlakka mikið til að takast á við þessa áskorun. Ég hef bara talað sænsku í sirka tvö ár og hef ekki mikla reynslu af því að skrifa á sænsku. Það tekur mig því langan tíma að skrifa færslurnar og mér líður örlítið eins og ég sé að vaða of djúpt, en þetta er á sama tíma mjög spennandi.

Á meðan ég vann að því að búa til sænsku síðuna ákvað ég að fríska uppá þessa síðu. Ég eyddi gríðarlegum tíma í að búa hana til árið 2016 en hef svo varla snert neitt þegar kemur að útliti síðunnar síðan. Við systur höfum verið svolítið þreyttar á útlitinu í langan tíma. Ég ákvað því að laga hana núna fyrst ég var á annað borð komin á fullt í að búa til aðra síðu. Við erum ótrúlega ánægðar með nýja útlitið, sérstaklega að geta verið með “side bar”. Við vonum að ykkur þyki hún jafn flott og okkur.

IMG_1498 2-2.jpg

Mér líður eins og ég sé á góðum stað þegar kemur að því að blogga og þess vegna held ég að nú sé rétti tíminn í að byrja að blogga á sænsku. Margir halda að bloggferðalagið okkar hafi verið mjög einfalt og allt gengið eins og í sögu, en svo er alls ekki raunin. Mig langar að segja ykkur aðeins frá minni sögu. Þessi færsla verður því aðeins lengri en ég ætlaði mér.

Þegar við stofnuðum veganistur.is hafði ég í yfir ár bloggað á mínu eigin bloggi (sem hét helgamaria.com) og var því ekki alveg reynslulaus. Ég skoðaði mikið af bloggum á þeim tíma og hafði háleit markmið en ég átti ekki jafn fína myndavél eða nýja tölvu og margir sem ég leit upp til.

Ég fékk canon 1000d vél þegar ég varð 18 ára og með henni fylgdi kit-linsa eins og þær kallast. Ég tók allar mínar myndir á þessa vél og linsuna sem fylgdi með henni þangað til í byrjun 2018. Þá fékk ég ódýrustu gerðina af 50mm linsu sem ég notaði við gömlu myndavélina mína og þessi linsa breytti gríðarlega miklu. Allir í kringum mig voru að verða gráhærðir á að hlusta á mig kvarta undan myndavélinni og það lagaðist örlítið þegar ég fékk nýju linsuna. Eins notaðist ég við eldgamla og hæga Macbook pro tölvu og þar sem hún var of gömul til að uppfæra sig notaðist ég við úrelta útgáfu af lightroom til að vinna myndirnar. Allar myndirnar í bókinni okkar eru unnar í þeirri tölvu.

Ég hef lært allt það sem ég kann á þessar græjur og þurfti því að læra að vera þolinmóð. Mér leið alltaf eins og ég gæti ekki alveg náð þeim árangri í myndatökunni sem ég vildi. Bæði því ég átti gömul tæki og tól og eins því ég átti ekkert nema hvítt matarborð og mjög takmarkað magn af “props”. Ég eyddi gríðarlegum tíma í að vera leið yfir þessu. Hérna er færsla sem sýnir myndirnar sem ég tók á þessum tíma. Ég get varla horft á þessar myndir því ég man hvað mér fannst þær ömurlegar og hvað mér leið illa að pósta þeim (rétturinn er samt geggggjaður). Ég keypti mér svo ódýra filmu sem ég límdi á borðplötu og notaði til að taka allar myndirnar mínar á í svona tvö ár. Ég var farin að hata hana líka. Hérna er færsla með þessari filmu.

IMG_1508-4.jpg

Svo kom að því að ég gat keypt mér nýja myndavél. Það var seinasta haust. Ég gat þó ekki keypt mér dýra vél en fann á tilboði Canon EOS 200d sem er bara þessi hefðbundna Canon vél. Skjárinn er mun stærri en á þeirri gömlu, ég get tekið hann út og snúið honum, tekið upp myndbönd og notast við snertiskjá ef ég vil (ekkert af þessu var hægt á hinni). Auk þess eru gæðin miklu betri en á þessari gömlu. Ég notast enn við 50 mm linsuna mína og elska hana. Í desember keypti ég mér svo aðra borðfilmu sem þessar myndir eru teknar á.

Í janúar gaf gamla tölvan mín sig og með hjálp bróður míns keypti ég mér nýja Macbook tölvu eftir að hafa notað hina í 9 ár. Skyndilega gat ég unnið myndirnar í alvöru Lightroom forriti og þurfti ekki að endurræsa tölvuna tvisvar á meðan ég vann myndirnar og bloggaði. Ég viðurkenni að við þetta jókst ánægjan mín af því að mynda og blogga gríðarlega. Með tímanum hef ég líka eignast meira af fallegum diskum og öðrum “props” sem flott er að mynda á. Að lokum keypti ég mér ódýrt matarborð úr viði og við Siggi pússuðum það til og notuðum á það dökkan viðarbæs. Ég vildi að borðið liti svolítið vel notað út svo við höfum gert ýmislegt til að “skemma” það. Borðið nota ég þegar ég vil hafa myndirnar svolítið meira “moody”. Ég er mjög ánægð með útkomuna og nú loksins eftir allan þennan tíma líður mér eins og ég hafi í höndunum góð tól til að hjálpa mér að bæta mig í að taka myndir.

Ég get þó sagt ykkur að það sem hefur kennt mér mest er að læra sjálf að vinna myndir og skilja hvernig myndavélin virkar. Ég hefði getað átt allt það flottasta og fínasta en það eitt hefði ekki hjálpað mér að taka flottar myndir. Ég er alltaf að læra og núna uppá síðkastið hef ég dembt mér í að skilja betur hvernig ég vinn myndirnar mínar og ég veit að ég á enn margt ólært. Eins hef ég fundið mína eigin “rödd” með því að hætta að bera bloggið okkar saman við blogg annarra. Ég var lengi óörugg og þótti allir betri en ég og það eru vissulega margir betri en ég og munu alltaf vera það, en það hjálpaði mér alls ekki að skoða önnur blogg og bera mig saman við aðra. Með tímanum varð ég meira örugg og í dag skoða ég myndir annarra til að fá innblástur og til að dást af þeim, en ekki til að draga mig niður. Það hefur breytt miklu.

En jæjaaa.. nú kemur uppskriftin!

IMG_1484-7.jpg

Súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

  • 5 dl hveiti

  • 1 dl kakó

  • 2 dl sykur

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 1/2 tsk salt

  • 4,5 dl vegan mjólk

  • 130 gr. smjörlíki bráðið

  • 2 tsk vanilludropar

  • 1 msk eplaedik

  • 150 gr. suðusúkkulaði (eða annað vegan súkkulaði)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c. Minn ofn er ekki með blæstri svo ég nota yfir og undir hita.

  2. Blandið þurrefnunum saman í skál.

  3. Bræðið smjörlíkið og hellið í aðra skál ásamt mjólkinni, vanilludropunum og eplaedikinu.

  4. Hellið út í skálina með þurrefnunum og hrærið saman með sleif. Hrærið eins lítið og þið mögulega getið. það mega vera smá kekkir en samt á þetta að vera vel blandað. Eins og ég skrifaði að ofan þá gerði ég þau mistök fyrst að hræra of mikið og kökurnar urðu því seigar. Því er mikilvægt að hræra stutt.

  5. Saxið súkkulaðið í meðalstóra bita. Mér finnst gott að hafa það svolítið “chunky” í þessum kökum. Blandið 3/4 af því í deigið og geymið rest til að setja ofan á kökurnar.

  6. Ég mæli með að setja deigið í sprautupoka og sprauta í möffinsformin eins og sést á einni af myndunum fyrir ofan. Ég hafði í öll þessi ár fyllt möffinsform með skeið með tilheyrandi sulli en með sprautupokanum er þetta mjög einfalt og snyrtilegt.

  7. Bakið í 17-20 mín eða þar til þið getið stungið tannstöngli í og ekkert deig kemur upp með honum (það mun samt líklega koma eitthvað af súkkulaðinu sem er inní)

  8. Leyfið kökunum að kólna aðeins áður en þið borðið þær.

Takk kærlega fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki uppskriftin vel! <3

Stór vegan súkkulaðibitakaka með karamellusósu

IMG_1367-2.jpg

Í dag færi ég ykkur uppskrift af stórri vegan súkkulaðibitaköku með karamellusósu og ís. Kakan er hinn fullkomni desert og mun svo sannarlega stela senunni við ýmis tilefni.

IMG_1285.jpg

Þessi kaka er virkilega skemmtilegur eftirréttur að bjóða uppá t.d. í matarboðum eða veislum. Hún smakkast eins og venjulegar súkkulaðibitakökur en það er mun auðveldara að útbúa hana og borin fram volg með vanilluís er hún betri en nánast allt annað í heiminum! Já stór orð, en ég stend við þau!

Færslan er í samstarfi við Hagkaup og þar fást allar þær vörur sem þarf í uppskriftina. Eins og við höfum nefnt áður er mikið úrval af góðum vegan vörum í Hagkaup og við elskum að versla þar. Ég notaði í þetta sinn suðusúkkulaði í kökuna, en get ímyndað mér að það sé ótrúlega gott að leika sér með uppskrifitina og nota eitthvað af gómsætum vegan súkkulaðistykkjunum sem fást í Hagkaup. Mín uppáhalds eru Jokerz sem er eins og vegan útgáfa af snickers, Twilight sem er eins og Mars og Buccaneer sem er eins og Milky way. Í Hagkaup fást einnig allskonar tegundir af vegan ís sem er góður með kökunni. Við mælum mikið með ísnum frá Oatly og Yosa.

IMG_1311.jpg

Karamellusósan er sú sama og í uppskriftinni af Döðlukökunni (mæli með að prófa döðlukökuna ef þið hafið ekki gert það). Ég leyfði sósunni þó að þykkna aðeins meira fyrir þessa uppskrift og hún passaði fullkomlega með kökunni og ísnum.

Þegar kakan er borin fram heit er hún svolítið klesst að innan sem mér finnst alveg ótrúlega gott. Það er mikilvægt að baka hana ekki of lengi þvi þá verður hún bara eins og hörð smákaka. Við viljum hafa hana svolítið “gooey!”

IMG_1356.jpg

Ég vona innilega að þið bakið kökuna og látið okkur vita hvað ykkur finnst. Þið hafið verið dugleg að tagga okkur á Instragram uppá síðkastið og okkur þykir enn og aftur ótrúlega vænt um það.

IMG_1349.jpg

Takk innilega fyrir að lesa! <3

-Helga María

Æðisleg stór vegan súkkulaðibitakaka

Æðisleg stór vegan súkkulaðibitakaka
Höfundur: Helga María
Eldunartími: 30 Min: 30 Min

Hráefni:

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°c
  2. Byrjið á því að gera hörfræseggið með því að blanda 1 msk möluðum hörfræjum saman við 3 msk vatn og láta standa í nokkrar mínútur þar til það hefur þykknað svolítið.
  3. Bræðið smjörlíkið og hrærið saman við púðursykur og sykur með písk.
  4. Bætið hörfræsegginu og vanilludropunum út í og hrærið saman.
  5. Hrærið hveiti, lyftidufti, salti og matarsóda saman í aðra skál og bætið út í smjörblönduna í skömmtum og hrærið saman með sleikju eða sleif. Ég bæti hveitinu í skömmtum svo deigið verði ekki of þurrt.
  6. Saxið súkkulaðið og setjið út í skálina og blandið saman við með sleikju eða sleif. Geymið smá af súkkulaðinu til hliðar sem þið setjið ofan á deigið þegar það er komið í formið.
  7. Smyrjið steypujárnspönnu eða kökuform með smjörlíki.
  8. Setjið deigið ofan í og toppið með reistinni af súkkulaðinu.
  9. Bakið í 20-25 mínútur eða þar til kakan er orðin svolítið gyllt að ofan. Eins og ég sagði hér að ofan er kakan svolítið klesst að innan ef hún er borðuð heit en það er alveg eins og það á að vera.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur
Created using The Recipes Generator
 
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
 

-Færslan er unnin í samstarfi við Hagkaup og þar fást allar vörurnar í uppskriftina-

Mac and cheese ofnréttur.

Í þessum rétti blöndum við saman Mac and cheese uppskriftinni okkar og hakksósu úr lasagna. Þessi blanda kom okkur heldur betur á óvart og erum við ótrúlega ánægðar með útkomuna. Rétturinn er einfaldur og og þetta er hinn fullkomni heimilsmatur.

1/2 uppskrift Mac and cheese

Hakksósa:

  • 2 pakkar anamma hakk

  • 1 laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 lítill haus brokkolí (eða annað grænmeti sem hentar hverjum og einum)

  • 2 dósir niðursoðnir tómatar

  • 2-3 msk tómatpúrra

  • 2 msk eða 1 teningur grænmetiskraftur

  • 1 msk oregano

  • 1 msk basilíka

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Steikið hvítlauk og lauk upp úr smá olíu.

  2. Bætið brokkolíinu og hakkinu út á pönnuna og steikið í 5 til 10 mínútur.

  3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og leyfið suðunni að koma upp.

  4. Smakkið til með kryddum og salti og pipar.

Aðferð og eldun:

  1. Útbúið Mac and cheese og hellið í botnin á eldföstu móti.

  2. Útbúið hakksósuna og setjið yfir pastað.

  3. Stráið vegan osti yfir.

  4. Bakið við 200°C í 20-25 mínútur eða þar til osturinn er orðin fallega gylltur að ofan.

Við bárum réttinn fram með hvítlauksbrauðinu okkar en það er alveg ómissandi að okkar mati.

IMG_2219-3.jpg
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
10159%2B%25281%2529.jpg

-Þessi færsla er í samstarfi við Hagkaup og þar fást öll hráefnin sem í hana þarf.-

-Færslan er einnig í samstarfi við Bitz á Íslandi.-

Vegan tikka masala og einfalt pönnubrauð

IMG_1224-2.jpg

Ég er ekkert smá spennt að deila með ykkur þessari uppskrift, en þetta er einn sá besti réttur sem ég hef eldað lengi. Ég áttaði mig á því í dag að þetta er önnur uppskriftin í röð sem ég nota Oumph!, en ég elska vörurnar þeirra og nota mikið í minni daglegu matargerð. Uppskrift dagsins er af dásamlega góðu tikka masala og fljótlegu pönnubrauði. Ég vona innilega að ykkur muni þykja rétturinn jafn góður og mér. Ég er búin að elda hann nokkrum sinnum uppá síðkastið til að mastera uppskriftina og við Siggi erum sammála að hann sé nýtt uppáhald.

IMG_1161.jpg

Ég hef eytt gríðarlega miklum tíma í eldhúsinu síðustu vikur og prufað mig áfram með uppskriftir af bæði mat og bakstri. Það er fátt sem veitir mér jafn mikla gleði, sérstaklega nú þegar skólinn hefur færst yfir á netið og ég hitti vini mína ekki jafn oft. Ég hef því notið þess að elda, baka og taka langa góða göngutúra í vorsólinni.

Þetta þýðir að hausinn á mér er fullur af hugmyndum fyrir bloggið og tilfinningin um að ég hafi gert allar uppskriftir sem ég mun nokkurn tímann kunna að elda hefur loksins horfið. Eftir að við skrifuðum bókina okkar leið mér lengi eins og ég væri alveg tóm en nú líður mér eins og ég sé tilbúin að byrja á næstu bók hehe.. Við látum það þó bíða aðeins og reynum að vera duglegar að deila með ykkur uppskriftum hérna á blogginu þangað til.

IMG_1183-2.jpg

þessi uppskrift er ein af þeim sem henta bæði sem hversdagsmatur en líka í matarboðið (eftir samkomubannið að sjáfsögðu). Rétturinn krefst smá undirbúnings þar sem að Oumphið þarf að fá að marinerast aðeins en annars er hann virkilega einfaldur. Hann er bragðgóður og passar einstaklega vel með grjónum og pönnubrauði.

Færsla dagsins er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í uppskriftina. Í Hagkaup er mikið og skemmtilegt úrval af góðum vegan mat. Ég nota Oumph í réttinn, en það er hægt að skipta því út fyrir aðra tegund af vegan kjötlíki, tófú eða kjúklingabaunir. Í Hagkaup er úr ýmsu að velja svo það ættu allir að finna það sem hentar þeim.

IMG_1229.jpg

Ef þið eigið afgang af réttinum er virkilega gott að útbúa fljótlega tikka masala pizzu. Hana geri ég einfaldlega með því að setja tikka masala á pönnubrauð (uppskriftir hér að neðan) sem búið er að steikja og toppa með rauðlauk sem ég hef skorið þunnt. Þetta set ég í ofninn á 200°c í nokkrar mínútur eða þar til þetta hefur eldast í gegn og kantarnir á brauðinu orðnir örlítið krispí. Það þarf ekki að baka lengi þar sem þetta er allt eldað fyrir og því í rauninni nóg að hita. Mér finnst þó best ef botninn nær að verða svolítið “krispí". Svo toppa ég þetta með vegan sýrðum rjóma, grófu salti, kóríander, chili flögum og ólífuolíu.

IMG_1233-3.jpg

Vegan tikka masala (fyrir tvo til þrjá)

Hér að neðan er uppskrift af tikka masala og pönnubrauði. Með réttinum sauð ég svo hrísgrjón og toppaði matinn með fersku kóríander og vegan sýrðum rjóma.

Oumph í mareneringu:

  • Olía til steikingar

  • 1 poki Oumph the chunk (eða annað ókryddað vegan sojakjöt, t.d. Filébitarnir frá Hälsans kök)

  • 2 dl ósæt vegan jógúrt

  • 2 pressaðir hvítlauksgeirar

  • 2 tsk rifið engifer

  • 1 tsk chiliduft

  • 1 tsk cumin

  • 1 tsk turmerik

  • 2 tsk garam masala

  • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Leyfið Oumphinu að þiðna og setjið svo í stóra skál.

  2. Bætið jógúrtinni út í skálina ásamt hvítlauk, engifer og kryddum.

  3. Hrærið saman svo að jógúrtin og kryddin þekji alla Oumphbitana. Setjið plastfilmu yfir skálina eða færið matinn yfir í box og setjið í ísskáp í helst minnst tvo tíma. Ég mæli virkilega með því að leyfa bitunum að liggja í marineringu yfir nótt eða jafnvel gera þetta snemma jafndægurs ef þið ætlið að matreiða réttinn um kvöldið.

  4. Hitið olíu á pönnu og steikið bitana þar til þeir fá lit. Takið þá af pönnunni og leggið til hliðar. Ekki þvo pönnuna því sósan fer beint á hana.


Sósan:

  • Olía til steikingar

  • 1 meðalstór laukur

  • 2 pressaðir hvítlauksgeirar (1 ef þeir eru mjög stórir)

  • 2 tsk rifið engifer

  • 1.5 tsk garam masala

  • 1.5 tsk cumin

  • 1 tsk malað kóríander

  • 1 tsk túrmerík

  • 1 tsk chiliduft

  • 400 ml niðursoðnir tómatar (helst passata, s.s. alveg maukaðir)

  • 2.5 dl vegan matreiðslurjómi (mæli með iMat frá Oatly)

  • 1 tsk púðursykur

  • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Hellið aðeins meiri olíu á pönnuna.

  2. Saxið niður laukinn og setjið út á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur eða þar til hann hefur mýskt aðeins.

  3. Bætið hvítlauk og engifer út á pönnuna og steikið í smá stund.

  4. Bætið kryddunum út á og hrærið þannig þau blandist vel við laukinn og steikið í sirka mínútu. (Ef þið ætlið að bera réttinn fram með hrísgrjónum er tilvalið að byrja að sjóða þau á þessum tímapunkti eftir leiðbeiningum á pakkanum.)

  5. Hellið tómötunum út á. Setjið örlítið vatn í botninn á krukkunni/dósinni til að ná restinni af tómötunum með á pönnuna. Leyfið þessu að malla í sirka 10 mínútur og hrærið reglulega í á meðan. Sósan á að þykkna svolítið og dekkjast.

  6. Hellið rjómanum og púðursykrinum út á pönnuna og blandið vel saman.

  7. Bætið bitunum út á og leyfið þessu að malla í sirka 10 mínútur. (Mér finnst gott að steikja pönnubrauðið á meðan)

  8. Toppið með fersku kóríander og vegan sýrðum rjóma (má sleppa). Berið fram með grjónum og pönnubrauði.


Einfaldasta pönnubrauð í heimi (4 stykki):

  • 2 dl hveiti plús smá til að setja á borðið þegar þið fletjið út

  • 1/2 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 3 msk ólífuolía

  • 1-2 dl vatn. Byrjið á því að setja 1 og sjáið hversu mikið þarf að bæta við

Aðferð:

  1. Hitið pönnu á frekar háum hita

  2. Blandið saman þurrefnunum.

  3. Hellið vatninu og olíunni saman við og blandið saman þar til þið fáið flott deig.

  4. Skiptið deiginu í fjóra hluta.

  5. Stráið smá hveiti á borðið og fletjið deigið úr.

  6. Steikið brauðið í nokkrar mínútur á hvorri hlið á þurri pönnu.


Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur muni líka uppskriftin!

Helga María

 
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
 

-Þessi færsla er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í uppskriftina-