Bruchetta með hvítlauksbökuðum tómötum og rjómaosti


Gómsætur forréttur sem leikur við bragðlaukana í hverjum bita.

Í dag deilum við ykkur uppskrift af klassískum forrétti sem er svo dásamlega góður. Hvítlauksbakaðir tómatar á ristuðu súrdeigsbaguette með rjómaosti, parmesan, balsamik gljáa og ferskri basilíku. Alveg ótrúlega einfalt en svo æðislega gott. Réttin má bera fram bæði heitan eða kaldan og hentar því einstaklega vel á veisluborðið eða í matarboðin.


Bruchetta með heitum tómötum og rjómaosti

Bruchetta með heitum tómötum og rjómaosti
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 10 MinEldunartími: 50 Min: 40 Min: 1 H & 40 M
Einfaldar tómatbruchettur með heitum tómötum, rjómaosti og hvítlauk. Fullkomið í brönsin, á veisluborðið eða sem forréttur.

Hráefni:

Aðferð:

  1. Skerið hvítlauksgeirana í þunnar sneiðar. Setið vel af ólífuolíu, tómatana, 2 tsk salt og hvítlaukinn í eldfast mót og bakið í ofni í 45 mínútur við 200 gráður.
  2. Skerið baguette brauðið þversum í tvennt. Hellið smá ólífuolíu yfir ásamt örlitlu salti og bakið á grill stillingu í ofninum við 220 gráður í 6-8 mínútur. Eða þar til fallega ristað.
  3. Smyrjið vel af vegan rjómaosti yfir hvora sneiðina, ég set sirka 1/2 dollu á hvort brauð.
  4. Raðið tómötunum og hvítlauknum jafnt yfir hvora sneið, stráið vegan parmesan yfir ásamt balsamik gljáanum og ferskri basilíku.
  5. Skerið í bita.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

Brauðterta með baunasalati

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af klassískri brauðtertu með vegan útgáfu af hangikjöts- og baunasalati í samstarfi við ORA. Þessa brauðtertu má ekki vanta á hvaða veisluborð sem er sem og á hátíðisdögum.

Ég notast við blandað grænmeti frá ORA sem er lykilatriði í baunasalatinu og “bacon bites” til að fá smá reykt bragð í salatið. Þetta salat er virkilega einfalt og má vel bera fram eitt og sér með kexi eða brauði.

Ég elska að bera fram klassíska íslenska rétti sem eru hefðir fyrir í veislum og á hátíðisdögum og eru veisluréttir líkt og brauðtertur iðulega það sem slær mest í gegn. Eins og flestir sem hafa fylgt okkur lengi vita elskum við að deila með ykkur alls konar uppskriftum af veislumat og mæli ég með að þið kíkið einnig á þessa brauðtertuuppskrift sem er virkilega góð.

Brauðterta með baunasalati

Brauðterta með baunasalati
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 15 Min: 15 Min
Vegan útgáfu af klassískri brauðtertu og "hangikjöts" og baunasalati

Hráefni:

  • 1 dós blandað grænmeti frá ORA
  • 1 dl bacon bites frá Oumph
  • 100 gr vegan majónes (+ 2 msk til að smyrja tertuna)
  • 1/2 dl vegan sýrður rjómi
  • 1/2 tsk salt
  • 3 sneiðar brauðtertubrauð
  • Grænmeti eftir smekk til að skreyta

Aðferð:

  1. Blandið saman í skál majónesinu og sýrða rjómanum
  2. Bætið út í blandaða grænmetinu, beikon bitunum og salti og hrærið saman
  3. Smyrjið helmingnum af salatinu á brauðtertu brauðsneið og setjið aðra ofan á. Smyrjið restinni af salatinu og lokið síðan með þriðju sneiðinni
  4. Smyrjið vegan majónesi ofan á og á allar hliðar tertunnar
  5. Skreytið með fersku grænmeti og kryddjurtum eftir smekk
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við ORA -

Dásamleg vegan aspasstykki

-Samstarf-

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af vegan aspasstykki með sveppum og osti. Mín nýja uppháldsútgáfa af klassíska heita brauðréttinum. Stökkt og gott baguette brauð fyllt með gómsætri aspasfyllingu. Betra gerist það ekki!

Að mínu mati er heitur brauðréttur alveg jafn mikilvægur á veisluborðið og kökur og tertur. Ég man að ég var eiginlega mest spennt fyrir aspasbrauðréttunum af öllum kræsingunum sem voru í boði í fjölskylduboðunum þegar ég var yngri. Yfirleitt var brauðrétturinn gerður í eldföstu móti eða í rúllubrauði. Í dag ætlum við að gera hann aðeins öðruvísi.

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í brauðréttinn. Úrvalið af vegan mat í Hagkaup er einstaklega gott og þar er hægt að fá allt sem þarf í góða veislu eða önnur hátíðarhöld. Við erum virkilega stoltar að fá að vinna með þeim.

Aspasstykki smakkaði ég fyrst þegar ég vann í Bakarameistaranum yfir jólafríið mitt þegar ég var unglingur. Ég hef ekki smakkað svoleiðis síðan en hef séð síðustu ár að það hefur verið vinsælt að útbúa heitan brauðrétt í baguettebrauði. Í fyrra útbjó Júlía ótrúlega girnilegan heitan brauðrétt með vegan beikoni og ostum og birti hérna á blogginu. Ég ákvað því núna að prófa að gera útgáfu af aspasstykki og ég varð virkilega ánægð með útkomuna.

þegar ég sit og skrifa þetta er föstudagurinn langi og því tilvalið að útbúa brauðréttinn fyrir sína nánustu um páskana til að fá smá pásu frá súkkulaðinu. Hér á blogginu finnurðu ótal uppskriftir sem eru fullkomnar fyrir páskahátíðina. Hér koma nokkrar:

Vegan terta með jarðarberjarjóma

Vegan wellington með Oumph og portobellosveppum

Sítrónukaka með birkifræjum og rjómaostakremi

Fyllingin passar í tvö löng baguette, það má líka skera niður brauð, setja í eldfast mót og blanda fyllingunni við og setja rifinn ost eins og í meira hefðbundnum brauðrétti. Ég mæli samt mikið með því að prófa að gera svona aspasstykki.

Vegan aspasstykki

Vegan aspasstykki
Höfundur: Veganistur
Vegan aspasstykki með sveppum og osti. Mín nýja uppháldsútgráfa af klassíska heita brauðréttinum sem við þekkjum öll. Stökkt og gott baguette brauð fyllt með gómsætri aspasfyllingu.

Hráefni:

  • 2 baguettebrauð
  • 25 gr vegan smjör
  • 150 gr sveppir
  • 1 dós vegan rjómaostur (Ég notaði Oatly påmackan)
  • 1 dl vegan matreiðslurjómi (Notaði Oatly iMat)
  • 1 dós niðursoðinn aspas (2-3 msk af vökvanum notaður líka)
  • 1 tsk eplaedik (má sleppa, en mæli með að hafa)
  • 1 sveppateningur
  • 1 Violife epic mature cheddarostur eða annar vegan ostur
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Paprikukrydd og þurrkuð steinselja að toppa brauðið með (má sleppa)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c undir og yfir hita.
  2. Skerið sveppina smátt og steikið á pönnu upp úr vegan smjöri.
  3. Bætið rjómaosti, rjóma, eplaediki og aspasvökva út í og hrærið.
  4. Myljið sveppatening út í og hrærið og leyfið fyllingunni að byrja að bubbla. Saltið og piprið eftir smekk.
  5. Skerið aspasinn niður og bætið út í. Rífið ostinn og setjið helminginn af honum í fyllinguna. Hrærið þar til osturinn hefur bráðnað í fyllingunni.
  6. Skerið toppinn af baguettebrauðunum og deilið fyllingunni í þau. Toppið með restinni af ostuinum, smá grófu salti, paprikukryddi og þurrkaðri steinselju. Það má sleppa kryddunum, mér fannst þau passa vel við.
  7. Hitið brauðið í 15-20 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og brauðið tekið á sig smá lit.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Takk fyrir að lesa og ég vona að þér líki vel

-Helga María

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hagkaup-

 
 

Vegan brauðréttur með vegan beikoni og osti

Ef það er eitthvað sem mér finnst nauðsynlegt í allar veislur og um hátíðir þá er það svo sannarlega heitur brauðréttur! Það er hægt að gera svo ótrúlega margar og skemmtilegar útfærslur af þessum æðislega rétti en við höfum til dæmis deilt með ykkur hefðbundnum heitum brauðrétti sem og heitu rúllubrauði hérna á blogginu áður.

Uppskriftin sem við deilum með ykkur í dag er síðan þriðja útfærslan á heitum brauðrétti en það er fyllt “baguette” brauð. Það má að sjálfsögðu gera hinar uppskriftirnar líka í þessari útfærslu eða öfugt.

Þessi uppskrift er ólík öðrum heitum brauðréttum sem við höfum deilt með ykkur áður en í þetta skipti erum við með fyllingu sem er stútfull af gómsætum vegan osti, reyktum vegan “beikon” bitum og vorlauk. Hann er því fullkomin til að breyta aðeins út af vananum og lofum við ykkur að þið sláið í gegn í boðum ef þið komið með þetta brauð.

Uppskriftin er mjög einföld og tekur enga stund að í undirbúningi. Brauðið er fullkomið til að taka með sér þar sem það er mjög auðvelt að pakka því inn í álpappír eða annað slíkt og helst það þá vel heitt í góðan tíma.

Það er einnig fullkomið að gera þennan gómsæta rétt til dæmis á milli jóla og nýárs en við áttum alls ekki í vandræðum með að klára eitt stykki með kaffinu þó við værum ekki nema þrjú saman.

Hráefni:

  • 1 súrdeigsbaguette

  • 2 msk góð steikingarolía

  • 1 tsk salt

  • 2 dl smokey bites

  • 2 vorlaukar

  • 1/2 Smokey mature ostur úr Violife hátíðarostabakkanum

  • 1/2 Chilli and garlic ostur úr Violife hátíðarostabakkanum

  • 220 gr vegan rjómaostur

  • 1 dl hafrarjómi

  • Ofan á brauðið fer:

    • Restin af ostunum tveimur, eða eins mikið magn og hver og einn vill

    • 1/2 tsk hvítlauksduft

    • 1/2 tsk paprikuduft

    • 1 msk þurrkuð steinselja

Aðferð:

  1. Byrjið á því að steikja reyktu bitana (smokey bites) ásamt niðurskornum vorlauk upp úr olíu og salti í nokkrar mínútur.

  2. Rífið niður ostinn og hrærið saman í skál rifnum ostinum, rjómaosti, hafrarjóma, reyktu bitana og vorlaukinn.

  3. Skerið ofan í brauðið tvær langar rifur (athugið að skera alls ekki alveg í gegnum brauðið) og takið ofan af og aðeins innan úr brauðinu eins og sést á myndunum.

  4. Fyllið brauðið með rjómaostafyllingunni.

  5. Rífið vel af báðunum ostunum yfir fyllinguna og stráið hvítlauksdufti, paprikudufti og steinselju yfir.

  6. Bakið við 210°C í 12-15 mínútur eða þar til osturinn verður fallega gylltur að ofan.

-Njótið vel

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Violife á Íslandi -

 
 

Vegan ostahorn með aspas og sveppum

IMG_0333-4.jpg

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af gómsætum ostahornum með sveppa- og aspasfyllingu. Þessi ostahorn eru fullkomin til að taka með sér í ferðalagið eða bjóða uppá í veislum. Þau bragðast eins og uppáhalds heiti brauðrétturinn okkar og við erum vissar um að þau munu slá í gegn við allskonar tilefni.

IMG_0296-3.jpg

Svona horn er að sjálfsögðu hægt að leika sér endalaust með og breyta til hvað varðar fyllingu. Færsla dagisins er í samstarfi með Violife og í aspashornin notuðum við bæði hreina rjómaostinn þeirra og rifinn ost. Vegan ostarnir og rjómaostarnir eru svo fullkomnir í svona horn en Violife framleiða allskonar spennandi bragðtegundir. Við gætum t.d. ímyndað okkur að bæði hvítlauks- og jurtarjómaosturinn og chilirjómaosturinn séu æðislegir í svona horn. Af sneiddu ostunum væri svo örugglega æði að nota t.d. þann með sveppabragði og þann með “kjúklingabragði”.

Það er langt síðan við systur hittumst síðast og blogguðum saman. Ég (Helga) bý í Svíþjóð svo við erum vanar að þurfa að vinna svolítið i sitthvoru lagi. Núna er ég þó á landinu og því höfum við getað tekið okkur smá tíma í að blogga. Það er alltaf jafn gaman þegar við vinnum saman og það minnir okkur á það hversu dýrmætt það er að við rekum þessa síðu saman, sem í fyrstu átti bara að vera lítið “hobbí”, en er í dag orðið svo stór hluti af lífinu okkar.

IMG_0309.jpg

Við hlökkum til að heyra hvað ykkur finnst um aspashornin og hvort þau munu klárast jafn fljótt og þau gerðu hjá okkur. Eins megiði endilega deila með okkur ef þið prófið að gera aðra fyllingu í hornin og hvernig það kom út. Við elskum að fá nýjar og skemmtilegar hugmyndir.

IMG_0342-3.jpg

Ostahorn með aspas og sveppum

Hornin sjálf:

  • 8-10 dl hveiti (byrjið á 8 og bætið svo við eftir þörfum)

  • 1 pakki þurrger

  • 1 msk sykur

  • 1 tsk salt

  • 5 dl plöntumjólk

  • 100 gr smjörlíki

Aðferð:

  1. Bræðið smjörlíki í potti og bætið mjólkinni saman við. Mjólkin þarf ekki að hitna mikið, heldur vera við líkamshita.

  2. Hellið mjólkurblöndunni í stóra skál og stráið þurrgerinu saman við. Leyfið því að standa í nokkrar mínútur eða þar til það byrjar að freyða svolítið.

  3. Bætið restinni af hráefnunum útí.

  4. Bætið við meira hveiti ef þarf. Ég held ég hafi á endanum notað um 9 dl. Deigið má ekki vera of þurrt, þið eigið að geta stunduð hreinum fingri ofan í án þess að deig klessist við hann. Hnoðið deigið létt. Ef þið notið hrærivél er fínt að miða við að deigið sé tilbúið þegar það byrjar að losna frá skálinni.

  5. Leyfið deiginu að hefast í klukkutíma í skál með viskustykki eða plastfilmu yfir.

  6. Hitið ofninn í 200°c

  7. Skiptið deiginu í tvennt ef þið viljið hafa hornin frekar stór en í fernt ef þið viljið hafa þau minni (við gerðum stór) og fletjið út hvern helming fyrir sig í hring. Skerið niður í sneiðar (sjá mynd að ofan), setjið fyllingu á og stráið rifnum Violife osti yfir. Passið ykkur að setja ekki alltof mikið af fyllingu í hvert því það þarf að vera hægt að rúlla þessu upp án þess að allt velli úr. Rúllið upp frá breiðari endanum.

  8. Smyrjið með örlítilli vegan mjólk og stráið yfir einhverju sem ykkur þykir gott. Við notuðum sesamgaldur frá pottagöldrum en það er líka gott að strá yfir sesamfræjum, grófu salti eða jafnvel rifnum Violife osti.

  9. Bakið í 10-12 mínútur eða þar til hornin hafa fengið gylltan og fínan lit.

  10. Leyfið þeim að kólna svolítið áður en þau eru borin fram.

Aspas- og rjómaostafylling:

  • Olía til steikingar

  • 2 öskjur hreinn rjómaostur frá Violife

  • 1 dós grænn aspas plús 1 msk safi úr dósinni

  • 100 gr sveppir

  • 1 sveppakraftur

  • Salt og pipar ef þarf. Sveppakrafturinn er saltur svo smakkið til svo að þetta verði ekki of salt.

Aðferð:

  1. Hitið olíu á pönnu

  2. Saxið sveppina smátt og steikið á pönnunni

  3. Saxið aspasinn líka aðeins og bætið á pönnuna

  4. Myljið sveppakraftinn og bætið á pönnuna ásamt 1 msk af aspas safanum

  5. Takið af pönnunni og leyfið að kólna aðeins

  6. Setjið rjómaostinn í skál og bætið sveppa- og aspasblöndunni út í og hrærið saman.

  7. Bætið salti og pipar ef ykkur finnst þurfa.

Takk fyrir að lesa og njótið vel!

-Helga María og Júlía Sif

-Þessi færsla er í samstarfi við Violife á Íslandi-

 
violife-logo-1.png
 

Vegan skonsubrauðterta

IMG_3058-2.jpg

Uppskrift dagsins er af þessari dásamlegu skonsubrauðtertu. Mörgum finnst tilhugsunin kannski svolítið skrítin, en ég lofa ykkur því að þetta passar fullkomlega saman. Mér þótti ekkert smá gaman að útbúa þessa fallegu brauðtertu og salatið sem er á milli er algjört lostæti. Ég hef oft gert það áður og það er dásamlegt á ritzkex og í allskonar samlokur.

IMG_3008-2.jpg

Ég veit að það eru sumir sem hafa alltaf borðað svona skonsutertur og aðrir sem aldrei hafa smakkað þær. Tengdamamma mín útbýr oft svoleiðis en í okkar fjölskyldu voru alltaf þessar hefðbundnu löngu brauðtertur, en þegar ég fór að tala um þetta við mömmu um daginn sagði hún mér að hún hafi oft fengið skonsutertu hjá ömmu sinni þegar hún var barn. Þar sem ég hafði aldrei smakkað svoleiðis ákvað ég að gúggla aðeins og sjá hvað fólk væri að setja á milli og hvernig þetta liti út. Ég fann ekkert svakalega margar uppskriftir og eiginlega engar myndir af svoleiðis, en hinsvegar virðist það vera svo að margir hafi alist upp við að borða svona og geri enn í dag. Síðan við opnuðum bloggið okkar höfum við fengið mikinn áhuga á að veganvæða klassískar uppskriftir, eins og þið flest kannski hafið tekið eftir, og þessi skemmtilega brauðterta er frábær viðbót í safnið.

IMG_3014-3.jpg

Við erum nú þegar með eina uppskrift af brauðtertu á blogginu, en sú uppskrift er ein af þeim fyrstu á blogginu. Vegan skinkan sem við notuðum í þá uppskrift fæst ekki lengur, en í dag eru aðrar tegundir til sem passa alveg jafn vel í salatið. Það er að sjálfsögðu líka hægt að gera “betra en túnfisksalat” uppskriftina okkar og setja á svona brauðtertu auk þess sem aspas- og sveppafylling væri pottþétt fullkomin. Möguleikarnir eru endalausir.

Það kemur fyrir þegar ég útbý rétti fyrir bloggið að ég nýt mín svo mikið og tek svo mikið magn af myndum að ég á erfitt með að velja og langar að hafa þær allar með. Stundum hef ég orðið svolítið hrædd um að færslurnar verði of langar í kjölfarið. Í dag var svoleiðis dagur, en mér fannst svo gaman að mynda þessa tertu að ég á erfitt með að velja og hafna, og þið verðið bara að sætta ykkur við allt myndaflóðið.

IMG_3027.jpg
IMG_3034.jpg

Það eru mörg tilefni framundan til þess að búa til þessa gómsætu brauðtertu, en páskarnir eru á næsta leiti og fermingarnar líka. Þrátt fyrir að það sé allt á kafi í snjó hérna í Piteå ákvað ég að reyna að skreyta tertuna svolítið sumarlega því ég er komin í vorskap. Ég viðurkenni að ég var frekar stressuð fyrir því að skreyta hana og til að vera viss um að ég eyðilegði tertuna ekki smurði ég mæjónesi á disk og æfði mig að skreyta svoleiðis áður en ég lagði í sjálfa tertuna. Ég held barasta að ég sé nokkuð ánægð með lokaútkomuna.

IMG_3045.jpg

Eruði með einhverjar fleiri skemmtilegar hugmyndir að vegan salötum til að setja á svona brauðtertu? Ég væri mikið til í að prufa að gera fleiri útgáfur!

IMG_3053.jpg

Skonsubrauðterta

  • 5 skonsur (uppskrift fyrir neðan)

  • Vegan “kjúklingasalat” (uppskrift fyrir neðan)

  • Mæjónes til að smyrja ofan á

  • Grænmeti til að skreyta með

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa salatið. Það er nefnilega frekar mikilvægt að mínu mati að leyfa því að standa í svolitla stund svo það taki vel í sig allt bragð. Ég set það yfirleitt í ísskápinn í minnst klukkustund og helst alveg þrjár.

  2. Bakið skonsurnar og leyfið þeim að kólna.

  3. Setjið saman brauðtertuna og skreytið með því sem ykkur lystir.

Vegan “kjúklingasalat”

  • Vegan mæjónes. Ég gerði eina og hálfa uppskrift af þessu ótrúlega góða vegan mæjónesi. Ég notaði það allt í salatið fyrir utan smá sem ég tók frá til að smyrja ofan á kökuna. Ég var svo fljótfær að ég fattaði ekki að mæla magnið af mæjónesinu fyrir ykkur sem kaupið tilbúið í stað þess að gera sjálf, en ég held það hafi verið um 3 bollar. Ég lofa að gera mæjóið sem fyrst aftur og uppfæra færsluna þá með nákvæmu magni, en ein og hálf uppskrift af því sem ég póstaði hérna með er fullkomið magn.

  • 1 pakki filébitar frá Hälsans Kök

  • Vorlaukur eftir smekk (ég setti 1 dl og fannst það passlegt en myndi jafnvel setja aðeins meira næst)

  • Gular baunir eftir smekk (ég notaði líka 1 dl af þeim og ég kaupi frosnar og leyfi þeim að þiðna. Mér þykja þær mun betri en þessar í dós.)

  • 1 msk gróft sinnep

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Leyfið bitunum að þiðna í smá stund og steikið þá svo létt á pönnu upp úr olíu og smá salti. Takið af pönnunni og rífið þá í sundur með höndunum eða tveimur göfflum. Það er auðvitað hægt að skera þá bara niður í bita, en mér finnst gott að taka tvo gaffla og rífa bitana aðeins niður með þeim. Mér finnst það gefa þeim góða áferð fyrir salatið.

  2. Útbúið mæjónesið og takið smá af því frá til að smyrja ofan á kökuna. Blandið bitunum saman við mæjóið.

  3. Skerið niður vorlaukinn og blandið saman við ásamt restinni af hráefnunum.

  4. Leyfið salatinu að standa í ísskáp í allavega klukkustund ef kostur er á.

Skonsur

  • 5 dl hveiti

  • 2 msk sykur

  • 4 tsk lyftiduft

  • 1 tsk salt

  • 6-7 dl jurtamjólk. Mér finnst oft fara mikið eftir því hvernig mjólk og hvaða hveiti ég nota. Ég byrja yfirleitt á því að setja 5 dl og sé hversu þykkt deigið er og bæti svo við eftir þörf. Í dag notaði ég 7 dl af sojamjólk. Deigið á að hafa sömu þykkt og amerískar pönnukökur (semsagt þykkara en t.d íslenskar pönnsur)

  • 2 msk olía

Aðferð:

  1. Blandið saman þurrefnunum.

  2. Bætið við blautefnunum og hrærið þar til deigið er laust við kekki.

  3. Útbúið úr deiginu 5 stórar og þykkar pönnukökur. Ég á ekki pönnukökupönnu svo ég notaði venjulega pönnu í svipaðri stærð og passaði að þær væru allar jafn stórar. Deigið er akkúrat passlegt fyrir 5 pönnsur.

  4. Leyfið þeim að kólna áður en tertan er sett saman.

Takk innilega fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel. Ef þið gerið brauðtertuna þætti okkur ekkert smá gaman að heyra hvað ykkur finnst. Við minnum á að við erum á Instagram og facebook líka fyrir ykkur sem hafið áhuga á að fylgja okkur þar.

-Veganistur

Vegan tartalettur á tvo vegu

IMG_2129-5.jpg

Í dag ætla ég að deila með ykkur tveimur uppskriftum af tartalettum. Það var aldrei hefð á okkar heimili að borða tartalettur og ég held ég hafi bara smakkað þær nokkrum sinnum yfir ævina. Hinsvegar hefur mig lengi langað að prufa að gera tartalettur með góðri vegan fyllingu og í gær lét ég loksins verða af því. Ég ákvað að gera tvær útgáfur, en mér fannst nauðsynlegt að gera eina uppskrift sem minnir á hangikjötsfyllinguna sem margir borða. Ég elska aspasbrauðrétti svo mér fannst ég verða að gera svoleiðis útgáfu líka. Báðar heppnuðust alveg ótrúlega vel og komu mér í þvílíkt hátíðarskap.

IMG_2072-2.jpg

Mér finnst alltaf jafn áhugavert hvað mér finnst margt gott, eftir að ég varð vegan, sem er innblásið af mat sem mér þótti aldrei góður áður fyrr. Hangikjöt, grænar baunir og uppstúf var eitthvað sem mér fannst hreinlega vont allt mitt líf, en þegar ég gerði fyllinguna í gær sem er gerð með salty & smoky Oumph! kom það mér á óvart hversu ótrúlega gott mér þótti þetta. Það eru mörg fleiri dæmi um þetta hjá mér og kokteilsósa er eitt sem er mér efst í huga. Ég skildi aldrei af hverju fólki þótti kokteilsósa góð, en í dag þykir mér vegan kokteilsósa alveg geggjuð.

IMG_2088-3.jpg

Reyndar þegar ég hugsa um það hefur mér aldrei þótt matur jafn góður og eftir að ég gerðist vegan. Ég var aldrei spennt fyrir matnum yfir jólin. Mér þóttu marengstertur og aspasbrauðréttir góðir, en allt hitt þótti mér óspennandi eða vont. Í dag eru jólin í algjöru uppáhaldi og ég er alltaf jafn spennt að baka smákökur, lagtertu og lakkrístoppa. Jólamaturinn hefur líka aldrei verið jafn veglegur hjá mér og síðan ég varð vegan. Úrvalið er orðið svo gríðarlegt og grænkerar þurfa ekki lengur að borða hnetusteik í öll mál yfir hátíðirnar eins og fyrir sjö árum þegar ég hélt mín fyrstu vegan jól.

IMG_2104-2.jpg

Reykta og saltaða Oumphið er virkilega gott og mjög jólalegt. Þegar ég gerði tartaletturnar í gær gerði ég bara hálfa uppskrift af hvorri tegund, svo ég ákvað að prufa að gera vegan útgáfu af hangikjötsalati úr afgöngunum. Það kom auðvitað sjúklega vel út, en ég steikti á pönnu afganginn af oumphinu, skar það mjög smátt niður og blandaði við afgangs mæjónes ásamt grænum baunum úr dós og örlitlu hlynsírópi. Þetta fékk svo að standa í ísskápnum í smá stund og ég fékk smá sjokk yfir því hvað þetta minnti mikið á hangikjötsalat (sem mér einmitt þótti aldrei gott þegar ég borðaði kjöt, en finnst alveg geggjað svona vegan).

IMG_2105-3.jpg

Það eru örugglega margir sem hafa aldrei borðað tartalettur og finnst þetta kannski hljóma óspennandi, en ég mæli mikið með að gefa þeim séns. Sjálfar tartaletturnar minna á smjördeig og eru rosalega góðar með fyllingunni. Ég var smá viss um að mér myndi þykja aspas fyllingin miklu betri en hin, en ég get eiginlega ekki valið á milli, mér fannst þær báðar svo ótrúlega góðar.

IMG_2126-4.jpg

Ég ætla ekki að deila uppskrift af meðlætinu í þessari færslu, en uppskriftin af rauðrófusalatinu er þó væntanleg núna eftir helgi. Rósakálið gerði ég einfaldlega með því að steikja það á pönnu upp úr smá olíu og salti og svo í lokinn bætti ég örlitlu hlynsírópi á pönnuna ásamt appelsínuberki og leyfði rósakálinu að brúnast örlítið í því.

IMG_2122.jpg

Tartalettur með aspas og sveppum

  • 1 bolli vegan mæjónes - Mér finnst laaang best og einfaldast að búa til mitt eigið. Hér er uppskrift af því

  • 150 g sveppir

  • Smá olía til að steikja upp úr

  • 1 sveppateningur - Ég notaði sveppakraft frá Knorr

  • 180 g aspas úr dós plús 2 msk af safanum af aspasinum

  • Paprikuduft eftir smekk

  • Tartalettur

Aðferð:

  1. Hitið ofninn á 180°C

  2. Skerið sveppina niður og steikið á pönnu upp úr smá olíu þar til þeir eru frekar vel steiktir

  3. Bætið út á pönnuna mæjónesi, aspas, safa af aspasinum og sveppakrafti

  4. Skiptið fyllingunni í tartelettuform og toppið með smá paprikudufti

  5. Hitið í ofninum í ca 15 mínútur eða þar til þetta er farið að taka smá gylltan lit.

Tartalettur með Oumph og uppstúf:

Uppstúf:

  • 2 msk smjörlíki

  • 4 msk hveiti

  • 500 ml vegan mjólk

  • 1-2 msk sykur

  • Salt og pipar (hvítur eða svartur)

  1. Hitið smjörið og hveitið í potti og hrærið vel þannig það myndi smjörbollu

  2. Hellið mjólkinni út í hægt þar til úr verður þykk sósa. Ég skrifaði 500 ml að ofan, en það fer svolítið eftir því hvaða mjólk er notuð. Það þarf þó ekki meira en 500 ml en sumir gætu þurft aðeins minna.

  3. Bætið út í sykri, salti og pipar og smakkið til

Tartalettur með Oumphi, uppstúf, kartöflum og baunum:

  • 1 poki salty & smoky Oumph!

  • Smá olía til að steikja upp úr

  • 2-3 meðalstórar soðnar kartöflur - fer svolítið eftir smekk hversu mikið fólk vill af kartöflum, en ég notaði tvær.

  • Grænar baunir í dós eftir smekk

  • Uppstúf eftir smekk - Það mun líklega verða smá afgangur af uppstúf, en ég mæli með því að blanda smá í einu þar til fyllingin hefur þá áferð sem þið kjósið.

Aðferð:

  1. Steikið oumphið upp úr smá olíu á pönnu og skerið svo niður í smærri bita

  2. Afhýðið kartöflurnar og skerið í svipað stóra bita

  3. Blandið saman í skál ásamt grænum baunum og uppstúf. Mér finnst svolítið erfitt að segja nákvæmt magn af t.d baunum eða uppstúf því það er svo misjafn hvað fólk vill, en ég held ég hafi notað sirka 1 dl af baunum og svo hellti ég sósu saman við þar til ég fékk þá áferð sem ég vildi. Þið sjáið á einni af myndunum hérna fyrir ofan hvernig fyllingin mín leit út áður en tartaletturnar fóru í ofninn.

  4. Hitið í ofninum í 15 mínútur eða þar til tartaletturnar hafa fengið á sig gylltan lit.

Takk innilega fyrir að lesa og vona að ykkur líki vel

veganisturundirskrift.jpg

Gómsætur heitur brauðréttur

IMG_9975-2.jpg

Ein af okkar fyrstu uppskriftum hérna á blogginu er af heitu rúllubrauði með aspas og sveppum. Uppskriftin hefur verið ein af þeim vinsælustu á blogginu síðan. Við höfum fengið ótal margar skemmtilegar myndir af því þegar fólk útbýr brauðið við ýmis hátíðleg tilefni og það virðist slá í gegn í hvert skipti. Við höfum þó fengið margar spurningar um það hvernig hægt sé að breyta réttinum úr rúllubrauði yfir í hefðbundinn aspasbrauðrétt í eldföstu móti. Eftir að hafa í þónokkurn tíma svarað öllum persónulega þegar ég er spurð, ákvað ég að búa til nýja uppskrift svo fólk geti bæði notast við uppskriftina af rúllubrauðinu og uppskrift af réttinum í eldföstu móti. 

IMG_9894-2.jpg

Ég ákvað að nota reykta og saltaða Oumph!-ið, og vá! Það passaði fullkomlega í réttinn. Ef þið eruð ókunnug Oumph!-inu mæli ég með því að þið lesið þessa grein. Ég nota Oumph! mikið í allskonar rétti og þið finnið ýmsar uppskriftir hérna á blogginu þar sem það er notað, við erum miklir aðdáendur. 

Í réttinn nota ég heimagert vegan mæjónes. Það er vissulega hægt að kaupa tilbúið vegan mæjónes úti í búð en þegar maður hefur prófað að búa til sitt eigið er eiginlega ekki aftur snúið. Það tekur innan við 5 mínútur, er virkilega ódýrt og stenst algjörlega allan samanburð. Síðan ég lærði að gera mæjónes sjálf hefur það reynst mér mun auðveldara að gera allskonar sósur sem ég var vön að elska áður en ég gerðist vegan, eins og pítusósu, kokteilsósu, hamborgarasósu og sæta sinnepssósu. Í mæjóið þarf einungis 5 hráefni og er uppskriftin af því hér að neðan. 

Í réttinum er einnig heimagerð sveppasósa sem er algört lykilatriði. Þegar ég var yngri var mamma vön að gera brauðrétt þar sem hún notaði sveppasúpu í dós frá Campbell og ég vildi búa til svipaðan "fíling." Heimagerða sósan er miklu betri að mínu mati og gefur réttinum svo ótrúlega gott bragð. 

Webp.net-gifmaker (5).gif

Þó það sé bæði heimagert mæjónes og heimagerð sveppasósa í réttinum, tekur enga stund að búa hann til. Ég get líka lofað ykkur því að þetta er allt þessi virði þegar hann er tilbúinn. Mér þætti virkilega gaman að heyra hvort ykkur líkar og ég skora á ykkur til að búa hann til fyrir næstu veislu og segja engum að hann sé vegan fyrr en eftir á. Mér finnst mjög hæpið að fólki myndi detta það í hug!

IMG_9928.jpg

Vegan mæjónes:

  • 1 bolli ósæt sojamjólk (helst við stofuhita.) Ég nota þessa í rauðu fernunni frá Alpro, en svo er einnig til mjög góð frá Provamel, einnig í rauðri fernu

  • 2 tsk eplaedik

  • Bragðlaus olía eftir þörf. Ég nota sólblómaolíu eða rapsolíu

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 1/2 tsk salt

  1. Hellið sojamjólkinni í blandara eða matvinnsluvél ásamt eplaedikinu og hrærið á miklum hraða í nokkrar sekúndur

  2. Hellið mjórri bunu af olíu ofan í á meðan blandarinn vinnur. Ég hefði átt að mæla fyrir ykkur hvað ég notaði mikla olíu, en ég gleymdi því. Ég nefnilega helli henni beint úr flöskunni í mjórri bunu þar til mæjónesið er orðið eins þykkt og ég vil hafa það. Það er mikilvægt að hella henni hægt svo þetta tekur alveg mínútu.

  3. Þegar mæjóið er orðið þykkt bæti ég sinnepinu og saltinu útí og hræri í nokkrar sekúndur í viðbót.

Sveppasósa:

  • 1 askja sveppir (250g)

  • Olía til steikingar

  • 1 peli Oatly matreiðslurjómi

  • 1 sveppateningur frá Knorr

  • 1/2 tsk dökk sojasósa (Má sleppa - hún gefur sósunni mjög gott bragð en er alls ekki nauðsynleg. Ég nota hana bara þegar ég á hana til en myndi ekki kaupa hana sérstaklega fyrir sósuna)

  • Vatn og hveiti til að þykkja. (Ég mæli það aldrei neitt sérstaklega heldur hristi ég bara saman smávegis af hveiti og smá vatni, það þarf alls ekki mikið)

  1. Skerið sveppina niður eftir smekk (fyrir þennan rétt finnst mér gott að skera þá mjög smátt) og setjið í pott. Ekki láta ykkur bregða þó potturinn sé nánast fullur af sveppum, þeir rýrna mikið við eldun.

  2. Steikið þá uppúr smá olíu í pottinum. Ef mér finnst sveppirnir byrja að festast við botninn finnst mér best að bæta örlitlu vatni saman við og endurtek það ef mér finnst þurfa. Við það myndast líka smá sveppasoð sem mér finnst gefa sósunni gott bragð.

  3. Bætið sveppakraftinum út í pottinn þegar sveppirnir eru orðnir mjúkir og hafa rýrnað svolítið, og látið hann leysast upp í soðinu sem hefur myndast í pottinum.

  4. Hellið rjómanum út í og leyfið suðunni að koma upp

  5. Hristið saman svolítið af hveiti og vatni og hellið út í pottinn í mjórri bunu og meðan þið hrærið hratt í sósunni. Mér þykir best að hafa sósuna mjög þykka (mun þykkari en ef ég væri að bera hana fram með mat. Að öðru leyti væri þessi sósa fullkomin sem meðlæti með ýmsum mat)

  6. Bætið sojasósunni út í ásamt salti og pipar og smakkið. Sósan má vera svolítið bragðsterk.

Aspas brauðréttur:

  • 1/2 poki Salty & Smoky Oumph!

  • 1 dós aspas ásamt safanum (Ég var með aspas í krukku sem var 330g með vatninu og 185g þegar einungis aspasinn er veginn)

  • 2 dl vegan mæjónes + meira til að smyrja ofan á réttinn áður en hann fer í ofninn

  • Sveppasósan hér að ofan

  • Sirka 12 sneiðar af hvítu samlokubrauði. Ég fyllti svona 2/3 af eldfasta mótinu af brauði

  • Paprikuduft (eða annað krydd eftir smekk. Mamma notaði oft sítrónupipar ofan á svona brauðrétt en mér finnst paprikuduft og örlítið af grófu salti best. Ég hef líka notað Chilli explosion kryddið frá Santa Maria og það var virkilega gott)

  1. Hitið ofninn á 200°c

  2. Gerið mæjóið og sveppasósuna og leggið til hliðar

  3. Skerið Oumph!-ið niður í smáa bita og steikið í nokkrar mínútur á pönnu

  4. Bætið mæjónesinu, sósunni, aspasnum og safanum frá aspasnum á pönnuna og hrærið vel saman

  5. Skerið skorpuna af brauðinu og skerið sneiðarnar í teninga og setjið í eldfast mót. Það er alveg hægt að setja sneiðarnar heilar í formið en mér þykir betra að skera þær niður í sirka 6 teninga.

  6. Hellið fyllingunni ofan í formið og jafnið hana út svo hún nái yfir allt formið.

  7. Smyrjið mæjónesi yfir blönduna og kryddið með paprikudufti og gófu salti, eða bara því kryddi sem ykkur þykir best.

  8. Bakið réttinn þar till yfirborðið er orðið gyllt, eða í kringum 20 mínútur.

Vegan brauðterta

Brauðtertur voru virkilega vinsælar hér áður fyrr. Varla kom það fyrir að maður færi í veislu þar sem ekki voru bornar á borð fallega skreyttar brauðtertur. Svo virðist sem þær séu að detta úr tísku og persónulega datt okkur aldrei í hug að reyna að "veganæsa" slíka uppskrift. Fyrir ári fórum við svo að taka eftir ákveðnu "trendi" á sænskum facebookhóp þar sem meðlimir hópsins kepptust við að útbúa fallegustu vegan brauðtertuna, eða ,,smörgåstårta¨ eins og hún er kölluð á sænsku. Þar sem okkur þykir skemmtilegt að sýna ykkur hversu auðvelt er að útbúa vegan útgáfur af því sem manni þykir gott að borða ákváðum við að útbúa vegan brauðtertu og getum sagt ykkur að hún kom okkur virkilega mikið á óvart.

Við ákváðum að hafa tvær týpur af fyllingu. Annarsvegar tófú "eggjasalat" og hinsvegar "skinkusalat" með reyktri vegan skinku. Bæði salötin smakkast virkilega vel og skinkusalatið munum við hiklaust gera við fleiri tilefni.

Það er einfalt að gera brauðtertu og við erum hissa á því að hafa ekki dottið það í hug fyrr. Hver og einn getur að sjálfsögðu gert þá fyllingu sem hann langar en við erum mjög ánægðar með þessi salöt. Reykta vegan skinkan sem við notuðum gefur brauðtertunni skemmtilega jólalegt bragð. 

Eitt af því skemmtilegasta við að "veganæsa" klassískar uppskriftir er hvað fólk verður vanalega hissa yfir því að þetta sé vegan. Fólk á það til að halda að vegan matur smakkist ekki eins vel og sé minna spennandi. Þessvegna er svo skemmtilegt að sjá svipinn á fólki þegar það uppgvötar að því hefur svo sannarlega skjátlast. 

Það er gaman að heyra hversu margir eru farnir að gera uppskriftirnar okkar. Við höfum fengið sendar myndir þar sem fólk hefur bakað súkkulaðikökuna okkar eða gert aspasbrauðið fyrir ættingja og vini sem eru vegan. Fyrir nokkrum árum þótti fólki yfirleitt mjög stressandi að fá vegan manneskju í matarboð eða veislu því flestir vissu ekkert hvað þeir gætu boðið þeim uppá. Nú er þetta loksins að breytast og fólk farið að sjá hversu auðvelt það er að útbúa vegan rétti. Brauðtertan er einmitt tilvalinn réttur til þess að mæta með í veislu til þess að sýna öðrum að veganismi stoppar mann ekkert í því að borða góðan og fallegan mat. Við vegan fólkið getum svo sannarlega belgt okkur út um jólin á smákökum, lakkrístoppum, súkkulaðitertum og brauðréttum alveg eins og aðrir. 

Hráefni

Vegan brauðterta

  • 1 pakki af brauðtertubrauði

  • Vegan eggjasalat (uppskrift fyrir neðan)

  • Vegan skinkusalat (uppskrift fyrir neðan)

  • Auka mæjónes til að smyrja á tertuna (við gerum okkar mæjónes sjálfar, það er hægt að kaupa margar týpur af vegan mæjó til dæmis í Hagkaup og Gló fákafeni en okkur þykir alltaf miklu betra að gera okkar eigin. Það tekur innan við 5 mínútur og smakkast æðislega. Uppskriftin okkar er HÉR og tvöföld uppskrift passar fullkomlega í brauðtertuna, bæði í salötin og til að smyrja utan um tertuna)

  • Grænmeti til að skreyta. Það fer að sjálfsögðu bara eftir smekk og hugmyndaflugi hvað fólk kýs að hafa ofan á tertunni. Við notuðum graslauk, steinselju, kirsuberjatómata, gúrku og radísur. 

1. Leyfið brauðinu að þiðna og skerið skorpuna af

2. Smyrjið salötunum á hverja brauðsneið fyrir sig

3. Smyrjið vegan mæjónesi utan um brauðtertuna og skreytið með því sem ykkur dettur í hug

4. Ef þið hafið tök á er fínt að leyfa tertunni að fara í ísskáp í svolítinn tíma en þá er þægilegra að skera hana, hinsvegar er það bara aukaatriði og skiptir engu hvað bragðið varðar. 

Salat 1 - Tófú "eggjasalat"

  • 1 tófústykki (við kaupum tófúið sem fæst í Bónus)

  • Örlítil olía til steikingar

  • 1/2 tsk túrmerik

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 tsk laukduft

  • 1 msk sítrónusafi

  • 1 og 1/2 dl vegan mæjónes. 

  • 1 dl hreint sojajógúrt frá Sojade (jógúrtin fæst í Bónus og Hagkaup og ein dolla af stærri gerðinni er nóg í bæði salötin)

  • 1 tsk gróft sinnep eða dijon sinnep

  • 1 msk smátt skorinn graslaukur

  • salt og pipar eftir smekk

1. Brjótið tófúið niður á pönnu og steikið létt uppúr smá olíu, kryddum og sítrónusafa.

2. Leyfið tófúhrærunni að kólna í nokkrar mínútur, setjið hana í stóra skál og blandið mæjó, jógúrt, sinnepi og graslauk saman við. 

Salat 2 - Vegan skinkusalat

  • 1 dós blandað grænmeti frá Ora

  • 1 bréf vegan skinka (Við notuðum reyktu skinkuna frá Astrid och Aporna sem kom nýlega í Hagkaup. Auk þess fæst góð skinka frá Veggyness í Nettó)

  • 1 og 1/2 dl vegan mæjónes

  • 1 dl hreina jógúrtin frá Sojade

  • 1/2 tsk hlynsíróp

  • salt eftir smekk

1. Skerið skinkuna í bita og blandið öllu saman í skál.

 

 

Við vonum að þið njótið! 
Veganistur

 

 

Heitt rúllubrauð með aspas og sveppum

Síðastliðin ár hefur mér þótt virkilega gaman að prufa mig áfram með allskonar uppskriftir. Þegar ég tók út dýraafurðir varð það að svolitlu sporti hjá mér að veganæsa rétti sem mér þóttu góðir. Hinsvegar lagði ég einhvernveginn aldrei í að útbúa vegan heitan brauðrétt. Ég held að það hafi verið vegna þess að svona brauðréttir voru virkilega eitt það besta sem ég fékk, og ég var mögulega hrædd um að valda sjálfri mér vonbrigðum. Ég prufaði það svo í fyrsta sinn í gær og ég eiginlega trúi ekki að ég hafi verið vegan í rúm 5 ár og farið í gegnum afmælisveislur og jólaboð og svona án þess að gera svona brauðrétt. Þetta er bæði fáránlega einfalt og smakkast aaalveg eins og þessir sem ég var vön að elska sem barn. Ég bauð ömmu minni uppá réttinn, sem er langt frá því að vera vegan, og henni þótti hann gjörsamlega æðislegur. Það eitt og sér er nógu góð staðfesting á því að þetta hafi heppnast vel hjá mér!

Í brauðréttinn nota ég meðal annars heimagerða mæjónesið mitt. Uppskriftina birti ég í annarri færslu í sumar og hérna er linkur á hana. Það er að sjálfsögðu hægt að kaupa vegan mæjónes útum allt en það er mun ódýrara að gera sitt eigið og alveg jafn gott, ef ekki betra. Ég á það til að mikla fyrir mér hlutina og ég frestaði því lengi að prufa að gera mæjó, aðallega því mér fannst það hljóma eins og svaka vesen en það er einmitt hlægilega einfalt. 

Annað hráefni sem mér þykir mikivægt í uppskriftinni er sveppakrafturinn. Hann gefur réttinum æðislegt bragð sem kemur í stað sveppasúpunnar frá Campbell/sveppasmurostsins sem ég notaði alltaf í brauðrétti áður en ég varð vegan. Það fást bæði sveppateningar frá Kallo og frá Knorr hér á landi. Ef þið notið þennan frá Knorr þarf alls ekki að salta fyllinguna því krafturinn er vel saltur. Ég hef ekki prufað að nota þennan frá Kallo svo ég er ekki viss hversu mikið salt er í honum. Að sjálfsögðu smakkið þið bara og finnið hvort ykkur finnst vanta salt. 

Rúllubrauðið kaupi ég frosið og það fæst í Bónus. Ég leyfi því að þiðna áður en ég nota það og það tekur yfirleitt svona rúmlega hálftíma. Brauðið kemur rúllað upp í plasti og gott er að leggja plastið undir brauðið, smyrja fyllingunni á og nota plastörkina til að rúlla brauðinu upp. Það verður nefnilega svolítið viðkvæmt þegar fyllingin er komin inn í það. 

Í fyrstu ætlaði ég að hafa rifinn vegan ost ofan á brauðinu en átti hann ekki til. Ég smurði því vel af vegan mæjónesinu ofan á og stráði kryddi yfir. Í þetta sinn notaði ég Old bay kryddið en það er líka æðislegt að nota bara paprikuduft. Eftir að hafa prufað þetta finnst mér ostur aaalgjör óþarfi ofan á þetta því mæjóið kemur svolítið út eins og bráðinn ostur og er sjúklega gott! 

Ég er svo ánægð að hafa loksins tekið af skarið og búið til svona heitt brauð. Þessi uppskrift mun svo sannarlega vera notuð mikið í framtíðinni við allskonar tilefni. Mig langar helst að halda veislu bara til þess að geta boðið uppá svona brauðrétt og vegan marengstertuna sem Júlía birti hérna á blogginu fyrir stuttu. Ég vona að ykkur líki uppskriftin og endilega sendið okkur snap (veganistur) ef þið gerið uppskriftirnar okkar, við elskum að fá að fylgjast með ykkur! :)

Heitt rúllubrauð með aspas og sveppum

Heitt rúllubrauð með aspas og sveppum
Höfundur: Helga María
( 0 reviews )
Undirbúningstími: 20 MinEldunartími: 20 Min: 40 Min
Heitt rúllubrauð er nauðsynlegt í allar veislur og önnur boð að okkar mati. Þessi uppskrift er algjör klassík með sveppum og aspas og svíkur því engan.

Hráefni:

  • 1 Rúllubrauð.
  • 1 bolli vegan majónes (Plús tvær matskeiðar auka til að smyrja ofan á brauðið áður en það fer í ofninn)
  • 1 sveppateningur.
  • 100 g sveppir
  • Smávegis af olíu til að steikja sveppina uppúr
  • 1/2 dós aspas plús 1 msk af safanum úr dósinni
  • Old bay krydd eða paprikuduft

Aðferð:

  1. 1. Hitið ofninn í 200°c
  2. 2. Skerið sveppina smátt og steikið á pönnu í svolítilli olíu í sirka 5 mínútur, eða þar til þeir eru svolítið mjúkir
  3. 3. Bætið mæjónesinu útá pönnuna ásamt sveppakrafi, aspasinum og safanum frá aspasinum og blandið vel saman
  4. 4. Smyrjið fyllingunni í rúllubrauðið og notið plastörkina sem fylgir með til þess að rúlla brauðinu upp.
  5. 5. Smyrjið toppinn á brauðinu með mæjónesi og stráið kryddinu yfir
  6. 6. Bakið í ofninum í 15-20 mínútur. Það fer svolítið eftir því hvernig ofninn er. Endarnir á brauðinu voru orðnir svolítið gylltir þegar það var tilbúið og tók sirka 17 mínútur hjá mér.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur