Hráefni
Vegan brauðterta
1 pakki af brauðtertubrauði
Vegan eggjasalat (uppskrift fyrir neðan)
Vegan skinkusalat (uppskrift fyrir neðan)
Auka mæjónes til að smyrja á tertuna (við gerum okkar mæjónes sjálfar, það er hægt að kaupa margar týpur af vegan mæjó til dæmis í Hagkaup og Gló fákafeni en okkur þykir alltaf miklu betra að gera okkar eigin. Það tekur innan við 5 mínútur og smakkast æðislega. Uppskriftin okkar er HÉR og tvöföld uppskrift passar fullkomlega í brauðtertuna, bæði í salötin og til að smyrja utan um tertuna)
Grænmeti til að skreyta. Það fer að sjálfsögðu bara eftir smekk og hugmyndaflugi hvað fólk kýs að hafa ofan á tertunni. Við notuðum graslauk, steinselju, kirsuberjatómata, gúrku og radísur.
1. Leyfið brauðinu að þiðna og skerið skorpuna af
2. Smyrjið salötunum á hverja brauðsneið fyrir sig
3. Smyrjið vegan mæjónesi utan um brauðtertuna og skreytið með því sem ykkur dettur í hug
4. Ef þið hafið tök á er fínt að leyfa tertunni að fara í ísskáp í svolítinn tíma en þá er þægilegra að skera hana, hinsvegar er það bara aukaatriði og skiptir engu hvað bragðið varðar.
Salat 1 - Tófú "eggjasalat"
1 tófústykki (við kaupum tófúið sem fæst í Bónus)
Örlítil olía til steikingar
1/2 tsk túrmerik
1 tsk hvítlauksduft
1 tsk laukduft
1 msk sítrónusafi
1 og 1/2 dl vegan mæjónes.
1 dl hreint sojajógúrt frá Sojade (jógúrtin fæst í Bónus og Hagkaup og ein dolla af stærri gerðinni er nóg í bæði salötin)
1 tsk gróft sinnep eða dijon sinnep
1 msk smátt skorinn graslaukur
salt og pipar eftir smekk
1. Brjótið tófúið niður á pönnu og steikið létt uppúr smá olíu, kryddum og sítrónusafa.
2. Leyfið tófúhrærunni að kólna í nokkrar mínútur, setjið hana í stóra skál og blandið mæjó, jógúrt, sinnepi og graslauk saman við.
Salat 2 - Vegan skinkusalat
1 dós blandað grænmeti frá Ora
1 bréf vegan skinka (Við notuðum reyktu skinkuna frá Astrid och Aporna sem kom nýlega í Hagkaup. Auk þess fæst góð skinka frá Veggyness í Nettó)
1 og 1/2 dl vegan mæjónes
1 dl hreina jógúrtin frá Sojade
1/2 tsk hlynsíróp
salt eftir smekk
1. Skerið skinkuna í bita og blandið öllu saman í skál.
Við vonum að þið njótið!
Veganistur