Quesadilla með brúnum linsum og nýrnabaunum

IMG_9550.jpg

Í þessari viku deilum við með ykkur frábærri uppskrift af quesadilla sem tekur sirka 10 mínútur að útbúa. Við fengum í hendurnar nýlega baunir frá nýju merki sem heitir Oddpods sem ég notaði í uppskriftina en þær eru virkilega góðar. Baunirnar koma ólíkt flestum forsoðnum baunum ekki í niðursuðu krukku heldur í fallegum pokum og þær eru tilbúnar til matar beint úr pokanum. Þar af leiðandi eru þær ekki geymdar í vökva og halda því næringarefnum betur og innihalda engin aukaefni.

IMG_9553.jpg

Þessi réttur er alveg lygilega góður miðað við hvað hann er einfaldur og fljótlegur. Það tók mig um 10 mínútur frá því ég byrjaði þar til þetta var komið á borðið. Ég notaði brúnu linsurnar og nýrnabaunirnar í réttin en það má í rauninni nota hvaða baunir sem er en OddPods bíður einnig upp á kjúklingabuanir, gular linsur og “chana dal” baunir. Baunirnar frá OddPods má nálgast í Nettó.

Hráefni

  • 1 pakki brúnar linsur frá OddPods

  • 1 pakki nýrnabaunir frá OddPods

  • 1/2 rauðlaukur

  • 1/2 krukka salsasósa

  • 1/4 rauð paprika

  • mexíkósk kryddblanda eða kryddin hér að neðan

    • 1/2 tsk cumin

    • 1/2 tsk paprika

    • 1/2 tsk laukduft

    • 1 tsk blandaðar jurtir

    • salt

  • safi úr 1/2 lime

  • Vegan ostur

  • 1 pakki tortilla pönnukökur

Aðferð:

  1. Setjið baunirnar í skál og stappið þær aðeins með gaffli.

  2. Saxið grænmetið smátt niður og blandið saman við baunirnar ásamt salsasósunni og kryddunum saman við.

  3. Setjið smá ost á hverja pönnuköku of smyrjið fyllingu á helmingin. Brjótið pönnukökurnar saman og grillið í panini grillið eða steikið á hvorri hlið í nokkrar mínútur á pönnu.

Berið fram með sýrðum rjóma og avocado salati.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Oddpods á Íslandi hjá Danól heildsölu -

1592222828650.jpg

Hamborgarar með frönskum og pikkluðu chilli

IMG_2460.jpg

Í dag deili ég með ykkur uppskrift af borgurum sem eru fullkomnir fyrir helgina! Sjálfir borgararnir eru djúsí og góðir, og henta bæði til steikingar og til að grilla, en til að gera þá enn ómótstæðilegri toppaði ég þá með chilimajó, djúpsteiktum strimluðum frönskum og pikkluðu chili. Þið trúið því ekki hversu gott þetta var!

IMG_2415-2.jpg

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Anamma, en borgarana útbjó ég úr “formbar” hakkinu frá þeim. Munurinn á því sem heitir formbar og því hefðbundna er að hið fyrra hentar einstaklega vel í að búa til hamborgara, bollur og annað sem krefst þess að maður móti eitthvað úr hakkinu. Það virkar þó líka að steikja það beint úr pokanum og ég geri það sjálf oft líka. Þessvegna á ég alltaf til poka af formbar färs í frystinum.

Það hefur aldrei verið jafn auðvelt að útbúa góða vegan borgara og í dag. Þegar ég varð vegan fyrir 10 árum (já, það eru komin 10 ár síðan!!) þá var grænmetisbuff með tómatsósu og sinnepi það sem við grænkerarnir borðuðum í stað borgara. Ég vissi heldur ekki á þeim tíma hversu hlægilega auðvelt það er að gera vegan mæjónes svo allar gómsætar sósur hurfu af mínum matseðli í nokkur ár.

IMG_2438-2.jpg

Ég á ekki grill svo ég steikti borgarana á steypujárnspönnunni minni, en það er svakalega gott að skella þeim á grillið!

IMG_0002.jpg

Ég var í stuði til að prófa eitthvað nýtt og spennandi og ákvað að útbúa þunnar franskar til að hafa á borgaranum. Á ensku heita þær shoestring fries eða skóreimafranskar (hehe). Þær eru ekkert smá krispí og góðar og eru bæði geggjaðar á borgarann og til að bera fram með.

IMG_2470.jpg

Ég útbjó einnig pikklað chili. Ég hef verið með æði fyrir að pikkla allskonar og ísskápurinn fullur af pikkluðu grænmeti. Mæli virkilega með.

IMG_2465-3.jpg

Ég vona að þið prófið þessa dásamlegu borgara, þeir eru hin fullkomna grilluppskrift fyrir sumarið.

IMG_2456.jpg

Borgararnir

Hráefni:

  • 500 gr formbar hakkið frá Anamma

  • 1 msk laukduft

  • 1 msk hvítlauksduft

  • 1-2 tsk sojasósa

  • 1 tsk gróft sinnep eða dijon sinnep

  • 1 tsk paprikuduft

  • salt og pipar

  • 1 tappi liquid smoke. Það er hægt að skipta því út fyrir 1 tsk reykt paprikuduft. Ef þið gerið það er óþarfi að hafa venjulegt paprikuduft

Aðferð:

  1. Takið hakkið úr frysti um það bil klukkutíma áður en matreiða á borgarana.

  2. Setjið öll kryddin út í þegar hakkið hefur aðeins fengið að þiðna.

  3. Mótið 4-5 buff út hakkinu (fer eftir því hversu þykka þið viljið hafa þá) og steikið eða grillið í nokkrar mínútur á hvorri hlið.

Shoestring franskar

Hráefni

  • Ferskar kartöflur eftir smekk. Fer algjörlega eftir því hversu margir ætla að borða. Ég útbjó franskar úr 6 stórum kartöflum og fékk frekar mikið úr þeim.

  • 1 líter olía til að djúpsteikja með

  • salt og pipar eða frönsku krydd. Ég blanda yfirleitt saman hvítlauksdufti, laukdufti, reyktri papriku, þurrkaðri steinselju, salti og pipar og strái yfir.

Aðferð:

  • Hitið olíu í stórum potti í 180°c

  • Skrælið kartöflurnar og rífið niður gróft. Ég nota svona julienne eins og þið sjáið á myndinni. Annars myndi ég skera niður mjööög þunnt með hníf bara.

  • Djúpsteikið hluta af kartöflunum í einu í hrærið varlega til að aðskilja þær í pottinum. Djúpsteikið í sirka 2-3 mínútur eða þar til þær eru orðnar gylltar og fínar.

  • Veiðið upp með sleif með götum og leggið á disk með eldhúspappír. stráið kryddinu yfir.

Pikklað chili

  • 5-6 fersk rauð chili

  • 2 dl vatn

  • 1 dl edik

  • 1/2 dl sykur

  • örlítið salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skera niður chili. Ég hafði steinana með en takið þá úr ef þið viljið ekki hafa þetta mjög sterkt.

  2. Setjið vatn, edik og sykur í pott og leyfið því að hitna á hellu þar til sykurinn leysist upp.

  3. Setjið chili í glerkrukku og hellið blöndunni yfir og látið standa uppá borði þar til það hefur kólnað. Hægt að borða svo eftir svona klukkutíma.

  4. Geymist í ísskáp í 2 vikur.

Chilimæjó

  • Heimagert vegan mæjó eða keypt út í búð (Uppskrift af mæjóinu hér að neðan)

  • Sambal Olek

  1. Blandið saman og smakkið til. Hægt að salta smá í lokinn.

Vegan mæjónes:

  • 1 bolli ósæt sojamjólk (helst við stofuhita.) Ég nota þessa í rauðu fernunni frá Alpro, en svo er einnig til mjög góð frá Provamel, einnig í rauðri fernu

  • 2 tsk eplaedik

  • Bragðlaus olía eftir þörf. Ég nota sólblómaolíu eða rapsolíu

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 1/2 tsk salt

  1. Hellið sojamjólkinni í blandara eða matvinnsluvél ásamt eplaedikinu og hrærið á miklum hraða í nokkrar sekúndur

  2. Hellið mjórri bunu af olíu ofan í á meðan blandarinn vinnur. Ég hefði átt að mæla fyrir ykkur hvað ég notaði mikla olíu, en ég gleymdi því. Ég nefnilega helli henni beint úr flöskunni í mjórri bunu þar til mæjónesið er orðið eins þykkt og ég vil hafa það. Það er mikilvægt að hella henni hægt svo þetta tekur alveg mínútu.

  3. Þegar mæjóið er orðið þykkt bæti ég sinnepinu og saltinu útí og hræri í nokkrar sekúndur í viðbót.

Takk fyrir að lesa og vonandi smakkast vel!

-Helga María

-Þessi uppskrift er í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 
anamma.png
 


Uppáhalds grillmeðlætið okkar

Við systur höldum áfram að deila með ykkur uppáhalds grill uppskriftunum okkar en nú er komið að uppáhalds grill meðlætinu okkar. Okkur systrum finnst svo gaman að grilla og ennþá skemmtilegra að njóta matarins með góðum vinum eða fjölskyldu. Í þessari færslu deilum við með ykkur þremur réttum sem henta sem meðlæti með grillmatnum eða sem geggjaðir forréttir sem munu alltaf slá í gegn.

Við elskum að nota ferskt og gott grænmeti á grillið og er það uppistaðan í öllum smáréttunum sem koma hér á eftir. Það er ekkert smá auðvelt að gera ótrúlega ljúffenga grillrétti með einföldum hráefnum og fær grænmetið í þessum réttum að njóta sín ótrúlega vel.

IMG_9492.jpg

Grillaður chilli maís með vegan parmesan

  • 2 ferskir maísstönglar

  • Chilliolía

    • 1/2 dl góð ólífuolía

    • 1 tsk chillikrydd

    • 1/2 tsk paprikukrydd

    • 2 tsk blandaðar jurtir

    • 1/2 tsk laukduft

    • 1/2 tsk hvítlauksduft

    • 1 tsk salt

  • Heimagerður vega parmesan

    • 1 dl kasjúhnetur

    • 1 tsk laukduft

    • 1 tsk hvítlauksduft

    • 2 tsk salt

    • 2-3 msk næringarger

  • Oatly sýrður rjómi

Aðferð:

  1. Byrjið á því að taka vel utan af maísstönglunum og passið að fjarlæga alla “strengina” vel. Byrjið á því að sjóða maísstönglana í 10 mínútur í stórum potti. Gott er að salta vatnið vel.

  2. Á meðan er gott að undurbúa chilliolíuna, en einungis þarf að blanda öllum hráefnunum fyrir olíuna saman í skál og setjið til hliðar.

  3. Setjið öll hráefnin fyrir parmesan ostinn í blandara eða matvinnsluvél og blandið þar til hráefnin verða að fínu dufti. Setjið til hliðar.

  4. Grillið maísstönglana þar til þeir verða fallega gylltir eða fá smá “brennda” bletti hér og þar.

  5. Penslið olínnu á maísinn um leið og hann kemur af grillinu og veltið þeim síðan upp úr heimagerða parmesan ostinum.

  6. Berið fram með vegan sýrðum rjóma.

Grillaðar kartöflur með chilli majónesi og chorizo pylsum

  • 2 stórar grillkartöflur

  • Vegan smjör

  • Salt

  • Chilli majónes (keypt eða heimagerð)

    • 2 dl vegan majónes

    • 1-2 tsk sambal oelek (chillimauk)

  • 1 vegan Chorizo pylsa

  • Graslaukur

Aðferð:

  1. Mér finnst best að byrja á því að sjóða kartöflurnar í 20 mínútur þar sem það tekur óratíma að grilla stórar kartöflur.

  2. Vefjið hvorri kartöflu inn í álpappír ásamt klípu af vegan smjöri og salti

  3. Grillið kartöflurnar í álpappírnum í 15 mínútur, gott er að snúa þeim af og til.

  4. Hrærið saman majónesinu og chillimaukinu fyrir heimagert chillimajó

  5. Skerið chorizo pylsuna í litla bita og steikið í 2-3 mínútur upp úr olíu á vel heitri pönnu.

  6. Skerið ofan í kartöflurnar, setjið klípu af vegan smjöri og smá salt ofan í og stappið því aðeins saman við kartöfluna. Dreifið chilli majónesinu, chorizo pylsubitunum og niðurskornum graslauk yfir og berið fram.

Vatnsmelónu grillsalat

  • 1/2 stór vatnsmelóna

  • 1 gúrka

  • 1/2 rauðalukur

  • safi úr 1/2 lime

  • örítið salt

  • Niðursöxuð mynta (má sleppa)

Aðferð:

  1. Skerið vatnsmelónuna, gúrkuna og rauðlaukinn niður í þá stærð sem þið kjósið.

  2. Blandið saman í skál og hellið safanum af límónunni yfir. Setjið salt og myntu saman við og blandið vel saman.

  3. Berið fram með öllum grillmat eða sem forréttur fyrir hvaða mat sem er.

-Njótið vel

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar

 
KRONAN-merki (1).png
 


Tómatsúpa og grillaðar samlokur

IMG_2636-2.jpg

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af gómsætri tómatsúpu og grilluðum samlokum. Ég er ein af þeim sem get borðað súpu allan ársins hring. Það skiptir ekki máli hvort það er snjóstormur eða sumarblíða, súpa er alltaf uppáhalds.

IMG_2594-3.jpg

Í súpuna notaði ég meðal annars ferska tómata, tómata í dós, fullt af hvítlauk, lauk og ferskar jurtir. Það sem gerir súpuna síðan rjómakennda er vegan matreiðslurjómi og rjómaosturinn frá Violife. Uppskriftin er í samstarfi við Violife og ég notaði rjómaostinn frá þeim í bæði súpuna og samlokurnar, en í þær notaði ég svo líka hefðbundna ostinn frá þeim.

Íslendingar búa svo vel við að geta valið á milli ýmissa bragðtegunda af Violife vörunum. Þar sem ég bý erlendis hef ég ekki sama úrval og þessvegna nota ég “original” af bæði ostinum og rjómaostinum. Ég mæli þó með því fyrir ykkur að prófa eitthvað af hinum bragðtegundunum ef þið komist í þær. Í súpuna hefði jafnvel verið gott að nota hvítlauks- og jurtarjómaostinn í súpuna og kannski hot peppers í grilluðu samlokurnar. Ég elska allar vörurnar frá Violife en síðast þegar ég var á Íslandi smakkaði ég þann besta ost sem ég hef smakkað frá þeim og hann heitir Epic mature cheddar flavor. Ef þið hafið ekki smakkað hann mæli ég með því að þið gerið það strax í dag. Ég vildi óska að ég fengi hann hérna í norður Svíþjóð!

IMG_2629-3.jpg

Ég vona að þið smakkið, þó það sé sumar og sól. Gómsæt súpa er einhvernveginn alltaf jafn góð!

IMG_2637.jpg

Tómatsúpa

Hráefni:

  • 500 gr ferskir tómatar

  • 5-6 hvítlauksgeirar

  • 1 laukur

  • Ferskt timían ca 2-3 msk

  • 6 blöð fersk salvía

  • 3 msk ólífuolía

  • 2 dósir niðursoðnir tómatar

  • 1 grænmetisteningur

  • 2 dl vegan matreiðslurjómi

  • 1 pakki rjómaostur frá Violife

  • 1 msk balsamikedik

  • 1 tsk sykur (bætið við meiru ef ykkur finnst vanta. Má líka sleppa sykrinum ef ykkur finnst hann óþarfur)

  • salt og pipiar

  • chiliflögur eftir smekk

  • fersk basilika til að toppa með

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 210°c

  2. Setjið ferska tómata, hvítlauk, lauk, jurtir, ólífuolíu, salt og pipar í pott eða eldfastmót og inní ofninn og bakið í 30 mínútur. Ég á steypujárnspott svo ég gerði allt saman bara í honum.

  3. Bætið tómötum í dós samanvið og mixið aðeins með töfrasprota eða í blandara þar til þið fáið þá áferð sem þið kjósið. Ég mæli með að setja smá vatn í botninn á dósinni til að ná með restinni af tómötunum og það sakar ekki að fá smá vatn með í súpuna. Mér finnst gott að hafa smá “chunks” í súpunni minni svo ég passaði mig að blanda hana ekki of mikið.

  4. Færið pottinn á hellu og bætið saman við grænmetiskraftinum, matreiðslurjómanum, rjómaostinum, balsamikediki, sykri og kryddum. Leyfið súpunni að malla í nokkrar mínútur og smakkið til. Saltið meira ef ykkur finnst þurfa.

Grillaðar samlokur

Hráefni

  • Gott brauð

  • vegan smjör eða olía til að smyrja brauðið að utanverðu

  • Rjómaostur frá Violife, mæli með original, garlic & herbs eða Hot peppers

  • Ostur frá Violife

Aðferð:

  1. Smyrjið brauðsneiðarnar að utanverðu með smá vegan smjöri eða ólífuolíu.

  2. Smyrjið svo rjómaostinum á og bætið við eins miklum osti og ykkur lystir.

  3. Grillið í samlokugrilli eða steikið á pönnu þar til osturinn bráðnar og brauðið fær á sig gylltan lit.

  4. Berið fram með súpunni. Mér finnst geggjað að dýfa samlokunum í súpuna.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel!

-Færslan er í samstarfi við Violife á Íslandi-

 
violife-logo-1.png
 

Nektarínu grillbaka á hvolfi

IMG_9450.jpg

Grill eftirréttir finnst mér alltaf jafn skemmtilegir. Ég hugsa að ég noti aldrei jafn mikið af ákvextum í eftirrétti og þegar ég er að gera rétt á grillinu. Grillaðir ávextir eru svo ótrúlega góðir og verða eitthvað svo extra sætir og safaríkir. Ég elska að henda banönum og ananas sneiðum á grillið og borða með góðum ís og kannski súkkulaði en það er svo þægilegur og einfaldur eftirréttur.

IMG_9442.jpg

Þessi baka er ekki síður auðveld og svo er hún svo ótrúlega falleg þegar búið er að hvolfa henni. Mesta snilldin við hana er að það er hægt að nota hvaða ávexti með hugurinn girnist. Mér finnst passa fullkomlega að nota epli, perur eða góð ber en í þetta skipti deili ég með ykkur uppskrift þar sem ég nota nektarínur. Það er hægt að fá nektarínur í öllum búðum akkúrat núna og þær passa svo vel í þennan rétt. Þær verða svo safaríkar og sætar þegar þær bakast á grillinu.

IMG_9445.jpg
IMG_9447.jpg

Þessi baka er einnig svo mikil snilld þar sem notast er við keypt deig og niðurskorna ávexti svo það er auðvelt að skera ávextina niður og setja í box, kaupa deigið og taka þetta með sér hvert sem er. Bakan er bökum í álbakka en það þarf að passa vel að kaupa ekki álbakka með götum því þá mun allur safi leka niður í grillið. Ég ber kökuna fram með góðm vegan ís en akkúrat núna er ísinn frá Jude´s sem fæst í Krónunni í rosalega miklu uppáhaldi hjá mér svo ég notaðist við vanilluísinn frá þeim. Það má alveg vera með bragðmeiri ís með eða bæta jafnvel súkkulaði með í bökuna. Ef það er gert þarf að passa að setja súkkulaðið ekki neðst í bakkan því þá gæti það brunnið. Það er best að strá því yfir ávextina áður en deigið er sett yfir.

IMG_9451.jpg

Hráefni:

  • 5-6 nektarínur

  • 1 askja hindber

  • 1 askja brómber

  • 1/2 dl sykur

  • 1 pakki upprúllað smjördeig úr Krónunni.

Aðferð:

  1. Skolið og skerið niður nektarínurnar.

  2. Setjið alla ávextina í skál og stráið sykrinum yfir og blandið saman (þessu má alveg sleppa þar sem ávextirnir verða mjög sætir á grillinu. Mér finnst bakan þó verða extra gómsæt ef það er settur smá sykur).

  3. Hellið ávextunum í álbakka og dreifið vel úr.

  4. Rúllið út deiginu og stingið í það nokkur göt með gaffli. Leggið deigið yfir álbakkan og skerið meðfram bakkanum. Klemmið deigið aðeins við kanntana á bakkanum.

  5. Setjið grillið á meðallága stillingu og hafið grillið sem mest lokað á meðan bakan er á grillinu. Bakið í 15 til 20 mínútur eða þar til deigið verður fallega gyllt að ofan.

  6. Takið bökuna af grillinu og leyfið henni að standa í 5-10 mínútur áður en henni er hvolft á disk. Best er að setja bakkan á stóran disk og setja annan stóran disk yfir og hvolfa bökunni þannig.

  7. Berið fram með góðum vegan ís eða vegan þeyttum rjóma.

-Njótið vel.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna.

 
KRONAN-merki.png